Dómstólar og réttarfar.

(Mál nr. 7034/2012)

A kvartaði yfir afgreiðslu nefndar um dómarastörf á erindi vegna opinberrar birtingar siðanefndar Læknafélags Íslands á upplýsingum úr sjúkraskrá hans.

Umboðsmaður Alþingis lauk athugun sinni á málinu með bréfi 13. desember 2012.

A hafði lagt fram kvörtun hjá innanríkisráðuneytinu yfir formanni siðanefndarinnar, héraðsdómara, sem hann taldi sýnt af sér aðfinnsluvert framferði sem dómari þar sem hann kom ekki í veg fyrir birtingu upplýsinganna. Innanríkisráðuneytið framsendi nefnd um dómarastörf málið til afgreiðslu. Nefndin hafnaði því að taka kvörtunina til efnislegrar meðferðar á þeim grundvelli að kvörtunin lyti að aukastarfi dómarans. Þá taldi nefndin, eftir að hafa veitt A kost á að senda nefndinni rökstutt erindi þar að lútandi, ekki tilefni til þess að taka framferði dómarans utan starfs til athugunar að eigin frumkvæði þar sem um hefði verið að ræða mistök í einstöku tilviki og dómarinn hefði beðist afsökunar. Umboðsmaður taldi að skýra bæri dómstólalög með þeim hætti að ekki væri unnt að kvarta til nefndarinnar vegna annarra starfa dómara en þeirra sem tengjast meðferð dómstóla. Þar sem ljóst var að kvörtun A laut ekki að störfum dómarans við meðferð dómsmáls taldi umboðsmaður ekki tilefni til að gera athugasemdir við þá afstöðu nefndar um dómarastörf að kvörtunin félli ekki undir valdsvið nefndarinnar. Þá taldi umboðsmaður ekki forsendur til að gera athugasemdir við það mat nefndarinnar að ekki væri tilefni til að taka málið til athugunar að eigin frumkvæði. Umboðsmaður lauk athugun sinni á málinu.

1997, nr. 85. Lög um umboðsmann Alþingis. - 1. mgr. 10. gr.

1998, nr. 15. Lög um dómstóla. - 26. gr., 27. gr., 2. mgr. 28. gr., 3. mgr. 28. gr.