Fæðingar- og foreldraorlof. Orlofsréttur.

(Mál nr. 7316/2012)

A leitaði með kvörtun sem beindist að Alþingi yfir því að hann hefði glatað rétti sínum til fæðingarorlofs vegna þess að hann hefði ekki sótt um atvinnuleysisbætur á tímabili sem hann var ekki á. Kvörtunin beindist jafnframt að þeirri afstöðu Fæðingarorlofssjóðs að almenn læknisvottorð væru ekki tekin gild hjá sjóðnum.

Umboðsmaður lauk athugun sinni á málinu með bréfi 31. desember 2012.

Umboðsmaður tók fram að það félli utan starfssviðs hans að fjalla um störf Alþings og þar með hvernig til hefði tekist við lagasetningu. Því væru ekki lagaskilyrði til að taka kvörtunina til meðferðar að því leyti sem hún beindist að Alþingi. Að því leyti sem kvörtunin beindist að Fæðingarorlofssjóði varð ekki ráðið að A hefði skotið máli sínu til úrskurðarnefndar fæðingar- og foreldraorlofsmála. Umboðsmaður taldi því ekki heldur fullnægt lagaskilyrðum til að taka þann þátt málsins til meðferðar. Hann lauk því athugun sinni en tók fram að ef A kysi að leita til úrskurðarnefndarinnar ætti hann þess að sjálfsögðu kost, að fenginni niðurstöðu nefndarinnar, að leita til sín á nýjan leik með sérstaka kvörtun þar að lútandi. Þá vakti umboðsmaður athygli A á þriggja mánaða kærufresti til nefndarinnar.

1997, nr. 85. Lög um umboðsmann Alþingis. – a-liður 3. mgr. 3. gr.. 3. mgr. 6. gr.

2000, nr. 95. Lög um fæðingar- og foreldraorlof. – 5. gr., 6. gr.