Gjafsókn.

(Mál nr. 6956/2012)

A kvartaði yfir synjun innanríkisráðuneytisins á beiðni um gjafsókn vegna máls sem hann hugðist höfða vegna tjóns sem hann taldi sig hafa orðið fyrir í umferðarslysi. Hann hafði áður óskað eftir gjafsókn vegna sömu málshöfðunar en fengið synjun á þeim grundvelli að ekki væri nægilegt tilefni væri til málshöfðunarinnar. A fór fram á endurskoðun þessarar ákvörðunar og gerði athugasemdir við hæfi þeirra nefndarmanna sem höfðu fjallað um málið. Ráðuneytið setti því nefnd til að fjalla um erindi A. Synjun innanríkisráðuneytisins var byggð á þeirri afstöðu settrar gjafsóknarnefndar að ekki væru fyrir hendi skilyrði til endurupptöku eldra málsins. Fyrir því voru færðar tvenns konar röksemdir. Annars vegar hefðu nefndarmenn í fyrri gjafsóknarnefnd ekki verið vanhæfir til meðferðar málsins. Hins vegar yrði ekki betur séð en að umsögn þeirra hefði verið í samræmi við lög. A taldi hins vegar að innanríkisráðuneytið hefði átt að fjalla efnislega um umsóknina og hélt því jafnframt fram að með synjun á beiðninni hefði verið brotið gegn jafnræðisreglu.

Settur umboðsmaður Alþingis lauk athugun sinni á málinu með bréfi 28. desember 2012.

Eftir að hafa kynnt sér gögn málsins og þær athugasemdir sem A gerði við hæfi nefndarmanna í fyrri gjafsóknarnefnd taldi settur umboðsmaður sig ekki hafa forsendur til að gera athugasemdir við þá afstöðu innanríkisráðuneytisins og gjafsóknarnefndar að nefndarmennirnir hefðu ekki verið vanhæfir. Í ljósi gildandi laga- og reglugerðarákvæða taldi settur umboðsmaður jafnframt ekki forsendur athugasemda við það að gjafsóknarnefnd gerði kröfur til þess að sýnt væri fram á að fyrirhugaður málarekstur gjafsóknarbeiðanda væri í þeim búningi að nokkrar líkur væru á að kröfur umsækjanda yrðu dæmdar honum í hag. Af umsögn fyrri gjafsóknarnefndar varð ekki annað ráðið en að lagt hefði verið mat á hvort nokkrar líkur væru á að kröfur A yrðu dæmdar honum í hag í dómsmáli og þá miðað við fyrirliggjandi sönnunargögn í málinu. Í ljósi þess taldi settur umboðsmaður sig ekki hafa forsendur til að gera athugsemdir við niðurstöðu settrar gjafsóknarnefndar og innanríkisráðuneytisins. Þá tók settur umboðsmaður fram að umsögn settrar gjafsóknarnefndar, og þar með ákvörðun innanríkisráðuneytisins um að synja beiðni A, hefði meðal annars verið byggð á því að ekki hefðu verið lögð fram ný gögn sem bæru með sér að fyrri ákvörðun um að synja beiðni hans hefði byggst á ófullnægjandi eða röngum upplýsingum um málsatvik. Í ljósi fyrirliggjandi gagna málsins taldi settur umboðsmaður sig ekki hafa forsendur til að gera athugasemd við þessa afstöðu nefndarinnar.

Vegna þeirrar staðhæfingar A að synjun á beiðni hans fæli í sér brot á jafnræðisreglu tók settur umboðsmaður fram, í tengslum við tilvísun A til málshöfðunar þar sem málsaðili fékk gjafsókn þrátt fyrir að hafa áður lent í slysum sem leiddu til örorku, að atvik í skaðabótamálum væru iðulega mjög ólík frá einu máli til annars og sönnunarstaðan tæki mið af þeim gögnum sem fyrir lægju í hverju máli fyrir sig. Vegna tilvísunar A til þess að nafngreindur maður hefði fengið gjafsókn til höfðunar ærumeiðingarmáls tók settur umboðsmaður fram að A hefði ekki fært fram rök fyrir því hvort og þá hvernig mál hans og mál þess manns væru sambærileg að öðru leyti en því að það hefði þýðingu að áliti A að hann hefði tapað máli sínu fyrir héraðsdómi. Það eitt og sér nægði ekki til þess að málin teldust sambærileg í lagalegu tilliti. Settur umboðsmaður taldi því ekki forsendur til frekari umfjöllunar um þetta atriði.

Settur umboðsmaður lauk athugun sinni á málinu en ákvað þó að rita innanríkisráðherra bréf þar sem hann benti á að þrátt fyrir að ekki yrðu gerðar almennar athugasemdir við að innanríkisráðuneytið endurmeti að jafnaði ekki hvort einstök skilyrði gjafsóknar séu fyrir hendi leiði það ekki af reglum um hlutverk gjafsóknarnefndar að það hafi verið nauðsynlegt að leita umsagnar settrar gjafsóknarnefndar um það hvort umsögn fyrri nefndar hefði verið haldin efnisannmörkum svo sem hvort hún hefði verið afgreidd í samræmi við jafnræðisreglu stjórnsýsluréttarins eða hvort hvort nefndarmenn í þeirri nefnd hefðu verið hæfir til afgreiðslu málsins, enda yrði ekki séð að gjafsóknarnefnd hefði betri forsendur en innanríkisráðuneytið til þess að taka afstöðu til þeirra atriða eða að umsögnin hefði verið fallin til að upplýsa málið frekar að því er varðaði staðhæfingar A um vanhæfi fyrri gjafsóknarnefndar. Settur umboðsmaður benti innanríkisráðuneytinu því á að huga framvegis betur að þessu atriði og tryggja þá jafnframt að í samskiptum ráðuneytisins og gjafsóknarnefndar lægi fyrir með skýrum hætti hvaða atriði óskað væri eftir að nefndin mæti.

Þar sem erindi A hafði verið afgreitt með þeim hætti að vitna með beinum hætti til umsagnar settrar gjafsóknarnefndar og tilkynna að ekki væri „heimilt“ að verða við beiðninni minnti settur umboðsmaður á þá meginreglu stjórnsýsluréttar að efni stjórnvaldsákvörðunar verður að vera bæði ákveðið og skýrt til þess að málsaðili geti skilið hana og metið réttarstöðu sína og kom þeirri ábendingu á framfæri við ráðuneytið að gæta framvegis að orðalagi í bréfum í sambærilegum málum.

Að lokum gerði settur umboðsmaður athugasemdir við það að í skýringum ráðuneytisins til umboðsmanns vegna málsins hefði verið gerð sérstök grein fyrir afgreiðslu gjafsóknarnefndar á beiðnum A vegna annarra mála sem ekki tengdust fyrirhugaðri málsókn hans og höfðu ekki þýðingu fyrir athugun umboðsmanns á kvörtun hans. Í skýringum ráðuneytisins var ekki útskýrt af hverju þær væru veittar og ekki varð séð að fyrirspurnarbréf umboðsmanns til innanríkisráðuneytisins hefði gefið ráðuneytinu tilefni til þess að veita þær. Settur umboðsmaður taldi þess vegna ástæðu til að benda innanríkisráðuneytinu á að hafa sjónarmið sem leiða af þagnarskyldu starfsmanna ríkisins og meðalhófsreglu persónuverndarlaga framvegis í huga.

1991, nr. 91. Lög um meðferð einkamála. - 4. mgr. 125. gr., 1. mgr. 126. gr.

1993, nr. 37. Stjórnsýslulög. – 5. tölul. 1. mgr. 3. gr., 6. tölul. 1. mgr. 3. gr., 4. gr., 11. gr., 24. gr.

1996, nr. 70. Lög um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins. – 18. gr.

1997, nr. 85. Lög um umboðsmann Alþingis. – a-liður 2. mgr. 10. gr.

2000, nr. 77. Lög um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga. – 3. tölul. 1. mgr. 7. gr.

2008, nr. 45. Reglugerð um skilyrði gjafsóknar og starfshætti gjafsóknarnefndar. – 5. gr.