Húsnæðismál. Húsaleiga.

(Mál nr. 7177/2012)

A kvartaði yfir áliti kærunefndar húsamála í máli sem varðaði m.a. ágreining hennar við leigjanda um greiðslu vegna skemmda á fasteigninni. Nefndin taldi ekki komna fram fullnægjandi sönnun fyrir því að ástand íbúðarinnar við skil hennar hefði að öllu leyti verið af völdum leigjandans og hafnaði því kröfu A um að hann greiddi henni tiltekna fjárhæð vegna skemmdanna, en benti á að hefðbundin sönnunarfærsla fyrir dómi kynni að varpa frekara ljósi á málið.

Umboðsmaður Alþingis lauk athugun sinni á málinu með bréfi 19. desember 2012.

Eftir að hafa farið yfir úrskurð nefndarinnar og kynnt sér fyrirliggjandi gögn fékk umboðsmaður ekki séð annað en að nefndin hefði farið að þeim reglum sem um störf hennar gilda við úrlausn málsins. Þá taldi umboðsmaður ekki að slíkur dráttur hefði orðið á málinu hjá kærunefndinni að tilefni væri til að koma á framfæri athugasemdum af því tilefni. Að lokum taldi umboðsmaður að athugasemdir A við sönnunarmat kærunefndarinnar á staðhæfingum aðila og framlögðum gögnum um ástand hins leigða húsnæðis vörðuðu ágreining sem heyrði undir dómstóla og eðlilegt væri að þeir leystu úr, en tók fram að hann hefði enga afstöðu tekið til þess hvort tilefni væri til að leggja málið fyrir dómstóla eða hver yrði líklega niðurstaða þeirra.

1994, nr. 36. Húsleigulög. – 4. mgr. 85. gr.

1997, nr. 85. Lög um umboðsmann Alþingis. - c-liður 3. mgr. 3. gr., 1. mgr. 10. gr., c-liður 2. mgr. 10. gr.

2001, nr. 878. Reglugerð um kærunefnd húsaleigumála.