Húsnæðismál. Íbúðalánasjóður.

(Mál nr. 6865/2012)

A kvartaði yfir úrskurði úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála. Með úrskurðinum staðfesti nefndin ákvörðun Íbúðalánasjóðs um að hafna umsókn A um niðurfærslu lána hjá sjóðinum á þeim grundvelli að áhvílandi lán rúmuðust innan opinbers skráðs verðmætis fasteignar hans. A átti 50% hlut í fasteigninni sem hann fjármagnaði með láni frá Íbúðalánasjóði. Móðir hans átti 50% hlut sem hún fjármagnaði með lífeyrissjóðsláni tryggðu með veði í annarri fasteign. A gerði athugasemdir við að úrskurðarnefndin hefði lagt verðmæti heildareignarinnar, en ekki hans eignarhluta eingöngu, til grundvallar við útreikning á veðhlutfalli og þannig komist að þeirri niðurstöðu að lán hans næðu ekki 110% veðsetningarhlutfalli.

Umboðsmaður Alþingis lauk athugun sinni á málinu með bréfi 12. desember 2012.

Af skýringum úrskurðarnefndarinnar og velferðarráðuneytisins til umboðsmanns varð ráðin sú afstaða að með lögum um niðurfærslu veðkrafna Íbúðalánasjóðs, sem mæltu fyrir um svokallaða 110% leið hjá Íbúðalánasjóði, hefði ætlunin fyrst og fremst verið að laga fasteignaveðkröfur að verðmæti þeirrar fasteignar sem stendur til tryggingar veðkröfu þannig að unnt væri að afskrifa þann hluta veðskuldar sem ekki væri raunhæft að fengist greiddur með því að ganga að veðinu eða, eftir atvikum, öðrum verðmætum. Hins vegar hefði ekki falist í lögunum eiginlegt greiðsluerfiðleikaúrræði heldur stæði þessi leið til hliðar við slík úrræði. Umboðsmaður taldi að þrátt fyrir að orðalag laganna væru ekki að öllu leyti skýrt hefði hann ekki forsendur til að gera athugasemdir við þessa túlkun stjórnvalda. Þar hafði umboðsmaður jafnframt í huga að lögin væru ekki íþyngjandi og fælu ekki í sér takmörkun á réttindum heldur mæltu fyrir um ívilnandi eftirgjöf á skuldum við opinberan lánasjóð. Þá væru sjónarmið sem úrskurðarnefnd félagsþjónustu og húsnæðismála hafði fært fram um nauðsyn þess að gæta samræmis og jafnræðis í úrlausn umsókna málefnaleg. Þá tók umboðsmaður fram að þrátt fyrir að önnur fjármálafyrirtæki hefðu útfært samkomulag lánveitenda á íbúðalánamarkaði frá 15. janúar 2011 frekar og jafnvel með ólíkum hætti sín á milli giltu nokkuð önnur sjónarmið um Íbúðalánasjóð sem væri opinber lánasjóður. Þannig fékk hann ekki séð að heimild ráðherra til að setja nánari reglur um framkvæmd 110% leiðarinnar hefðu veitt honum heimild til að skuldbinda Íbúðalánasjóð umfram það sem leiddi af lögum, þ.m.t. að mæla fyrir um að heimilt væri að líta eingöngu til eignarhluta lántaka við útreikning á niðurfærslu þegar veðandlag væri í sameign með öðrum. Að þessu virtu taldi umboðsmaður sig ekki hafa forsendur til að gera athugasemdir við það að úrskurðarnefnd félagsþjónustu og húsnæðismála hefði lagt til grundvallar niðurstöðu sinni í máli A að í lögum væri ekki að finna heimild til handa Íbúðalánasjóði um að líta eingöngu til þess hlutfalls af fasteignamati eða verðmati sem tæki til eignarhluta umsækjanda um niðurfærslu lána, ætti hann íbúð í sameign með öðrum aðila. Umboðsmaður lauk því umfjöllun sinni um kvörtunina. Þar sem nefndin hafði lýst því viðhorfi sínu að vafi léki á um hvort rétt væri að svara fyrirspurnum umboðsmanns vegna máls A og hefði því ákveðið að svara þeim með almennum hætti ritaði umboðsmaður nefndinni bréf og minnti á fyrri athugasemdir og ábendingar um viðbrögð og efnisleg svör við fyrirspurnum umboðsmanns Alþingis.

1997, nr. 85. Lög um umboðsmann Alþingis - 7. gr., 9. gr., a-liður 2. mgr. 10. gr.

2011, nr. 29. Lög um breytingu á lögum nr. 44/1998, um húsnæðismál, með síðari breytingum. - 1. mgr. 1. gr., 8. mgr. 1. gr.