Lögreglu- og sakamál.

(Mál nr. 6872/2012)

A kvartaði yfir afgreiðslu innanríkisráðuneytisins á erindi sem beindist að starfsháttum sýslumanns og frávísun ríkissaksóknara á kæru á hendur honum í tengslum við meðferð hans á ákæruvaldi.

Umboðsmaður Alþingis lauk athugun sinni á málinu með bréfi 19. desember 2012.

Frávísun ríkissaksóknara á kæru A var byggð á því að tilteknir annmarkar sem voru á málsmeðferð sýslumannsembættisins gæfu ekki tilefni til að hefja rannsókn sakamáls. Í ljósi ákvæða sakamálalaga um sjálfstæði ákæruvaldsins gerði umboðsmaður ekki athugasemdir við þá afstöðu ráðuneytisins að það hefði ekki heimildir til að endurskoða ákvarðanir ríkissaksóknara eða ákærenda í málinu. Umboðsmaður gerði ekki heldur athugasemdir við að ráðuneytið teldi sig ekki bært til að fjalla um þau atriði í erindi A sem vörðuðu þinglýsingu enda kæmi fram í þinglýsingarlögum að úrlausnir þinglýsingarstjóra skyldu bornar undir héraðsdómara. Þá fékk umboðsmaður ekki betur séð en að ítarleg greinargerð ríkissaksóknara vegna málsins hefði verið tekin til athugunar í innanríkisráðuneytinu og þar tekin afstaða til hennar. Þannig hefði ráðuneytið beint tilteknum tilmælum til sýslumanns vegna málsins og hygðist fylgja því eftir að gripið yrði til viðunandi ráðstafana og að vinnubrögð yrðu lagfærð. Umboðsmaður taldi því ekki tilefni til að gera athugasemdir við meðferð ráðuneytisins á erindi A eða taka málið til frekari athugunar og lauk athugun sinni.

1978, nr. 39. Þinglýsingarlög. – 3. gr.

1996, nr. 70. Lög um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins. - 21. gr., 26. gr.

1997, nr. 85. Lög um umboðsmann Alþingis. - a-liður 2. mgr. 10. gr.

2008, nr. 88. Lög um um meðferð sakamála. - 18. gr., 19. gr., 20. gr.

2012, nr. 100. Forsetaúrskurður um skiptingu stjórnarmálefna milli ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands. – 1. tölul. B-liðar 4. gr., 2. tölul. J-liðar 4. gr.