Opinberir starfsmenn. Ráðningar í opinber störf.

(Mál nr. 7149/2012)

A kvartaði yfir ráðningu í starf lektors við Háskóla Íslands.

Umboðsmaður Alþingis lauk athugun sinni á málinu með bréfi 7. desember 2012.

A var tilkynnt um ráðningu í starfið í desember 2010 en kvörtun hans barst umboðsmanni í september 2012. Þar sem þá var liðið meira en ár frá því að ákvörðun um ráðninguna var tekin voru ekki skilyrði til að taka hana til athugunar. Rökstuðningur barst A hins vegar ekki fyrr en í júlí 2012 og kom því til athugunar umboðsmanns. Í rökstuðningi Háskóla Íslands var vísað til þeirra sjónarmiða sem voru lögð til grundvallar við ráðninguna og í meginatriðum gerð grein fyrir því hvernig sá sem hlaut ráðninguna féll að þessum sjónarmiðum. Þá höfðu allir umsækjendur undir höndum dómnefndarálit vegna ráðningarinnar þar sem ítarlega var gerð grein fyrir menntun, þ.m.t. prófgráðum, farið yfir rannsóknir umsækjenda og gerð grein fyrir kennslureynslu þeirra. Umboðsmaður taldi sig því ekki hafa forsendur til að gera athugasemdir við rökstuðninginn. Þá fékk umboðsmaður ekki séð að tilefni væri til að gera athugasemdir við að í rökstuðningi hefði verið gerð grein fyrir færri atriðum en í niðurstöðu valnefndar enda varð ráðið af gögnum málsins að nefndin hefði þar fært rök fyrir vali á þeim tveimur einstaklingum sem nefndin taldi hæfasta úr hópi umsækjenda sem síðan þurfti að velja á milli. Þar Háskóli Íslands hafði bætt úr annmarka á málinu sem fólst í að svara ekki beiðni A um rökstuðning og beðist velvirðingar á töfum sem urðu á því taldi umboðsmaður að lokum ekki forsendur til að aðhafast frekar vegna málsins og lauk athugun sinni á því.

1993, nr. 37. Stjórnsýslulög. - 22. gr.

1997, nr. 85. Lög um umboðsmann Alþingis. - 2. mgr. 6. gr.