Sifjaréttindi.

(Mál nr. 7253/2012)

A kvartaði yfir afstöðu innanríkisráðuneytisins til þess hvort prestur sem hann og unnusta hans báðu um að gefa sig saman í sendiráði Íslands erlendis hefði til þess tilskilin réttindi. Afstaða ráðuneytisins hafði komið fram í bréfaskiptum þess við utanríkisráðuneytið.

Umboðsmaður Alþingis lauk athugun sinni á málinu með bréfi 31. desember 2012.

Af gögnum málsins var ekki ljóst hvort umrædd athöfn var hjónavígsla samkvæmt hjúskaparlögum eða hvort aðeins fór fram blessun eftir vígslu þarlendra embættismanna. Af skýringum innanríkisráðuneytisins til umboðsmanns vegna málsins varð jafnframt ráðið að ekki hefði verið tekin endanleg afstaða til gildis hjónavígslunnar, hefði hún farið fram. Umboðsmaður taldi því rétt, hefði hjónavígslan farið fram og vafi væri uppi um gildi hennar, að A leitaði með formlegum hætti til ráðuneytisins eftir sérstakri úrlausn á því álitaefni samkvæmt ákvæðum hjúskaparlaga. Yrði hann ósáttur við niðurstöðuna gæti hann leitað til sín leik og yrði þá tekin frekari afstaða til þess að hvaða leyti málið félli undir starfssvið umboðsmanns. Umboðsmaður taldi hins vegar ekki ástæðu til að aðhafast frekar vegna málsins að svo stöddu og lauk meðferð þess.

1993, nr. 31. Hjúskaparlög. - 24. gr., 25. gr.

1997, nr. 85. Lög um umboðsmann Alþingis. - 3. mgr. 6. gr.