Skattar og gjöld. Gatnagerðargjald.

(Mál nr. 7225/2012)

A ehf. kvartaði yfir viðbrögðum innanríkisráðuneytisins við erindi sem laut að svörum sveitarfélags við fyrirspurn félagsins um fjárhæð gatnagerðargjalda sem skyldu lögð á félagið vegna mannvirkja sem það hugðist reisa á lóðum í sveitarfélaginu. Í kjölfar svara sveitarfélagsins óskaði félagið eftir úrskurði ráðuneytisins um fjárhæð gjaldsins. Ráðuneytið taldi svar sveitarfélagsins til A ehf. hins vegar ekki fela í sér kæranlega ákvörðun og taldi ekki tilefni til að taka afstöðu til þess hvernig gjaldið skyldi ákvarðað samkvæmt gjaldskrá sveitarfélagsins.

Umboðsmaður Alþingis lauk athugun sinni á málinu með bréfi 31. desember 2012.

Af gögnum málsins varð ekki ráðið að fyrir lægi ákvörðun sveitarstjórnar um álagningu gatnagerðargjalds vegna þeirra fasteigna sem vísað var til í erindi A ehf. Þá fékk umboðsmaður ekki séð að svar sveitarstjórnarinnar við fyrirspurn félagsins um túlkun ákvæða í gjaldskrá sveitarfélagsins hefði falið í sér ákvörðun sem borin yrði undir ráðherra á grundvelli kæruheimildar í lögum um gatnagerðargjald. Umboðsmaður taldi því ekki tilefni til að gera athugasemdir við þá niðurstöðu ráðuneytisins í málinu að hafna því að fara með erindið sem kæru. Þá gerði umboðsmaður ekki athugasemdir við þá niðurstöðu ráðuneytisins að ekki hefði verið tilefni að svo stöddu til að taka afstöðu til þess hvernig túlka beri ákvæði í gjaldskrá sveitarfélagsins í því tilviki sem erindi A ehf. laut að. Umboðsmaður lauk því athugun sinni á málinu en tók fram að kæmi til álagningar gatnagerðargjaldsins ætti félagið þess kost, að fengnum úrskurði innanríkisráðherra í málinu, að leita til sín á nýjan leik yrði það ósátt við málalyktir.

1997, nr. 85. Lög um umboðsmann Alþingis. - 1. mgr. 10. gr.

2006, nr. 153. Lög um gatnagerðargjöld. - 11. gr., 12. gr.