Skattar og gjöld. Tekjuskattur.

(Mál nr. 7230/2012)

A kvartaði yfir því að að hátekjuskattur samskattaðist ekki milli hjóna.

Umboðsmaður Alþingis lauk athugun sinni á málinu með bréfi 14. desember 2012.

Umboðsmaður vakti athygli A á því að samkvæmt lögum um tekjuskatt væri ákveðið tillit tekið til tekna maka við ákvörðun á skatthlutfalli. Að öðru leyti benti umboðsmaður A á að kvörtun hennar lyti að fyrirkomulagi sem löggjafarvaldið hefði ákveðið að skyldi gilda á þessu sviði og að það félli utan starfssviðs umboðsmanns að fjalla um starfa Alþingis og stofnana þess. Þar með fjallaði umboðsmaður almennt ekki um hvernig til hefði tekist með löggjöf sem Alþingi hefði samþykkt. Þá taldi umboðsmaður erindi A ekki gefa sér tilefni til að taka til athugunar að eigin frumkvæði hvort meinbugir væru á lögum um tekjuskatt að þessu leyti. Hann lauk því athugun sinni á kvörtuninni.

1997, nr. 85. Lög um umboðsmann Alþingis. - a-liður 3. mgr. 3. gr., 5. gr., 11. gr.

2003, nr. 90. Lög um tekjuskatt. - 1. mgr. 66. gr.