Skattar og gjöld. Ýmsir skattar og þjónustugjöld.

(Mál nr. 7315/2012)

A ehf. kvartaði yfir fyrirhugaðri gjaldtöku vegna köfunar í Silfru í Þingvallaþjóðgarði og taldi þörf á að fram færi athugun á því hvort gjaldtakan fengi samrýmst ákvæðum um þjóðgarðinn á Þingvöllum, jafnræðisreglu stjórnarskrár og samkeppnislögum.

Umboðsmaður Alþingis lauk athugun sinni á málinu með bréfi 31. desember 2012.

Málefni Þingvallaþjóðgarðs heyra undir forsætisráðherra og hann fer með yfirstjórn mála er varða þjóðgarðinn, þ.m.t. úrskurðarvald í stjórnsýslukærum vegna ákvarðana Þingvallanefndar og vald til að staðfesta reglugerð um þjóðgarðinn, verndun hans og meðferð. Af erindi A varð ekki ráðið að A hefði freistað þess að skjóta málinu til forsætisráðherra og hann fellt úrskurð sinn í málinu. Umboðsmaður taldi því bresta lagaskilyrði til að geta tekið kvörtunina til meðferðar að svo stöddu og lauk athugun sinni á málinu. Hann tók hins vegar fram að ef félagið teldi enn á rétt sinn hallað að fenginni niðurstöðu forsætisráðherra í málinu ætti það kost á að leita til sín á nýjan leik.

1944, nr. 33. Stjórnarskrá lýðveldisins Íslands. - 65. gr.

1997, nr. 85. Lög um umboðsmann Alþingis. - 3. mgr. 6. gr., 1. mgr. 10. gr.

2004, nr. 47. Lög um þjóðgarðinn á Þingvöllum. - 3. mgr. 2. gr., 7. gr.

2005, nr. 44. Samkeppnislög.

2012, nr. 100. Forsetaúrskurðar um skiptingu stjórnarmálefna milli ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands. - 10. tölul. D-liðar 1. gr.