Skipulags- og byggingarmál. Skipulagsmál.

(Mál nr. 7292/2012)

A kvartaði yfir skilmálum í lóðarleigusamningum vegna lóða í Úlfarsárdal i Reykjavík og framkvæmd sveitarfélagsins í tengslum við þá. Hann vísaði m.a. til þess að Reykjavíkurborg hefði boðað nýtt skipulag þar sem gert væri ráð fyrir mun færri íbúðum í umræddu hverfi en þegar hann skrifaði undir lóðaleigusamning og að hann teldi sveitarfélagið því hafa vanefnt skyldur sínar samkvæmt samningnum.

Umboðsmaður Alþingis lauk athugun sinni á málinu með bréfi 21. desember 2012.

Þar sem ljóst var að undirliggjandi kvörtun A væri óánægja með boðaðar breytingar á aðalskipulag Reykjavíkur um uppbyggingu í Úlfarsárdal tók umboðsmaður fram að breytingar á skipulaginu hefðu ekki verið samþykktar heldur væri framundan málsmeðferð sem miðaði að þátttöku íbúa í mótun þess í samræmi við ákvæði skipulagslaga. A myndi því gefast tækifæri til að koma athugasemdum sínum á framfæri við sveitarfélagið. Þar sem staðfest ákvörðun um breytingar á aðalskipulaginu lá hins vegar ekki fyrir taldi umboðsmaður ekki forsendur til að taka þann þátt máls A til meðferðar.

Af kvörtun A varð ráðið að hún lyti einnig að skilyrði í lóðaleigusamningi um aukagreiðslu til sveitarfélagsins ef fasteignin væri seld innan sex ára frá undirritun samningsins. Umboðsmaður tók fram að að þessu leyti reyndi á skýringu samnings sem lyti a.m.k. að mjög verulegu leyti reglum samningaréttar og eftir atvikum öðrum reglum einkaréttar. Við úrlausn þess ágreinings gæti reynst nauðsynlegt að afla ýmissa sönnunargagna, sérstaklega framburðar vitna, sem að samningsgerð stóðu, og síðan að meta sönnunargildi slíkra gagna. Umboðsmaður taldi slíkt verða að vera hlutverk dómstóla. Hann tók þó fram að ef A teldi Reykjavíkurborg hafa gert eitthvað á hlut sinn kynni honum að vera fært að senda borginni erindi og leita eftir formlegri afstöðu hennar til þeirra atriða. Eftir að afstaða borgarinnar lægi fyrir kynni honum að vera fært að leita til innanríkisráðuneytisins sem ráðuneytis sveitarstjórnarmála. Þá tók umboðsmaður fram að ef A kysi að fara þessa leið og væri enn ósáttur að fenginni niðurstöðu innanríkisráðuneytisins væri honum heimilt að leita til sín með nýja kvörtun þar að lútandi.

1997, nr. 85. Lög um umboðsmann Alþingis. - 3. mgr. 6. gr., 1. mgr. 10. gr.

2010, nr. 123. Skipulagslög. - 4. mgr. 28. gr., 30. gr., 31. gr., 32. gr., 35. gr.

2011, nr. 138. Sveitarstjórnarlög. - 1. mgr. 109. gr.

2012, nr. 100. Forsetaúrskurður um skiptingu stjórnarmálefna milli ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands. - j-liður 4. gr.