Sveitarfélög.

(Mál nr. 7272/2012)

Hinn 21. nóvember 2012 kvartaði A yfir því að hafa ekki borist svör frá sveitarfélagi vegna greiðslu fyrir skólaakstur og snjómokstur frá þjóðvegi að tilteknum bæ í sveitarfélaginu.

Umboðsmaður Alþingis lauk athugun sinni á málinu með bréfi 31. desember 2012.

Í skýringum sveitarfélagsins til umboðsmanns vegna málsins kom fram að fjármálastjóri sveitarfélagsins hefði svarað erindi A varðandi greiðslu fyrir skólaakstur 23. nóvember 2012. Þá kom fram að framkvæmda- og hafnanefnd hefði vísað erindi varðandi greiðslur fyrir snjómokstur til afgreiðslu bæjarstjórnar og tilkynnt A um það 14. desember 2012. Umboðsmaður taldi því ekki ástæðu til að aðhafast frekar í málinu að svo stöddu. Þar sem umboðsmanni barst afrit af beiðni A til sveitarfélagsins um endurskoðun á afstöðu þess til greiðslna fyrir skólaaksturinn taldi hann rétt að benda A á að eftirlit ríkisins með framkvæmd sveitarfélaga á málefnum grunnskóla og námi í grunnskólum væri annars vegar á hendi innanríkisráðuneytisins sem ráðuneytis sveitarstjórnarmála og hins vegar á hendi mennta- og menningarmálaráðuneytisins sem ráðuneytis menntamála. Það kynni því að rísa vafi um hvert hægt væri að leita til endurskoðunar á ákvörðunum eða athöfnum sveitarfélaga í tengslum við grunnskólana. Hann benti A því á að freista þess að bera mál sitt upp við þau ráðuneyti með hliðsjón af því hverjar endanlegar lyktir málsins yrðu og þá eftir atvikum með hliðsjón af því hvaða áhrif athafnir og ákvarðanir sveitarfélagsins hefðu á skólagöngu dóttur hans og annarra barna í nágreninu. Umboðsmaður taldi einnig rétt að benda A á málefni sveitarfélaga og rekstur og viðhald vega væru á ábyrgð innanríkisráðuneytisins. Teldi hann niðurstöðu sveitarfélagsins varðandi snjómoksturinn óviðunandi gæti hann freistað þess að leita til ráðuneytisins.

1997, nr. 85. Lög um umboðsmann Alþingis. - 3. mgr. 6. gr., a-liður 2. mgr. 10. gr.

2008, nr. 91. Lög um grunnskóla. - 1. mgr. 47. gr.

2011, nr. 138. - 109.-112. gr.

2012, nr. 100. Forsetaúrskurður um skiptingu stjórnarmálefna milli ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands. - 1. tölul. J-liðar 4. gr., 8. tölul. K-liðar 4. gr.