Svör við erindum. Kvartanir eða kærur til æðri stjórnvalda eða eftirlitsstofnana.

(Mál nr. 7156/2012)

Hinn 4. október 2012 kvörtuðu A og B annars vegar yfir því að innanríkisráðuneytið hefði ekki svarað fyrirspurnum þeirra um viðbrögð ráðuneytisins í tilefni af máli sem varðaði útboð á skólaakstri og ráðuneytið hafði fyrirhugað að taka til athugunar á grundvelli almennra eftirlitsheimilda sinna samkvæmt sveitarstjórnarlögum. Hins vegar kvörtuðu þau yfir töfum ráðuneytisins á meðferð kvörtunar sem þau sendu 17. mars 2011 varðandi afnot af félagsheimili sveitarfélags.

Umboðsmaður Alþingis lauk athugun sinni á málinu með bréfi 14. desember 2012.

Í skýringum innanríkisráðuneytisins til umboðsmanns vegna málanna tveggja kom fram að enn væri beðið eftir upplýsingum frá sveitarfélaginu vegna útboðs á skólaakstri. Það erindi hefði verið ítrekað og ráðgert væri að ljúka því fyrir lok janúar 2013. Máli vegna afnota félagsheimilisins hefði hins vegar verið lokið 9. nóvember 2012. Í ljósi þessara skýringa taldi umboðsmaður ekki ástæðu til að aðhafast frekar í málimi að svo stöddu. Hann lauk því málinu en tók fram að ef málið sem var ólokið yrði ekki afgreitt innan þess tíma sem ráðuneytið tilgreindi í skýringum sínum gætu A og B leitað til sín að nýju. Þá ritaði umboðsmaður innanríkisráðherra bréf og gerði athugasemdir við að ekki hefði verið aðhafast vegna síðara erindis A og B fyrr en rúmu ári eftir að það var sent ráðuneytinu, án þess þó að gefnar hefðu verið skýringar á því. Hann benti ráðuneytinu jafnframt á að gæta þess að afgreiðsla fyrra málsins tefðist ekki frekar en orðið hefði.

1993, 37. Stjórnsýslulög. - 9. gr.

1998, nr. 45. Sveitastjórnarlög. - 102. gr.