Svör við erindum. Umsóknir og ákvörðunartaka.

(Mál nr. 7214/2012)

Hinn 10. október 2012 kvartaði A yfir töfum á afgreiðslu bótanefndar á umsókn 1. október 2008 um greiðslu bóta vegna líkamsárásar. Samkvæmt tölvupósti frá nefndinni 2. nóvember 2011 var afgreiðsla umsóknarinnar þá á lokastigi.

Umboðsmaður Alþingis lauk athugun sinni á málinu með bréfi 21. desember 2012.

Í skýringum nefndarinnar kom fram að þegar málið kom til afgreiðslu í nóvember 2011 hefði komið í ljós að gögn skorti til þess að unnt væri að ljúka afgreiðslu þess, láðst hefði að láta aðila vita og málið hefði því verið lagt til hliðar. Stefnt væri að því að ljúka afgreiðslu málsins 29. nóvember 2012. Síðar bárust umboðsmanni þær upplýsingar frá nefndinni að afgreiðslu málsins væri lokið og A myndi berast greiðsla á næstu dögum. Umboðsmaður taldi því ekki ekki ástæðu til þess að aðhafast frekari í málinu og lauk því. Sá dráttur sem varð á afgreiðslu bótanefndar á umsókninni varð umboðsmanni hins vegar tilefni til þess að rita bótanefndinni bréf og óska almennra upplýsinga um afgreiðslu mála hjá nefndinni.

1997, nr. 85. Lög um umboðsmann Alþingis. - 5. gr., a-liður 2. mgr. 10. gr.