Námslán. Lán vegna ferðakostnaðar fjölskyldu. Jafnræðisregla. Lögmætisregla.

(Mál nr. 1241/1994)

Í tilefni af kvörtun Nordplus nemanda yfir synjun Lánasjóðs íslenskra námsmanna á láni vegna ferðakostnaðar fjölskyldu hans, tók umboðsmaður fram, að telja yrði kostnað sem leiddi af þeirri tilhögun, að nám væri tímabundið stundað í öðru landi, sem námskostnað í skilningi 3. gr. laga nr. 21/1992, um Lánasjóð íslenskra námsmanna. Umboðsmaður féllst því ekki á að A yrði synjað um lán vegna ferðakostnaðar á þeim grundvelli að hann væri skráður í Háskóla Íslands. Ekki var að finna frávik frá almennum reglum um lánshæfi vegna nemenda sem stunduðu nám erlendis samkvæmt nemendaskiptaáætlunum. Taldi umboðsmaður að ætti námsmaður á annað borð rétt til lána, sem miðaðist við nám hans erlendis, væri ekki unnt, án lagaheimildar, að skerða rétt hans til lána úr sjóðnum eins og gert var í máli þessu. Beindi umboðsmaður þeim tilmælum til lánasjóðsins að mál A yrði endurupptekið, óskaði hann þess, og úr því leyst í samræmi við framangreind sjónarmið. Umboðsmaður tók fram að ekki væri í álitinu tekin afstaða til 6. málsgr. í grein 1.1. í úthlutunarreglum sjóðsins fyrir námsárið 1995-1996, þar sem væru sérstakrar undantekningar frá reglum sem gilda fyrir námsmenn erlendis að því er varðar nám samkvæmt tilteknum skiptinemaáætlunum.

I. Hinn 12. október 1994 leitaði til mín H fyrir hönd A og kvartaði yfir synjun Lánasjóðs íslenskra námsmanna um að veita A lán vegna ferðakostnaðar fjölskyldu hans. II. Í kvörtuninni og gögnum málsins kemur fram, að A, sem skráður var í nám til meistaraprófs við Háskóla Íslands, en stundaði nám við Kaupmannahafnarháskóla veturinn 1994-95 á vegum Nordplus-nemendaskiptaáætlunarinnar, hafi sótt um lán frá Lánasjóði íslenskra námsmanna vegna ferðakostnaðar fjölskyldu sinnar eftir reglum greinar 4.12. í úthlutunarreglum lánasjóðsins 1994-95. Umsókninni hafi verið hafnað án sérstaks rökstuðnings. Með bréfi 27. september 1994 var farið fram á endurskoðun á þessari ákvörðun lánasjóðsins. Þeirri umleitan var hafnað hinn 6. október 1994 með svohljóðandi bréfi Lánasjóðs íslenskra námsmanna: "Stjórn LÍN hefur tekið fyrir erindi þitt. Þú ert innritaður sem námsmaður við Háskóla Íslands þótt þú sért í gestanámi um sinn með Nordplus styrk við Kaupmannahafnarháskóla. Sjóðurinn lítur því á þig sem námsmann á Íslandi. Um þig gilda sömu reglur og aðra námsmenn á Íslandi. Þess skal þó getið að Nordplus styrkurinn hefur ekki áhrif á útreikning láns þíns. Hann skerðir því ekki lánsrétt þinn eins og flestir aðrir styrkir. Þú átt ekki rétt á ferðaláni sbr. grein 4.12. í úthlutunarreglum sjóðsins og getur stjórnin því ekki fallist á erindi þitt." Kvörtun A er rökstudd með eftirgreindum hætti: "1. Um Lánasjóð ísl. námsmanna gilda l. 21/1992. Í 4. tl. 5. gr. laganna er kveðið á um að stjórn sjóðsins setji honum úthlutunarreglur. Með heimild í þessu ákvæði hefur stjórn sjóðsins gefið út úthlutunarreglur fyrir skólaárið 1994-95, sem liggja m.a. frammi í afgreiðslu sjóðsins. Ætla má að þetta fyrirkomulag geri ráð fyrir því, að væntanlegir lánþegar geti sjálfir gengið úr skugga um rétt sinn með því að kynna sér úthlutunarreglurnar. Því verður að telja eðlilegt, að þau atriði sem stjórn sjóðsins fer eftir við meðferð umsókna komi fram með tæmandi hætti í úthlutunarreglunum. 2. Í samræmi við 2. mgr. 1. gr. laga 21/1992, kveður grein 1.3.1. í útlutunarreglunum á um að sjóðurinn láni til framhaldsnáms við þá skóla erlendis, sem gera sambærilegar kröfur um undirbúningsnám og tíðkast hérlendis. Kaupmannahafnarháskóli telst tvímælalaust til slíkrar stofnunar, enda hefur öðru ekki verið haldið fram af stjórn sjóðsins. 3. Reglurnar gera ekki neinn fyrirvara um lánafyrirgreiðslu til skiptinema á vegum NORDPLUS og ERASMUS, enda þótt legið hafi fyrir að um slík nemendaskipti yrði að ræða á yfirstandandi skólaári. Umbjóðandi minn byggði umsókn sína um ferðalán til handa fjölskyldu sinni á kafla 4.12. í úthlutunarreglum LÍN. Hvergi kemur fram í þeim kafla, að aðrar reglur eigi að gilda um skiptinema en aðra námsmenn erlendis í þessu tilliti. 4. Lánasjóðurinn tekur tillit til þess við útreikning framfærsluláns umbjóðanda míns, að hann sé námsmaður erlendis, þ.e. framfærslukostnaður er miðaður við nám í Danmörku. Þannig er um ósamræmi að ræða í afgreiðslu sjóðsins; hann veitir aðstoð vegna framfærslu eins og um nám erlendis sé að ræða, en umsókn um lán vegna ferðakostnaðar er afgreidd eins og um nám við Háskóla Íslands væri að ræða. 5. Tilgangur laga um LÍN er að tryggja jafnrétti til náms, sbr. 1. gr. þeirra. Verður því að gera sérstaklega ríkar kröfur til stjórnar sjóðsins sem stjórnvalds, um að hún gæti jafnræðisreglu í úrlausnum sínum, sbr. 11. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Mismunun námsmanna á borð við þá sem hér um ræðir, felur í sér verulegt frávik frá nefndri jafnræðisreglu. Slíkt frávik fær ekki staðist nema það styðjist við setta lagaheimild eða mjög veigamikil rök að öðru leyti. [...] Að öllu þessu virtu, telur umbjóðandi minn, að afgreiðsla LÍN á umsókn hans hafi skort lagastoð, auk þess sem hún stangist á við meginreglur laga um Lánasjóðinn, svo og jafnræðisreglu stjórnsýsluréttarins." III. Hinn 14. október 1994 ritaði ég stjórn Lánasjóðs íslenskra námsmanna bréf og óskaði eftir því, samkvæmt 7. og 9. gr. laga nr. 13/1987, um umboðsmann Alþingis, að stjórn sjóðsins léti mér í té gögn málsins og skýrði viðhorf sitt til kvörtunarinnar. Í svarbréfi stjórnar lánasjóðsins, dags. 4. nóvember 1994, segir meðal annars: "[A] stundar mastersnám í sagnfræði við Háskóla Íslands. Hann er skráður sem fullgildur nemandi við skólann veturinn 1994-1995, og greiðir innritunargjöld til skólans eins og aðrir námsmenn, en fær að stunda nám sitt tímabundið sem gestanemi með "nordplus" styrk við Kaupmannahafnarháskóla. [...] Eins og áður sagði er [A] skráður sem fullgildur nemandi við HÍ og greiðir innritunargjöld til skólans fyrir námsárið 1994-1995. Hann greiðir hins vegar engin innritunargjöld við Kaupmannahafnarháskóla, enda ekki innritaður þar sem fullgildur nemandi. Námsmenn á Íslandi geta átt kost á ferðaláni að upphæð 12.000 krónur fyrir einstakling vegna ferða innanlands samkvæmt grein 4.12.3. í úthlutunarreglum, ef þeir eiga lögheimili a.m.k. 100 km frá námsstað. Stjórn LÍN hefur hins vegar synjað námsmönnum á Íslandi um lán vegna ferða milli landa. [A] er eins og áður sagði námsmaður við Háskóla Íslands, þó svo lögheimili hans sé tímabundið í Danmörku. Af þessum sökum á hann ekki rétt á ferðaláni vegna ferða milli Íslands og Danmerkur. Greinarmunur er ekki gerður á því skv. reglum sjóðsins hvar námsmenn eru búsettir meðan á námi þeirra stendur. Ef námsmaður við Háskóla Íslands skilar fullnægjandi árangri í námi samkvæmt prófvottorðum frá skólanum, fær hann lán, hvort sem hann dvelst í Reykjavík, Moskvu eða Kaupmannahöfn. Dvelji námsmaður á hinn bóginn annars staðar við nám en við skólann öðlast hann ekki rétt á lánum umfram það sem gildir almennt fyrir námsmenn við viðkomandi skóla. Í einstaka tilfellum hefur þó sjóðurinn reiknað mönnum framfærslu í samræmi við dvalarstað ef námsmenn dvelja fjarri skóla. Að beiðni [A] hefur þetta verið gert, þ.e. framfærslulán hans hefur verið reiknað miðað við þær framfærslutölur sem gilda fyrir Danmörku (sem þýðir ca. 5.000 íslenskum krónum hærra lán á mánuði). Þessi afgreiðsla byggir á gamalli hefð hjá sjóðnum, sem er þó umdeilanleg, sérstaklega í ljósi þess að hann nýtur umtalsverðra styrkja (16.000 danskar krónur fyrir námsárið) sem ekki hafa áhrif á lánsútreikninginn. Með þessari ívilnun er sjóðurinn ekki að fallast á að hér sé um námsmann erlendis að ræða, enda kemur það skýrt fram í útreikningi náms- og lánsfjáráætlunar [A] að miðað er við að [A] stundi nám við Háskóla Íslands. Í erindi sínu fer [A] fram á að litið verði á hann sem námsmann erlendis, og honum veitt ferðalán vegna fjölskyldu í samræmi við þær reglur sem gilda um námsmenn erlendis. Í því sambandi er á það að líta að féllist stjórnin á þessa kröfu [A], þ.e. að telja hann námsmann við Kaupmannahafnarháskóla, teldist hann í ólánshæfu námi. Í grein 1.1. í úthlutunarreglum sjóðsins fyrir skólaárið 1994-95 er kveðið svo á að gestanám sé að öllu jöfnu ekki lánshæft. Gestanám [A] við Kaupmannahafnarháskóla teldist ólánshæft samkvæmt þessari reglu. Hann ætti því, sem gestanemi við Kaupmannahafnarháskóla, hvorki rétt á framfærsluláni né láni vegna ferða fjölskyldu. Það er ótvírætt hagstæðara fyrir [A] að litið sé á hann sem námsmann við HÍ sem rétt eigi á framfærsluláni, enda var það niðurstaða stjórnar. Í stuttu máli má segja að [A] sé að fara fram á að stjórnin telji hann námsmann við Háskóla Íslands, þegar ákveðið er hvort hann eigi rétt á framfærsluláni en á hinn bóginn námsmann við Kaupmannahafnarháskóla þegar metið er hvort hann eigi rétt á ferðaláni vegna fjölskyldunnar. Á þetta getur stjórn LÍN augljóslega ekki fallist. Stjórn LÍN telur að hún hafi síður en svo brotið jafnræðisreglur við meðferð á máli [A]. Hann hefur fengið afgreiðslu á nákvæmlega sama hátt og aðrir námsmenn við Háskóla Íslands. Ef eitthvað er má gagnrýna sjóðinn fyrir að reikna gestanemum sem njóta "nordplus og erasmus" styrkja framfærslu miðað við framfærslutölur erlendis, þar sem þessir styrkir sem námsmenn njóta hafa ekki nein áhrif á veitta aðstoð frá sjóðnum." Með bréfi, dags. 10. nóvember 1994, gaf ég umboðsmanni A kost á að gera athugasemdir við framangreint bréf lánasjóðsins. Í svarbréfi hans, dags. 16. nóvember 1994, eru gerðar athugasemdir við þá þversögn, sem hann telur felast í því að sjóðurinn líti annars vegar á Nordplus styrkþega sem stúdenta við Háskóla Íslands og hins vegar sem námsmenn erlendis, þegar um útreikning framfærslukostnaðar sé að ræða. Um þau rök lánasjóðsins að um gestanám sé að ræða segir í bréfinu: "Skv. 2. mgr. 1. gr. l. 21/1992 veitir L.Í.N. námsaðstoð vegna framhaldsnáms erlendis með því skilyrði, að viðkomandi menntastofnun geri sambærilegar kröfur til undirbúningsmenntunar og tíðkast við háskóla hérlendis. Þessi regla endurspeglast í gr. 1.1. og 1.3.1. í úthlutunarreglum sjóðsins. Í 6. mgr. gr. 1.1. segir, að "gestanám" sé að öllu jöfnu ekki lánshæft. Fyrirvara þessa efnis er hvorki að finna í l. 21/1992 né rglg. nr. 210/1993 um L.Í.N. Fyrirvari þessi, eins og stjórn L.Í.N. kýs að túlka hann, felur í sér frávik frá þeirri meginreglu laganna, að nám sem fellur undir 1. gr. l. 21/1992 sé lánshæft. Því hefur ekki verið haldið fram af stjórn sjóðsins, að nám umbjóðanda míns falli ekki undir 1. gr. laganna. Fyrirvari úthlutunarreglnanna um gestanám er því ógildur að því er varðar Nordplus-styrkþega, þar sem hann gengur gegn lögum og stjórnvaldsreglum um sjóðinn, sbr. lögmætisreglu stjórnsýsluréttarins. [...] Hvergi nema í áðurnefndri gr. 1.1. er minnst á "gestanám" í úthlutunarreglunum. Það kemur heldur hvergi fram, að Nordplus-áætlunin falli undir skilgreininguna "gestanám". Þvert á móti gefa reglur um lánsrétt námsmanna erlendis ástæðu til að ætla, að Nordplus-nemar falli þar undir, enda enginn fyrirvari gerður um annað." Þá er í fyrrgreindu bréfi vitnað til tilgangs laga um Lánasjóð íslenskra námsmanna: "Tilgangur l. 21/1992 er sem áður segir sá að tryggja jafnrétti til náms án tillits til efnahags. Hlutverk LÍN er að framfylgja þessu stefnumiði löggjafans. Í því felst að túlka ber stjórnvaldsreglur um sjóðinn, svo og þær reglur sem hann kann að setja sér, í samræmi við tilgang laganna; þ.e. þannig að tilgangur þeirra náist. Ljóst má vera að markmiðið um jafnrétti til náms næst ekki, nema námsaðstoð taki mið af raunverulegum aðstæðum námsmanns. Það er því ekki á valdi stjórnar lánasjóðsins að horfa fram hjá raunverulegum aðstæðum námsmanns og skilgreina hann upp á sitt einsdæmi sem námsmann á Íslandi, þó staða hans sé að öllu verulegu sú sama og annarra íslenskra námsmanna í Danmörku." Með bréfi 8. desember 1994 bárust mér athugasemdir Lánasjóðs íslenskra námsmanna við bréf umboðsmanns A. Þar segir meðal annars svo: "Íslenskir námsmenn sem hafa hug á að stunda nám á hinum Norðurlöndunum geta valið um a.m.k. tvær leiðir. Þeir geta í fyrsta lagi sótt um og fengið inngöngu sem fullgildir nemendur við skóla erlendis. Í öðru lagi geta námsmenn sem stunda nám í skólum hérlendis sótt um NORDPLUS styrki til að dvelja tímabundið sem gestanemendur við skóla á einhverju hinna Norðurlandanna. NORDPLUS styrkir standa þeim námsmönnum sem velja fyrri leiðina ekki til boða, þar sem þeir eru einungis ætlaðir þeim námsmönnum sem stunda nám á einu Norðurlandanna, en dvelja sem gestanemendur í öðru þeirra. Sjóðurinn lítur á NORDPLUS styrkþega sem námsmenn í þeim skóla þar sem þeir eru skráðir sem fullgildir nemendur, en ekki sem námsmenn við þá skóla þar sem þeir dvelja sem gestanemendur. Breyti slíkur námsmaður stöðu sinni við skólann erlendis, þ.e. fái hann inngöngu sem reglulegur nemandi, er litið á hann sem námsmann erlendis, en það myndi jafnframt leiða til þess að hann ætti ekki lengur rétt á styrk samkvæmt NORDPLUS áætluninni. [...] Samkvæmt 1. gr. laga nr. 21/1992 lánar LÍN til framhaldsnáms við skóla sem gera sambærilegar kröfur til undirbúningsmenntunar og gerðar eru til háskólanáms hérlendis. Það skilyrði hefur verið sett fyrir lánveitingu að námsmaður sé skráður sem fullgildur nemandi á ákveðinni námsbraut við slíkan skóla. Hugtakið "gestanemi" hefur verið notað yfir nemendur sem ekki eru skráðir sem fullgildir nemendur við skóla, en fá að sitja einstaka námskeið. Þessir nemendur eiga því að öllu jöfnu ekki rétt á láni á meðan þeir eru skráðir sem slíkir. Það skal tekið fram að hugtakið er ekki fundið upp og notað einungis hjá LÍN, eins og [H] heldur fram, heldur er það m.a. notað af þeim sem veita NORDPLUS styrkina. Í bæklingi Norrænu ráðherranefndarinnar "Stundaðu nám á Norðurlöndum", sem gefinn var út 1992 segir svo orðrétt: "Það þarf hvorki að vera dýrt né erfitt að öðlast hluta af menntun sinni annars staðar á Norðurlöndum. Nemendaskipti milli landanna hafa alltaf verið til. Þess vegna er fremur auðvelt að vera gestanemandi í öðru landi. NORDPLUS-áætlunin styrkir norræna samvinnu enn meira, og gerir menntastofnunum í löndunum fimm kleift að taka við gestanemendum annars staðar að af Norðurlöndum." Í bréfi [H] til stjórnar LÍN frá 27. september sl., og í athugasemdum hans til yðar, dags 12. október sl., segir hann að [A] sé "skiptinemi" við Kaupmannahafnarháskóla, af þessu má ætla að hann geri sér grein fyrir sérstöðu [A]. Stjórn sjóðsins hefur talið sér heimilt að veita námsmönnum ívilnandi undanþágur frá ákvæðum einstakra greina úthlutunarreglna, enda sé jafnræðis gætt, þ.e. námsmenn í sömu stöðu eigi rétt á samskonar undanþágu. Að mati stjórnarinnar ber henni hins vegar ekki skilyrðislaust að veita slíkum námsmanni undanþágu frá öðrum greinum úthlutunarreglna. Óski námsmaður sem fengið hefur undanþágu frá einni grein eftir undanþágu frá öðrum greinum úthlutunarreglna, eins og [A] gerði, er fjallað um þá ósk sérstaklega hjá stjórn sjóðsins. Það er miður ef það ruglar einstaka námsmenn í ríminu að umsókn þeirra um frekari undanþágur sé synjað af stjórn LÍN, þar sem þeim finnst þetta bera vott um "óskýrleika í afstöðu sjóðsins" og "stórfelldar þversagnir". Af athugasemdum [H] má skilja að synjun sjóðsins á ferðaláni til handa [A] komi í veg fyrir að sá tilgangur laga nr. 21/1992 um Lánasjóð íslenskra námsmanna, að tryggja jafnrétti til náms án tillits til efnahags, nái fram að ganga. Í bréfi sjóðsins þann 4. nóvember sl. kom fram að [A] nýtur styrkja sem nema rúmum 170.000 íslenskum krónum á námsárinu. Þessir styrkir hafa engin áhrif á lánsupphæðina. Ef styrkirnir væru teknir inn í útreikninginn, eins og almennt gildir um alla styrki sem námsmenn njóta aðra en "NORDPLUS" og "ERASMUS" styrki, þá lækkuðu þeir lánsupphæðina um 85.000 krónur. Ferðalán fyrir fjölskyldu [A] gæti numið 58.000 íslenskum krónum. Í ljósi þessara staðreynda getur stjórn LÍN ekki fallist á að synjun á beiðni [A] sé í andstöðu við ofangreint markmið laga nr. 21/1992." Með bréfi 14. desember 1994 gaf ég umboðsmanni A kost á að gera þær athugasemdir, sem hann teldi ástæðu til að gera við framangreint bréf lánasjóðsins. Í svarbréfi hans, dags. 9. janúar 1995, segir meðal annars, að í bréfi sjóðstjórnar komi ekkert fram, er réttlætt geti misjafna meðhöndlun sjóðsins á námsmönnum erlendis, hvað varðar lán vegna ferðakostnaðar fjölskyldu námsmanna. Slík mismunun þurfi að eiga sér beina lagastoð, sbr. tilgang laga um Lánasjóð íslenskra námsmanna og jafnræðisreglu stjórnsýsluréttarins. Ég ritaði Háskóla Íslands bréf 21. desember 1995, og óskaði þess, með vísan til 7. gr. laga nr. 13/1987, um umboðsmann Alþingis, að sagnfræðiskor heimspekideildar veitti mér upplýsingar um umrædda nemendaskiptaáætlun, nám A í Kaupmannahöfn og afstöðu deildarinnar til þess, hvort tilhögun á fræðslu og eftirlit með árangri í sagnfræðideild Kaupmannahafnarháskóla væri í samræmi við þær kröfur, sem sagnfræðiskor gerði til náms til þeirrar prófgráðu, sem A stefndi að. Í svarbréfi umsjónarmanns erlendra nemendaskipta við sagnfræðiskor heimspekideildar, sem barst mér 9. janúar 1996, segir, að um námsmat A hafi farið eftir sömu reglum og almennt gildi fyrir öll NORDPLUS- samskipti. Áætlunin gangi út á að auka nemendaskipti á Norðurlöndum í því skyni að efla norræna meðvitund og styrkja háskólastarf með því að gera nemendum kleift að sækja nám þar sem sérfræðiþekking er hvað mest á því sviði, sem þeir hafa áhuga á. Þá kemur fram, að slíkt nám teljist hluti af námi heimaskólans og verði fulltrúar heimaskólans að samþykkja námsáætlanir nemenda, sem taka þátt í skiptum af þessu tagi. Þá kemur fram í bréfinu, að nám A hafi, á grundvelli vottorðs frá Kaupmannahafnarháskóla, verið metið til 30 eininga í sagnfræði til M.A.-prófs við Háskóla Íslands. Námsáætlun A, tilhögun fræðslu og eftirlit með árangri hafi því verið algerlega í samræmi við það, sem almennt gerist í þeim nemendaskiptaáætlunum, sem Háskóli Íslands taki þátt í. IV. Í áliti mínu, dags. 23. febrúar 1996, segir: "Eins og fram hefur komið, byggist höfnun Lánasjóðs íslenskra námsmanna á umsókn A um ferðalán vegna ferða fjölskyldu hans til Danmerkur á því, að A stundaði nám við Háskóla Íslands. Námsmönnum á Íslandi sé ekki veitt lán vegna ferða á milli landa. Þá styður lánasjóðurinn synjun sína ennfremur þeim rökum, að teldist A við nám við Kaupmannahafnarháskóla, væri um gestanám að ræða, sem ekki væri lánshæft samkvæmt úthlutunarreglum sjóðsins. Samkvæmt 2. mgr. 1. gr. laga nr. 21/1992, um Lánasjóð íslenskra námsmanna, veitir sjóðurinn lán til framhaldsnáms við skóla, sem gera sambærilegar kröfur til undirbúningsmenntunar og gerðar eru til háskólanáms hérlendis. Samkvæmt 3. gr. sömu laga skal miða við að námslán nægi hverjum námsmanni til að standa straum af náms- og framfærslukostnaði meðan á námi stendur, að teknu tilliti til þess, hve stór fjölskylda námsmanns er, og er stjórn sjóðsins heimilt að taka tillit til búsetu og annarra atriða, er áhrif kunna að hafa á fjárhagsstöðu hans. Samkvæmt þeim upplýsingum, sem liggja fyrir um nemendaskiptaáætlun þá, er hér um ræðir, telst nám með Nordplus-styrk nám við þann skóla, sem nemandinn er skráður í. Sá skóli þarf að samþykkja námsáætlanir og metur nám til eininga í viðkomandi deild eftir vottorðum þess skóla, sem námið fór fram í. Lánasjóðurinn bendir því réttilega á, að A var skráður nemandi í Háskóla Íslands. Hann stundaði hins vegar nám sitt umrætt námsár í Kaupmannahafnarháskóla á grundvelli nemendaskiptaáætlunar. Forsenda slíkra nemendaskipta er, að námsmaður stundi nám sitt við annan háskóla en þann, sem hann annars stundar nám sitt við. Af þeirri tilhögun verður ákveðinn kostnaður fyrir námsmanninn, sem ég tel námskostnað í skilningi fyrrnefndrar 3. gr. laga um lánasjóðinn. Er það því skoðun mín, að höfnun lánasjóðsins á umsókn A verði ekki byggð á skráningu hans í Háskóla Íslands. Samkvæmt 6. mgr. greinar 1.1. í úthlutunarreglum lánasjóðsins fyrir námsárið 1994-1995 er gestanám að öllu jöfnu ekki lánshæft. Skilgreining hugtaksins "gestanám" liggur ekki fyrir í málinu, utan þess er fram kemur í áðurgreindu bréfi lánasjóðsins frá 8. desember 1994, þar sem segir, að hugtakið "hafi verið notað yfir nemendur sem ekki eru skráðir sem fullgildir nemendur við skóla, en fá að sitja einstaka námskeið". Samkvæmt upplýsingum sagnfræðiskorar heimspekideildar Háskóla Íslands gerir Kaupmannahafnarháskóli sambærilegar kröfur um undirbúningsnám til M.A.-prófs í sagnfræði og gerðar eru hérlendis, og var nám A þar metið til eininga til slíks prófs við Háskóla Íslands. Með vísan til framangreinds tel ég, að A hafi ekki verið eiginlegur gestanemandi, er fengið hafi "að sitja einstaka námskeið" í Kaupmannahafnarháskóla. Hann hafi verið fullgildur nemandi í framhaldsnámi í skilningi 2. mgr. 1. gr. laga um Lánasjóð íslenskra námsmanna og hafi námið sannanlega farið fram erlendis, enda námsárangur metinn eftir vottorðum frá erlendum háskóla. Reglur um ferðakostnað vegna náms er að finna í grein 4.12. í fyrrgreindum úthlutunarreglum sjóðsins. Samkvæmt grein 4.12.1. er námsmanni heimilt að sækja um lán til þess að greiða hluta eigin ferðakostnaðar, maka og barna. Í grein 4.12.2. er kveðið á um, hvernig ákvarða skuli ferðalán, í tilefni af allt að tveimur ferðum skólaárið 1994-1995, sem námsmenn erlendis eiga rétt á. Í lögum um Lánasjóð íslenskra námsmanna er ekki að finna frávik frá almennum reglum um lánshæfi, hvað varðar nemendur, sem stunda nám erlendis samkvæmt nemendaskiptaáætlunum. Hinum sérstöku ferðalánum frá Lánasjóði íslenskra námsmanna er ætlað að standa straum af tilteknum aukakostnaði, sem námsmenn, er stunda nám sitt erlendis, verða fyrir vegna ferðalaga þeirra og fjölskyldna þeirra. Eigi námsmaður á annað borð rétt til lána, sem miðast við nám hans erlendis, tel ég ekki unnt, án lagaheimildar, að skerða rétt hans til lána úr sjóðnum með þeim hætti, sem gert er í máli þessu. Það eru því tilmæli mín til Lánasjóðs íslenskra námsmanna, að mál A verði endurupptekið, ef ósk kemur um það frá honum, og síðan úr því leyst í samræmi við framangreind sjónarmið. Í 6. málsgr. greinar 1.1. í úthlutunarreglum Lánasjóðs íslenskra námsmanna fyrir námsárið 1995-1996 er að finna sérstaka undantekningu frá reglum, sem gilda fyrir námsmenn erlendis, hvað varðar nám samkvæmt tilteknum skiptinemaáætlunum. Skal hér sérstaklega áréttað, að engin afstaða hefur verið tekin í áliti þessu til undantekningar þessarar." V. Sjá um afdrif málsins í kafla 14.1.