Svör við erindum. Umsóknir og ákvörðunartaka.

(Mál nr. 7314/2012)

Hinn 20. desember 2012 kvartaði A yfir því að hafa ekki fengið svar við erindi til ríkisskattstjóra frá 14. október 2012 þar sem hann gerði athugasemdir við niðurstöðu úrskurðar embættisins um skattálagningu, óskaði leiðréttingar og skýringa og tók fram að hann teldi sig að öðrum kosti ekki hafa raunhæfar forsendur til að nýta sér kæruheimild.

Umboðsmaður lauk athugun sinni á málinu með bréfi 21. desember 2012.

Umboðsmaður taldi verða að líta á erindi A til ríkisskattstjóra sem beiðni um endurupptöku málsins og að kvörtun A lyti að drætti á svörum við þeirri beiðni. Umboðsmaður tók fram að almennt væri rétt að þeir sem teldu tafir orðnar á meðferð á erindum sem þeir hefðu lagt fyrir stjórnvöld gengu í fyrsta kasti sjálfir eftir viðbrögðum stjórnvalda áður en umboðsmaður tæki mál til meðferðar á grundvelli kvörtunar, sérstaklega þegar tafir væru ekki orðnar verulegar. Umboðsmaður taldi því ekki rétt að taka mál A til frekari meðferðar að svo stöddu og lauk meðferð sinni á þeim. Hann tók þó fram að ef A færi þá leið að ítreka erindið skriflega og teldi frekari óeðlilegar tafir verða á afgreiðslu málsins gæti hann leitað til sín á nýjan leik og þá yrði tekin afstaða til málsins á ný.

1993, nr. 37. Stjórnsýslulög. - 3. mgr. 9. gr., 24. gr.

1997, nr. 85. Lög um umboðsmann Alþingis. - 3. mgr. 6. gr., 1. mgr. 10. gr.