Útlendingar. Málefni hælisleitenda.

(Mál nr. 7195/2012)

Hinn 8. október 2012 kvartaði A, hælisleitandi, yfir því að hafa ekki fengið formleg svör við umsóknum sínum um dvalar- og atvinnuleyfi og tengdum bréfaskiptum. A sótti um leyfin 2. ágúst 2012 en var upplýstur með tölvupósti 5. september 2012 að hælisleitendur í svokallaðri „Dyflinnarmeðferð“ kæmu ekki til með að fá útgefið bráðabirgðadvalarleyfi. Umboðsmaður Alþingis lauk athugun sinni á málinu með bréfi 19. desember 2012. Umboðsmaður Alþingis lauk athugun sinni á málinu með bréfi 19. desember 2012. Í skýringum innanríkisráðuneytisins til umboðsmanns vegna málsins kom fram að 9. október 2012 hefði ráðuneytinu borist kvörtun A yfir afgreiðslu Útlendingastofnunar en verið leiðbeint um að ákvarðanir um útgáfu bráðabirgðadvalarleyfa sættu ekki kæru til ráðuneytisins. Hann gæti hins vegar óskað eftir því að Útlendingastofnun endurskoðaði ákvörðun sína. Í skýringum ráðuneytisins til umboðsmanns kom jafnframt fram að um breytta stjórnsýsluframkvæmd væri að ræða sem ráðuneytið teldi þurfa að taka til sérstakrar athugunar með tilliti til yfirstjórnunar- og eftirlitsheimilda ráðherra. Umboðsmaður taldi rétt að A freistaði þess að óska eftir endurskoðun málsins hjá Útlendingastofnun áður en hann tæki málið til frekari athugunar. Hann lauk því athugun sinni á málinu en tók fram að ef tafir yrðu á afgreiðslu málsins hjá Útlendingastofnun gæti hann leitað til sín á ný. Þá gæti hann leitað sín á ný að fenginni niðurstöðu Útlendingastofnunar ef hann teldi sig beittan rangindum með henni. Umboðsmaður óskaði þess einnig að innanríkisráðuneytið upplýsti sig um framvindu athugunar ráðuneytisins á breyttri stjórnsýsluframkvæmd Útlendingastofnunar.

1997, nr. 85. Lög um umboðsmann Alþingis. - 3. mgr. 6. gr., a-liður 2. mgr. 10. gr.

2002, nr. 96. Útlendingalög.- 4. mgr. 12. gr. g.