Aðgangur að gögnum og upplýsingum.

(Mál nr. 7276/2012)

A kvartaði yfir viðbrögðum fjármála- og efnahagsráðuneytisins við beiðni hans um afhendingu upplýsinga sem tengdust sölu ríkisins á nokkrum tilgreindum ríkisfyrirtækjum. Beiðni um gögn vegna sölu þriggja fyrirtækja var framsend forsætisráðuneytinu þar sem þau voru seld af einkavæðingarnefnd. A fékk þau gögn sem ráðuneytið taldi sér unnt að afla vegna annarra fyrirtækja og félaga sem spurt var um en jafnframt var vísað til þess að mikið af gögnum um greiðslur væru komin á Þjóðskjalasafn. Honum voru því send afrit af endurskoðuðum ríkisreikningi, bréfum og öðrum gögnum sem ráðuneytið taldi eiga að sýna að greiðslur hefðu borist og eftir atvikum skýrslur Ríkisendurskoðunar um einstök mál þar sem farið var yfir sölu umræddra eigna, söluferli og greiðslur.

Umboðsmaður Alþingis lauk athugun sinni á málinu með bréfi 20. desember 2012.

Umboðsmaður benti A á að hann urði að fara þess á leit við úrskurðarnefnd um upplýsingamál að hún tæki málið til skoðunar áður en hann beindi kvörtun til sín. Þar sem af svörum fjármála- og efnahagsráðuneytisins til A varð ráðið að það teldi sig hafa látið honum í té fullnægjandi gögn í tilefni af erindinu benti umboðsmaður A jafnframt á að hann gæti afmarkað frekar hvaða gögn hann teldi sig ekki hafa fengið og óskað eftir afhendingu þeirra hjá ráðuneytinu eða Þjóðskjalasafni Íslands ef umbeðin gögn væri að finna þar. Ef ráðuneytið eða Þjóðskjalasafn yrði ekki við óskinni gæti hann skotið þeirri ákvörðun til úrskurðarnefndar um upplýsingamál áður en hann leitaði til sín að nýju.

1993, nr. 37. Stjórnsýslulög. - 28. gr.

1996, nr. 50. Upplýsingalög. - 14. gr., 16. gr.

1997, nr. 85. Lög um umboðsmann Alþingis. - 3. mgr. 6. gr.