I.
Hinn 30. desember 1994 leitaði til mín A og kvartaði yfir synjun Lánasjóðs íslenskra námsmanna um að verða við beiðni hans frá 18. júlí 1994 um viðbótarframfærslulán úr sjóðnum. Þá kvartaði hann yfir því, að starfsfólk lánasjóðsins hefði lagt til, að hann legði fram vottorð geðlæknis til stuðnings lánsumsókn sinni, auk þess sem honum hefði verið gert að útvega nýjar ábyrgðir fyrir öllum lánum sínum frá upphafi náms síns til MA- prófs í hagfræði við X.
A kvartaði ennfremur yfir því, að menntamálaráðuneytið hefði samþykkt afgreiðslu lánasjóðsins á máli hans, og yfir töf á meðferð málsins í ráðuneytinu.
II.
Í gögnum málsins kemur fram, að A hafi fengið lán frá Lánasjóði íslenskra námsmanna til ofangreinds náms frá hausti 1992, auk þess sem hann hafi fengið samþykkt framfærslulán fyrir sumarönn til 5. september 1994, til að ljúka vinnu við lokaritgerð. Hann hafi hinn 18. júlí 1994 sótt um framlengingu á framfærsluláni til 15. nóvember s.á., vegna þess að hann hafi orðið að gera hlé á námi sínu í tvo mánuði vegna andláts móður sinnar á Íslandi, en verið synjað á þeim grundvelli, að reglur sjóðsins heimiluðu ekki slíka lánveitingu. Þá kemur fram, að A hafi óskað eftir því við menntamálaráðuneytið, að ráðuneytið tæki á því misrétti, sem hann taldi sig beittan af hálfu Lánasjóðs íslenskra námsmanna. Ráðuneytið hafi síðan, eftir að hafa leitað umsagnar lánasjóðsins, talið lánasjóðinn hafa farið að lögum og reglum við afgreiðslu erindis hans.
III.
Ég ritaði stjórn Lánasjóðs íslenskra námsmanna bréf hinn 5. janúar 1995 og óskaði þess, með vísan til 7. og 9. gr. laga nr. 13/1987, um umboðsmann Alþingis, að stjórn lánasjóðsins skýrði viðhorf sitt til kvörtunar A. Sérstaklega óskaði ég þess, að gerð yrði grein fyrir því, hvort grein 4.9.1. í úthlutunarreglum lánasjóðsins fyrir námsárið 1993-94 hefði verið skýrð svo, að aldrei skyldi veitt aukalán vegna andláts foreldris. Ef slíkt lán væri í einhverjum tilvikum veitt, óskaði ég upplýst, hvenær það væri og á hvaða sjónarmiðum slík ákvörðun væri byggð.
Sama dag ritaði ég menntamálaráðherra bréf og óskaði þess, með vísan til framangreindra lagaákvæða, að ráðuneytið skýrði viðhorf sitt til kvörtunarinnar. Sérstaklega var þess óskað, að gerð yrði grein fyrir því, hvort litið hefði verið á erindi A sem stjórnsýslukæru. Ef ekki, óskaði ég upplýsinga um, á hvaða lagagrundvelli málið hefði verið afgreitt af hálfu menntamálaráðuneytisins.
Í svarbréfi Lánasjóðs íslenskra námsmanna, dags. 27. janúar 1995, er vitnað til greinar 4.9. í úthlutunarreglum sjóðsins. Síðan segir meðal annars um kvörtun A:
"Það er alveg ljóst að samkvæmt ákvæðum þessarar greinar er heimilt að taka tillit til andláts í nánustu fjölskyldu námsmanns með láni vegna aukaferðar. Það var í samræmi við ákvæði greinarinnar sem stjórn LÍN ákvað að veita [A] slíkt aukalán. Sú afgreiðsla var í fullu samræmi við fyrri afgreiðslur stjórnar LÍN þegar um andlát er að ræða í nánustu fjölskyldu námsmanns. Þess skal getið að í gegnum árin hefur stjórn LÍN einungis heimilað aukalán vegna ferða á grundvelli þessarar greinar.
Að mati stjórnar sjóðsins leikur enginn vafi á að þessi grein heimilar ekki veitingu aukaláns vegna framfærslu ef námsmaður kýs að gera hlé á námi sínu, til að ganga frá dánarbúi, eða af öðrum ástæðum. Með greininni er heimilað að veita aukalán til viðbótar venjulegu námsláni ef fjárútlát vegna ófyrirsjáanlegrar röskunar á stöðu námsmanns koma í veg fyrir að námsmaðurinn geti stundað nám sitt með eðlilegum hætti. Slíkt aukalán er veitt til að tryggja að námsmaðurinn geti stundað námið þrátt fyrir þessi fjárútlát, en ekki til að hann geti gert hlé á námi sínu til að sinna öðrum verkefnum.
Þess skal getið að hámarkslán samkvæmt þessari grein miðast við mánaðarframfærslu námsmanns, þ.e. 1.049 USD í tilfelli [A]. Aukalánið sem [A] fékk vegna ferðarinnar nam 720 USD. Hann hefði því mest getað fengið 329 USD til viðbótar ef stjórn LÍN hefði fallist á erindi hans í heild.
2) Kafli II í úthlutunarreglum LÍN fjallar um aðstoðartíma, námsframvindu og námslengd. Í kaflanum er í grein 2.3.2. að finna heimildir til að taka tillit til veikinda námsmanns við mat á námsárangri. Í þeim tilfellum er bætt við árangur námsmanns þannig að honum reiknist 75% lán fyrir tiltekna önn. Skýrt er tekið fram að námsmaður þarf að skila inn læknisvottorði til að fá slíka undanþágu. Ákveðnar upplýsingar þurfa að koma fram í læknisvottorðinu, en sjóðurinn gerir ekki kröfu til þess að sérgrein læknisins sé tilgreind, eins og ætla mætti af orðum [A]. Það er tilbúningur hjá honum að stjórn LÍN krefjist þess að námsmaður sem misst hefur nákominn ættingja þurfi að fá vottorð frá geðlækni þess efnis að viðkomandi námsmaður sé andlega vanheill til að hann fái undanþágu samkvæmt grein 2.3.2. Stjórn LÍN metur læknisvottorð ekki eftir sérgrein viðkomandi læknis, heldur eftir þeim upplýsingum sem fram koma í vottorðinu um veikindi námsmanns. Fyrir nokkru þegar slíkt mál var afgreitt lá fyrir vottorð frá heilsugæslulækni.
3) Samkvæmt 6. grein laga nr. 21/1992 skal námsmaður leggja fram yfirlýsingu a.m.k. eins manns um að hann taki að sér sjálfskuldarábyrgð á endurgreiðslu lánsins. Jafnframt er kveðið á um að stjórn sjóðsins skuli ákveða hvaða skilyrðum ábyrgðarmenn skuli fullnægja. Að höfðu samráði við lögfræðinga sjóðsins ákvað stjórn LÍN að kalla bæri eftir nýrri ábyrgð fyrir þeirri fjárhæð sem hinn látni ábyrgðarmaður hafði ábyrgst ef ábyrgðarmaður félli frá á meðan lántaki væri enn að taka lán hjá sjóðnum. Ef hins vegar ábyrgðarmaður fellur frá eftir að lántaki er hættur námi og hefur hafið endurgreiðslur lánsins, þá aðhefst sjóðurinn ekkert meðan láninu er haldið í skilum. Standi lántaki hins vegar ekki í skilum með greiðslur gerir sjóðurinn þá kröfu að hann komi með nýjar ábyrgðir um leið og hann kemur láninu í skil. Þessar reglur gilda fyrir alla lántaka hjá sjóðnum, jafnt [A] sem aðra. Stjórn LÍN sér ekki að með þessu sé verið að brjóta jafnræðisreglu stjórnsýslulaga gagnvart [A]."
Svarbréf menntamálaráðuneytisins barst mér 2. febrúar 1995. Þar kemur fram, að ráðuneytið hafi ekki litið á erindi A sem stjórnsýslukæru. Fjallað hafi verið um það í samræmi við 9. gr. laga nr. 72/1969, um Stjórnarráð Íslands, þar sem tekið sé fram, að ráðuneyti hafi eftirlit með starfrækslu stofnana, sem undir það heyri. Einnig hafi, við afgreiðslu erindis A, verið tekið mið af lögum nr. 21/1992, um Lánasjóð íslenskra námsmanna. Síðan segir í bréfinu, að mat ráðuneytisins hafi verið, að sú ákvörðun stjórnar Lánasjóðs íslenskra námsmanna, að synja A um aukalán vegna andláts móður, hafi hvorki falið í sér brot á lögum nr. 21/1992 eða reglugerð nr. 210/1993 um Lánasjóð íslenskra námsmanna né verið í bága við úthlutunarreglur sjóðsins. Ráðuneytið hafi því ekki séð tilefni til aðgerða vegna þessarar ákvörðunar stjórnar lánasjóðsins. Um kvörtun A að öðru leyti segir í bréfi ráðuneytisins:
"Varðandi kvörtun [A] vegna ábendingar framkvæmdastjóra Lánasjóðsins um að [A] aflaði sér læknisvottorðs þá telur ráðuneytið að þar hafi framkvæmdastjórinn ekki farið út fyrir verksvið sitt. Að mati ráðuneytisins var framkvæmdastjóri sjóðsins að sinna leiðbeiningaskyldu sinni er hann skýrði frá meðferð mála er svipaði til máls [A]. [...]
Hvað snertir kröfu Lánasjóðs íslenskra námsmanna um nýjar lánsábyrgðir vegna fráfalls ábyrgðarmanns þá upplýsti Lánasjóðurinn að sú regla gilti jafnt um alla lánþega. Ráðuneytið telur rétt að ofangreind regla um ábyrgðarmenn lána verði í framtíðinni gerð opinber í úthlutunarreglum sjóðsins, en taldi ekki ástæðu til sérstakra aðgerða í þessu tilviki þar sem sömu reglu hafði verið fylgt í meðferð ábyrgða [A] og annarra lánþega."
Með bréfum, dags. 30. janúar og 2. febrúar 1995, gaf ég A kost á því að gera athugasemdir við svör Lánasjóðs íslenskra námsmanna og menntamálaráðuneytisins. Athugasemdir hans koma fram í bréfi, dags. 12. febrúar 1995. Þar ítrekar hann meðal annars athugasemdir sínar við túlkun lánasjóðsins á grein 4.9.1. í úthlutunarreglum lánasjóðsins. Þá kemur fram, að hann hafi ekki kosið að gera hlé á námi sínu, heldur hafi það verið nauðsynlegt vegna aðstæðna. Ennfremur gerir hann athugasemd við það, sem fram kemur í bréfi lánasjóðsins varðandi grein 4.9.2. um hámarkslán á misseri. Kveðið sé á um "sérstakt lán vegna aukaferðar" og hvergi tekið fram, að slíkt lán sé hluti af því aukaláni, sem heimilt sé að veita. Í bréfi A koma einnig fram efasemdir hans um tilvist óskráðra reglna um að krefjast skuli nýrra afturvirkra ábyrgða vegna andláts ábyrgðarmanns.
IV.
Eins og fram hefur komið hér að framan, var af hálfu menntamálaráðuneytisins ekki litið á erindi A sem stjórnsýslukæru. Í síðari samskiptum mínum við menntamálaráðuneytið vegna annarra mála, sem varða málefni Lánasjóðs íslenskra námsmanna, hefur komið fram, að ráðuneytið telur, að það eigi að fjalla um mál, er því berast vegna afgreiðslu stjórnar lánasjóðsins, sem stjórnsýslukæru. Tel ég því ekki ástæðu til að fjalla sérstaklega um þann hluta kvörtunar A, er snýr að menntamálaráðuneytinu.
V.
Í áliti mínu tók ég eftirfarandi fram um einstaka þætti í kvörtun A:
"1.
Í 1. mgr. 12. gr. laga nr. 21/1992, um Lánasjóð íslenskra námsmanna, segir:
"Sé námsmanni vegna örorku sinnar, framfærslu barna sinna eða maka eða af öðrum ástæðum illmögulegt að dómi sjóðstjórnar að stunda nám sitt að fullnýttri lánsheimild má veita honum aukalán úr sjóðnum enda verði höfð hliðsjón af þeim bótum sem hann fær samkvæmt gildandi tryggingalöggjöf. Lán þessi eru veitt með sömu kjörum og almenn námslán."
Í grein 4.9. í úthlutunarreglum sjóðsins 1994-95 koma fram þær reglur, sem stjórnin hefur sett um úthlutun slíkra aukalána, þ.e. vegna ýmissa atvika og röskunar á stöðu og högum námsmanns. Þar segir:
"4.9.1. Röskun á stöðu og högum námsmanns.
Nú verður ófyrirsjáanleg röskun á stöðu og högum námsmanns og reglur þessar ná ekki til hennar að öðru leyti, t.d. verður námsmanni vegna örorku sinnar, framfærslu barna sinna eða maka eða af öðrum ástæðum illmögulegt að stunda nám sitt þannig að lánaheimild sé fullnýtt. Má þá veita honum aukalán úr sjóðnum enda verði höfð hliðsjón af þeim bótum sem hann fær samkvæmt gildandi tryggingalöggjöf.
Heimilt er skv. þessari grein að veita námsmanni sérstakt lán vegna aukaferðar ef hann þarf skyndilega að fara heim vegna alvarlegra veikinda eða andláts í nánustu fjölskyldu. Nauðsynlegt er að leggja fram nákvæmar upplýsingar um ástæður ferðar ásamt viðeigandi læknisvottorði eða dánarvottorði. Til nánustu fjölskyldu skv. þessari reglu skulu teljast foreldrar námsmanns og maka, afar og ömmur námsmanns og maka, systkini og börn.
4.9.2. Hámarkslán.
Hámarkslán á misseri skv. þessari grein er mánaðarframfærsla námsmanns, sem miðast við fjölskyldustærð."
Kvörtun A beinist í fyrsta lagi að túlkun stjórnar Lánasjóðs íslenskra námsmanna á þessum ákvæðum úthlutunarreglnanna. Telur hann grein 4.9.1. heimila veitingu aukaláns vegna framfærslu.
Lánasjóður íslenskra námsmanna telur hins vegar, að ákvæðið heimili ekki veitingu aukaláns vegna framfærslu, kjósi námsmaður að gera hlé á námi sínu til að ganga frá dánarbúi eða af öðrum ástæðum. Samkvæmt gögnum málsins styður stjórn lánasjóðsins þessa afstöðu sína þeim rökum, að lán vegna andláts í nánustu fjölskyldu námsmanns sé bundið við lán vegna aukaferðar, sem námsmaður tekst á hendur af þeim sökum, sbr. 2. mgr. greinar 4.9.1. Stjórn lánasjóðsins styður höfnun umsóknar A ennfremur þeim rökum, að ákvæðið heimili veitingu aukaláns til viðbótar venjulegu námsláni, ef fjárútlát vegna ófyrirsjáanlegrar röskunar á stöðu námsmanns koma í veg fyrir, að námsmaðurinn geti stundað nám sitt með eðlilegum hætti. Slíkt aukalán sé veitt til að tryggja að námsmaðurinn geti stundað námið þrátt fyrir þessi fjárútlát, en ekki til að hann geti gert hlé á námi sínu til að sinna öðrum verkefnum.
Með 12. gr. laga nr. 21/1992, um Lánasjóð íslenskra námsmanna, er stjórn sjóðsins veitt heimild til að veita námsmanni aukalán. Heimildin tekur mið af því meðal annars, að námsmanni sé, að dómi sjóðstjórnar, illmögulegt að stunda nám sitt vegna örorku sinnar, framfærslu barna sinna eða maka eða af öðrum ástæðum, að fullnýttri lánsheimild. Um nýtingu þessarar heimildar hafa verið settar reglur í grein 4.9. í úthlutunarreglum sjóðsins fyrir námsárið 1993-1994. Eins og fram hefur komið hér að framan, hefur stjórn sjóðsins skýrt og framkvæmt þessar reglur þannig, að aðeins hafi verið veitt aukalán til að standa straum af sérstökum fjárútlátum á þeim námstíma, er námsmaður nýtur námslána samkvæmt almennum reglum, og slíkum lánum til viðbótar, en ekki til framfærslukostnaðar, þegar töf eða hlé verður á námi. Í bréfi stjórnar lánasjóðsins frá 27. janúar 1995 kemur ennfremur fram, að stjórnin telur engan vafa leika á því, að grein 4.9. heimili ekki veitingu aukaláns undir þeim kringumstæðum, sem um ræðir í máli þessu.
Orðalag greinar 4.9.1. í úthlutunarreglunum er nánast samhljóða heimildarákvæði 12. gr. laganna. Samkvæmt grein 4.9.1. verður umrætt aukalán þó veitt, sé námsmanni illmögulegt að stunda nám sitt þannig að lánheimild sé fullnýtt, sbr. hins vegar orðalagið "að fullnýttri lánsheimild" í lagaákvæðinu. Ekki er ljóst af gögnum málsins, hvort afstaða stjórnarinnar til umsóknar A hefur mótast af framangreindu orðalagi greinar 4.9. Hins vegar tel ég, að þá grein verði að túlka í samræmi við 12. gr. Að mínum dómi verður að leggja þann skilning í 12. gr., að hún heimili aukalán vegna framfærslukostnaðar, sem er að rekja til tafa í námi af þeim ástæðum, sem í ákvæðinu greinir. Er sú skýring í samræmi við orðalag 12. gr. og styðst við markmið laga nr. 21/1992, sbr. einkum 1. og 3. gr. laganna. Beini ég því þeim tilmælum til stjórnar lánasjóðsins, að framangreint orðalag greinar 4.9. verði endurskoðað, þannig að það samræmist betur 12. gr. laganna.
Samkvæmt framansögðu er það ekki lögmætt sjónarmið, sem liggur til grundvallar beitingar þessarar heimildar sjóðsins í máli A, að hún takmarkist við aukalán til að standa straum af sérstökum fjárútlátum á þeim námstíma, sem lán er veitt til samkvæmt almennum reglum og þeim til viðbótar.
Heimildin til veitingar aukaláns veitir ákveðið svigrúm varðandi þær ástæður, sem námsmaður byggir umsókn sína á. Það er því skoðun mín, að stjórn lánasjóðsins hafi borið að meta sjálfstætt, hvort ástæða umsóknar A, þ.e. aðstæður hans vegna andláts móður hans, hafi gert honum illmögulegt að stunda nám sitt að fullnýttri lánsheimild, þannig að réttlætt geti umrætt aukalán honum til handa.
Í fyrrgreindu bréfi stjórnar Lánasjóðs íslenskra námsmanna, dags. 27. janúar 1994, er vikið að grein 4.9.2. í úthlutunarreglum sjóðsins. Lætur stjórnin þess getið, að hefði hún fallist á erindi A í heild, hefði viðbótarlán hans aldrei orðið hærra en sem nemi mismun hámarksláns og þess láns, sem hann hlaut vegna ferðakostnaðar. Orðalag greinar 4.9.2. bendir hins vegar til þess, að lán það, sem þar greinir, sé óháð lánveitingum samkvæmt grein 4.9.1. Þá skal, sbr. 3. gr. laga um Lánasjóð íslenskra námsmanna, miða að því að námslán samkvæmt lögunum standi straum af framfærslukostnaði meðan á námi stendur. Að framansögðu athuguðu og með hliðsjón af þeim mismun, sem túlkun stjórnar lánasjóðsins skapar milli lántakenda framfærslulána sjóðsins, er það skoðun mín, að sérstakt lán vegna aukaferðar í tilefni þeirra aðstæðna, sem 2. mgr. greinar 4.9.1. tekur til, verði ekki dregið frá framfærsluláni samkvæmt 1. mgr. sömu greinar, án sérstakrar heimildar laganna.
2.
Kvörtun A beinist ennfremur að því, að mælst hafi verið til þess af hálfu lánasjóðsins, að hann legði fram vottorð geðlæknis til stuðnings umsókn sinni. Í skýringum Lánasjóðs íslenskra námsmanna á þessum þætti kvörtunar A kemur fram, að umfjöllun um læknisvottorð í málinu hafi grundvallast á heimild greinar 2.3.2. í úthlutunarreglum sjóðsins til að taka tillit til veikinda námsmanns við mat á námsárangri, liggi fyrir vottorð læknis um veikindi námsmanns. Með vísan til skýringa lánasjóðsins, tel ég ekki ástæðu til athugasemda í tilefni að þessum þætti kvörtunar A.
3.
Í máli þessu liggur fyrir, að móðir A var sjálfskuldarábyrgðarmaður að lánum hans úr sjóðnum vegna náms þess, er hér um ræðir. Við andlát hennar gerði lánasjóðurinn það að skilyrði fyrir frekari lánveitingu, að nýr aðili ábyrgðist lán A, jafnt þau, er þegar höfðu verið afgreidd vegna yfirstandandi náms, sem og þau, er ekki höfðu verið afgreidd. Samkvæmt því, sem áður hefur verið rakið, ákvað stjórn lánasjóðsins, að þessi háttur skyldi hafður á, ef ábyrgðarmaður félli frá, áður en námi væri lokið. Í skýringum lánasjóðsins kemur fram, að þessar reglur gildi um alla lánþega hjá sjóðnum og að stjórnin telji jafnræðisreglur stjórnsýslulaga því ekki brotnar gagnvart A.
Þessi þáttur kvörtunar A varðar heimild Lánasjóðs íslenskra námsmanna til að binda lánveitingar úr sjóðnum framangreindu skilyrði. Í því sambandi verður að gera greinarmun á því, hvort skilyrðið varðar óafgreidd lán hjá sjóðnum eða lán, sem þegar hafa verið veitt.
Samkvæmt 6. gr. laga nr. 21/1992, um Lánasjóð íslenskra námsmanna, skulu námsmenn leggja fram yfirlýsingu a.m.k. eins manns um að hann taki að sér sjálfskuldarábyrgð á láni námsmanns. Slík ábyrgð er því ótvírætt skilyrði þess, að nýtt lán verði veitt úr sjóðnum, sbr. og grein 5.2.6. í úthlutunarreglum sjóðsins. Lánasjóðnum var því heimilt að krefjast nýs ábyrgðarmanns, er fullnægði skilyrðum greinar 5.3.2. sbr. grein 5.3.3 í úthlutunarreglum sjóðsins, sbr. 17. gr. reglugerðar nr. 210/1993, á þeim lánum A, sem voru óafgreidd hjá sjóðnum, þegar ábyrgðarmaður féll frá.
Þegar lán hafa verið afgreidd, liggur fyrir undirritun ábyrgðarmanna á skuldabréf eða á þar til gerðar yfirlýsingar, ábyrgð þeirra til staðfestingar, sbr. 15. gr. reglugerðarinnar. Upphæð á skuldabréfið er ekki færð fyrr en að námi loknu, en þá er ábyrgðarmönnum send tilkynning um upphæð bréfsins og þá fjárhæð, sem hver og einn telst ábyrgur fyrir, sbr. grein 7.1.4. í úthlutunarreglum lánasjóðsins. Eðli þeirrar tilkynningar er aðeins að veita upplýsingar um endanlega fjárhæð ábyrgðar. Skuldbinding ábyrgðarmannsins gildir því frá nafnritun á skuldabréfið eða á þar til gerða yfirlýsingu. Í lögum og reglum um Lánasjóð íslenskra námsmanna er hins vegar ekki kveðið á um áhrif andláts ábyrgðarmanns á skuldbindingu hans, sbr. hins vegar 9. gr. laganna um lánasjóðinn, hvað lánþega sjálfan varðar.
Samkvæmt 6. mgr. 6. gr. laga nr. 21/1992 getur skuldbinding ábyrgðarmanns fallið niður, ef námsmaður setur aðra tryggingu, sem stjórn sjóðsins metur fullnægjandi. Hér er kveðið á um heimild til aðilaskipta að ábyrgðarskuldbindingu, að ákveðnum skilyrðum uppfylltum. Er heimild þessi í samræmi við þá meginreglu kröfuréttar um aðilaskipti að skuldbindingum, að samþykki kröfuhafa þurfi til skuldskeytingar. Afstaða kröfuhafa til skuldskeytingar hefur hins vegar ekki alltaf sömu þýðingu. Við andlát þess, er hefur skuldbundið sig gagnvart kröfuhafanum, verður hann að sæta því að fá erfingja sem skuldara í stað arfleifanda. Kröfuhafi á því að jafnaði ekki rétt til að krefjast nýs skuldara eða ábyrðarmanns, þegar um einkaskipti er að ræða, eins og í máli þessu, eða lýsa má kröfu í bú, sem sætir opinberum skiptum.
Samkvæmt því, sem rakið hefur verið hér að framan, kveða lög og reglur um Lánasjóð íslenskra námsmanna ekki á um rétt sjóðsins til að krefjast nýs ábyrgðarmanns á áður afgreiddum lánum. Þá verður slíkur réttur ekki leiddur af almennum reglum kröfuréttar.
Í skuldabréfum þeim, sem gefin eru út samkvæmt ákvæðum reglugerðar nr. 210/1993, er hins vegar svohljóðandi ákvæði:
"Látist ábyrgðarmaður eða hann fullnægir ekki lengur þeim skilyrðum sem sjóðurinn setur, getur LÍN krafist þess að lántakandi fái nýjan ábyrgðarmann í hans stað. Verði lántakandi ekki við því getur LÍN stöðvað allar frekari lánveitingar til lántakanda og gjaldfellt lánið."
Hér er Lánasjóði íslenskra námsmanna meðal annars heimilað að binda afgreiðslu frekari lána ákveðnum skilyrðum, látist ábyrgðarmaður. Taka verður undir það sjónarmið, er ráðið verður af framangreindu ákvæði skuldabréfsins, að tryggja beri ábyrgð á lánum úr sjóðnum, enda ábyrgð ábyrgðarmanns ótvírætt skilyrði fyrir því að lán verði veitt úr sjóðnum, eins og áður hefur verið rakið. Hins vegar skal tekið fram, að ekki fær staðist, að með slíku ákvæði sé vikið til hliðar grundvallarreglum um nauðsyn lagaheimilda og lögbundna stjórnsýslu. Ákvæði skuldabréfa Lánasjóðs íslenskra námsmanna eru einhliða og stöðluð og lántakandi á þann kost einan að ganga að þeim óbreyttum, þarfnist hann láns úr sjóðnum. Með vísan til framangreinds og þess, að um lögbundna starfsemi Lánasjóðs íslenskra námsmanna er að ræða, sem óheimilt er að binda skilyrðum framar en lög heimila, er það skoðun mín, að þess háttar skilyrði, sem um ræðir í ákvæði skuldabréfsins, þarfnist skýrrar heimildar í lögum."
VI.
Niðurstöður álits míns, dags. 28. mars 1996, dró ég saman með svofelldum hætti:
"Samkvæmt framanrituðu er það álit mitt, að skýra verði 12. gr. laga nr. 21/1992, um Lánasjóð íslenskra námsmanna, og grein 4.9.1. í úthlutunarreglum sjóðsins á þá leið, að þar sé heimild til að veita aukalán vegna framfærslukostnaðar, sem er að rekja til tafa í námi af þeim ástæðum, er í ákvæðinu greinir. Tel ég að andlát í nánustu fjölskyldu umsækjanda sé meðal þeirra ástæðna, sem stjórn Lánasjóðs íslenskra námsmanna beri að meta samkvæmt nefndum ákvæðum, þegar ákvörðun um aukalán er tekin. Þá tel ég óheimilt að draga lán vegna aukaferðar í tilefni aðstæðna samkvæmt 2. mgr. greinarinnar frá framfærsluláni samkvæmt 1. mgr., án skýrrar lagaheimildar. Loks tel ég, að afgreiðsla lána úr sjóðnum verði ekki bundin skilyrðum um ábyrgð, sem ekki verða leidd af lögum um Lánasjóð íslenskra námsmanna, eða eins og mál þetta er vaxið, af almennum reglum um skuldskeytingu.
Það eru því tilmæli mín til Lánasjóðs íslenskra námsmanna, að mál A verði endurupptekið, ef ósk kemur um það frá honum, og síðan úr því leyst í samræmi við framangreind sjónarmið.
Þá eru það tilmæli mín, að í úthlutunarreglum verði, í samræmi við þau sjónarmið, er grein hefur verið gerð fyrir hér að framan, kveðið skýrar á um veitingu aukalána, sbr. 12. gr. laga nr. 21/1992, um Lánasjóð íslenskra námsmanna."
Sjá um afdrif málsins í VII. kafla 14.1.