Atvinnuréttindi og atvinnufrelsi. Kennsluréttindi.

(Mál nr. 7284/2012)

A kvartaði yfir ákvörðun mennta- og menningarmálaráðuneytisins um að synja honum um leyfisbréf grunnskólakennara á þeim grundvelli að hann uppfyllti ekki menntunarskilyrði til þess, þ.e. að hafa meistarapróf frá háskóla á fræðasviði viðurkenndu til kennslu á grunnskólastigi eða aðra tilgreinda menntun.

Umboðsmaður Alþingis lauk athugun sinni á málinu með bréfi 28. janúar 2013.

Af kvörtuninni og meðfylgjandi gögnum varð ekki annað ráðið en að A hefði aðeins lokið bakkalárprófi á háskólastigi. Umboðsmaður taldi sig því ekki hafa forsendur til að taka kvörtunina til frekari athugunar enda fékk hann ekki annað séð en að niðurstaða ráðuneytisins væri í samræmi við lög.

Athugasemdir A um að gerð hefði verið undanþága fyrir tiltekna aðila voru óljósar en umboðsmaður benti honum á að ef hann hefði vitneskju um að aðilar sem hófu nám eftir gildistöku gildandi laga um menntun og ráðningu kennara og skólastjórnenda við leikskóla, grunnskóla og framhaldsskóla hefðu fengið útgefið leyfi til að nota starfsheitið grunnskólakennari og hann teldi að ekki hefði verið gætt jafnræðis af hálfu ráðuneytisins við afgreiðslu þess á máli hans ætti hann þess kost að leita til sín á nýjan leik og veita sér nánari upplýsingar um þetta kvörtunaratriði, s.s. um hvaða aðila væri að ræða, og þá yrði tekin afstaða til þess hvort tilefni væri til nánari athugunar á því atriði.

1997, nr. 85. Lög um umboðsmann Alþingis. – a-liður 3. mgr. 3. gr., 1. mgr. 10. gr.

2008, nr. 87. Lög um menntun, og ráðningu kennara og skólastjórnenda við leikskóla, grunnskóla og framhaldsskóla – 2. mgr. 4. gr., 3. mgr. 23. gr.