Börn. Framfærsla.

(Mál nr. 7008/2012)

A kvartaði yfir úrskurði innanríkisráðuneytisins í kærumáli vegna ákvörðunar sýslumanns um að honum bæri að inna af hendi sérstakt fjárframlag vegna kostnaðar við fermingu sonar hans.

Umboðsmaður Alþingis lauk athugun sinni á málinu með bréfi 31. janúar 2013.

Í ljósi tengsla lagaákvæða um greiðslu fermingarframlags og lagaákvæða um greiðslu meðlags taldi umboðsmaður ekki forsendur til að gera athugasemd við að innanríkisráðuneytið hefði í úrskurði sínum í málinu litið til fjárhagslegra og félagslegra aðstæðna A og barnsmóður hans. Jafnframt fékk umboðsmaður ekki betur séð en að ályktun innanríkisráðuneytisins um það atriði væri byggð á forsvaranlegum grundvelli. Enn fremur fékk umboðsmaður ekki séð að fyrir hefði legið samkomulag milli A og barnsmóður hans sem hefði gefið innanríkisráðuneytinu tilefni til þess að víkja frá þeirri almennu reglu sem það hefði fylgt í þessum efnum og byggðist á því að forsjárforeldri í samráði við barnið réði undirbúningi og framkvæmd fermingar. Með það í huga gerði umboðsmaður ekki athugasemd við að innanríkisráðuneytið hefði litið svo á að það hefði ekki þýðingu að A hefði haldið barninu aðra fermingarveislu. Þá benti umboðsmaður á að fjárhæðin sem A var gert að greiða hefði verið undir viðmiðunarupphæðum sem giltu þegar atvik málsins áttu sér stað. Með tilliti til alls þessa taldi umboðsmaður ekki tilefni til að gera efnislega athugasemd við niðurstöðu innanríkisráðuneytisins í málinu. Hann fékk ekki heldur séð að af ákvæðum barnalaga um greiðslu fermingarframlags yrði leidd sú afstaða að þeim yrði einungis beitt ef móðir bæri allan eða eða verulegan hluta fermingarkostnað miðað við framlag hins meðlagsskylda.

Að lokum rakti umboðsmaður að í skýringum innanríkisráðuneytisins til sín vegna málsins kæmi fram að vegna þess sjónarmiðs sem kom fram í úrskurði sýslumanns í málinu, að gætt hefði tilhneigingar til að taka tillit til þess við ákvörðun fjárhæðar fermingarframlagsins hvort meðlagsskylt foreldri hefði haldið fermingarbarni og ættingjum sínum sérstaka veislu, hefði verið farið yfir úrskurði frá árinu 2005 til dagsins í dag. Ekki hefðu fundist þess dæmi. Ráðuneytið hefði því sent viðkomandi sýslumanni erindi þar sem framkvæmd ráðuneytisins í málum af þessu tagi væri áréttuð. Umboðsmaður taldi því ekki tilefni til að aðhafast vegna þess atriðis og lauk umfjöllun sinni um málið.

1981, nr. 9. Barnalög.- 19. gr.

1997, nr. 85. Lög um umboðsmann Alþingis - a-liður 2. mgr. 10. gr.

2003, nr. 76. Barnalög. - 2. mgr. 57. gr., 1. mgr. 60. gr., 3. mgr. 60. gr.