Fangelsismál. Aðbúnaður.

(Mál nr. 7342/2012)

A, fangi á Litla-Hrauni, kvartaði yfir aðbúnaði í fangelsinu og gerði jafnframt athugasemdir við skipulag fangelsisins, aðbúnað sinn og samskipti við aðra fanga í vinnu, skóla og í líkamsrækt. Umboðsmaður skildi erindið einnig á þá leið að A væri ósáttur við að afplána refsingu sína á Litla-Hrauni en ekki í öðru fangelsi.

Umboðsmaður Alþingis lauk athugun sinni á málinu með bréfi 31. janúar 2013.

Af erindi A varð ekki ráðið að hann hefði borið athugasemdir sínar og kvartanir undir fangelsismálayfirvöld þannig að fyrir lægi afstaða þeirra eða að fyrir lægju ákvarðanir vegna einstakra atriða í kvörtuninni. Umboðsmaður taldi því rétt að A freistaði þess að að leita með erindi sitt til hlutaðeigandi fangelsismálayfirvalda og eftir atvikum til innanríkisráðuneytisins að því loknu áður en það kæmi til umfjöllunar hjá embætti sínu. Umboðsmaður taldi sér ekki unnt að taka málið til athugunar að svo stöddu og lauk meðferð þess. Hann benti A hins vegar á að ef hann teldi sig enn beittan rangindum að fenginni úrlausn fangelsismálayfirvalda og eftir atvikum innanríkisráðuneytisins gæti hann leitað til sín að nýju með sérstaka kvörtun þar að lútandi.

1993, nr. 37. Stjórnsýslulög – 26. gr.

1997, nr. 85. Lög um umboðsmann Alþingis - 3. mgr. 6. gr., 1. mgr. 10. gr.

2005, nr. 49. Lög um fullnustu refsinga - 2. gr., 14. gr., 76. gr.