Félagsþjónusta sveitarfélaga. Heimgreiðslur.

(Mál nr. 7028/2012)

A kvartaði yfir úrskurði innanríkisráðuneytisins þar sem staðfest var ákvörðun sveitarfélags um að hafna kröfu hennar um heimgreiðslur á tímabilinu 1. mars 2010 til og ágústmánaðar sama ár. A lagði fram umsókn um heimgreiðslur í september 2010 og hlaut greiðslur á tímabilinu september 2010 til áramóta 2010/2011.

Umboðsmaður Alþingis lauk athugun sinni á málinu með bréfi 31. janúar 2013.

Samkvæmt reglum sveitarfélagsins skapaðist réttur til heimgreiðslu í næsta mánuði eftir að sótt var um og ekki var um afturvirkar greiðslur að ræða. Þar sem í lögum er ekki kveðið á um skyldu sveitarfélaga til heimgreiðslna frá lokum fæðingarorlofs foreldra barns til ákveðins aldurs eða inntöku þess í leikskóla taldist ákvörðun sveitarfélagsins um að veita slíkar greiðslur og framkvæmd þeirra til ólögbundinna verkefna sveitarfélagsins sem það hafði töluvert svigrúm til að útfæra. Þar sem takmörkun á heimgreiðslum varðaði fjárhagslega hagsmuni þess og var almenn í þeim skilningi að hún tók jafnt til allra sem voru í sambærilegri stöðu og A taldi umboðsmaður sig ekki geta gert athugasemdir við að sveitarfélagið hefði ákveðið í reglum að ekki yrði um afturvirkar greiðslur að ræða.

Umboðsmaður fékk jafnframt ekki séð að rök stæðu til þess að gera hefði átt ríkari kröfur um að sveitarfélagið veitti A einstaklingsbundnar leiðbeiningar um möguleika hennar á heimgreiðslu heldur en ef skylt hefði verið að birta reglurnar í B-deild Stjórnartíðinda. Hvað varðaði almenna kynningu reglnanna kom fram í gögnum málsins að þær hefðu verið auglýstar í héraðsfréttablöðum, upplýsingar um þær hefði verið að finna á heimasíðu sveitarfélagsins og upplýsingabæklingar hefði legið frammi á heilsuverndarstöðvum og hjá félagsþjónustu sveitarfélagsins. Umboðsmaður taldi því ekki tilefni til að gera athugasemdir við þann hátt sem sveitarfélagið hafði á við kynningu á rétti til heimgreiðslna.

Þar sem A fékk samkvæmt beiðni rökstuðning fyrir ákvörðuninni og innanríkisráðuneytið lagði til grundvallar í úrskurði sínum í málinu að henni hefðu verið veittar rangar upplýsingar um kæruleiðbeiningar og ítrekaði jafnframt við sveitarfélagið mikilvægi þess að leiðbeiningar stjórnvalda væru í samræmi við lög og góða stjórnsýsluhætti taldi umboðsmaður ekki ástæðu til að fjalla um þau atriði málsins og lauk athugun sinni.

1944, nr. 33. Stjórnarskrá lýðveldisins Íslands – 78. gr.

1993, nr. 37. Stjórnsýslulög - 7. gr.

1997, nr. 85. Lög um umboðsmann Alþingis - a-liður 2. mgr. 10. gr.

1998, nr. 45. Sveitarstjórnarlög - 3. mgr. 7. gr.

2005, nr. 15. Lög um Stjórnartíðindi og Lögbirtingablað - 1. mgr. 3. gr.

2011, nr. 138. Sveitarstjórnarlög - 3. mgr. 7. gr.