Fjármála- og tryggingastarfsemi. Einkaréttarlegir aðilar.

(Mál nr. 7306/2012)

A kvartaði yfir því að hafa ekki fengið afhent frumrit skuldabréfa hjá tilteknum lánastofnunum í kjölfar eignarráðstöfunar samkvæmt lögum um tímabundið úrræði fyrir einstaklinga sem eiga tvær eignir til heimilisnota. Kvörtunin beindist að viðskiptabanka, lífeyrissjóði, umboðsmanni skuldara og sýslumannsembætti.

Umboðsmaður Alþingis lauk athugun sinni á málinu með bréfi 31. janúar 2013.

Umboðsmaður benti á að í bréfi til A í tilefni af eldri kvörtun hans vegna málsins hefði komið fram að það félli utan við starfssvið umboðsmanns að fjalla um ákvarðanir viðkomandi lífeyrissjóðs og fjármálafyrirtækisins sem sú kvörtun beindist að. Hið sama ætti við um bankann sem hefði nú tekið við réttindum og skyldu fjármálafyrirtækisins og kvörtunin beindist nú að. Með vísan til þess taldi umboðsmaður það falla utan valdsviðs síns að fjalla um hvort þessum einkaaðilum bæri skylda til þess að afhenda A skuldabréfin.

Þá ítrekaði umboðsmaður að eins og áður hefði komið fram í bréfaskiptum við A væri ekki séð að það hefði verið ætlun löggjafans að fela umboðsmanni skuldara heimildir til að skylda einkaaðila til þess að láta af hendi frumrit skuldabréfa ef þeir vildu þeir ekki gera það eða að umboðsmaður skuldara eða umsjónarmenn á hans vegum leituðu til dómstóla fyrir hönd skuldara til að ná fram slíkri niðurstöðu.

Vegna athugasemda sem A gerði vegna þinglýsingar á afsali eignarinnar sem var ráðstafað til kröfuhafa hans tók umboðsmaður fram að af þinglýsingarlögum yrði ekki annað ráðið en að ætlast væri til þess að leitað væri úrskurðar dómstóla um ágreining um úrlausnir þinglýsingarstjóra. Umboðsmaður taldi því ekki unnt að taka þann þátt kvörtunarinnar til frekari skoðunar.

1978, nr. 78. Þinglýsingarlög - 2. gr., 1. mgr. 3. gr., 5. mgr. 3. gr.

1995, nr. 2. Lög um hlutafélög

1997, nr. 85. Lög um umboðsmann Alþingis, - 2. mgr. 3. gr., c-liður 3. mgr. 3. gr., 1. mgr. 10. gr.

2002, nr. 161. Lög um fjármálafyrirtæki

2010, nr. 103. Lög um tímabundið úrræði einstaklinga sem eiga tvær fasteignir til heimilisnota