Fjármála- og tryggingastarfsemi. Einkaréttarlegir aðilar.

(Mál nr. 7318/2012)

A kvartaði yfir framkvæmd B hf. á svonefndu 110%-leiðar úrræði til niðurfærslu veðskulda. Í erindinu kom fram að framkvæmd B hf. á úrræðinu væri frábrugðin framkvæmd hjá viðskiptabanka A.

Umboðsmaður Alþingis lauk athugun sinni á málinu með bréfi 23. janúar 2013.

Í kvörtuninni kom fram að hún beindist að efnahags- og viðskiptaráðuneytinu, nú fjármála- og efnahagsráðuneyti annars vegar og atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneyti hins vegar, og Fjármálaeftirlitinu. Í erindinu var hins vegar ekki gerð nánari grein fyrir því hvaða athafnir þeirra stjórnvalda A taldi fela í sér rangsleitni í sinn garð. Umboðsmaður gat því ekki tekið til kvörtunina til meðferðar að því leyti en tók fram að A gæti leitað til sín á ný og tilgreint háttsemi þeirra nánar. B hf. var einkaréttarlegur aðili og taldist ekki til stjórnvalda ríkis og sveitarfélaga. Þá fól framkvæmd úrræðisins ekki í sér meðferð opinbers valds. Kvörtun A féll því utan við starfssvið umboðsmanns að því leyti sem hún beindist að fyrirtækinu. Því voru ekki fyrir hendi lagaskilyrði til að fjalla um kvörtunina og umboðsmaður lauk athugun sinni á málinu.

1993, nr. 37. Stjórnsýslulög - 2. mgr. 1. gr.

1995, nr. 2. Lög um hlutafélög.

1997, nr. 85. Lög um umboðsmann Alþingis. - 1. mgr. 3. gr., 2. mgr. 3. gr., 1. mgr. 6. gr.. 1. mgr. 10. gr.