Fjármála- og tryggingastarfsemi. Fjármálaeftirlit.

(Mál nr. 7288/2012)

Hinn 3. desember 2012 kvartaði A yfir töfum á svörum frá Fjármálaeftirlitinu við erindi sem beindist að viðskiptaháttum banka í tengslum við hlutabréfaviðskipti á árunum 1998-2001. Þegar svör FME bárust gerði A jafnframt athugasemdir við þá afstöðu stofnunarinnar að ekki yrði gripið til aðgerða vegna málsins. Enn fremur gerði hún athugasemdir við úrskurð úrskurðarnefndar í viðskiptum við fjármálafyrirtæki sem tengdist sama máli. Að lokum tók A fram að umsóknum hennar um gjafsókn vegna málsins hefði verið hafnað.

Umboðsmaður Alþingis lauk athugun sinni á málinu með bréfi 31. janúar 2013.

Af erindi A varð ráðið að athugasemdir hennar beindust að sömu ákvörðun Fjármálaeftirlitsins og umboðsmaður hafði þegar fjallað um í eldra máli A. Umboðsmaður hafði ekki talið sig hafa forsendur til að gera athugasemdir við þá ákvörðun þar sem ekki varð annað séð en að hún hefði byggst á upplýstu mati stofnunarinnar. Þar sem ný kvörtun A virtist ekki byggjast á nýjum gögnum eða málsástæðum fékk umboðsmaður ekki séð að nýtt erindi hennar breytti þeirri afstöðu. Þá tók umboðsmaður fram að málið varðaði að efni til deilu hennar við viðskiptabanka og að lög gerðu ekki ráð fyrir því að umboðsmaður hefði afskipti af slíkum einkaaðilum og almennum viðskiptum fjármálafyrirtækja. Umboðsmaður gat því ekki tekið málið til umfjöllunar að því leyti.

Af þeim gögnum sem fylgdu kvörtun A varð jafnframt ráðið að síðasta ákvörðun vegna umsókna hennar um gjafsókn hefði verið tekin á árinu 2010 eða utan við þann ársfrest sem er skilyrði að lögum til þess að umboðsmaður Alþingis geti tekið kvörtun til meðferðar. Umboðsmaður gat því ekki tekið þær ákvarðanir til athugunar en leiðbeindi A um að ef innanríkisráðuneytið hefði síðar og þá innan síðasta árs synjað beiðni hennar um gjafsókn ætti hún kost á að leita til sín með kvörtun af því tilefni.

Að lokum taldi umboðsmaður ekki skýrt hvort úrskurðarnefnd um viðskipti við fjármálafyrirtæki hefði verið falið stjórnsýsluvald, en slíkt væri forsenda þess að nefndin félli undir starfssvið sitt. Hann benti A hins vegar á að nefndin hefði ekki tekið efnislega afstöðu til máls hennar heldur vísað því frá og því gæti hún freistað þess að leita aftur til nefndarinnar ef hún teldi sig geta lagt fram nauðsynlegar upplýsingar og varpað skýrara ljósi á kröfur sínar.

Umboðsmaður lauk athugun sinni á málinu en ritaði atvinnuvega- og nýsköpunarráðherra bréf þar sem hann vakti athygli ráðuneytisins á því að tilefni kynni að vera til þess að skýra betur stöðu úrskurðarnefndar um viðskipti við fjármálafyrirtæki, einkum í ljósi lagabreytinga á síðustu árum sem varða aðild að nefndinni, stöðu hennar og verkefni. Umboðsmaður óskaði þess jafnframt að ráðuneyti hans gerði sér grein hvort og þá með hvaða hætti brugðist yrði við þessari ábendingu. Þá ákvað umboðsmaður að kynna efnahags- og viðskiptanefnd Alþingis bréfið með því að senda nefndinni afrit af því.

1997, nr. 85. Lög um umboðsmann Alþingis - 2. gr., 3. gr., 2. mgr. 4. gr., 5. gr., 2. mgr. 6. gr., 11. gr.

2002, nr. 161. Lög um fjármálafyrirtæki – 2. mgr. 19. gr. a.

Í svarbréfi atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins, dags. 19. mars 2013, kom fram að í allnokurn tíma hefði staðið til að endurskoða samþykktir úrskurðarnefndarinnar. Sú vinna væri nokkuð á veg komin. Með tilliti til ábendinga minna hefði stjórnsýsluleg staða nefndarinnar einnig verið tekin til skoðunar og yrði umboðsmaður upplýstur um framvindu málsins.

Mér barst síðan annað bréf frá ráðuneytinu, dags. 27. febrúar sl., þar sem segir m.a.:

„Vinna ráðuneytisins við endurskoðun á samþykktum úrskurðarnefndarinnar í samstarfi við helstu hagsmunaaðila er komin vel á veg og var komin nokkur sátt um helstu efnisatriði hennar sl. haust. Vinnan hefur þó dregist þar sem ákveðið var að leita fyrst eftir afstöðu innanríkisráðuneytisins til þess hvort ástæða væri til að ráðast í heildarendurskoðun á þeim úrlausnarleiðum sem standa neytendum til boða vegna viðskipta við seljendur hér á landi m.t.t. fyrirhugaðrar innleiðingar á nýlegum gerðum ESB um úrlausn deilumála utan dómstóla í EES-samninginn. Annars vegar er hér um að ræða tilskipun 2013/11/EB um lausn deilumála utan dómstóla (e. Alternative dispute resolution, ADR) og hins vegar reglugerð 524/2013/EB um úrlausn í netheimum (e. Online dispute resolution, ODR). Ráðuneytin eru nú í sameiningu að kanna hugsanlegt hagræði þess að koma öllum úrlausnaraðilum (nefndum) undir sama hatt. Ætla má að með því ætti að nást fram betri og samræmdari þjónusta við neytendur. Með því mætti einnig ná því markmiði sem lengi hefur verið stefnt að, þ.e. að koma á svokölluðu one-stop-shop fyrir neytendur. Til þess að fullnægja skilyrðum ODR tilskipunarinnar er líklega einnig þörf á að búa annað hvort til úrskurðarnefndir á sviðum þar sem ekki eru sérstakar úrlausnarleiðir utan dómstóla í dag eða útvíkka gildissvið núverandi nefnda.“

Að lokum kemur fram að ofangreint samstarf breyti þó ekki þeirri niðurstöðu ráðuneytisins að þörf sé á að taka af allan vafa um að æskilegt sé að málsmeðferðarreglur stjórnsýsluréttarins gildi um þau mál sem lögð eru fyrir úrskurðarnefnd um viðskipti við fjármálafyrirtæki. Í ráðuneytinu hafi verið unnið að frumvarpi til laga sem ætlað sé að ná þessu markmiði og stefnt hafi verið að því að leggja það fram á síðasta vorþingi. Ekki verður séð að slíkt frumvarp hafi verið lagt fram.