Námslán. Framhaldsnám lækna. Jafnræðisregla. Vandaðir stjórnsýsluhættir.

(Mál nr. 856/1993)

A kvartaði yfir afgreiðslu Lánasjóðs íslenskra námsmanna á umsókn hans um námsaðstoð vegna náms í lyflækningum við háskóla í Bandaríkjunum. Umsókn A var synjað á þeim forsendum að um launað þjálfunarstarf væri að ræða, sem væri á "post-graduate" stigi og væri því ekki lánshæft samkvæmt úthlutunarreglum sjóðsins. Þá væri ekki rétt að veita lán til slíks náms erlendis þar sem sambærilegt sérnám á Íslandi væri ekki lánshæft. Umboðsmaður vísaði til bréfs síns frá 23. október 1992 um túlkun úthlutunarreglna Lánasjóðs íslenskra námsmanna hvað varðar sérfræðinám lækna (SUA 1992:149). Í tilefni af fyrirspurn umboðsmanns hafði sú afstaða stjórnar lánasjóðsins komið fram að fjallað yrði sérstaklega um hverja lánsumsókn og leyst úr því hvort um framhaldsnám væri að ræða er veitti rétt til láns og yrði við þá úrlausn litið til annarra atriða en tekna, svo sem tilhögunar og eðlis starfs, sérstaklega tilhögunar á fræðslu, eftirlits með árangri og prófgráðu sem að væri stefnt. Í svari lánasjóðsins við bréfi umboðsmanns vegna kvörtunar A kom fram, að mál hans hefði verið afgreitt í samræmi við framangreind sjónarmið. Umboðsmaður tók fram, að samkvæmt upplýsingum læknadeildar Háskóla Íslands og Félags ungra lækna væri sérnám lækna á Íslandi ekki sambærilegt við það sérnám í Bandaríkjunum sem um var fjallað. Þá taldi umboðsmaður að ekki væri hægt að líta á framhaldsnám íslenskra lækna, að loknu prófi frá læknadeild Háskóla Íslands, sem nám að loknu doktorsprófi í skilningi 1. gr. reglugerðar nr. 210/1993, um Lánasjóð íslenskra námsmanna, svo sem gert var í synjun lánasjóðsins. Um það álitaefni hvort samningsbundnir styrkir sem A naut meðan á námi stóð skyldu hafa áhrif á lánveitingu af hálfu sjóðsins tók umboðsmaður fram að styrkir eða samningsbundin laun kæmu til athugunar við ákvörðun á fjárhæð láns, en ekki við mat á lánshæfi náms. Væri þetta í samræmi við fyrrgreint bréf (SUA 1992:149). Samningsbundnir styrkir kæmu því til frádráttar láni, eftir almennum reglum sjóðsins, eins og aðrar tekjur námsmanna. Þá tók umboðsmaður fram að sömu sjónarmið giltu um útreikning framfærsluþarfa lækna í framhaldsnámi og annarra námsmanna, því yrði að skýra 3. mgr. greinar 1.1. í úthlutunarreglum sjóðsins þannig að tekið yrði mið af fjölskyldustærð námsmanns. Loks tók umboðsmaður fram að það samrýmdist ekki vönduðum stjórnsýsluháttum að breyta nánast fyrirvaralaust túlkun stjórnarinnar á því hvað telja skyldi lánshæft nám. Beindi umboðsmaður þeim tilmælum til sjóðsins að lögheimilaðar breytingar á framkvæmd eða reglum um rétt til úthlutunar væru ákveðnar og birtar með hæfilegum fyrirvara, enda yrði gildistöku þeirra þar að auki hagað þannig að ekki leiddi til verulegrar óvæntrar röskunar á námi.

I. Hinn 16. ágúst 1993 leitaði til mín A og kvartaði yfir afgreiðslu Lánasjóðs íslenskra námsmanna á umsókn hans um námsaðstoð. Beinist kvörtun hans að túlkun stjórnar Lánasjóðs íslenskra námsmanna á lögum nr. 72/1982, um námslán og námsstyrki, hvað varðar lánshæfi náms hans í lyflækningum við X, sem hann telur ekki samræmast yfirlýstri afstöðu stjórnar lánasjóðsins til lánshæfis framhaldsnáms í læknisfræðum, sbr. bréf mitt, dags. 23. október 1992 (SUA 1992:149.) II. Tilefni framangreinds bréfs míns var kvörtun X yfir því, að stjórn Lánasjóðs íslenskra námsmanna viðurkenndi ekki sérfræðinám lækna sem lánshæft nám, samkvæmt bókun í fundargerð 856. fundar stjórnar lánasjóðsins. Í tilefni þeirrar kvörtunar átti ég fund með fyrirsvarsmönnum Lánasjóðs íslenskra námsmanna. Á þeim fundi kom fram sú afstaða stjórnar lánasjóðsins, að fjallað yrði sérstaklega um hverja lánsumsókn, sem bærist frá læknum í framhaldsnámi, og leyst úr því, hvort um framhaldsnám væri að ræða, er veitti rétt til láns samkvæmt lögum nr. 21/1992, um Lánasjóð íslenskra námsmanna. Málið er, eins og fyrr greinir, rakið í SUA 1992:149. Þar segir: "Við þessa úrlausn yrði ekki fortakslaust látið ráða úrslitum, hvaða tekjur umsækjandi fengi, heldur yrði þar litið til annarra atriða, svo sem tilhögunar og eðlis starfs, meðal annars með hliðsjón af þeim samningum, sem um það giltu, og þá sérstaklega til tilhögunar á fræðslu, eftirlits með árangri og prófgráðu, sem að væri stefnt. Loks kom fram, að tekjur námsmanna kæmu til frádráttar námsláni í samræmi við almennar reglur sjóðsins. Með bréfi, dags. 17. september 1992, óskaði ég staðfestingar stjórnar Lánasjóðs íslenskra námsmanna á því, hvort ofangreindur skilningur minn á afstöðu stjórnar sjóðsins væri réttur. Með bréfi, dags. 9. október 1992, staðfesti stjórn sjóðsins að svo væri." III. Í kvörtuninni og gögnum málsins kemur fram, að A hafi byrjað framangreint nám sumarið 1991. Áður hafi hann fengið þær upplýsingar hjá Lánasjóði íslenskra námsmanna, að nám hans væri lánshæft. Umsókn hans um námslán hafi hins vegar verið hafnað árla vetrar 1991 vegna þess að lán til framhaldsmenntunar í læknisfræði væri ekki lánshæft. Þá hafi honum, á árinu 1992, verið gert að hefja endurgreiðslur af fyrra námsláni. Nýrri umsókn hans um lán úr sjóðnum og um frestun á endurgreiðslu fyrri lána var, samkvæmt gögnum málsins, svarað með bréfi dags. 12. janúar 1993. Þar segir meðal annars svo: "Samkvæmt ákvörðun stjórnar sjóðsins mun hún fjalla sérstaklega um þær umsóknir sem berast frá læknum í sérfræðinámi og öðrum þeim námsmönnum sem hafa verulegar tekjur samkvæmt náms- eða starfssamningi og skera úr um lánshæfi í hverju tilfelli. Verður þá m.a. höfð til hliðsjónar grein 1.1. í úthlutunarreglum vegna yfirstandi skólaárs en þar segir svo: "Námslán er að öllu jöfnu ekki veitt til starfsnáms eða starfsþjálfunar, þegar um launað starf eða umsamin mánaðarlaun skv. náms- eða starfssamningi eru hærri en grunnframfærsla sbr. 3.1.1." Þá kemur fram í kvörtuninni, að í bréfi lánasjóðsins hafi verið óskað svara við fyrirspurnum varðandi námið, sem A hafi svarað samviskusamlega. Afstaða stjórnar lánasjóðsins til umsóknar A kom fram í bréfi hennar, dags. 17. mars 1993. Þar segir meðal annars svo: "Stjórn LÍN lítur svo á að þú sért í launuðu þjálfunarstarfi þótt um framhaldsnám sé jafnframt að ræða. Námið er svokallað "postgraduatenám" stig og er greinilega skipulagt fremur sem starfsþjálfun en nám enda færð þú samningsbundnar greiðslur sem nema [...] dollurum á ári eftir skatta meðan á starfsþjálfun stendur. Í þessu sambandi vísast í ljósrit af bréfi dags. 3. febrúar frá [X] and [...]. Þar segir orðrétt "The daily schedule for a postgraduate trainee includes teaching and clinical responsibilities." Þá er einnig rétt að benda á að nám þetta telst í samanburði við annað nám á "post doctoral" stigi. Stjórn sjóðsins telur nám á því stigi ekki lánshæft." IV. Ég ritaði stjórn Lánasjóðs íslenskra námsmanna bréf 30. ágúst 1993 og óskaði þess, með vísan til 7. og 9. gr. laga nr. 13/1987, um umboðsmann Alþingis, að stjórn sjóðsins léti mér í té gögn málsins og skýrði viðhorf sitt til kvörtunar A. Svar stjórnar lánasjóðsins barst mér með bréfi, dags. 27. september 1993. Segir þar meðal annars svo: "Í áðurnefndu bréfi yðar dags. 23. október 1992 til Félags ungra lækna um lánshæfi lækna í sérnámi kemur fram að ekki skuli fortakslaust látið ráða úrslitum hvaða samningsbundin laun eða styrki umsækjandi í framhaldsnámi lækna fái. Líta bæri til annarra atriða einnig svo sem tilhögunar og eðlis starfs o.s.frv. Í framhaldi af þessu bréfi yðar hefur stjórn LÍN óskað eftir ítarlegum upplýsingum um hvers eðlis nám eða starfsþjálfun hvers og eins umsækjanda er, sem telur sig í framhaldssérnámi lækna og ítrekað hefur umsókn um námslán eða óskað eftir fresti á afborgun fyrri námslána. Hvert og eitt mál hefur síðan verið tekið sérstaklega fyrir og afgreitt frá vafamálanefnd í umboði stjórnar. Mál [A] hlaut slíka afgreiðslu og hann fékk bréf frá stjórn sjóðsins dags. 17. mars 1993, ... Í bréfinu kemur skýrt fram að tekið er tillit til annarra atriða en þess styrks eða launa vegna námsins sem umsækjandi fékk þegar synjunarástæður eru greindar. Stjórnin lýtur svo á að mál [A] hafi fengið eðlilega afgreiðslu og vísar á bug fullyrðingum um annað í bréfi [A] til yðar." Hinn 11. október 1993 gaf ég Félagi ungra lækna, f.h. A, kost á að koma að athugasemdum í tilefni af skýringum lánasjóðsins. Samkvæmt svarbréfi félagsins, dags. 25. október s.á., telur félagið lýsingar á framhaldsnámi A sýna, að um vel skipulagt framhaldsnám sé að ræða við háskóla, sem Lánasjóður íslenskra námsmanna meti vel hæfan til kennslu námsmanna í framhaldsnámi. Telur félagið, að litið hafi verið fram hjá þessum gögnum og ákvörðun einvörðungu tekna á grundvelli gagna um styrki. Þá telur félagið hugtakið "postdoctoral" ekki eiga við um framhaldsnám íslenskra lækna. Í bréfinu kemur fram, að Félag ungra lækna telji setningu og framkvæmd 3. málsgr. greinar 1.1. í úthlutunarreglum 1992-93 brjóta gegn 1., 2. og 3. gr. laga nr. 72/1982, 1., 4. og 24. gr. reglugerðar nr. 568/1982, og 1. og 3. gr. núgildandi laga um Lánasjóð íslenskra námsmanna nr. 21/1992, auk jafnræðisreglu stjórnsýslulaga. Þá telur félagið fyrrgreinda vinnureglu brjóta gegn reglu um birtingu ákvarðana stjórnvalda, þar sem hún hafi aðeins verið kynnt í námsmannablaðinu Sæmundi og í bréfi til stjórnar Félags ungra lækna. Loks telur félagið breytta túlkun lánasjóðsins fela í sér höfnun á að fara með tekjur lækna líkt og tekjur annarra námsmanna og að taka beri tillit til fjölskyldustærðar lækna í framhaldsnámi. Með bréfi 9. nóvember 1993 óskaði ég eftir því, sbr. 9. gr. laga nr. 13/1987, um umboðsmann Alþingis, að stjórn Lánasjóðs íslenskra námsmanna skýrði nánar afstöðu sína til kvörtunar A. Í því sambandi var sérstaklega óskað eftir: "1. Að gerð verði grein fyrir þeim sjónarmiðum sem liggja til grundvallar þeirri niðurstöðu lánasjóðsins, að um sé að ræða "launað þjálfunarstarf" en ekki lánshæft framhaldsnám. 2. Að lánasjóðurinn geri grein fyrir því, með hliðsjón af tilhögun umrædds náms [A], þar á meðal fyrirkomulagi fræðslu, eftirliti með námsárangri og prófgráðu þeirri, sem að er stefnt, hvers vegna nám þetta uppfylli ekki þau skilyrði, að um sé að ræða framhaldsnám í lyflækningum á háskólastigi, sbr. 2. mgr. 1. gr. laga nr. 21/1992 um Lánasjóð íslenskra námsmanna. 3. Að gerð verði grein fyrir þeim sjónarmiðum, sem liggja til grundvallar þeirri niðurstöðu lánasjóðsins, að um sé að ræða "post doctoral" nám. 4. Að lánasjóðurinn taki afstöðu til bréfs Félags íslenskra lækna, talsmanns [A], dags. 25. október 1993." Í svarbréfi Lánasjóðs íslenskra námsmanna frá 3. desember 1993 er vitnað til fyrrgreinds bréfs sjóðsins frá 12. janúar 1993 og tekið fram, að mat stjórnarinnar hafi verið byggt á þeim upplýsingum, sem fram hafi komið í svarbréfi A, og þeim almennu upplýsingum um sérnám lækna, sem fyrir hafi legið hjá sjóðnum. Síðan segir: "Í bréfi yðar er óskað eftir að stjórn LÍN skýri afstöðu sína til 4 atriða. Í því sambandi vill stjórnin taka eftirfarandi fram: 1. Í svarbréfi LÍN til umrædds námsmanns er tekið fram að um framhaldsnám lækna sé að ræða. Stjórnin bendir hins vegar á þá staðreynd að námið er fyrst og fremst uppbyggt sem starfsþjálfun og að þeim sem námið stunda eru tryggðar umtalsverðar tekjur meðan á námi stendur. Af þessum sökum hefur stjórn LÍN komist að þeirri niðurstöðu að um launaða starfsþjálfun, eða eins og það er orðað í bréfinu "launað þjálfunarstarf", sé að ræða. Það er síðan mat stjórnarinnar að þetta nám sé ekki lánshæft. Til frekari rökstuðnings fyrir þessari niðurstöðu skal bent á eftirfarandi: Þegar uppbygging námsins er skoðuð kemur berlega í ljós að fyrst og fremst er um starfsnám að ræða. Vinnudagurinn hefst kl. 7.30 á morgnana og honum lýkur kl. 6-7 á kvöldin. Það er í hlutverki læknisins að innrita nýja sjúklinga, og bregðast við vandamálum þeirra sjúklinga sem eru í hans umsjá. Við þessi störf nýtur hann handleiðslu lækna sem lengra eru komnir í sérnámi og starfsliðs sjúkrahússins, en þessir aðilar meta jafnframt frammistöðu hans í starfi. Þá er augljóst að starfsþjálfunin er launuð, eins og komið hefur fram áður í gögnum málsins. Í því sambandi er rétt að ítreka að læknunum eru tryggðar umtalsverðar tekjur meðan á náminu stendur. Í bók "American Medical Association" um sérnám lækna í Bandaríkunum segir m.a.: "It is a violation of federal law to provide employment to a non U.S. citizen who does not hold a visa permitting him to earn a salary. Thus residency program directors considering foreign-born medical graduates should appoint only those who hold an exchange visitor (J-1) visa, an immigrant visa or federal work permit." Vandséð er í þessu sambandi, hvers vegna læknirinn þarf vegabréfsáritun, sem heimilar honum að starfa í Bandaríkjunum, ef hann stundar alls ekki launað starf. Samkvæmt 1.-3. grein laga nr. 21/1992 um Lánasjóð íslenskra námsmanna er tilgangur sjóðsins fyrst og fremst að tryggja námsmönnum lán til framfærslu til þess að þeir geti stundað framhaldsnám án tillits til efnahags. Þörf á slíkum framfærslueyri er augljóslega ekki jafn brýn, þegar menn fá umtalsverð umsamin laun eða styrki vegna námsins. Rétt er í þessu sambandi að ítreka að í úthlutunarreglum sjóðsins fyrir skólaárið 1992-1993 er svohljóðandi ákvæði í grein 1.1. "Lán er að öllu jöfnu ekki veitt til náms eða starfsþjálfunar þegar um launað starf eða annað endurgjald er að ræða meðan á námi stendur, þ.e.a.s. ef umsamin mánaðarlaun samkvæmt náms- eða starfssamningi eru hærri en grunnframfærsla sbr. 3.1.1." Áður hefur komið fram í málinu að laun [A] meðan á stafsþjálfun stendur eru mun hærri en hér greinir. 2. Ljóst er að starfsþjálfun sú sem [A] leggur stund á er skipulögð á annan veg en venjulegt háskólanám. Um tveir tímar á dag fara í fyrirlestra, m.a. þarf læknirinn á seinni stigum þjálfunarinnar að halda 1 til 2 stutt erindi á viku og einn fyrirlestur á ári. Annað hvert ár sækir læknirinn þriggja daga námskeið sem lýkur með prófi sem hann þarf að standast. Þetta eru einu prófin sem námsmaðurinn þarf að ljúka meðan á náminu stendur. Hins vegar getur hann, eftir að náminu er lokið, gengist undir svokallað "Internal Medicine Board Examination" til að öðlast sérfræðingsréttindi. Á meðfylgjandi ljósriti úr bókinni "Graduate Medical Education Programs" sem gefin er út af "American Medical Association" kemur fram að af þeim 36 mánuðum sem þjálfunin stendur verða í það minnsta 24 mánuðir að fara í "meaningful patient responsibility". Þar er því ljóst að í þessu námi er megináherslan lögð á starfsþjálfun. Þessu til viðbótar skal á það bent að þetta er í samræmi við þær reglur sem gilda um sérfræðileyfi hér á landi. Þannig segir í 3. gr. reglugerðar nr. 311/1986 um veitingu lækningaleyfis og sérfræðileyfa: "Læknar þeir, sem sérfræðinám stunda, skulu vera aðstoðarlæknar í fullu starfi á þeim sjúkrahúsum (stofnunum), þar sem þeir nema. Frá þessu ákvæði má þó veita undanþágu, ef önnur námstilhögun þykir jafngild að mati læknadeildar. Nám á sérfræðinámskeiði má viðurkenna í stað takmarkaðs hluta tilskilins starfstíma á sjúkrahúsi (stofnun)." Sérfræðinámið er því fyrst og fremst starfsþjálfun. Sérfræðinám lækna á Íslandi er ekki skipulagt nám sem fellur undir menntamálaráðuneytið. Læknar sem stunda slíkt nám hér á landi, sbr. framangreinda reglugerð, eru taldir í launuðu starfi en ekki námi og því eru þeir ólánshæfir skv. reglum LÍN. Spyrja má hvort það samræmist jafnræðisreglu í stjórnsýslu að veita mönnum námslán fyrir starfsþjálfun eða framhaldsnám erlendis sem ekki er lánshæft hér á landi. Í Bandaríkjunum er talið æskilegt að sjúkrahús sem tekur lækna í sérnám sé tengt læknaskóla, þó ekki sé það skilyrði. Hins vegar er sjúkrahúsum sem ekki starfa í tengslum við læknaskóla óheimilt að taka erlenda lækna í sérnám. Sú áhersla sem lögð er á starfsþjálfun í sérfræðináminu gerir það frábrugðið hefðbundnu háskólanámi til B.A./B.S., masters- eða doktorsprófs. Þetta má jafnframt sjá af þeirri staðreynd að námið fer í sumum tilfellum alfarið fram á sjúkrahúsum sem ekki eru í formlegum tengslum við háskóla, þannig að þeir sem þar stunda nám eru ekki innritaðir sem námsmenn við ákveðinn skóla, þó svo þeir séu ráðnir við sjúkrahúsið sem læknar í "resident training" [...]. 3. Stjórn LÍN telur þetta starfsþjálfunarnám vera á "post-doctoral" - stigi. Því til rökstuðnings má benda á eftirfarandi. Áður en námsmenn í Bandaríkjunum hefja læknanám ljúka þeir B.A./B.S. prófi. Að því loknu taka þeir inntökupróf til að komast inn í M.D./Ph.D. nám í læknisfræði, sem er hið eiginlega læknanám. Að læknanáminu loknu þurfa þeir að starfa í eitt ár sem aðstoðarlæknar, sambærilegt svokölluðu "kandidatsári" hér á landi. Að því loknu geta læknar með M.D./Ph.D. próf sótt um aðgang að sérfræðináminu, svokölluðu "Residency Program." Sérfræðinámið er því skipulagt sem nám að loknu doktorsprófi (post doctoral) í bandarísku menntakerfi. Rétt er í þessu sambandi að benda á meðfylgjandi ljósrit þar sem "American Medical Association" skiptir læknanáminu í "Predoctoral Medical Education" annarsvegar og "Postdoctoral Training" hinsvegar. Það ætti því ekki að þurfa að koma íslenskum læknum á óvart að lánasjóðurinn skuli flokka sérnámið sem nám á "postdoctoral" stigi. Samkvæmt 1. gr. reglugerðar nr. 210/1993 um LÍN lánar sjóðurinn hvorki til undirbúningsnáms né náms sem er skipulagt sem nám að loknu doktorsprófi. Það er því ljóst að sérfræðinám lækna í Bandaríkunum er á námsstigi sem sjóðnum er skv. reglugerð ekki ætlað að lána til. Íslenskir læknar sem halda utan til sérfræðináms hafa ekki lokið doktorsprófi, en ef staða [A] er metin miðað við hvar hann væri staddur í íslenska menntakerfinu, þá á hann ekki rétt á lánum, þar sem sérfræðinámið hér á landi er ólánshæft eins og áður sagði... ." Niðurstöður stjórnar Lánasjóðs íslenskra námsmanna eru síðan dregnar saman: "1. Sérfræðinám lækna er frábrugðið hefðbundnu háskólanámi. Þar er fyrst og fremst um starfsþjálfun að ræða. 2. [A] eru tryggðar umtalsverðar tekjur meðan á námi stendur, sem nema tvöfaldri til þrefaldri grunnframfærslu námsmanns. Hlutverk LÍN er fyrst og fremst að tryggja mönnum framfærslueyri svo þeir geti stundað nám þrátt fyrir bágar fjárhagsástæður. [A] nýtur þessarar tryggingar í samningsbundnum launum meðan á þjálfun hans stendur. 3. Sambærilegt sérfræðinám á Íslandi er ólánshæft. Stjórnin telur ekki rétt að veita lán til náms erlendis af þeim sökum. 4. Stjórnin telur að sérnám það sem [A] stundar sé á "post-doctoral" stigi. Sjóðnum er ekki ætlað að lána vegna náms á því stigi." Með bréfi 7. desember 1993 gaf ég Félagi ungra lækna, f.h. A, kost á að tjá sig um málið. Svarbréf, þar sem gerðar eru athugasemdir við einstaka liði ofangreinds bréfs, barst mér hinn 14. desember s.á. Um rök lánasjóðsins, er lúta að því að um "launað þjálfunarstarf" sé að ræða, segir meðal annars svo í bréfi félagsins: "... Ég ítreka jafnframt að framhaldsnám í læknisfræði við virtan erlendan háskóla er hvorki launað þjálfunarstarf né heldur starf á almennum vinnumarkaði og innihald þess ræðst ekki af nafngiftum stjórnar LÍN. Varðandi frekari rökstuðning stjórnar LÍN í lið 1 þá er vandséð hvernig þær miklu kröfur sem gerðar eru til viðveru lækna í framhaldsnámi á háskólasjúkrahúsum í Bandaríkjunum (iðulega 70-100 klst á viku) styðja að læknirinn sé ekki í framhaldsnámi heldur í einhvers konar þjálfunarstarfi [...]. Í beinu framhaldi er þess síðan réttilega getið að læknir í framhaldsnámi njóti daglega kennslu lengra kominna lækna og sérfræðinga (í kennslustöðum við háskólann), sem jafnframt meti frammistöðu hans! Við það má bæta að rísi læknirinn ekki undir þeim kröfum sem til hans eru gerðar kemst hann ekki áfram á næsta stig námsins, heldur getur þurft að endurtaka "rotationir" þar sem frammistaða hans var ófullnægjandi ellegar hverfa frá námi við hlutaðeigandi háskólasjúkrahús ... Varðandi fullyrðinguna um umtalsverðar tekjur (miðað við framfærsluþörf einstaklings væntanlega) leyfi ég mér að endurtaka að kvörtun [A] til umboðsmanns Alþingis snýst ekki um að ávinna læknum sérréttindi, heldur hitt að þeim sé ekki mismunað gagnvart öðrum íslenskum þegnum í háskólanámi. Krafa hans og Félags ungra lækna hefur einfaldlega verið sú að farið verði með umsóknir lækna í viðurkenndu framhaldsnámi og tekjur á sama hátt og umsóknir annarra námsmanna sem teljast lánshæfir skv. 1. og 3. gr. laga nr. 21/1992 (skv. 1.-3. gr. laga nr. 72/1982 þegar [A] var fyrst heitið stuðningi frá LÍN). Séu tekjur læknis (og maka hans) í viðurkenndu framhaldsnámi undir framfærslumörkum LÍN fyrir lækninn og fjölskyldu hans eigi hann rétt á láni frá sjóðnum sem nemur mismuninum." Þá er því haldið fram af hálfu félagsins, að sjúkrahús líti ekki á styrk þann, sem um ræðir, sem endurgjald fyrir þjónustu af hálfu læknisins. Um vegabréfsáritun þá, sem vikið er að í bréfi lánasjóðsins, segir svo í bréfi Félags ungra lækna: "Varðandi vegabréfsáritun til Bandaríkjanna er ljóst að nær allir íslenskir læknar sem dveljast þar við nám eru á "exchange visitor visa" (J1). Umrædd vegabréfsáritun fæst ekki fyrr en læknar hafa staðist viðamikil próf sem ECFMG (Educational Commission for Foreign Medical Graduates) hefur skipulagt síðustu ár. Sú stofnun ber síðan alla ábyrgð á nemunum í námi þeirra við bandarísk háskólasjúkrahús. "J-1 visa" gerir þær kröfur til dvalar þeirra í landinu að hún takmarkist við 7 ár, en sá tími á að nægja til að ljúka framhaldsnámi. Ljóst er að litið er á þá sem gesti í landinu sem eru velkomnir til náms svo lengi sem bandarískir læknastúdentar ná ekki að manna allar framhaldsnámsstöður við bandarísk háskólasjúkrahús. Þessi vegabréfsáritun hindrar jafnframt [...] að læknar geti aflað sér tekna utan þess sjúkrahúss sem þeir stunda nám á." Þá er því mótmælt af hálfu félagsins, að um verulegan eðlismun sé að ræða á þessu framhaldsnámi og öðru framhaldsnámi. Þar sé fremur um stigsmun að ræða, sem helgist af mismunandi viðfangsefnum. Um þetta atriði segir meðal annars í bréfinu: "Vart ætti að vera þörf á að lýsa hér enn einu sinni að sérstaða lækna í framhaldsnámi er ekki önnur en sú sem viðfangsefnið krefst. Greining á sjúkdómum og meðferð þeirra er óhjákvæmilega snar þáttur í klínísku framhaldsnámi lækna. Efna- og eðlisfræðingar í framhaldsnámi vinna fræðileg verkefni sem liggja á þeirra sviði, en sitja ekki í fyrirlestrum frá morgni til kvölds. Nemendur í framhaldsnámi í verkfræði eða viðskiptafræði sitja ekki eingöngu og lesa bækur [...]. Í öllum tilvikum fer námið fram undir handarjaðri háskólakennara og annarra sérfræðinga á hlutaðeigandi sviði. [...] Einnig má spyrja sig þeirrar spurningar hvort læknir í framhaldsnámi í meinafræði eða rannsóknarlækningum (ekki klínískt framhaldsnám) sem fær enga þjálfun í klínískri greiningu sjúkdómanna og meðferð sjúkra sé fremur í "venjulegu lánshæfu háskólanámi að mati stjórnar LÍN. Slíkur læknir hlyti sambærilegan "stipend" og [A]. Báðir gætu á seinni stigum námsins unnið að viðamiklu verkefni, t.d. doktorsverkefni við hlið íslensks nema í doktorsnámi í lífefnafræði. Þótt um sambærilegt nám væri að ræða hjá þessum þremur einstaklingum væri lífefnafræðingurinn metinn lánshæfur af LÍN en læknarnir ekki. [...] Eða ætti kannski margnefnd vinnuregla stjórnar LÍN frá 3/9 1991 að ráða. Þá væri eingöngu horft til þess hvort styrkur sá sem læknarnir hlytu næmi framfærslu einstaklings eða ekki óháð fjölskyldustærð þeirra og aðstæðum en lífefnafræðingurinn ætti rétt á að geta framfleytt fjölskyldu sinni af því að hann er ekki læknir. Slíka mismunun getur enginn stétt þolað." Hvað varðar þau rök lánasjóðsins, að sambærilegt sérnám á Íslandi sé ekki lánshæft, kemur fram í bréfi Félags ungra lækna, að formlegt framhaldsnám í klínískri læknisfræði sé ekki enn til staðar á Íslandi. Á árinu 1993 hafi hins vegar verið stigin fyrstu skrefin til masternáms á tilteknu rannsóknarsviði við læknadeild Háskóla Íslands. Ennfremur gerir félagið athugasemd við þá merkingu, sem stjórn lánasjóðsins leggur í hugtakið "post-doctoral" stig. Í bréfinu segir: "Það er miður að rangur skilningur á enska orðinu "doctor" sem vísar til læknis sem hefur útskrifast frá læknaskóla (Medical School) og hlotið lækningaleyfi í Bandaríkjum N-Ameríku geti undið þannig upp á sig að farið sé að telja bandarískt læknapróf jafngilda doktorsgráðu frá háskóla (PhD í Bandaríkunum)." Með bréfi 1. febrúar 1994 óskaði ég þess, með vísan til 9. gr. laga nr. 13/1987, um umboðsmann Alþingis, að lánasjóðurinn svaraði eftirfarandi spurningum: "1. Teldist nám læknisins lánshæft, ef þeir styrkir, sem hann fengi, næmu lægri fjárhæð en sem nemur grunnframfærslu, sbr. 3. mgr. greinar 1.1. í úthulutunarreglum lánasjóðsins fyrir árið 1992-1993? 2. Ef nám [A] hefði talist lánshæft, hve hátt lán hefði hann fengið námsárið 1992-1993, með hliðsjón af fjárhæð þeirra styrkja og annarra tekna, sem hann hafði, sbr. III. kafla fyrrnefndra úthlutunarreglna, svo og þeirra lána, sem hann átti rétt á að fá skv. IV. kafla? 3. Ef námsmaður, sem stundar framhaldsnám við háskóla, er uppfyllir skilyrði 2. mgr. 1. gr. laga nr. 21/1992, fær mánaðarlega styrki frá nokkrum aðilum, sem samanlagt nema hærri fjárhæð en nemur grunnframfærslu, sbr. grein 3.1.1., telst þá nám hans ekki lánshæft skv. 3. mgr. greinar 1.1. í úthlutunarreglum lánasjóðsins? 4. Þegar 3. mgr. greinar 1.1. í úthlutunarreglum lánasjóðsins er beitt, er þá einungis miðað við grunnframfærslu einstaklings, sbr. grein 3.1.1., eða er einnig litið til þess, hvort námsmaður sé í hjónabandi eða sambúð og eigi börn, sbr. greinar 4.4. og 4.5. í úthlutunarreglum sjóðsins námsárið 1992-1993?" Svar lánasjóðsins barst með tveimur bréfum báðum, dags. 24. febrúar 1994. Í öðru bréfinu segir: "1. Þegar stjórn LÍN metur hvort menn stundi nám eða þjálfunarstarf liggur í augum uppi að fái menn alls engin samningsbundin laun eða styrki í framhaldsnámi er ekki um launað þjálfunarstarf að ræða. Slíkar umsóknir koma þó í öllum tilvikum fyrir stjórn og eru metnar í samræmi við bréf yðar til sjóðsins dags. 23. október 1992. [B] og [A] gætu talist lánshæfir ef þeir nytu ekki samningsbundinna launa eða styrkja. Þess skal getið að tvö mál hafa komið fyrir stjórn LÍN frá læknum í framhaldsnámi sem ekki njóta styrkja meðan á námi stendur. Annað málið hlaut ekki afgreiðslu þar sem upplýsingar um námið bárust ekki. Í hinu tilfellinu féllst stjórnin á að veita lækni sem stundar ólaunað framhaldsnám í Hollandi aðstoð á námsárinu 1993-1994. Litið var svo á að um undanþágu frá almennum reglum sjóðsins væri að ræða sem einungis gilti þetta eina tiltekna námsár, og námsmanninum því tilkynnt að fjalla þurfi sérstaklega um mál hans ef hann óski eftir frekari aðstoð vegna þessa framhaldsnáms. Þeir [A] og [B] teldust því ekki lánshæfir nema með sérstakri undanþágu frá stjórn LÍN ef styrkir þeirra væru lægri en grunnframfærsla. 2. Sjóðurinn getur ekki reiknað út hve hátt lán þeir [A] og [B] hefðu fengið á námsárinu 1992-1993 ef þeir hefðu verið taldir lánshæfir, þar sem ekki liggja fyrir endanlegar upplýsingar um tekjur þeirra. Ef hins vegar er einungis miðað við helming af styrk, sem þeir fengu og barnabætur sem tekjur hefði þeim ekki reiknast lán þótt tekið sé tillit til fjölskyldustærðar. Þá er ekki reiknað með framfærslu maka þar sem upplýsingar um tekjur þeirra liggja ekki fyrir. Ef um aðrar tekjur en styrkina er að ræða hefðu þær að sjálfsögðu áhrif á útreikninginn. 3. Stjórn LÍN fjallar um mál allra þeirra námsmanna sem fá styrki sem nema hærri fjárhæð en grunnframfærslu námsmanns eins og hún er reiknuð af LÍN. Ef um er að ræða tilfallandi styrk eða styrki sem námsmaður nýtur tímabundið, þ.e. ekki er um samningsbundna styrki eða laun að ræða sem allir námsmenn í umræddu námi njóta meðan á námi stendur, þá hafa þessir styrkir ekki áhrif á lánshæfi námsmanns samkvæmt grein 1.1. í úthlutnarreglum LÍN. 4. Þegar ákvörðun er tekin um hvort stjórn LÍN þurfi að fjalla um lánshæfi námsmanns á grundvelli 3. mgr. greinar 1.1. í úthlutunarreglum LÍN er miðað við grunnframfærslu einstaklings sbr. grein 3.1.1. Á það skal bent að í máli þeirra [A] og [B] skiptir ekki máli hvort miðað er við framfærslu einstaklings sbr. grein 3.1.1. eða hvort miðað er við framfærslu fjölskyldu sbr. greinar 4.4. og 4.5. í úthlutunarreglum LÍN námsárið 1992-1993, í báðum tilfellum eru samningsbundnir styrkir hærri en framfærsla." Með hinu bréfinu bárust mér ýmis gögn, sem að mati stjórnar Lánasjóðs íslenskra námsmanna sýna, að framhaldsnám lækna sé fyrst og fremst launað starfsþjálfunarnám og að læknar, sem fara til Bandaríkjanna til framhaldsnáms, fari þangað ekki sem venjulegir námsmenn, heldur sem þátttakendur í sérstöku "prógrammi" fyrir framhaldsnám lækna. Með bréfi 1. mars 1994 óskaði ég eftir athugasemdum Félags ungra lækna við framangreind bréf, að því leyti er félagið teldi tilefni til. Hinn 20. maí 1994 barst mér bréf læknadeildar Háskóla Íslands, dags. 13. apríl s.á., til Félags ungra lækna. Þar kemur fram, að læknadeild Háskóla Íslands telur nám A venjulegt og hefðbundið framhaldsnám í lyflækningum og þá styrki, sem hann hefur fengið, á engan hátt frábrugðna því, sem gengur og gerist í bandarískum háskólum/háskólaspítulum. Þá er það álit læknadeildar, að skilgreining á því, hvort um lánshæft framhaldsnám sé að ræða, byggist á inntaki, innihaldi og uppbyggingu náms. Eðli námsins breytist ekki vegna hugsanlegra styrkveitinga af hálfu háskólans. Í þessu sambandi er vitnað til yfirlýsingar viðkomandi spítala, þar sem fram kemur, að af hálfu spítalans sé ekki litið á þann styrk, sem námslæknir fái, sem greiðslu fyrir þjónustu, þ.e. laun. Þá kemur fram í bréfinu, að nám á Íslandi á grundvelli reglugerðar nr. 311/1986 fullnægi ekki kröfum, sem gerðar eru til náms í Bandaríkjunum til að verða metið að hluta til framhaldsnáms þar í landi. Um þetta atriði segir meðal annars svo: "Nokkrar viðræður hafa átt sér stað við bandaríska námsstjórnendur til að kanna hvort framhaldsnám á Íslandi í ákveðnum sérgreinum gæti verið viðurkennt í Bandaríkjunum að hluta. Málið er á umræðustigi en ljóst er þó að þær ákveðnu kröfur, sem gerðar eru um innihald náms, almennt framgangseftirlit og efnivið (sjúklinga), eru ekki fullnægjandi á þessu stigi til þess að Bandaríkjamenn geti samþykkt hlutanám á Íslandi. Tilgangur þessara viðræðna er að fara yfir þessa þætti, samræma og koma á því námsskipulagi hér heima er geti sparað læknum í framhaldsnámi ár eða tvö erlendis, það verði viðurkennt af bandarískri háskólastofnun og lokið þar í landi. Það er að segja, enn skortir á að námsaðstæður séu með þeim hætti hérlendis að jafnast geti á við bandaríska fyrirkomulagið." Um þá fullyrðingu Lánasjóðs íslenskra námsmanna, að um nám að loknu doktorsprófi, "post-doctoral," sé að ræða, segir meðal annars svo í bréfi læknadeildar: "Í Bandaríkjunum er farið nokkuð samhliða að gráðunum Ph.D. og MD. Aðeins þeir sem hafa lokið Ph.D. gráðunni í Bandaríkjunum hafa hins vegar fengið próf sitt viðurkennt hér á Íslandi sem doktorspróf. Í raun má segja að verið sé að tala um tvenns konar doktora hvað þetta snertir; hefðbundið Ph.D. nám í Bandaríkjunum, sem lýkur um svipað leyti og M.D. námið fyrir Bandaríkjamenn og doktora í læknisfræði frá öðrum löndum, sem að loknu sérnámi hafa bætt við sig rannsóknarvinnu, varið doktorsritgerð (staðist doktorspróf) og hafa því að baki annars konar menntun heldur en hefðbundið Ph.D. Rannsóknarstörf lækna við framhaldsnám í Bandaríkjunum, sem eru oft mjög viðamikil, leiða að öllu jöfnu ekki til Ph.D. prófs nema að sérstakar ráðstafanir séu gerðar. Framhaldsnám í læknisfræði í Bandaríkunum getur því ekki talist skipulagt nám að loknu doktorsprófi. Hingað til hefur ekki verið talið að læknapróf frá Háskóla Íslands jafngildi doktorsprófi. Framhaldsnám (sérnám íslenskra lækna) er því yfirleitt klíniskt nám að lokinni grunnmenntun í læknaskóla er leiðir ekki til doktorsprófs né hafa þessir einstaklingar doktorspróf." Loks er í bréfi læknadeildar vikið að túlkun lánasjóðsins á þeim þætti námsins, sem lýtur að meðhöndlun sjúklinga. Þar segir meðal annars svo: "Í öðrum kafla þessa [sama bréfs] er lagt út frá þýðingu "meaningful patient responsibility" og það túlkað sem sönnun þess að um starfsþjálfun sé að ræða. Þeir sem hafa gengið í gegnum þennan feril vita, að hér er átt við að námslæknir hafi fyrsta kontakt við sjúkling, hafi sína "eigin sjúklinga", en á bak við hann er hins vegar eldri námslæknir (eldri námslæknar), sérfræðingar spítalans og eigin læknar sjúklingsins. "Responsibility" í þessu dæmi merkir því ekki lagalega ábyrgð, hún liggur hjá eldri læknunum og endanlega hjá spítalanum og einkalækni eða "primary care" lækni sjúklingsins. Þetta er hins vegar á þennan veg upp sett til þess að koma í veg fyrir að námslæknir geti farið í gegnum námið sem áhorfandi og án þess að kynnast því af eigin raun hvernig þarf að taka ákvarðanir/hvernig það er að taka ákvarðanir, sem skipta máli fyrir heill sjúklingsins." Í bréfi 24. maí 1994 gaf ég stjórn Lánasjóðs íslenskra námsmanna kost á að koma athugasemdum sínum á framfæri, ef einhverjar væru, við framangreint bréf læknadeildar Háskóla Íslands. Í svarbréfi lánasjóðsins, dags. 28. júní 1994, er afstaða stjórnar sjóðsins í málinu ítrekuð. Um bréf læknadeildar Háskóla Íslands segir meðal annars: "[...] Læknadeild neitar að viðurkenna að framhaldsnám lækna byggist mest á starfsþjálfun í öðru orðinu en viðurkennir í hinu að 2/3 hlutar námsins að lágmarki fari í að sinna raunverulegum sjúklingum á sjúkrahúsum undir handleiðslu annarra (til að læknirinn: "[...] kynnist því af eigin raun hvernig þarf að taka ákvarðanir/hvernig það er að taka ákvarðanir, sem skipta máli fyrir heill sjúklings"). Læknadeild neitar því að starfsþjálfunin/framhaldsnámið sé launað, þó fyrir liggi að læknarnir fái samningbundnar greiðslur til lífsviðurværis meðan á því stendur [...]." Bréfi Lánasjóðs íslenskra námsmanna fylgdu þýðingar löggilts skjalaþýðanda á skjölum, er sjóðurinn telur styðja fullyrðingar sínar, þ.e. að um starfsþjálfun með launum sé að ræða. Þar á meðal er þýðing úr þeirri skrá, sem vitnað var til í bréfi lánasjóðsins frá 3. desember 1993, þar sem fjallað er um þær tegundir vegabréfsáritana, sem læknum í framhaldsnámi í Bandaríkjunum er gert að hafa. Hinn 30. júní 1994 óskaði ég eftir athugasemdum Félags ungra lækna, ef einhverjar væru, við framangreint bréf Lánasjóðs íslenskra námsmanna. Með bréfi Félags ungra lækna, dags. 12. október 1994, tilkynnti félagið, að það teldi ekki ástæðu til að gera frekari athugasemdir. V. Í forsendum og niðurstöðu álits míns, frá 12. febrúar 1996, segir: "1. Í II. kafla hér að framan er rakið efni bréfs míns frá 23. október 1992 um túlkun úthlutunarreglna Lánasjóðs íslenskra námsmanna, hvað varðar sérfræðinám lækna. Í bréfi Lánasjóðs íslenskra námsmanna, dags. 27. september 1993, kemur fram, að stjórn lánasjóðsins telur mál A hafa verið afgreitt í samræmi við framangreint bréf mitt. Óskað hafi verið eftir ítarlegum upplýsingum um eðli náms eða starfsþjálfunar og við ákvörðun um það, hvort nám teldist lánshæft, hafi verið tekið tillit til annarra atriða en þess styrks eða launa vegna námsins, sem umsækjandi hafi fengið. Félag ungra lækna, f.h. A, heldur því hins vegar fram, að afgreiðsla Lánasjóðs íslenskra námsmanna á umsókn A hafi ekki verið í samræmi við umrætt bréf mitt. Litið hafi verið fram hjá gögnum, er sýni fram á eðli námsins, og ákvörðun einvörðungu verið tekin á grundvelli launa eða styrkja, sem náminu fylgi, auk þess sem setning og framkvæmd 3. mgr. greinar 1.1. í úthlutunarreglum 1992-1993, brjóti gegn ákvæðum laga og reglugerðar um Lánasjóð íslenskra námsmanna. Samkvæmt gögnum málsins byggist niðurstaða Lánasjóðs íslenskra námsmanna um að synja lánsumsókn A á því, að um launað þjálfunarstarf sé að ræða, sem auk þess sé á "post-graduate" - stigi, er ekki sé lánshæft samkvæmt úthlutunarreglum sjóðsins. Þá telur stjórn Lánasjóðs íslenskra námsmanna ekki rétt að veita lán til slíks náms erlendis, þar sem sambærilegt sérnám á Íslandi sé ekki lánshæft. Af upplýsingum læknadeildar Háskóla Íslands og bréfum Félags ungra lækna tel ég verða ráðið, að sérnám lækna á Íslandi sé enn sem komið er ekki sambærilegt við það sérnám í Bandaríkjunum, sem hér er fjallað um. Með vísan til gagna málsins varðandi skilgreiningu náms á "post-graduate"-stigi, einkum skýringa læknadeildar Háskóla Íslands, sem reifaðar voru hér að framan, tel ég ljóst, að umrætt framhaldsnám íslenskra lækna, að loknu prófi frá læknadeild Háskóla Íslands, teljist ekki nám að loknu doktorsprófi í skilningi 1. gr. reglugerðar nr. 210/1993, um Lánasjóð íslenskra námsmanna. Tel ég því synjun um námslán á þeim grundvelli í máli þessu ekki á rökum reista. Skilgreining Lánasjóðs íslenskra námsmanna á launuðu þjálfunarstarfi byggist samkvæmt bréfi stjórnarinnar frá 3. desember 1993 á því, að námið sé fyrst og fremst uppbyggt sem starfsþjálfun og að þeim, sem námið stunda, séu tryggðar tekjur á meðan á því stendur. Tilhögun vinnutíma, inntak starfsins, þ.e. umsjá raunverulegra sjúklinga, og skipulag námsins, sem stjórn sjóðsins telur frábrugðið venjulegu háskólanámi, eru meðal þeirra atriða, sem talin eru benda til þess að um starfsþjálfun fremur en nám sé að ræða. Þá bendir lánasjóðurinn á, að kröfur um vegabréfsáritun styðji þá niðurstöðu, að um launað starf sé að ræða. Hvað skipulag námsins varðar, kemur fram í umræddu bréfi lánasjóðsins og öðrum gögnum málsins, að lækninum beri að halda tvö stutt erindi á viku og einn fyrirlestur á ári svo og standast áfangapróf annað hvort ár og próf til að öðlast sérfræðiréttindi að námi loknu. Auk þess kemur fram, að hann þarf reglulega að standast mat á frammistöðu í hinum verklega hluta námsins. Af hálfu Lánasjóðs íslenskra námsmanna er lögð áhersla á, að nám/starf læknisins fari fram á sjúkrastofnun og að minnsta kosti 24 mánuðum af 36 skuli varið í meðhöndlun raunverulegra sjúklinga. Að teknu tilliti til gagna málsins, þar á meðal fyrrgreinds bréfs læknadeildar frá 13. apríl 1994, er það skoðun mín, að tilgreind rök Lánasjóðs íslenskra námsmanna sýni ekki, að stjórn sjóðsins hafi með fullnægjandi hætti litið til tilhögunar og eðlis náms þess, er hér um ræðir. Ég tel, að leggja verði áherslu á tilhögun fræðslu, eftirlit með árangri og endanlega prófgráðu, við mat á því, hvort um eiginlegt nám sé að ræða. Ég tel upplýsingar um, að starf sé unnið á hefðbundnum vinnutíma og felist í meðhöndlun sjúklinga, ekki útiloka að um nám geti verið að ræða, enda virðast þessir þættir ekki hafa hindrað lánveitingu af hálfu sjóðsins, ef viðkomandi nýtur ekki styrkja á meðan á námi stendur. Í niðurstöðu bréfs Lánasjóðs íslenskra námsmanna frá 3. desember 1994 er lögð á það áhersla, að A njóti tekna, sem nemi tvöfaldri til þrefaldri grunnframfærslu námsmanns, meðan á námi stendur, og því andstætt hlutverki lánasjóðsins að veita lán til aðila, sem sé tryggður framfærslueyrir með þessum hætti. Í bréfi lánasjóðsins frá 24. febrúar 1994 segir hins vegar, að sjóðurinn hafi ekki aflað endanlegra upplýsinga um tekjur A og því ekki getað reiknað út, hve hátt lán hann hefði fengið, hefði nám hans verið talið lánshæft. Óumdeilt er í málinu, að A nýtur samningsbundinna styrkja, á meðan á námi hans stendur. Hins vegar eru aðilar málsins ekki á einu máli um það, á hvern hátt fé það, er umsækjandi verður aðnjótandi á námstímanum, skuli hafa áhrif á lánveitingu af hálfu Lánasjóðs íslenskra námsmanna. Með vísun til þess, að lánshæfi náms eigi að ákvarðast á grundvelli eðlis viðkomandi náms, er það skoðun mín, sem er í samræmi við bréf mitt, sem reifað er í SUA 1992:149, að styrkir eða samningsbundin laun komi til athugunar, þegar ákvarða skal fjárhæð láns námsmanns í lánshæfu námi, þ.e. hafi ekki áhrif á ákvörðun um lánshæfið. Samningsbundnir styrkir komi því, eins og aðrar tekjur námsmanna, til frádráttar láni eftir almennum reglum sjóðsins. Séu umræddir styrkir lægri en sem nemur reiknaðri framfærsluþörf samkvæmt reglum Lánasjóðs íslenskra námsmanna, eiga læknar í framhaldsnámi því rétt á láni, eins og aðrir námsmenn, sem eins er ástatt um. Slíka afgreiðslu mála tel ég vera í samræmi við hlutverk Lánasjóðs íslenskra námsmanna og það markmið sjóðsins, að tryggja fólki námslán, sem á því þarf að halda til greiðslu framfærslukostnaðar. 2. Eins og fram hefur komið hér að framan, telur Félag ungra lækna, f.h. A, túlkun stjórnar Lánasjóðs íslenskra námsmanna á 3. mgr. greinar 1.1. í úthlutunarreglum sjóðsins 1992-1993 ennfremur mismuna læknum hvað útreikning framfærslukostnaðar varðar. Samkvæmt umræddri reglu skuli að öllu jöfnu ekki veitt lán til náms eða starfsþjálfunar, þegar laun samkvæmt náms- eða starfssamningi eru hærri en grunnframfærsla, sbr. reglu 3.1.1. í nefndum úthlutunarreglum. Telur félagið túlkun stjórnarinnar miða að því að koma í veg fyrir að tekið verði tillit til fjölskyldustærðar þeirra námsmanna, sem greinin tekur til. Tilvitnað ákvæði 3.1.1. úthlutunarreglnanna hljóðar svo: "Öll aðstoð til framfærslu á námstíma frá 1.6.92-31.5.93 miðast við grunnframfærslu á Íslandi sem skilgreind er af sjóðnum. Sú fjárhæð er 1. júní 1992 kr. 49.039. Fjárhæðinni er breytt mánaðarlega með hliðsjón af breytingum á framfærsluvísitölu Hagstofu Íslands." Í bréfi mínu frá 1. febrúar 1994 óskaði ég svara Lánasjóðs íslenskra námsmanna við þeirri spurningu, hvort miðað væri við grunnframfærslu einstaklings, sbr. grein 3.1.1., þegar 3. mgr. greinar 1.1. í úthlutunarreglum lánasjóðsins væri beitt, eða hvort tekið væri tillit til fjölskyldustærðar námsmanns, sbr. greinar 4.4. og 4.5. Í svari lánasjóðsins kemur fram, að við ákvörðun um lánshæfi á grundvelli 3. mgr. greinar 1.1. sé miðað við grunnframfærslu einstaklings, sbr. grein 3.1.1. Hins vegar skipti ekki máli í þessu tiltekna máli, við hvaða viðmiðun sé stuðst, hvorug veiti A rétt til láns. Þar sem svör lánasjóðsins eru ekki studd útreikningum, tel ég ekki ljóst, hvort framangreind staðhæfing sé rétt. Hins vegar tel ég tilefni til að fjalla um það, hvort sú viðmiðun, sem stjórn Lánasjóðs íslenskra námsmanna kveður rétta, þ.e. að miða skuli við grunnframfærslu einstaklings, þegar lánshæfi samkvæmt 3. mgr. greinar 1.1. er metið, sé í samræmi við lög um sjóðinn og önnur ákvæði fyrrgreindra úthlutunarreglna. Samkvæmt 3. gr. laga nr. 21/1992, um Lánasjóð íslenskra námsmanna, skal miða við að námslán samkvæmt lögunum nægi hverjum námsmanni til að standa straum af náms- og framfærslukostnaði meðan á námi stendur, að teknu tilliti til fjölskyldustærðar námsmanns. Í grein 3.2. í úthlutunarreglum sjóðsins segir, að þær aðstæður, sem tilgreindar eru undir greinum 4.1. - 4.5., hafi áhrif á framfærslu námsmanns. Í grein 4.1. kemur fram, að framfærsla einhleyps námsmanns sé grunnframfærsla. Grunnframfærsla námsmanns í hjónabandi eða sambúð hækkar hins vegar um 20% við hvert barn, sbr. grein 4.4. Þá er samkvæmt sömu grein heimilt að veita lán vegna maka í undantekningartilfellum, sbr. grein 4.5. Samkvæmt framangreindu miðast grunnframfærsla við framfærslu einstaklings, sbr. grein 3.1.1., en framfærsla getur á hinn bóginn hækkað hlutfallslega vegna fjölskyldustærðar. Er það skoðun mín, að 3. mgr. greinar 1.1. í úthlutunarreglunum verði að skýra í samræmi við framangreind ákvæði, þannig að sömu sjónarmið gildi um útreikning framfærsluþarfa lækna í framhaldsnámi og annarra námsmanna. Nægi samningsbundnir styrkir lækna í framhaldsnámi ekki til framfærslu viðkomandi fjölskyldu samkvæmt útreikningsreglum lánasjóðsins, tel ég þá því eiga rétt á láni, sem mismuninum nemur. 3. Eins og fram hefur komið í máli þessu, var sérfræðinám lækna metið lánshæft á árinu 1991. Á árinu 1992 tók stjórn Lánasjóðs íslenskra námsmanna þá ákvörðun, að hverfa frá þeirri framkvæmd til fyrri framkvæmdar á reglum um lánshæfi lækna í sérfræðinámi. Þar með voru læknar taldir menn í launuðu starfi en ekki námsmenn í skilningi laga og reglna um lánasjóðinn. Hinn 9. október 1992 staðfesti stjórn Lánasjóðs íslenskra námsmanna í bréfi til mín, að fjallað skyldi sérstaklega um hverja lánsumsókn, sem bærist frá læknum í framhaldsnámi, og úr því leyst, hvort um lánshæft nám væri að ræða með hliðsjón af tilhögun og eðli starfs, án tillits til tekna eða styrks sem viðkomandi nyti. Ég tel, nánast fyrirvaralausar breytingar á túlkun stjórnarinnar á því, hvað telja skuli lánshæft nám í skilningi laga um Lánasjóð íslenskra námsmanna, án fyrirliggjandi breytinga á lögum um sjóðinn, ekki samrýmast vönduðum stjórnsýsluháttum. Tel ég ástæðu til að leggja áherslu á nauðsyn þess, að námsmönnum sé unnt að sjá fyrir, hvaða reglur muni gilda um rétt til láns úr Lánasjóði íslenskra námsmanna. Í þessu sambandi er rétt að minna á, að oft verða stúdentar að sækja um erlenda háskóla með u.þ.b. árs fyrirvara. Beini ég þeim tilmælum til stjórnar lánasjóðsins, að hún hafi framangreint sjónarmið í huga, þegar fyrirhugaðar eru breytingar á framkvæmd eða reglum um lánasjóðinn, þ.e. að því marki, sem breytingar eru heimilar í lögum og reglum um sjóðinn. 4. Samkvæmt framanrituðu er það álit mitt, að Lánasjóði íslenskra námsmanna beri að afgreiða umsóknir lækna í framhaldsnámi í samræmi við yfirlýsta afstöðu sjóðsins, sbr. umrætt bréf mitt, dags. 23. október 1992, þannig að ákvörðun um lánshæfi náms byggist á tilhögun og eðli viðkomandi náms. Tekjur, sem viðkomandi kann að hafa vegna verklegs hluta náms síns eða vegna styrks, dragist frá láni hans í samræmi við úthlutunarreglur sjóðsins. Eru það því tilmæli mín til Lánasjóðs íslenskra námsmanna, að mál A verði endurupptekið, ef ósk kemur um það frá honum, og síðan úr því leyst í samræmi við framangreind sjónarmið. Þá beini ég þeim tilmælum til Lánasjóðs íslenskra námsmanna, að lögheimilaðar breytingar á framkvæmd eða reglum um rétt til úthlutunar úr sjóðnum séu ákveðnar og birtar með hæfilegum fyrirvara, enda sé gildistöku þeirra þar að auki hagað þannig, að ekki valdi verulegri og óvæntri röskun á námi." VI. Sjá um afdrif málsins í kafla 14.1.