Húsnæðismál. Húsaleigubætur.

(Mál nr. 7325/2012)

A kvartaði yfir því að hafa sem leigusali þurft að vísa frá fólki sem sóttist eftir því að leigja af honum íbúðarhúsnæði vegna þess að viðkomandi sveitarfélag gerði það að kröfu fyrir greiðslu húsaleigubóta að umsókn fylgdi þinglýstur húsaleigusamningur og vegna seinagangs hjá félagsþjónustu sveitarfélagsins við afgreiðslu umsókna.

Umboðsmaður Alþingis lauk athugun sinni á málinu með bréfi 31. janúar 2013.

Umboðsmaður rakti að af lögum væri ljóst að réttur til húsaleigubóta væri réttur leigjenda og að það væri m.a. skilyrði fyrir greiðslu húsaleigubóta að leigusamningur væri til að minnsta kosti sex mánaða og að honum væri þinglýst. Hann tók fram að jafnvel þótt réttur væntanlegs leigjanda til húsaleigubóta gæti haft áhrif á það hvort af leigu húsnæðis yrði, yrði ekki séð að kvörtunarefnið varðaði beinlínis hagsmuni A með þeim hætti að uppfyllt væru skilyrði til þess að umboðsmaður fjallaði um erindið sem kvörtun. Ekki yrði heldur séð af gögnum málsins að leigjandi hefði falið A að leita til sín fyrir sína hönd. Þá taldi umboðsmaður ekki efni til að taka kvörtunarefnið til umfjöllunar að eigin frumkvæði. Umboðsmaður taldi sér því ekki unnt að taka málið til athugunar og lauk meðferð málsins.

1997, nr. 85. Lög um umboðsmann Alþingis - 4. gr.

1997, nr. 138. Lög um húsaleigubætur. - 2. gr., 4. gr.