Hæfi.

(Mál nr. 7265/2012)

A kvartaði yfir því að nánar tilgreindir starfsmenn landlæknisembættisins væru vanhæfir til að koma að meðferð kvörtunarmáls hans hjá embættinu. A gerði jafnframt ýmsar athugasemdir við það hvernig stjórnvöld hefðu unnið að málinu.

Umboðsmaður lauk athugun sinni á kvörtun A með bréfi 10. janúar 2012.

A hafði kært álit landlæknis í málinu til velferðarráðuneytisins sem hafði vísað málinu til nýrrar meðferðar landlæknis og m.a. beint því til embættisins að afla nýrra umsagna frá óháðum sérfræðingum, rannsaka málið frekar, taka á málsástæðum A og gæta að ákvæðum stjórnsýslulaga. Umboðsmaður fékk því ekki annað séð en að málið væri til meðferðar hjá landlækni og tók fram að lög gerðu ekki ráð fyrir því að umboðsmaður fjallaði um mál sem væru enn til meðferðar hjá stjórnvöldum. Hann benti A hins vegar á að koma athugasemdum sínum við hæfi starfsmannanna á framfæri við landlæknisembættið og það kæmi þá í þess hlut að taka afstöðu til þessa atriðis. Umboðsmaður taldi einnig rétt að A kæmi öðrum athugasemdum sínum við fyrri meðferð málsins á framfæri við landlæknis áður en málið yrði afgreitt þar að nýju. Að lokum tók umboðsmaður fram að ef A yrði ósáttur við nýja niðurstöðu landlæknis í málinu ætti hann möguleika á að kæra málsmeðferð embættisins til ráðherra þegar hún lægi fyrir og að fenginni niðurstöðu ráðuneytisins gæti hann leitað til sín, teldi hann tilefni til.

1993, nr. 37. Stjórnsýslulög. - 6. tölul. 1. mgr. 3. gr.

1997, nr. 85. Lög um umboðsmann Alþingis. - 2. mgr. 6. gr., 3. mgr. 6. gr., 1. mgr. 10. gr.

2007, nr. 41. Lög um landlækni og lýðheilsu. - 2. mgr. 12. gr., 6. mgr. 12. gr.