Meðlag.

(Mál nr. 7338/2012)

A kvartaði yfir því að Innheimtustofnun sveitarfélaga hefði innheimt sömu meðlagsskuld tvisvar. Atvikum var lýst með þeim hætti að fyrrverandi vinnuveitandi A hefði vanrækt að standa skil á meðlagi sem var dregið af launum A og þegar fyrirtækið varð gjaldþrota hefði stofnuninni láðst að gera kröfu í þrotabúið. Þess í stað hefði verið gerð ný krafa á A.

Umboðsmaður Alþingis lauk athugun sinni á málinu með bréfi 31. janúar 2013.

Umboðsmaður rakti að ekki væri mælt fyrir með skýrum hætti í lögum um hlutverk og starfssvið stjórnar Innheimtustofnunar sveitarfélaga. Hann taldi þó réttast að A freistaði þess að leita með erindið til stjórnar stofnunarinnar áður en það kæmi til umfjöllunar hjá embætti sínu, enda ætti stjórn stofnunarinnar þá eftir atvikum kost á því að taka afstöðu til þess hvort erindið heyrði undir starfssvið hennar. Umboðsmaður lauk athugun sinni á málinu en tók fram að ef hann kysi að leita með málið til stjórnarinnar gæti hann leitað til sín á nýjan leik teldi hann enn á rétt sinn hallað að fenginni afstöðu hennar til erindisins.

1971, nr. 54. Lög um Innheimtustofnun sveitarfélaga - 2. gr.

1996, nr. 491. Reglugerð um innheimtu og skil á meðlögum o.fl. á vegum Innheimtustofnunar sveitarfélaga

1997, nr. 85. Lög um umboðsmann Alþingis - 3. mgr. 6. gr., 1. mgr. 10. gr.