Menntamál. Háskólar.

(Mál nr. 7269/2012)

A kvartaði yfir tveimur úrskurðum áfrýjunarnefndar í kærumálum háskólanema. Með öðrum úrskurðinum var kæru hennar á synjun um inngöngu í meistaranám vísað frá áfrýjunarnefndinni með vísan til þess að hún hefði ekki tæmt kæruleiðir innan viðkomandi háskóla og henni leiðbeint um að kæra ákvörðun deildarráðs til rektors. Í hinum úrskurðinum var fjallað efnislega um kæruna eftir að niðurstaða rektors lá fyrir í málinu og kröfu A hafnað þar sem hana vantaði sex einingar til þess að vera heimilt að útskrifast með bakkalárgráðu.

Umboðsmaður Alþingis lauk athugun sinni á málinu með bréfi 28. janúar 2013.

Umboðsmaður taldi að orðalag í lögum um opinbera háskóla um að rektor, og forsetar í umboði hans, bæru ábyrgð á innritun nemenda í háskóla útilokaði ekki að fyrir hendi gætu verið málskots- og kæruleiðir innan háskóla í málum sem vörðuðu inntökuskilyrði nemenda. Hann gerði því ekki athugasemdir við að áfrýjunarnefndin hefði vísað máli A frá og benti á að skólinn hefði leiðbeint henni um að hægt væri að áfrýja niðurstöðunni til rektors.

Vegna efnislegrar niðurstöðu nefndarinnar benti umboðsmaður á að bundið væri í lög að meistarapróf kæmi til viðbótar bakkalárprófi sem jafngilti a.m.k. 180 stöðluðum námseiningum. Af lögum um opinbera háskóla og lögskýringargögnum að baki þeim varð ráðið að ákvæði laganna um setningu nánari reglna um inntökuskilyrði í einstakar námsleiðir í framhaldsnámi vörðuðu inntökuskilyrði til viðbótar kröfu um bakkalárpróf. Í reglum skólans kæmi auk þess fram að tekið væri mið af viðmiðum stjórnvalda um æðri menntun og prófgráður og í þeim viðmiðum væri bakkalárpróf skilgreint sem lokapróf frá háskóla þar sem nemandi hefði lokið 180-240 einingum af námsleið. Umboðsmaður taldi sig því ekki hafa forsendur til að gera athugasemdir við efnislega niðurstöðu áfrýjunarnefndarinnar. Þá taldi umboðsmaður ekki ástæðu til að aðhafast sérstaklega vegna þess að nefndin hefði ekki tekið afstöðu til athugasemda A um drátt á afgreiðslu erindis hennar innan háskólans.

1997, nr. 85. Lög um umboðsmann Alþingis - 1. mgr. 10. gr.

2006, nr. 63. Lög um háskóla - 2. mgr. 7. gr., 20. gr.

2006, nr. 1152. Reglur um störf áfrýjunarnefndar í kærumálum háskólanem - 1. gr.

2008, nr. 85. Lög um opinbera háskóla - 5. gr., 1. mgr. 18. gr., b-liður 3. mgr. 18. gr.. 1. mgr. 28. gr.