Opinberir starfsmenn. Laun og starfskjör.

(Mál nr. 7311/2012)

A, starfsmaður sýslumannsembættis, kvartaði yfir því að beiðni sem hann sendi embættinu um leiðréttingu launa 10. febrúar 2012 og erindi sem hann og fleiri starfsmenn sendu um slíka leiðréttingu 28. febrúar það ár hefði ekki verið svarað skriflega. A kvartaði einnig yfir því að launaskerðing sem honum var gert að sæta frá og með 1. febrúar 2010 hefði verið ólögmæt þar sem skerðingarnar hefðu ekki náð til allra ríkisstarfsmanna eins og ákvörðun ríkisstjórnar þar að lútandi gerði ráð fyrir. Jafnframt kvartaði hann yfir því að launalækkanir hefðu einungis gengið til baka hjá hluta þeirra ríkisstarfsmanna sem hefðu þurft að sæta þeim.

Umboðsmaður Alþingis lauk athugun sinni á málinu með bréfi 31. janúar 2013.

Þegar kvörtun A barst umboðsmanni var liðið meira en ár frá því að frá því að launaskerðingin kom til framkvæmda. Því voru ekki uppfyllt skilyrði að lögum til að umboðsmaður gæti fjallað um atriði sem lutu að framkvæmd hennar í upphafi. Þá benti umboðsmaður á að launaskerðingin hefði verið leidd til lykta með samkomulagi A og sýslumanns en ekki töku stjórnvaldsákvörðunar. Í samkomulaginu kom fram að lækkunin ætti að gilda í óákveðinn tíma og jafnframt kom fram loforð um að það yrði tekið til endurskoðunar ef tiltekin skilyrði kæmu fram. Í ljósi þessa og þar sem fyrir lá, samkvæmt upplýsingum frá viðkomandi sýslumannsembætti, að nú væru komin fram skilyrði til endurskoðunar á samkomulaginu vegna aukinna fjárveitinga til embættisins, taldi umboðsmaður ekki tilefni til þess að fjalla sérstaklega um drátt á því að launalækkunin gengi til baka. Af svörum sýslumanns til umboðsmanns í tilefni af málinu varð jafnframt ráðið að erindum A frá 10. og 28. febrúar 2012 hefði nú verið svarað. Umboðsmaður taldi því ekki ástæðu til aðhafast frekar að því er varðaði þann þátt málsins.

Að lokum tók umboðsmaður fram að ekki væri víst að þær almennu reglur sem gilda um meðferð á valdheimildum stjórnvalda og málsmeðferðarreglur við töku stjórnvaldsákvarðana ættu við með sama hætti þegar málum væri ráðið til lykta með samkomulagi eins og í þessu tilviki. Ágreining um efndir samninga yrði almennt að leiða til lykta fyrir dómstólum ef ekki næðist að leysa hann með samkomulagi. Umboðsmaður lauk því athugun sinni á málinu en tók fram að ef A yrði ósáttur við það hvernig endurskoðun á launalækkuninni yrði framkvæmd af hálfu sýslumanns væri honum að sjálfsögðu frjálst að leita til sín og hann mundi þá taka afstöðu til þess hvort og í hvaða mæli sú niðurstaða gæti komið til athugunar.

1997, nr. 85. Lög um umboðsmann Alþingis. - 2. mgr. 6. gr., a-liður 2. mgr. 10. gr.