Opinberir starfsmenn. Ráðningar í opinber störf.

(Mál nr. 7216/2012)

A kvartaði yfir sveitarfélags um ráðningu í starf sviðsstjóra á umhverfis- og skipulagssviði sveitarfélags. Umboðsmaður Alþingis lauk athugun sinni á málinu með bréfi 31. janúar 2013. Umboðsmaður gerði ekki athugasemdir við að Reykjavíkurborg hefði lagt áherslu á persónulega eiginleika umsækjenda við ákvörðun um ráðninguna enda taldi hann almennt málefnalegt að byggja á slíkum sjónarmiðum við ráðningar í opinber störf. Hann fékk ekki heldur annað séð en að farið hefði fram heildstætt mat á þeim sjónarmiðum sem komu fram í rökstuðningi um starfið og að þau hefðu verið málefnaleg. Hann taldi sig því ekki hafa forsendur til að gera athugasemdir við þennan þátt málsins. Umboðsmaður tók jafnframt fram að af skráningu úr starfsviðtölum og umsögnum umsagnaraðila yrði ekki annað ráðið en að rökstuðningurinn væri í samræmi við upplifun þeirra sem tóku viðtölin og töluðu við umsagnaraðila. Enn fremur fékk hann ekki annað séð en að ályktanir af þeim væru forsvaranlegar. Þá fékk hann ekki ráðið af gögnum málsins að próf sem umsækjendur þreyttu hefði fengið sérstakt vægi í heildarmati á umsóknum og taldi því ekki tilefni til að fjalla frekar um þann þátt málsins. Að lokum tók umboðsmaður fram að hann teldi ekki ómálefnalegt að líta til reynslu sem viðkomandi hefði öðlast í fyrra starfi hjá stjórnvaldi við ráðningar í opinber störf og teldi því ekki forsendur til að fjalla frekar um það atriði í kvörtun A. Að öllu þessu virtu taldi umboðsmaður ekki forsendur til að taka málið til nánari athugunar og lauk meðferð sinni á því.

1997, nr. 85. Lög um umboðsmann Alþingis - 1. mgr. 10. gr.