Opinberir starfsmenn. Ráðningar í opinber störf.

(Mál nr. 7278/2012)

A kvartaði annars vegar yfir ákvörðun Umferðarstofu um ráðningu í starf hjá stofnuninni. Hins vegar kvartaði hún yfir því að tiltekin staða innan stofnunarinnar hefði ekki verið auglýst laus til umsóknar þegar sá sem sinnti henni lét af störfum heldur hefði annar starfsmaður stofnunarinnar verið fluttur í starfið. Umboðsmaður Alþingis lauk athugun sinni á málinu með bréfi 31. janúar 2013. Umboðsmaður fékk ekki annað séð en að þau sjónarmið sem Umferðarstofa lagði til grundvallar ákvörðun um ráðninguna væru málefnaleg og í samræmi við auglýsingu um starfið. Hann tók jafnframt fram að af gögnum málsins yrði ráðið að við ákvörðunartökuna hefði ekki verið lögð áhersla á tiltekna þekkingu og reynslu sem A kvaðst hafa til að bera. Í starfsauglýsingunni væri þess auk þess ekki getið að sú þekking eða reynsla væri meðal menntunar- og hæfniskrafna heldur virtist hafa verið lögð áhersla á sjónarmið um aðra þekkingu og færni. Umboðsmaður taldi því ekki tilefni til frekari athugunar á þessum þætti málsins. Af gögnum málsins fékk umboðsmaður ekki annað ráðið en að heildstætt mat hefði farið fram á umsækjendum um starfið og að það mat Umferðarstofu að umsækjandinn sem hlaut starfið félli best að sjónarmiðum sem voru lögð til grundvallar við töku ákvörðunarinnar hefði verið forsvaranlegt. Umboðsmaður tók einnig fram að verkefni sem A fékk ekki kost á að leysa úr hefðu verið lögð fyrir þá umsækjendur sem teknir voru til nánara mats og þá til að meta þá innbyrðis. Þar sem A var ekki á meðal þeirra umsækjenda taldi umboðsmaður ekki tilefni til að gera athugasemdir við að henni hefði ekki verið gefinn kostur á að sýna færni sína í verkefninu. Með vísan til alls þessa taldi umboðsmaður ekki tilefni til nánari athugunar á ákvörðun Umferðarstofu um ráðningu í starfið. Hvað varðaði þann þátt kvörtunarinnar sem beindist að flutningi í stöðu hjá Umferðarstofu tók umboðsmaður fram að tæp tvö ár væru liðin frá ráðstöfun starfsins og því væru ekki uppfyllt skilyrði að lögum fyrir því að taka flutning starfsmanns stofnunarinnar í þá stöðu til efnislegrar skoðunar á grundvelli kvörtunarinnar. Þar sem málinu varð ekki skotið til innanríkisráðuneytisins með stjórnsýslukæru gerði umboðsmaður ekki heldur athugasemd við að ráðuneytið hefði svarað erindi sem A sendi því vegna málsins með almennum hætti. Hann taldi hins vegar að sá nítján mánaða tími sem það tók ráðuneytið að svara bréfinu hefði verið umfram það sem samrýmdist almennt málshraðareglum stjórnsýsluréttar. Að lokum tók hann fram að ábendingar A um auglýsingarskyldu og flutning í starfið yrðu hafðar til hliðsjónar kæmi til þess að taka að eigin frumkvæði umboðsmanns til athugunar hvernig háttað væri framkvæmd á reglum um auglýsingar á lausum störfum hjá ríkinu. Hins vegar yrði kvörtunin ekki tekin til frekari athugunar að þessu leyti. Umboðsmaður lauk meðferð sinni á málinu.

1996, nr. 70. Lög um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins. - 7. gr., 19. gr.

1997, nr. 85. Lög um umboðsmann Alþingis. - 2. mgr. 6. gr., 1. mgr. 10. gr.