Námslán vegna skólagjalda. Framhaldsnám erlendis. Jafnræðisregla. Verklagsreglur. Lögmætisregla. Skyldubundið mat stjórnvalda.

(Mál nr. 982/1994)

A kvartaði yfir synjun Lánasjóðs íslenskra námsmanna um að veita henni lán fyrir skólagjöldum vegna náms í Y mannfræði við háskóla í London. Var synjun lánasjóðsins byggð á því að mannfræðinám væri í boði til BA-prófs við Háskóla Íslands og því væri skilyrðum greinar 4.8. í úthlutunarreglum sjóðsins ekki fullnægt. Í skýringum lánasjóðsins kom fram að samkvæmt verklagsreglu sjóðsins væri litið svo á að háskólanám yrði stundað hér á landi nema um væri að ræða a.m.k. eins árs sérhæfingu í hinum erlenda skóla og væri þar eingöngu litið til skyldunáms. Umboðsmaður tók fram að samkvæmt 1. mgr. 16. gr. laga nr. 72/1982, um námslán og námsstyrki, skyldi ráðherra setja frekari ákvæði um framkvæmd laganna, meðal annars meginreglur um rétt til námsaðstoðar, en önnur atriði skyldi setja í úthlutunarreglur sjóðsins. Gengið hefði verið út frá því að úthlutunarreglur ættu að vera skýrar og aðgengilegar þannig að námsmenn gætu sjálfir kynnt sér rétt sinn til námsaðstoðar. Umboðsmaður tók fram að verklagsregla um túlkun greinar 4.8. hefði verið sett af vafamálanefnd stjórnar sjóðsins árið 1990, án þess að gerð hefði verið um hana sérstök bókun eða hún birt. Taldi umboðsmaður að stjórn lánasjóðsins hefði verið óheimilt að beita vinnureglum, sem breyttu eða þrengdu efni greinarinnar og að vinnureglan gæti ekki talist sjálfstæð réttarheimild þar sem hún væri hvorki sett né birt með þeim hætti sem lög mæltu fyrir um. Stjórninni hefði verið heimilt að setja reglur sem byggðust á lögum og reglum um lánasjóðinn til þess að stuðla að samræmi og jafnræði við framkvæmd þeirra, en ekki væri heimilt að afnema með slíkum vinnureglum það mat sem henni væri ætlað að leggja á einstök mál. Hefði stjórninni borið að meta það, í máli A, hvort og þá að hve miklu leyti námið yrði stundað á Íslandi og leggja sjálfstætt mat á það, hvort nám A veitti henni rétt til láns vegna skólagjalda. Mæltist umboðsmaður til þess að mál A yrði endurupptekið, óskaði hún þess, og leyst úr því í samræmi við framangreind sjónarmið. Þá benti umboðsmaður á að þörf væri á að endurskoða lög og úthlutunarreglur um Lánasjóð íslenskra námsmanna þannig að ótvírætt yrði að úthlutunarreglur sjóðsins samræmdust rétti til námslána samkvæmt lögum um Lánasjóð íslenskra námsmanna og beindi þeim tilmælum til menntamálaráðherra að þessa yrði gætt við endurskoðun laganna.

I. Hinn 3. janúar 1994 leitaði til mín A og kvartaði yfir synjun Lánasjóðs íslenskra námsmanna um að veita henni lán fyrir skólagjöldum vegna náms í Y mannfræði við X. II. Í kvörtuninni og gögnum málsins kemur fram, að A hafi sótt um lán vegna skólagjalda hjá Lánasjóði íslenskra námsmanna, þegar hún byrjaði nám sitt í framangreindum skóla haustið 1991. Þeirri umsókn hafi verið synjað af þeirri ástæðu, að mannfræði væri kennd í Háskóla Íslands. Þá hafi beiðni hennar frá 17. september 1993 um endurskoðun umsóknar hennar verið hafnað hinn 18. október 1993 með svohljóðandi bréfi: "Við Háskóla Íslands er hægt að ljúka BA prófi í mannfræði eins og kunnugt er, en það er sama nám og þú stundar erlendis. Samkvæmt úthlutunarreglum sjóðsins á skólaárunum 1990-91 og 1991-92 var það nám á grunnháskólastigi sem hægt var að stunda hér á landi ekki lánshæft vegna skólagjalda. Miðað við þær upplýsingar sem fyrir liggja um uppbyggingu náms þíns nema þau skyldunámskeið sem þú þarft að taka í [Y] mannfræði ekki eins árs námi. Stjórnin getur því ekki veitt þér undanþágu frá ofangreindum reglum." A telur forsendur synjunarinnar ekki réttar og vísar til skrár skólans yfir þau námskeið, sem tekin eru til BSc-prófs í [Y] mannfræði við framangreindan skóla, sem sýni, að námskeið, sem flokkast undir líffræðilega mannfræði, teljist 4-1/2 eining, sem sé meira en mögulegt eða heimilt sé að taka á einu ári. Þá vísar hún til vottorðs ... prófessors við Háskóla Íslands, þar sem staðfest sé, að A leggi stund á nám, sem ekki sé í boði í Háskóla Íslands. Í kvörtuninni kemur ennfremur fram, að A hafi ekki verið mögulegt að taka hluta mannfræðinnar við Háskóla Íslands og bæta síðan [Y] hliðinni við hjá X. III. Ég ritaði stjórn Lánasjóðs íslenskra námsmanna bréf 11. janúar 1994 og óskaði þess, með vísan til 7. og 9. gr. laga nr. 13/1987, um umboðsmann Alþingis, að stjórn lánasjóðsins skýrði viðhorf sitt til kvörtunar A og léti mér í té þau gögn, sem málið snertu. Svar lánasjóðsins barst mér með bréfi, dags. 3. febrúar 1994. Í bréfinu er vitnað til greinar 4.8. í þágildandi úthlutunarreglum lánasjóðsins, þar sem segir, að lán vegna skólagjalda séu aðeins veitt til háskólanáms og sérnáms erlendis, sem ekki verði stundað á Íslandi. Síðan segir: "Samkvæmt þeim upplýsingum sem fyrir liggja hjá LÍN þá stundar [A] nám við [X] með mannfræði sem aðalfag og landafræði sem aukafag. Í mannfræðináminu við skólann eru í boði mismunandi áherslur, annarsvegar á félagslega mannfræði, hinsvegar á [Y] mannfræði. Hvora leiðina sem menn velja eru þeir innritaðir við skólann sem námsmenn í mannfræði, og útskrifast með B.A. próf í mannfræði, þ.e. um það er ekki að ræða að námsmenn útskrifist með gráðu í líffræðilegri mannfræði. Mismunandi skyldufög eru í kjarna námsins eftir því hvor leiðin er valin. Miðað er við að menn taki í náminu 4 heilsársnámskeið (units) á ári, eða 8 hálfsársnámskeið (1/2) unit. Eins árs sérhæfing teldist því vera 4 heilsársnámskeið eða 8 hálfsársnámskeið. Á fyrsta ári í náminu eru skyldunámskeið jafngildi tveggja heilsársnámskeiða eða fjögurra hálfsársnámskeiða, á öðru ári er eitt heilsársnámskeið eða tvö hálfsársnámskeið í skyldu, og á þriðja ári er eitt hálfsársnámskeið skylda. Ef námsmaður velur að leggja áherslu á [Y] mannfræði, eins og [A] gerir í námi sínu, þarf hann að taka á fyrsta ári hálfsársnámskeiðin [a] og [b] í stað hálfsársnámskeiðanna [c] og [d] eða [e] sem menn þurfa að taka ef þeir leggja áherslu á félagslega mannfræði. Á öðru ári þarf námsmaðurinn að taka hálfsársnámskeiðin [f] og [g] í stað heilsársnámskeiðsins [h]. Á þriðja árinu vinnur námsmaðurinn síðan lokaritgerð sem telst jafngilda einu hálfsársnámskeiði. Auk þessara skyldufaga tekur námsmaðurinn valnámskeið og námskeið í aukafagi. Af skyldufögunum eru því tvö hálfsársnámskeið í [Y] mannfræði á fyrsta ári, tvö hálfsársnámskeið á öðru ári og eitt hálfsársnámskeið á þriðja ári. Af skyldunámskeiðum eru því samtals 5 hálfsársnámskeið í [Y] mannfræði. Við Háskóla Íslands er eins og áður sagði í boði mannfræðinám sem aðalgrein til B.A prófs. Ekki er þó um sömu möguleika á sérhæfingu við HÍ að ræða eins og við [X], þannig mun að sögn [prófessors í mannfræði við HÍ einungis] komið inn á [Y] mannfræði í einu námskeiði í mannfræði við HÍ. ... Þetta hefur þó ekki áhrif á niðurstöðu stjórnar LÍN, þar sem skyldufög í [Y] mannfræði hjá þeim námsmönnum sem leggja sérstaka áherslu á þennan þátt mannfræðinnar eru einungis 5 hálfsársnámskeið, þ.e. innan við eins árs nám, auk þess útskrifast hún ekki með gráðu í [Y] mannfræði, heldur með B.A. próf í mannfræði. Við mat á því hvort námsmaður eigi rétt á láni vegna skólagjalda, skv. fyrrgreindri grein úthlutunarreglna, hefur ekki verið tekið tillit til þess hvort námsmaður geti valið önnur valnámskeið en í boði eru hérlendis, eða til þess hvort um áherslumun er að ræða í uppbyggingu námsins, ef ljóst er að í boði er nám í sömu námsgrein hérlendis. Að lokum skal það tekið fram að engin fordæmi eru fyrir því að veita lán vegna skólagjalda til B.A. náms í mannfræði erlendis frá því ofangreind ákvæði voru sett í úthlutunarreglur LÍN, enda er það ljóst að mannfræði er kennd til B.A. prófs við Háskóla Íslands." Hinn 8. febrúar 1994 gaf ég A kost á að koma að athugasemdum í tilefni af skýringum lánasjóðsins. Í svarbréfi hennar, dags. 6. apríl 1994, segir meðal annars svo: "Rétt er að ekki er hægt að útskrifast frá [X] með gráðu í [Y] mannfræði. Hins vegar stendur mönnum til boða að sérhæfa sig í þeirri grein og útskrifast þá með BSc próf. Er ég hóf nám við mannfræðideild [X], var ég upprunalega skráð sem BA nemi á grundvelli Menntaskólanáms míns við fornmáladeild Menntaskólans í Reykjavík. Því var síðar breytt og er ég nú BSc nemi, sem gefur skýrari mynd af því námi sem ég hef stundað í deildinni. Hvað varðar skyldunámskeið mín hefur lánasjóðurinn rétt fyrir sér varðandi fyrstu tvö námsárin. Fjögur hálfsársnámskeið eru skráð sem skylda í [Y] mannfræði samkvæmt opinberum bæklingi skólans um námsgreinina. Hins vegar ber að geta þess að til að fullnægja lágmarkskröfum deildarinnar verða nemendur sem sérhæfa sig í [Y] mannfræði að ljúka fleiri námskeiðum í greininni en þarna er tekið fram, sem útskýrir misræmið í hugmyndum mínum og lánasjóðsins um fjölda skyldunámskeiða. Rétt er að leiðrétta þann misskilning að lokaritgerð mín gildi einungis 1/2 unit (samanber einu hálfsársnámskeiði). Eins og fram hefur komið í bréfum mínum bæði til þín og LÍN, er gildi hennar heilt unit (samanber einu heilsársnámskeiði), eins og sjá má af vottorðum þeim sem send voru LÍN um námsframvindu mína fyrsta misseri þessa skólaárs. Að lokum ber að geta þess að rangt er að taka verði 4 heilsársnámskeið á ári hverju við [X]. Á þriðja ári ber einungis að taka 3 heilsársnámskeið til prófs." Með bréfi 18. maí 1994 óskaði ég eftir því, að mér yrðu send gögn eða yfirlýsing frá skóla A, þar sem framangreindar upplýsingar hennar um gildi lokaritgerðar og kröfur deildarinnar um að þeim, sem hyggjast sérhæfa sig í [Y] mannfræði, beri að ljúka fleiri námskeiðum í greininni en þeim, sem nefnd eru skyldunámskeið í bæklingi skólans. Svarbréf A barst mér hinn 10. júní 1994 ásamt bréfi X, dags. 31. maí s.á. Í bréfi skólans er staðfest, að lokaritgerð A jafngildi heilsársnámskeiði. Um fyrrgreindar kröfur deildarinnar segir svo: "... although we only require 4 half units (2 full units) of work in [Y] anthropology as part of the B.Sc. in Anthropology and Geography, all students are expected to select additional options in their particular area of interest. Because of [A]'s special interest in [Y] anthropology, she in fact took 4,5 units out of the required 11 units to complete this degree. This is equivalent to more than a year's study in [Y] anthropology and makes up 41% of her entire degree programme. In view of the fact that [A] is doing a joint degree in Anthropology and Geography, it would have been difficult for her to take more physical anthropology courses and at the same time complete the other requirements for her degree. In the view of the department, [A] has completed more than enough units in physical anthropology to proceed to a higher degree in that field." Í tilefni ofangreinds bréfs óskaði ég eftir því með bréfi 10. júní 1994, að stjórn Lánasjóðs íslenskra námsmanna skýrði afstöðu sína til þess. Í svarbréfi lánasjóðsins, dags. 28. júní 1994, kemur fram, að stjórnin hafi á þeim tíma, er um ræðir í máli þessu, túlkað grein 4.8. í úthlutunarreglum sjóðsins þannig, að BA-nám verði stundað á Íslandi, nema um sé að ræða a.m.k. eins árs sérhæfingu í þeim skóla erlendis þar sem greiða þurfi skólagjöld, þ.e. umfram það nám, sem hægt sé að stunda hérlendis. Um framangreint bréf skólans segir, að ekki sé um að ræða beina skyldu til að taka umræddar valgreinar, og því ekki hægt að nefna neinn einingafjölda. Af bréfinu sé ljóst, að A hafi, með því að ljúka 4,5 einingum í [Y] mannfræði, tekið fleiri einingar í greininni en krafist sé af skólanum. Síðan segir í bréfi lánasjóðsins: "... Einungis hefur verið litið til uppbyggingar skyldunámsins þegar metið er hvort um eins árs sérhæfingu er að ræða umfram það sem í boði er hérlendis. Það er því ljóst að samkvæmt ofangreindri reglu er ekki tekið tillit til þeirra umframeininga í [Y] mannfræði sem [A] hefur valið að ljúka þegar metið er hvort um sérhæfingu umfram eitt ár er að ræða. Fjögur heilsársnámskeið jafngilda einu skólaári. [A] lauk í námi sínu sem nemur 4,5 heilsársnámskeiðum í [Y] mannfræði, þar af var um einhver valnámskeið að ræða sem ekki er krafist af hálfu skóla að ljúka þurfi, þ.e. hún gat útskrifast án þess að ljúka þessum tilteknu valnámskeiðum. Þar sem sjóðurinn tekur ekki tillit til valnámskeiða þegar sérhæfing er metin er niðurstaða stjórnar LÍN sú að hér sé ekki um meira en eins árs sérhæfingu að ræða. [A] á því ekki rétt á láni vegna skólagjalda. Umrætt bréf frá [X] breytir því ekki afstöðu stjórnar LÍN í þessu efni." Með bréfi, dags. 12. desember 1995, óskaði ég upplýsinga frá Lánasjóði íslenskra námsmanna varðandi þá túlkun stjórnarinnar á grein 4.8. í úthlutunarreglunum, að sérhæfing í viðkomandi skóla erlendis verði að nema a.m.k. einu ári og að einungis sé litið til skyldunáms í því sambandi. Óskaði ég upplýst, hver hefði sett framangreinda vinnureglu, hvaða sjónarmið hefðu legið að baki henni og hvort, og þá með hvaða hætti, hún hefði verið birt. Jafnframt óskaði ég eftir að mér yrðu látin í té ljósrit af fundargerðum þeirra funda, þar sem ákvörðun um framangreinda túlkun hefði verið tekin. Loks taldi ég rétt, að stjórn lánasjóðsins upplýsti, hvort og þá með hvaða hætti tekið væri tillit til valnámskeiða, sem í boði væru í Háskóla Íslands, við mat á því, hvort nám á Íslandi teldist sambærilegt námi erlendis. Svarbréf lánasjóðsins barst 23. janúar 1996. Þar segir meðal annars svo: "Eins og fram kom í bréfi stjórnar LÍN til embættis yðar dags 29. janúar 1992 þá var vinnuregla vegna greinar 4.8. í úthlutunarreglum sjóðsins sett á vormánuðum 1990. Vinnureglan kom fram í vafamálanefnd þáverandi stjórnar sjóðsins, en síðan kynnt á stjórnarfundi, án þess að þess sé sérstaklega getið í fundargerð. Fram að því hafði stjórn sjóðsins tekið afstöðu til einstakra mála án þess að í raun væri um neinar ákveðnar túlkunarreglur að ræða. Reynt var að gæta jafnræðis í afgreiðslum stjórnar með því að setja þessa reglu. Samkvæmt vinnureglunni skyldi miða við að í umræddu námi erlendis fælist a.m.k. eins árs sérhæfing umfram það sem í boði væri hér á landi. Frá upphafi var miðað við lágmarkskröfu til að útskrifast erlendis. Litið var á þau skyldunámskeið sem námsmaður þurfti að ljúka til að fá að útskrifast, en ekki tekið tillit til þeirra valnámskeiða sem námsmaður gat bætt að vild við skyldunámskeiðin. Þó var tekið tillit til valnámskeiða ef námsmanni var skylt að velja námskeið af tiltekinni línu. Til samanburðar voru tekin þau námskeið sem námsmanni stóðu til boða á hliðstæðri námsbraut hér á landi, og var þá bæði miðað við skyldunámskeið og valnámskeið. Megintilgangurinn með því ákvæði greinar 4.8. að lán vegna skólagjalda skuli aðeins veitt til háskólanáms og sérnáms erlendis sem ekki verði stundað hér á landi var að takmarka aðgang manna að skólagjaldalánum. Eftir sem áður vildi stjórn sjóðsins halda opnum þeim möguleika að lána vegna skólagjalda til náms erlendis sem alls ekki væri hægt að stunda hér á landi. Það var mat þáverandi stjórnar LÍN að túlka þyrfti þetta ákvæði þröngt að því er varðar hvaða nám verði ekki stundað hérlendis, þess vegna var ofangreind vinnuregla sett og við það miðað að bera saman lágmarkskröfur erlendis og þau námskeið sem í boði eru hérlendis. Á þessum árum voru túlkunarreglur stjórnar ekki birtar formlega, en eins og kunnugt er hafa úthlutunarreglur undanfarin ár verið birtar í Stjórnartíðindum og fyrri vinnureglur stjórnar teknar inn í þær. Á hinn bóginn tíðkaðist að fulltrúar námsmanna í stjórn skýrðu mikilvægustu vinnureglur í blöðum sínum. Það skal tekið fram að í máli [A] skiptir ekki máli hvort miðað er einungis við skyldunámskeið við Háskóla Íslands eða hvort valnámskeið eru einnig tekin inn við samanburðinn, niðurstaðan yrði sú sama. Sérhæfingin í námi hennar er ekki umfram nám í eitt ár." IV. Forsendur og niðurstaða álits míns, dags. 23. febrúar 1996, eru svohljóðandi: "Í máli þessu er deilt um túlkun á 1. málslið greinar 4.8. í úthlutunarreglum lánasjóðsins fyrir námsárið 1991-1992. Þar segir, að lán vegna skólagjalda séu aðeins veitt til háskólanáms og sérnáms erlendis, sem ekki verði stundað á Íslandi. Stjórn lánasjóðsins lítur svo á, að háskólanám verði stundað á Íslandi, nema um sé að ræða a.m.k. eins árs sérhæfingu í hinum erlenda skóla, og að einungis verði litið til skyldunáms í því sambandi. Á grundvelli þessarar túlkunar stjórnar lánasjóðsins var A synjað um lán fyrir skólagjöldum vegna náms í lífrænni mannfræði við X. 1. Áður en nánar verður fjallað um framangreint mat stjórnar lánasjóðsins, er rétt að víkja að lagaheimildum menntamálaráðherra og stjórnar Lánasjóðs íslenskra námsmanna til þess að setja nánari ákvæði um námsaðstoð úr sjóðnum. Í 1. mgr. 16. gr. laga nr. 72/1982, um námslán og námsstyrki, sem í gildi voru, þegar umsókn A var hafnað, sagði, að ráðherra setti með reglugerð "frekari ákvæði um framkvæmd þessara laga, m.a. að því er varðar meginreglur um rétt til námsaðstoðar, ákvörðunaratriði varðandi fjárhæð hennar, ákvæði um útborgun lána með jöfnum mánaðargreiðslum o.s.frv." Í 3. mgr. 16. gr. sagði hins vegar, að sjóðstjórn setti reglur um "önnur atriði úthlutunar og [skyldi] árlega gefa út úthlutunarreglur sjóðsins, samþykktar af ráðherra." Samkvæmt orðalagi framangreindrar 16. gr. og forsögu ákvæðisins átti, eins og fram kemur í áliti mínu, sem rakið er í SUA 1992:142, að setja meginreglur um rétt til námsaðstoðar í reglugerð, en önnur atriði í úthlutunarreglur. Hefur löggjafinn byggt á því, að setja ætti ítarlegar reglur í stjórnvaldsfyrirmæli um námslán og námsstyrki. Kom þessi lagaskilningur einnig fram í reglugerð nr. 578/1982, en í 4. tl. 8. gr. reglugerðarinnar var svo mælt fyrir, að eitt af hlutverkum stjórnar lánasjóðsins væri að þróa reglur sjóðsins um úthlutun, endurgreiðslur o.fl., meðal annars með árlegri endurskoðun á reglum. Er því ljóst, að gengið hefur verið út frá því, að úthlutunarreglurnar ættu að vera skýrar og aðgengilegar, þannig að námsmenn gætu séð sjálfir, hvaða rétt þeir ættu til námsaðstoðar hjá lánasjóðnum, sbr. ennfremur 17. gr. reglugerðarinnar varðandi reglur um lán og úthlutun þeirra og 21. gr. hennar varðandi þau atriði, er varða umsækjanda og taka skyldi tillit til í úthlutunarreglum. Í bréfi lánasjóðsins 18. janúar 1996 kemur fram, að fram til þess tíma sem vinnuregla varðandi túlkun greinar 4.8. var sett, á vormánuðum 1990, hafi stjórn sjóðsins tekið afstöðu til einstakra mála án sérstakra túlkunarreglna. Reglan hafi komið fram í vafamálanefnd þáverandi stjórnar og verið kynnt á stjórnarfundi, án þess þó að gerð hafi verið um hana sérstök bókun. Þá kemur fram, að hún hafi ekki verið birt formlega. Með hliðsjón af framangreindri löggjafarstefnu og skýrum ákvæðum 4. tl. 8. gr. og 17. gr. reglugerðar nr. 578/1982, með síðari breytingum, verður að telja, að stjórn lánasjóðsins hafi verið óheimilt að beita vinnureglum, sem breyttu eða þrengdu efni greinar 4.8. í úthlutunarreglunum fyrir árið 1991-1992. Ég tel því, að umrædd vinnuregla geti ekki talist sjálfstæð réttarheimild, þar sem hún var sett á annan hátt en lögákveðinn var í 3. mgr. 16. gr. laga nr. 72/1982 og 17. gr. fyrrgreindrar reglugerðar. Þá verður ráðið af öðrum málum, sem ég hef fengið til umfjöllunar og varða umsóknir um lán vegna skólagjalda, að túlkun greinar 4.8. hafi ekki verið á einn veg á þeim tíma, sem hér um ræðir. Í bréfi Lánasjóðs íslenskra námsmanna, dags. 29. nóvember 1991, vegna máls nr. 646/1992, segir, að samkvæmt bókun 16. ágúst það ár hafi verið ákveðið að breyta þeirri vinnureglu, sem gilt hafi á námsárinu 1990-1991, þannig að nám, sem að meginstofni væri sambærilegt, teldist hliðstætt nám án tillits til þess, hvort 2/3 hlutar þess væru í boði hér á landi. Virðist því sem annarri vinnureglu hafi verið beitt í því máli en þeirri, sem vitnað er til í máli því, sem hér um ræðir, þrátt fyrir að um sama námsár, þ.e. námsárið 1991-1992, hafi verið að ræða. Með hliðsjón af framanrituðu tel ég að framkvæmd laganna hafa verið til þess fallin að valda óvissu hjá námsmönnum um rétt sinn. 2. Eins og að framan er rakið, tel ég, að umræddar vinnureglur stjórnar Lánasjóðs íslenskra námsmanna, sem voru óljósar og ekki birtar með þeim hætti, sem mælt var fyrir um í lögum og reglugerð um Lánasjóð íslenskra námsmanna, verði ekki taldar sjálfstæð réttarheimild, sem synjun um námslán verði byggð á. Ég tel hins vegar, að stjórn Lánasjóðs íslenskra námsmanna hafi verið heimilt að setja reglur, byggðar á lögum og reglum um lánasjóðinn, til þess að stuðla að samræmi og jafnrétti við framkvæmd þeirra. Slíkar reglur eru í eðli sínu viðmiðunarreglur, sem stjórn lánasjóðsins hefur sett á grundvelli þess hlutverks síns, að taka ákvarðanir um lánveitingar úr sjóðnum, sbr. 8. gr. reglugerðar nr. 578/1982, um námslán og námsstyrki, er átti við í máli því, sem hér er til umræðu. Þegar stjórn sjóðsins er fengið vald til þess að taka ákvörðun, sem best á við í hverju máli, með tilliti til allra aðstæðna, er henni þó óheimilt að afnema með slíkum vinnureglum það mat, sem henni er fengið. Samkvæmt orðalagi greinar 4.8. í úthlutunarreglum fyrir árið 1991-1992 varð lán vegna skólagjalda aðeins veitt til háskólanáms og sérnáms erlendis, sem ekki yrði stundað á Íslandi. Stjórn sjóðsins bar því að meta, hvort og þá að hve miklu leyti nám það, sem sótt var um lán til, yrði stundað á Íslandi. Samkvæmt upplýsingum lánasjóðsins var umrædd vinnuregla sett meðal annars í þeim tilgangi að gæta jafnræðis í afgreiðslum stjórnar sjóðsins. Þrátt fyrir að heimilt sé að styðjast við viðmiðunarreglur, sbr. framanritað, til að stuðla að samræmi í úrlausnum, verður engu að síður að leggja mat á hvert mál fyrir sig og leysa úr því á sjálfstæðan hátt. Óumdeilt er í málinu, að unnt er að stunda nám í mannfræði við Háskóla Íslands. Samkvæmt upplýsingum frá Háskóla Íslands er aðeins boðið upp á eitt námskeið í [Y] mannfræði, sem A hafði hug á að sérhæfa sig í. Samkvæmt upplýsingum X byggðist nám hennar upp á skyldunámi og valfögum. Þá var ætlast til þess, að nemendur tækju fleiri valfög í þeirri grein mannfræðinnar, sem þeir vildu leggja áherslu á, og námu þau námskeið, sem A tók í [Y] mannfræði, 41% af heildarnámi hennar við skólann. Þá kemur fram í bréfi lánasjóðsins, þar sem lögð er sérstök áhersla á hlutfall skyldunámskeiða í námi A, að skyldunámskeið í mannfræði námu samtals 3-1/2 einingu, þar af voru 2 1/2 eining (5 hálfsársnámskeið) í [Y] mannfræði. Með hliðsjón af framanrituðu og því, sem að öðru leyti hefur komið fram í málinu um nám A, tel ég, að tilefni hafi verið til að leggja sjálfstætt mat á það, hvort nám A veitti henni rétt til láns vegna skólagjalda. Eru það því tilmæli mín til Lánasjóðs íslenskra námsmanna, að mál A verði endurupptekið, ef ósk kemur um það frá henni, og síðan úr því leyst í samræmi við framangreind sjónarmið. 3. Í beiðni A frá 17. september 1993 um endurskoðun umsóknar hennar um lán vegna skólagjalda kemur fram, að hún fari ekki fram á, að henni verði veitt lán aftur í tímann, heldur eingöngu frá og með haustönn 1993. Þá höfðu nýjar reglur tekið gildi um Lánasjóð íslenskra námsmanna, lög nr. 21/1992, reglugerð nr. 210/1993 og úthlutunarreglur fyrir námsárið 1993-1994. Samkvæmt grein 4.8.1. í þeim úthlutunarreglum var lán vegna skólagjalda erlendis aðeins veitt til framhaldsháskólanáms. Samkvæmt grein 4.8.2. í sömu reglum áttu þeir námsmenn, sem nutu lána vegna skólagjalda á námsárinu 1991-1992 eða fyrr, rétt á lánum samkvæmt fyrri reglum, þar til þeir lykju námi. Ég tel rétt að skýra framangreint ákvæði 4.8.2. á þann hátt, að þeir námsmenn, sem átt hafi rétt á lánum á þargreindum námsárum, skuli eiga rétt á lánum samkvæmt fyrri reglum, þar til þeir ljúka námi. Teljist A eiga rétt á láni, þegar nám hennar hefur verið metið í samræmi við þau sjónarmið, sem rakin eru hér að framan, er það því skoðun mín, að sá réttur nái til láns samkvæmt beiðni hennar í september 1993. 4. Samkvæmt 1. gr. laga um Lánasjóð íslenskra námsmanna veitir sjóðurinn lán til framhaldsnáms við skóla, sem gera sambærilegar kröfur til undirbúningsmenntunar og gerðar eru til háskólanáms erlendis. Í lögunum er réttur til láns vegna skólagjalda ekki takmarkaður með þeim hætti, sem kveðið var á um í umræddri grein 4.8. í úthlutunarreglum sjóðsins fyrir árið 1991-1992. Lögin veita menntamálaráðherra og stjórn lánasjóðsins hins vegar heimild til að setja nánari ákvæði um námsaðstoð úr sjóðnum, eins og vikið hefur verið að hér að framan. Ég tel þau vafamál, sem upp hafa komið um túlkun framangreinds ákvæðis úthlutunarreglnanna, benda til þess, að þörf sé á að endurskoða lög og úthlutunarreglur um Lánasjóð íslenskra námsmanna, þannig að ótvírætt verði, að úthlutunarreglur sjóðsins samræmist rétti til námslána samkvæmt lögum um Lánasjóð íslenskra námsmanna. Beini ég því þeim tilmælum til menntamálaráðuneytis, að það beiti sér fyrir því að þessa verði gætt við endurskoðun laga um Lánasjóð íslenskra námsmanna." V. Sjá um afdrif málsins í kafla 14.1.