Skattar og gjöld. Innheimtuhættir.

(Mál nr. 6938/2012)

A ehf. kvartaði yfir útreikningi á dráttarvöxtum innheimtumanna ríkissjóðs, einkum því fyrirkomulagi sem Fjársýsla ríkisins viðhefði við skuldajöfnun milli gjaldflokka. Félagið vakti einnig athygli á því að erindi félagsins til fjármálaráðuneytisins frá 9. febrúar 2011, þar sem óskað var eftir endurútreikningi á dráttarvöxtum sem höfðu stofnast þegar leiðrétting var gerð á sköttum og gjöldum félagsins fyrir tiltekið árabil, hefði ekki verið svarað fyrr en beiðninni var hafnað 23. janúar 2012.

Umboðsmaður Alþingis lauk athugun sinni á málinu með bréfi 31. janúar 2013.

Umboðsmaður fékk ekki annað séð en að skýringar í bréfi fjármálaráðuneytisins til A ehf. á fyrirkomulagi endurútreikninga vegna skattbreytinga hjá Fjársýslu ríkisins væru í samræmi við reglur ráðneytisins um forgang greiðslna og skuldajöfnuð í tekjubókhaldskerfi ríkisins. Í skýringum fjármála- og efnahagsráðuneytisins til umboðsmanns vegna málsins kom fram að við endurútreikning væri inneignum í gjaldflokki þinggjalda og útsvars skuldajafnað þegar hverju tekjuári lyki í samræmi við ákvæði laga um staðgreiðslu opinberra gjalda og jafnframt væri skuldajafnað eftir hvert uppgjörstímabil virðisaukaskatts í samræmi við ákvæði laga þar að lútandi. Að öðru leyti væri skuldajafnað innan hvers gjaldflokks og síðan á móti gjaldföllnum skuldum í öðrum gjaldflokkum í samræmi við reglur ráðuneytis, lög og reglugerðir áður en inneignir ásamt inneignarvöxtum væru greiddar út. Í ljósi þess að löggjafinn hefur með skýrum hætti mælt fyrir um að skuldajöfnuður skuli eiga sér stað á ákveðnum tíma í málum er heyra undir lög um staðgreiðslu opinberra gjalda og lög um virðisaukaskatt sem og að skýringar ráðuneytisins báru með sér að þær reglur væru virtar í framkvæmd taldi umboðsmaður ekki ástæðu til að gera athugasemdir við svör ráðuneytisins til A ehf. Þar sem kvörtun A ehf. laut almennt að gildandi fyrirkomulagi þessara mála benti umboðsmaður félaginu hins vegar á að ef það teldi að ráðuneytið hefði ekki leyst úr máli félagsins með fullnægjandi hætti gæti það leitað til sín á ný og tilgreint nánar að hvaða útreikningum kvörtunin beindist.

Þar sem fjármála- og efnahagsráðuneytið lýsti því yfir að það myndi sjá til þess að reglur um forgang greiðslna og skuldajöfnuð í tekjubókhaldskerfi ríkisins yrðu birtar á vefsíðu ráðuneytisins taldi umboðsmaður ekki tilefni til að aðhafast frekar vegna birtingar reglnanna. Með tilliti til þeirrar afstöðu ráðuneytisins að afgreiðsla þess á erindi A ehf. hefði dregist lengur en samrýmst getur óskráðri meginreglu stjórnsýsluréttar um að svara erindum innan hæfilegs tíma og þeirra áforma ráðuneytisins að upplýsa framvegis um drátt mála skriflega og með reglubundnum hætti taldi umboðsmaður ekki heldur tilefni til að aðhafast frekar út af því atriði.

Umboðsmaður lauk athugun sinni á málinu. Hann ritaði fjármála- og efnahagsráðherra þó bréf þar sem hann benti á að í ljósi réttaröryggissjónarmiða væri rétt væri að láta fara fram athugun á því hvort reglurnar ætti að færa í búning almennra stjórnvaldsfyrirmæla sem birt yrðu í B-deild Stjórnartíðinda.

1987, nr. 45. Lög um staðgreiðslu opinberra gjalda - 1. mgr. 36. gr.

1988, nr. 50. Lög um virðisaukaskatt - 3. mgr. 25. gr.

1993, nr. 37. Stjórnsýslulög - 1. mgr. 9. gr., 3. mgr. 9. gr.

1997, nr. 85. Lög um umboðsmann Alþingis - a-liður 3. mgr. 3. gr., 1. mgr. 10. gr., a-liður 2. mgr. 10. gr.

2005, nr. 15. Lög um Stjórnartíðindi og Lögbirtingarblað - 1. mgr. 3. gr.



I Viðbrögð stjórnvalda

Í bréfi til fjármála- og efnahagsráðherra kom ég þeirri ábendingu á framfæri að reglur um forgang greiðslna og skuldajöfnuð í tekjubókhaldskerfi ríkisins frá árinu 1995, og breytingar á reglunum sem voru gerðar árið 2009, væru fyrirmæli opinbers eðlis sem lytu að uppgjöri skuldamála einstaklinga og lögaðila við ríkissjóð. Þær innihéldu m.a. ákvæði um forgang skulda í tilteknum gjaldflokkum og skuldajöfnuð inneigna vegna ofgreiðslu eða breytinga á höfuðstól eða vaxtakröfu. Því væri ljóst að reglurnar gætu haft verulega fjárhagslega þýðingu fyrir hagsmuni viðkomandi aðila. Ég taldi þó ekki hægt að fullyrða að lagaskylda stæði til þess að birta reglurnar í B-deild Stjórnartíðinda. Með þetta í huga, og í ljósi réttaröryggissjónarmiða er liggja að baki birtingu réttarreglna, kom ég því á framfæri að ég teldi þó í betra samræmi við vandaða stjórnsýsluhætti að ráðuneytið léti fara fram athugun á því hvort færa ætti reglurnar í búning almennra stjórnvaldsfyrirmæla og birta þær í Stjórnartíðindum í stað þess að birta þær á vefsíðu ráðuneytisins. Þá benti ég á að getið væri um gildistökudag reglnanna og hvenær breytingar sem gerðar væru á þeim tækju gildi. Þær upplýsingar væru mikilvægar fyrir borgara og lögaðila í þeim skilningi að þeir gætu gert sér grein fyrir því hvaða reglur giltu á ákveðnu tímabili og því metið réttarstöðu sína út frá því. Þetta væri í samræmi við þær kröfur sem leiddu af réttaröryggissjónarmiðum um að reglur væru aðgengilegar þannig að hægt væri að kynna sér efni og tilvist þeirra. Í tilefni af fyrirspurn minni um málið barst mér svarbréf fjármála- og efnahagsráðuneytisins, dags. 11. febrúar 2013, þar sem fram kemur að ráðuneytið myndi fara yfir reglurnar og athuga hvort betur færi á að birta þær í B-deild Stjórnartíðinda.

Ég óskaði eftir upplýsingum um framvindu málsins með bréfi, dags. 27. febrúar 2015. Í bréfi fjármála- og efnahagsráðuneytisins, dags. 28. apríl 2015, kemur fram að ráðuneytið hafi óskað eftir því við embætti tollstjóra og Fjársýslu ríkisins að unnin yrði tillaga að reglum um forgang greiðslna og skuldajöfnuð sem birta mætti í B-deild Stjórnartíðinda. Ráðuneytið hafi fengið tillögu að slíkum reglum til skoðunar frá tollstjóra en þau drög þarfnist nokkurra breytinga áður en að birtingu geti orðið, m.a. hvað tilvísun til lagaheimilda varðar. Enn sé því til skoðunar af hálfu ráðuneytisins að birta slíkar reglur en vinnan hafi dregist af ólíkum ástæðum.

II

Um framvindu þessa máls hefur áður verið fjallað í ársskýrslum mínum 2013, bls. 125, 2014, bls. 113-114 og 2015, bls. 88-89.

Í bréfi til fjármála- og efnahagsráðherra kom ég þeirri ábendingu á framfæri að reglur um forgang greiðslna og skuldajöfnuð í tekjubókhaldskerfi ríkisins frá árinu 1995, og breytingar á reglunum sem voru gerðar árið 2009, væru fyrirmæli opinbers eðlis sem lytu að uppgjöri skuldamála einstaklinga og lögaðila við ríkissjóð. Því væri ljóst að reglurnar gætu haft verulega fjárhagslega þýðingu fyrir hagsmuni viðkomandi aðila. Í ljósi réttaröryggissjónarmiða er liggja að baki birtingu réttarreglna, kom ég því á framfæri að ég teldi í betra samræmi við vandaða stjórnsýsluhætti að ráðuneytið léti fara fram athugun á því hvort færa ætti reglurnar í búning almennra stjórnvaldsfyrirmæla og birta þær í Stjórnartíðindum í stað þess að birta þær á vefsíðu ráðuneytisins. Þá benti ég á að getið væri um gildistökudag reglnanna og hvenær breytingar sem gerðar væru á þeim tækju gildi. Þær upplýsingar væru mikilvægar fyrir borgara og lögaðila í þeim skilningi að þeir gætu gert sér grein fyrir því hvaða reglur giltu á ákveðnu tímabili og því metið réttarstöðu sína út frá því.

Í tilefni af fyrirspurn minni um málið barst mér svarbréf fjármála- og efnahags-ráðuneytisins, dags. 11. febrúar 2013, þar sem fram kom að ráðuneytið myndi fara yfir reglurnar og athuga hvort betur færi á að birta þær í B-deild Stjórnartíðinda. Í bréfi fjármála- og efnahagsráðuneytisins, dags. 28. apríl 2015, kom fram að ráðuneytið hefði óskað eftir því við embætti tollstjóra og Fjársýslu ríkisins að unnin yrði tillaga að reglum um forgang greiðslna og skuldajöfnuð sem birta mætti í B-deild Stjórnartíðinda. Ráðuneytið hefði fengið tillögu að slíkum reglum til skoðunar frá tollstjóra en þau drög þörfnuðust nokkurra breytinga áður en af birtingu gæti orðið.

Í bréfi fjármála- og efnahagsráðuneytisins, dags. 14. febrúar 2017, er upplýst um að reglur nr. 797/2016, um greiðsluforgang og skuldajöfnun skatta og gjalda, hafi verið birtar í B-deild Stjórnartíðinda 8. september 2016.