Svör við erindum. Fyrirspurnir.

(Mál nr. 7331/2012 og 7332/2012)

Hinn 3. janúar 2013 kvartaði A yfir því að velferðarráðuneytið hefði ekki svarað fyrirspurnum hans frá 10. og 17. desember 2012.

Umboðsmaður Alþingis lauk athugun sinni á málinu með bréfi 10. janúar 2013.

Þegar kvörtun A barst umboðsmaður voru liðnar rétt um fjórar vikur frá því að hann beindi fyrirspurnum sínum fyrst til velferðarráðuneytisins. Umboðsmaður taldi almennt eðlilegt að gefa stjórnvöldum heldur meira svigrúm til að svara einstökum erindum en næmi þeim tíma áður en hann hæfi afskipti af máli. Hann taldi því ekki ástæðu að svo stöddu til að leita skýringa velferðarráðuneytisins vegna erinda A en tók fram að ef óeðlilegar tafir yrðu á afgreiðslu þeirra gæti hann leitað til sín á ný. Almennt væri þó rétt að þeir sem teldu tafir orðnar á meðferð erinda sem þeir hefðu lagt fyrir stjórnvöld gengju í fyrsta kasti sjálfir eftir viðbrögðum stjórnvalda áður en umboðsmaður tæki mál til meðferðar á grundvelli kvörtunar, sérstaklega þegar tafir væru ekki orðnar verulegar. Almennt yrði því gengið eftir því að skrifleg gögn um slíka ítrekun fylgdu með kvörtun áður en hún yrði tekin til meðferðar.

1997, nr. 85. Lög um umboðsmann Alþingis - 3. mgr. 6. gr., 1. mgr. 10. gr.