Svör við erindum. Kvartanir eða kærur til æðri stjórnvalda eða eftirlitsstofnana.

(Mál nr. 6911/2012)

Hinn 29. febrúar 2012 kvartaði A ehf. yfir því að fjármálaráðuneytið hefði ekki afgreitt stjórnsýslukæru félagsins frá 7. september 2011 vegna ákvörðunar Áfengis- og tóbaksverslunar ríkisins um að hafna umsókn um sölu á tveimur tegundum áfengra drykkja.

Umboðsmaður Alþingis lauk athugun sinni á málinu með bréfi 31. janúar 2013.

Í skýringum fjármála- og efnahagsráðuneytisins til umboðsmanns vegna málsins 31. janúar 2013 kom fram að erindinu hefði nú verið svarað. Svarbréf ráðuneytisins til A ehf. fylgdi með skýringunum og kom þar m.a. fram að talið hefði verið rétt að bíða með afgreiðslu kærunnar vegna meðferðar máls fyrir héraðsdómi Reykjavíkur þar sem reyndi á sambærileg sjónarmið. Með hliðsjón af þeirri niðurstöðu í ráðgefand áliti EFTA-dómstólsins að velsæmisákvæði vöruvalsreglna ÁTVR gengju gegn ákvæðum EES-samningsins, hefði ÁTVR nú ákveðið að taka umsóknina fyrir að nýju og ráðuneytið myndi því ekki aðhafast frekar í málinu. Umboðsmaður taldi því ekki ástæðu til að aðhafast frekar vegna málsins en tók fram að A ehf. gæti leitað til sín að nýju að fenginni nýrri afgreiðslu ÁTVR og eftir atvikum fjármála- og efnahagsráðuneytisins teldu forsvarsmenn félagsins það enn rangindum beitt.

Þá ritaði umboðsmaður fjármála- og efnahagsráðuneytinu bréf þar sem hann gerði athugasemdir við málshraða ráðuneytisins í máli A ehf. og tók fram að ákvörðun stjórnvalds um að láta afgreiðslu mála bíða niðurstöðu dómstóla jafnvel svo mánuðum skipti samrýmdist ekki sjónarmiðum sem málshraðaregla stjórnsýslulaga byggðist á. Hann vakti því athygli ráðuneytisins á nauðsyn þess að gæta þess að haga afgreiðslu stjórnsýslukæra þannig að þeim yrði lokið svo fljótt sem unnt væri og, ef svo bæri undir, að aðilar málsins yrðu upplýstir um fyrirhugaðar tafir og hvenær úrlausnar væri að vænta.

Þar sem fjármála- og efnahagsráðuneytið svaraði ekki erindi umboðsmanns fyrr en um 10 mánuðum eftir að fresti til svara lauk taldi hann jafnframt óhjákvæmilegt að árétta að umboðsmanni Alþingis væri í lögum tryggður réttur til að krefja stjórnvöld um þær upplýsingar og skýringar sem hann þarfnaðist vegna starfs síns og að sá dráttur sem varð á svörum við erindinu hefði ekki samrýmst þeim sjónarmiðum sem lög um umboðsmann Alþingis byggjast á.

1993, nr. 37. Stjórnsýslulög. - 1. mgr. 9. gr., 3. mgr. 9. gr.

1997, nr. 85. Lög um umboðsmann Alþingis - 7. gr., a-liður 2. mgr. 10. gr.