I.
Hinn 28. september 1994 bar A fram kvörtun yfir þeirri ákvörðun stjórnar Lánasjóðs íslenskra námsmanna, að synja honum um námslán vegna náms við tæknibraut Fjölbrautaskóla Suðurlands, sem hann taldi sambærilegt námi við frumgreinadeild Tækniskóla Íslands.
Í bréfi mínu til A, dags. 30. janúar 1996, sagði meðal annars svo:
"Ég ritaði Lánasjóði íslenskra námsmanna bréf 6. október 1994 og óskaði eftir að því, að stjórn lánasjóðsins skýrði viðhorf sitt til kvörtunar yðar. Sérstaklega var óskað upplýsinga um, hvort nám það, sem þér legðuð stund á, væri sambærilegt því námi, sem væri í boði í frumgreinadeild Tækniskóla Íslands og, ef svo væri ekki, að gerð yrði grein fyrir því, að hvaða leyti það væri ósambærilegt. Þá óskaði ég upplýsinga um, hvaða sjónarmið hefðu legið til grundvallar þeirri ákvörðun, að gera nám við frumgreinadeild Tækniskóla Íslands lánshæft.
Svarbréf Lánasjóðs íslenskra námsmanna barst mér með bréfi, dags. 13. október 1994. Þar segir meðal annars svo:
"Þegar ákveðið var að gera nám við frumgreinadeild Tækniskóla Íslands lánshæft lágu fyrir upplýsingar um að þessi námsbraut hefði nokkra sérstöðu í íslenska skólakerfinu. Þessi sérstaða kemur m.a. fram í námsvísi frumgreinadeildarinnar, og var staðfest í viðtölum forráðamanna lánasjóðsins við starfsmenn menntamálaráðuneytisins. Í framhaldsskólum landsins er boðið upp á nám í samræmi við "Námskrá handa framhaldsskólum". Skipulag náms á tæknibraut fer hins vegar eftir námskránni eins og skipulag annars náms til stúdentsprófs við þessa skóla. Námskráin tekur ekki til náms við frumgreinadeild Tækniskóla Íslands.
Í námsvísi frumgreinadeildar 1990-91 segir svo:
"Viðbúið er að nokkurs misræmis gæti gagnvart NÁMSKRÁ þar sem tæknibraut dregur óhjákvæmilega dám af almennu bóknámi framhaldsskólastigs en í námsvísi frumgreinadeildar er stefnt að markmiðum sem kveðið er á um í lögum og reglugerð um Tækniskóla Íslands. Þetta skal skýrt að nokkru hér á eftir.
Frá stofnun Tækniskóla Íslands hefur undirbúnings- og raungreinadeild, þ.e. frumgreinadeild, haft sérstöðu í íslensku skólakerfi. Deildinni var og er ætlað að tryggja verkmenntuðu fólki viðhlítandi undirbúningsmenntun til þess að geta hafið nám á háskólastigi. Í því efni varð og verður enn að taka tillit til þess háttar náms í nágrannalöndum þar sem allmörgum nemendum þessa skóla er beinlínis ætlað að ljúka tæknifræðinámi erlendis. Þetta hefur haft tvennt í för með sér við skipan náms í frumgreinadeild. Annars vegar hefur verið reynt að miða við markvissan undirbúning að tæknifræðinámi og hliðstæðu námi á háskólastigi og hins vegar að tryggja nemendum eilítið forskot, einkum í stærðfræði og eðlisfræði, með hliðsjón af sambærilegu námi erlendis. Af þessum sökum hefur þótt óhjákvæmilegt að leggja meira á nemendur frumgreinadeildar en almennt tíðkast í framhaldsskólum hérlendis á jafn skömmum tíma."
Í námskeiðalýsingum námsvísisins er þess síðan getið hvort um hliðstæða áfanga er að ræða í "Námskrá handa framhaldsskólum", og hvar engin hliðstæða er sjáanleg. Niðurstaðan er sú að af þeim 35 námskeiðum sem kennd voru í frumgreinadeild veturinn 1990-1991 eru 5 námskeið án hliðstæðu, 11 námskeið eru hliðstæð að hluta til. (Í námsvísinum segir orðrétt: "hliðstæðan er engan veginn fullkomin".) Um 6 námskeið gildir síðan að taka þarf fleiri en einn áfanga samkvæmt námskrá til að fá sama námsefni. Samkvæmt upplýsingum frá Tækniskólanum hefur sérstaða frumgreinadeildarinnar frekar aukist hin síðari ár með auknum kröfum.
Það er ljóst að samkvæmt úthlutunarreglum LÍN, sbr. greinar 1.1. og 1.2.2. að sjóðnum er ekki ætlað að lána til náms í fjölbrautaskólum og öðrum skólum sem að meginstofni er liður í undirbúningi til stúdentsprófs eða sambærilegs prófs. Vegna þessa hefur sjóðurinn ekki lánað til náms á tæknibrautum fjölbrauta- og iðnskóla. En vegna áðurnefndrar sérstöðu frumgreinadeildarinnar féllst stjórn LÍN á að hún skuli talin lánshæf."
Í bréfi, dags. 24. nóvember 1994, koma fram athugasemdir yðar við bréf Lánasjóðs íslenskra námsmanna. Þar segir meðal annars svo:
"Það að til skulu vera sérstök lög og reglugerð um Tækniskóla Íslands skapar honum ekki sjálfkrafa sérstöðu hvað varðar nám á framhaldsskólastigi (þ.e. í frumgreinadeild). Það sem máli skiptir í þessu sambandi er annars vegar það hvort stefnt sé að sömu markmiðum (á tæknibrautum framhaldsskólanna og frumgreinadeild Tækniskólans) og hins vegar það hvort innihald námsins sé í raun sambærilegt. Fyrir liggur að markmiðssetning fyrir brautirnar eru sambærilegar og ekkert liggur fyrir um það, hvorki frá menntamálaráðuneytinu né Tækniskólanum, að nám á tæknibrautum framhaldsskólanna sé lakari undirbúningur en nám í frumgreinadeild Tækniskólans. Því hlýtur mismunun á lánsrétti hjá LÍN að teljast óeðlileg.
Í niðurlagi bréfs LÍN kemur fram að það stangist á við úthlutunarreglur LÍN að námið á tæknibraut sé lánshæft þar sem það sé "að meginstofni [...] liður í undirbúningi til stúdentsprófs eða sambærilegs prófs". Um nám í frumgreinadeild hlýtur að gilda hið sama. Því hlýtur LÍN annað hvort að þurfa að breyta almennu úthlutunarreglunum í þessu sambandi eða að láta undantekninguna frá meginreglunni ná bæði til tæknibrauta framhaldsskólanna og frumgreinadeildar Tækniskólans. Mismununin er fráleit."
Auk framangreindra athugasemda, bárust mér 31. október 1994 athugasemdir stjórnar Sambands iðnmenntaskóla, fyrir yðar hönd. Þar segir, að nám á tæknibraut sé, samkvæmt námskrá handa framhaldsskólum frá árinu 1990, fyrst og fremst undirbúningur fyrir nám í Tækniskóla Íslands og veiti einnig inngöngu í verkfræðideildir og fleiri deildir á háskólastigi. Brautin hafi sama markmið og hlutverk og frumgreinadeild Tækniskólans og sérstaða þeirra sé því sú sama. Þá segir í bréfi Sambands iðnmenntaskóla:
"Þó breytingar kunni að hafa verið gerðar á áfangaskipan í námsvísi frumgreinadeildar hefur markmiðið ekki breyst. Skólarnir hafa ekki fengið neina tilkynningu, hvorki frá ráðuneyti né Tækniskólanum, um að nám af tæknibrautum sé ekki fyllilega sambærilegt og jafngilt námi við frumgreinadeild Tækniskóla Íslands eins og kveðið var á um í námskránni frá 1990.
Það, að iðn- og verkmenntaskólarnir fara eftir námskrá menntamálaráðuneytisins en frumgreinadeild Tækniskóla Íslands ekki, getur varla verið tilefni til þess að mismuna nemendum þessara brauta þannig að sumir fái námslán en aðrir ekki.
Þar sem vitnað er í bréfi LÍN í námsvísi frumgreinadeildar frá 1990-1991 og haldið er fram sérstöðu frumgreinadeildarinnar er rétt að taka fram að öll efnisatriði sem þar eru greind eiga jafnt við um tæknibrautirnar. Sérstaða tæknibrautanna er m.ö.o. sú sama og frumgreinadeildarinnar.
Þá getur það heldur ekki talist sérstaða frumgreinadeildar Tækniskólans þótt eitthvað sé þar hnikað til námsefni á milli áfanga miðað við það sem gert er í námskrá ráðuneytisins.
Stjórn Sambands iðnmenntaskóla fellst ekki á að efnisleg rök séu fyrir því að nemum í frumgreinadeild Tækniskóla Íslands séu veitt námslán en ekki nemum á tæknibrautum iðn- og verkmenntaskólanna."
Hinn 20. febrúar 1995 barst mér bréf Lánasjóðs íslenskra námsmanna, ásamt bréfi frá Tækniskóla Íslands, dags. 7. febrúar 1995, þar sem fram kemur, að Tækniskólinn telur nám við tæknibraut iðn- eða fjölbrautaskóla ekki sambærilegt námi í frumgreinadeildum skólans. Í bréfinu kemur fram, að skólinn hafi lagt sig fram um að finna og meta hliðstætt nám í almennum framhaldsskólum. Ýmsar deildir skólans taki inn stúdenta með starfsreynslu, en oft þurfi nemendur að bæta við sig. Í bréfinu er vitnað til þess, er segir um tæknibraut í Námskrá handa framhaldsskólum, 3. útgáfu 1990, þar sem fram kemur, að brautin sé ætluð þeim, sem lokið hafi iðnnámi eða hliðstæðu almennu námi, og sé fyrst og fremst undirbúningur náms í Tækniskóla Íslands en veiti einnig inngöngu í verkfræðideild og fleiri deildir Háskóla Íslands. Síðan segir í bréfi Tækniskólans:
"Ætlunin var að samræma áfanga tæknibrautar í einstökum greinum við það sem tíðkaðist í frumgreinadeild Tækniskólans. Það dróst úr hömlu... .
Á hverju ári hefur Námsvísir frumgreinadeildar Tækniskólans verið sendur til fjölbrauta- og iðnmenntaskóla. Þar var reynt að benda á misræmi milli áfanga. Ýmis tormerki virðast hafa verið á því hjá téðum skólum að taka mið af þessum upplýsingum. Hugsanlega var það erfitt innan ramma Námskrár handa framhaldsskólum og e.t.v. viðbúið að þeir telji sig í raun þurfa að hafa almennara námsframboð, t.d. vegna stærðar og áhugasviðs námshópa, og námið því ekki eins markviss undirbúningur undir sérnám í TÍ og tök eru á að hafa í frumgreinadeild þess skóla. Í Námskránni er miðað við að skilyrði til inngöngu á tæknibraut séu lok iðnnáms en það ákvæði hefur verið túlkað mjög frjálslega í sumum skólum, nemar tekið áfanga þar samhliða iðnnámi (þ.e. yngri) og "tæknistúdentar" jafnvel útskrifaðir án þess að þeir hafi nokkurn tímann lokið iðnnámi. Vera má að tæknibrautum sé líka ætlaður of skammur tími (4 annir eftir iðnnám) og það atriði kom raunar til umræðu við endurskoðun Námskrár 1990."
Þá er í bréfi Tækniskólans vitnað til óformlegs samanburðar, sem umsjónarmenn námsgreina í frumgreinadeild (flokksstjórar) gerðu á áfangalýsingu og kennsluskrá sex fjölbrauta- og iðnmenntaskóla. Í bréfinu segir, að fundist hafi hliðstæður í einstaka áföngum, en algengara hafi verið að misræmis gætti. Þá kemur fram í bréfinu, að sá samanburður, sem vitnað er til í bréfi Lánasjóðs íslenskra námsmanna, dags. 13. október 1994, hafi leitt til þess, að ástæða þætti til að nemar úr "hliðstæðu" námi í öðrum skólum þyrftu að taka frekar fleiri en færri áfanga í frumgreinadeild:
"Við þennan samanburð komu enn sem fyrr í ljós býsna losaraleg tengsl milli áfanga þar sem um þau var yfirleitt að ræða. Ekki þótti undarlegt miðað við inntökukröfur til nýnema að þrjá fyrstu áfanga þyrfti til að jafnast á við fyrsta áfanga í frumgreinadeild en þeir gátu jafnvel orðið fjórir. Því ofar sem dró þeim mun tilfinnanlegra var misræmið: Ýmist var efnið ekki kennt eða farið yfir efni sem nýttist ekki sem undirbúningur að námi í sérgreinadeildum Tækniskólans sem frumgreinadeild er ætlað að búa menn undir."
Um inntak náms þess, er hér um ræðir, og forsendur þess fólks, sem stundar nám í frumgreinadeild, segir í bréfi Tækniskólans:
"Meirihluti nýnema í frumgreinadeild hefur áður lokið burtfararprófi úr iðnskóla og aðrir hafa starfsreynslu sem metin er gild til inngöngu í sérgreinadeildir. Meðalaldur þeirra, sem hefja nám í deildinni, hefur lengi verið 25-27 ár og nú á vorönn 1995 er hann 26,5 ár (124 nemendur). Aldursþroskinn er áreiðanlega hluti af skýringu þess, að þetta fólk stenst álagið sem það verður að rísa undir í þessu tveggja vetra námi, þótt mörgum reynist það torsótt, einkanlega fyrst í stað eftir langt hlé, og allmargir gefist upp. Stærstur hluti þessa hóps hefði ekki tök á að stunda nám nema eiga kost á námslánum. [...] Ef þessi hópur ætti þess ekki lengur kost að stunda nám með svipuðum hætti og verið hefur, væri mjög hæfum hópi nemenda gert ókleift að leggja stund á tækninám. Þar með væri í raun búið að loka fyrir aðgang að hinni hefðbundnu leið í tæknifræðinám hérlendis."
Ég ritaði Lánasjóði íslenskra námsmanna bréf 24. nóvember 1995 og óskaði upplýsinga um, hvort stjórn sjóðsins hefði tekið afstöðu til framangreinds bréfs Tækniskólans og, ef svo væri, hvort í henni fælist breyting á viðhorfi hennar til kvörtunar yðar. Í svarbréfi lánasjóðsins, dags. 15. desember 1995, kemur fram, að stjórnin hafi fjallað um efni bréfsins og fallist á rök Tækniskólans um sérstöðu náms í frumgreinadeild. Nám í þeirri deild skólans sé því lánshæft. Nám á tæknistúdentsbrautum sé hins vegar talið almennt undirbúningsnám og því ólánshæft sem fyrr.
II.
Samkvæmt 2. mgr. 1. gr. laga nr. 21/1992, um Lánasjóð íslenskra námsmanna, veitir sjóðurinn lán til framhaldsnáms við skóla, sem gera sambærilegar kröfur til undirbúningsmenntunar og gerðar eru til háskólanáms hérlendis. Í 2. gr. sömu laga er kveðið á um heimild lánasjóðsins til að veita öðrum námsmönnum námslán en þeim, sem falla undir skilgreiningu framangreindrar 2. mgr. 1. gr., enda stundi þeir sérnám. Stjórn sjóðsins setur nánari reglur um, til hvaða sérnáms skuli lánað.
Reglur um lánshæft sérnám eru í greinum 1.2.2. og 1.2.3 í úthlutunarreglum Lánasjóðs íslenskra námsmanna fyrir námsárið 1994-1995. Jafnframt því sem í grein 1.2.2. er ákvarðað, við hvaða sérskóla lánshæft nám verði stundað, er tekið fram, að nám í fjölbrautaskólum og öðrum skólum, sem að meginstofni er liður í undirbúningi til stúdentsprófs eða sambærilegs prófs, sé að jafnaði ekki lánshæft. Samkvæmt grein 1.2.3. er heimilt að veita lán til annars sérnáms en þess, er grein 1.2.2. tekur til, enda sé um nægilega veigamikið nám að ræða, er varði eðli þess og uppbyggingu og starfsréttindi að mati stjórnar. Námsmaður í slíku námi þarf að hafa náð ákveðnum lágmarksaldri og námið má að meginstofni ekki vera liður í undirbúningi undir stúdentspróf eða sambærilegt próf. Þá eru taldir þeir skólar, þar sem lánshæft nám verður stundað samkvæmt þessari grein, þar á meðal Tækniskóli Íslands. Náms við tæknibrautir fjölbrautaskóla er ekki getið í upptalningu umræddra greina.
Í máli þessu liggur fyrir, að stjórn Lánasjóðs íslenskra námsmanna hefur tekið afstöðu til náms í frumgreinadeild Tækniskóla Íslands og metið slíkt lán lánshæft samkvæmt lögum og reglum sjóðsins. Sú ákvörðun byggist á því, að nám við frumgreinadeild skólans hafi sérstöðu í íslensku skólakerfi. Er það skoðun mín, með vísan til þess, er greinir hér á eftir, að stjórn Lánasjóðs íslenskra námsmanna hafi þar ekki lagt til grundvallar ólögmæt sjónarmið við úrlausn þess, hvað talið verði sérnám í skilningi laga um lánasjóðinn. Ég tel því, eins og máli þessu er háttað, ekki ástæðu til að gera athugasemdir við þetta mat stjórnarinnar.
Þér teljið inntak náms við tæknibrautir fjölbrautaskóla og frumgreinadeild Tækniskóla Íslands sambærilegt, auk þess sem stefnt sé að sömu markmiðum. Teljið þér synjun lánasjóðsins því mismuna nemendum skólanna með því að meta annað námið lánshæft en ekki hitt. Með vísan til skýringa Lánasjóðs íslenskra námsmanna og þess, er komið hefur fram um samanburð á umræddu námi, tel ég ekki ástæðu til að gera athugasemdir við mat sjóðsins á því, hvort inntak námsins sé sambærilegt.
Nám við frumgreinadeild Tækniskólans fer eftir lögum nr. 66/1972 og reglugerð nr. 278/1977, um Tækniskóla Íslands. Er þar kveðið á um markmið skólans og skipulag, auk inngönguskilyrða. Í 3. gr. reglugerðarinnar kemur fram, að upphaf náms við skólann sé eðlilegt framhald af iðnnámi og öðru verknámi, eftir því sem við getur átt. Er deildinni ætlað að tryggja verkmenntuðu fólki viðhlítandi undirbúningsmenntun til þess að geta hafið nám á tæknifræðistigi. Markmið deildarinnar er því, eins og tæknideilda framhaldsskólanna, að undirbúa nemendur fyrir framhaldsnám í Tækniskóla Íslands eða háskólanám í tæknigreinum. Auk framangreinds markmiðs, stefnir nám í frumgreinadeild að þeim markmiðum, sem sérstaklega er kveðið á um í lögum og reglugerð um Tækniskóla Íslands. Slíkt nám felur í sér frekari námsmöguleika iðn- og verkmenntaðra manna, með starfsreynslu að baki, sem vegna sérstöðu sinnar, þar á meðal aldurs, hentar ef til vill síður að stunda nám í almennum framhaldsskólum. Það er því skoðun mín, að markmið náms við frumgreinadeild, sem starfar samkvæmt sérlögum um Tækniskóla Íslands, sé að nokkru leyti víðtækara og annars eðlis en markmið náms í fjölbrautaskólum landsins og skapi því sérstöðu gagnvart öðru undirbúningsnámi.
Eins og að framan greinir, tel ég ekki ástæðu til athugasemda við úrlausn stjórnar Lánasjóðs íslenskra námsmanna varðandi sérstöðu og lánshæfi náms við frumgreinadeild Tækniskóla Íslands, eða niðurstöðu hennar um það, hvort um sambærilegt nám sé að ræða, er stefni að sömu markmiðum. Þá tel ég, að ekki verði ráðið af þeim gögnum, sem fyrir mig hafa verið lögð, að nám við tæknibraut Fjölbrautaskóla Suðurlands, sem stundað er eftir lögum um framhaldsskóla, hafi þá sérstöðu meðal annarra deilda framhaldsskóla, að réttlætt geti undantekningu frá ótvíræðum ákvæðum laga og reglna um Lánasjóð íslenskra námsmanna um að sérnám í skilningi laganna nái ekki til náms, sem að meginstofni til er undirbúningur undir stúdentspróf. Er það því niðurstaða mín, að ekki sé ástæða til athugasemda við afgreiðslu Lánasjóðs íslenskra námsmanna á lánsumsókn yðar vegna náms við tæknideild Fjölbrautaskóla Suðurlands."