Skattar og gjöld.

(Mál nr. 7224/2012)

A kvartaði yfir því að ólögráða dóttir hans þyrfti að greiða 3.300 kr. til að geta fengið útgefið nafnskírteini sem hún þarf að framvísa til að geta nálgast fé sem hún á á bankareikningi. Umboðsmaður Alþingis lauk athugun sinni á málinu með bréfi 30. nóvember 2012. Umboðsmaður tók fram að bankinn sem um ræddi væri einkaaðili sem teldist ekki hluti af stjórnsýslu ríkis og sveitarfélaga. Þá fæli bankastarfsemi, þ. á m. almenn inn- og útlánastarfsemi, ekki í sér töku ákvarðana um rétt og skyldu manna í skilningi stjórnsýslulaga. Því félli það utan starfssviðs umboðsmanns að hafa eftirlit með þeirri starfsemi. Þá taldi umboðsmaður rétt, hefði komið til gjaldtöku fyrir útgáfu nafnskírteinisins, að A freistaði þess að leita með erindi sitt til innanríkisráðherra áður en það kæmi til umfjöllunar hjá umboðsmanni. Umboðsmaður lauk því athugun sinni á erindinu en ákvað þó að eigin frumkvæði að óska tiltekinna skýringa og upplýsinga hjá Þjóðskrá Íslands vegna gjaldtöku fyrir nafn-skírteini. Þá tók hann fram að ef A teldi enn hallað á rétt dóttur sinnar að fenginni afstöðu innanríkisráðherra í málinu gæti hann leitað til sín að nýju.

1962, nr. 54. Lög um þjóðskrá og almannaskráningu. - 3. mgr. 19. gr.

1965, nr. 25. Lög um útgáfu og notkun nafnskírteina. 1. mgr. 1. gr., 6. mgr. 1. gr.

1993, nr. 37. Stjórnsýslulög. - 2. mgr. 1. gr.

1995, nr. 2. Lög um hlutafélög.

1997, nr. 85. Lög um umboðsmann Alþingis. - 1. mgr. 3. gr., 2. mgr. 3. gr., 3. mgr. 6. gr., 1. mgr. 10. gr.

2012, nr. 265. Auglýsing um gjaldskrá vegna þjónustu Þjóðskrár Íslands. – 27. gr.