Námslán og námsstyrkir. Skyldubundið mat. Lögmætisregla.

(Mál nr. 6919/2012)

A leitaði til umboðsmanns Alþingis og kvartaði yfir meðferð málskotsnefndar Lánasjóðs íslenskra námsmanna (LÍN) á erindi hennar vegna umsóknar um námslán fyrir skólaárið 2011-2012. A hafði tafist í námi vegna veikinda og var því synjað um námslán vegna BA-náms, á þeim grundvelli að hún hafði þá þegar verið búin að fá lán í sex ár. Synjunin hafi leitt til þess að hún hafi þurft að hverfa frá námi, sem hún hafi aðeins átt eina önn eftir af.

Grundvöllur synjunar málskotsnefndarinnar var að í úthlutunarreglum LÍN skólaárið 2010-2011 hefði verið fjallað um svonefnda fimm ára reglu, þar sem fram kæmi að námsmaður gæti að hámarki fengið lán í allt að fimm aðstoðarár samanlagt til að ljúka tiltekinni prófgráðu. Þennan rétt hefði A þegar fullnýtt, auk þess sem hún hefði fengið lán til eins árs umfram þá heimild, og því væri sjóðnum ekki heimilt að veita A undanþágu til lánveitingar vegna eins námsárs til viðbótar.

Settur umboðsmaður Alþingis leit til ákvæða laga nr. 21/1992 um Lánasjóð íslenskra námsmanna, einkum til 2. mgr. 12. gr. laganna þar sem veitt er heimild til að veita aukalán, svo sem ef veikindi valda því að námsmanni tekst ekki að standast prófkröfur, og taldi að LÍN væri heimilt að veita lán á grundvelli ákvæðisins, jafnvel þótt námsmaður teldist hafa fullnýtt lánsheimild samkvæmt almennum reglum. Væri sú túlkun best í samræmi við markmið ákvæðisins samkvæmt lögskýringargögnum og markmiðsákvæðum laganna. Þá hafi stjórn LÍN borið að fjalla um erindi A á grundvelli 2. mgr. 12. gr. laga nr. 21/1992 og úthlutunarreglna sem giltu fyrir skólaárið 2011-2012. Það var álit setts umboðsmanns að úrskurður málskotsnefndar LÍN hefði vegna þessa ekki verið í samræmi við lög.

Mæltist settur umboðsmaður því til þess að málskotsnefndin tæki mál A til meðferðar að nýju, kæmi fram ósk um það, og hagaði þá meðferð þess í samræmi við þau sjónarmið sem fram kæmu í álitinu.

I. Kvörtun

Hinn 2. mars 2012 leitaði A til umboðsmanns Alþingis og kvartaði yfir úrskurði málskotsnefndar Lánasjóðs íslenskra námsmanna (LÍN) frá 23. desember 2011 í máli nr. L-30/2011.

Í kvörtuninni og gögnum sem henni fylgdu kemur fram að A hafi verið synjað um námslán skólaárið 2011–2012 vegna BA-náms í alþjóðlegri markaðsfræði sem hún lagði stund á við Háskóla í X í Englandi (University of X). Synjunin hafi verið byggð á því að hún hafi verið búin að fá lán í sex ár til grunnnáms. Synjunin hafi leitt til þess að hún hafi neyðst til að hverfa frá námi en hún hafi aðeins átt eftir eina önn auk þess sem hún hafi átt eftir að ljúka prófum í þremur fögum frá skólaárinu á undan.

Hinn 1. mars 2013 var undirritaður settur í embætti umboðsmanns Alþingis á grundvelli 3. mgr. 14. gr. laga nr. 85/1997 um umboðsmann Alþingis og hefur því farið með mál þetta frá þeim tíma.

Ég lauk máli þessu með áliti, dags. 10. maí 2013.

II. Málavextir

Með erindi A til stjórnar LÍN 5. ágúst 2011 óskaði hún eftir því að endurskoðuð yrði afstaða LÍN frá því í júlí sama ár um að synja henni um námslán fyrir skólaárið 2011–2012. A hafi ekki gert sér grein fyrir því að hún hefði þegar fullnýtt heimildir til námslána samkvæmt úthlutunarreglum LÍN vegna reglna um hámarksnámstíma í grunnnámi og ætti því ekki rétt á frekari lánum. Greindi hún frá persónulegum aðstæðum sínum, fjárhagsvandræðum og veikindum. Hún hefði veikst á árinu 2010 og þá um haustið hefðu veikindin færst í aukana sem hafi leitt til þess að hún hafi komið til Íslands og verið lögð inn á sjúkrahús. Hún hafi náð nokkrum bata og snúið til baka til Englands en verið áfram undir eftirliti lækna. Synjun á því að veita henni umbeðið námslán myndi leiða til þess að hún þyrfti að hverfa frá námi.

Með úrskurði stjórnar LÍN frá 25. ágúst 2011, sem birtur var A með bréfi 30. sama mánaðar, var beiðni hennar synjað með svofelldum hætti:

„Samkvæmt grein 2.3.2 í úthlutunarreglum LÍN skólaárið 2010–2011 getur námsmaður að hámarki fengið lán í allt að fimm ár samanlagt. Heimilt var þó að veita undanþágu skv. grein 2.3.2 ef námsmaður uppfyllti viss skilyrði sem þar eru tilgreind og veita lán í allt að eitt námsár til viðbótar. Á skólaárinu 2010–2011 fékkstu samþykkta slíka undanþágu og hefurðu þar með fengið afgreitt lán í samtals sex aðstoðarár.

Enga heimild er að finna í reglum LÍN til að verða við beiðni þinni og synjar stjórn LÍN því erindi þínu.“

Með kæru sem barst málskotsnefnd LÍN 5. september 2011 kærði A framangreindan úrskurð stjórnar LÍN. Í kærunni byggði hún á sömu sjónarmiðum og áður höfðu komið fram auk þess sem hún kvaðst ekki kannast við að hún hefði áður verið búin að sækja um undanþágu frá fimm ára reglunni. Í athugasemdum stjórnar LÍN til málskotsnefndarinnar 20. september 2011 í tilefni kærunnar kom eftirfarandi meðal annars fram:

„[A] sótti um námslán vegna skólaársins 2011-2012 en var synjað þar sem hún hefur þegar fengið lán í 6 ár til grunnnáms. Stjórn sjóðsins fjallaði um málið á fundi sínum 25. ágúst og þar sem [A] hafði þegar fengið lánað til 6 ára var erindi hennar synjað.

Í erindi [A] til málskotsnefndar heldur hún því fram að hún hafi ekki sótt um undanþágu frá 5 ára reglunni vegna skólaársins 2010-2011. Í tölvupósti sem sendur var [A] 3. ágúst 2010 kemur fram að hún eigi ekki rétt á frekari lánum þar sem hún hefur þegar fengið lánað fyrir 5 árum í grunnnámi. Enn fremur er henni bent á að ef hún sé að ljúka bachelor gráðu sinni geti hún fengið undanþágu og þar með fengið lánað fyrir 6. árinu. Sama dag er undanþágan afgreidd enda lágu fyrir gögn dags. 19. júlí 2010 frá skólanum að hún ætti að ljúka náminu 3. júní 2011. Þessi námslok lágu einnig fyrir í eldri gögnum frá skólanum dags. 16. nóvember 2009. Loks má benda á að [A] var metin inn á annað ár í umrætt nám eins og fram kemur í bréfi frá UCAS í Bretlandi dags. 20. júlí 2009. [A] hefur skilað fullum námsárangri þessi tvö ár sem hún hefur stundað nám í University of [X] og ætti því að hafa lokið námi sl. vor.“

Í athugasemdum A til málskotsnefndar 5. október 2011 byggði hún á sömu sjónarmiðum og áður höfðu komið fram. Með úrskurði málskotsnefndar 23. desember 2011 var hinn kærði úrskurður stjórnar LÍN staðfestur. Í rökstuðningi málskotsnefndar kom eftirfarandi fram:

„Í 2. mgr. 6. gr. reglugerðar nr. 478/2011 um Lánasjóð íslenskra námsmanna segir: „Stjórn sjóðsins er heimilt að setja reglur um hámark lána, t.d. vegna skólagjalda og að miða upphæð lána við námsárangur lánþega á hverri önn, misseri eða skólaári“. Í grein 2.3.2 í úthlutunarreglum LÍN skólaárið 2010-2011, sem sett er af stjórn LÍN, er fjallað um svokallaða fimm ára reglu þar sem fram kemur að uppfylltum skilyrðum um námsframvindu geti námsmaður að hámarki fengið lán í allt að fimm aðstoðarár samanlagt, nema til komi undanþágur sem er að finna í grein 2.4.2 úthlutunarreglnanna um LÍN. Að uppfylltum einhverjum skilyrðum þeirra undanþága má veita námsmanni lán í allt að eitt ár til viðbótar. Fyrir liggur að kærandi naut slíkrar undanþágu skólaárið 2010-2011 og hefur því fengið lán í sex ár til grunnnáms. Kærandi telst því hafa fullnýtt rétt sinn til námsláns samkvæmt grein 2.3.2 í úthlutunarreglum LÍN og þegar af þeirri ástæðu er sjóðnum ekki heimilt að veita kæranda undanþágu til námsláns í eitt ár til viðbótar. Hinn kærði úrskurður er því staðfestur.“

III. Samskipti umboðsmanns Alþingis og stjórnvalda

Í tilefni af kvörtun A ritaði starfsmaður umboðsmanns bréf til málskotsnefndar LÍN 4. maí 2012 og óskaði eftir því með vísan til 7. og 9. gr. laga nr. 85/1997 um umboðsmann Alþingis að nefndin gerði umboðsmanni grein fyrir viðhorfum sínum til kvörtunarinnar og léti honum í té öll gögn málsins. Auk þess var óskað eftir nánari skýringum og upplýsingum sem hér greinir:

„1. Í [úrskurði málskotsnefndar ...] er fjallað um efni úthlutunarreglna LÍN skólaárið 2010-2011 sem vekur athygli þar sem kærður var úrskurður stjórnar LÍN, dags. 25. ágúst 2011, þar sem beiðni [A] um námslán vegna skólaársins 2011-2012 hafði verið synjað. Af þessu tilefni er óskað eftir skýringum frá nefndinni að þessu leyti og afstöðu til þess hvort að fjallað hafi verið um kæru [A] með fullnægjandi hætti.

2. [...]

Í 1. mgr. 12. gr. laga nr. 21/1992, um [lánasjóð] íslenskra námsmanna, segir að sé námsmanni vegna örorku sinnar, framfærslu barna sinna eða maka eða af öðrum ástæðum illmögulegt að dómi sjóðstjórnar að stunda nám sitt að fullnýttri lánsheimild má veita honum aukalán úr sjóðnum enda verði höfð hliðsjón af þeim bótum sem hann fær samkvæmt gildandi tryggingalöggjöf. Lán þessi séu veitt með sömu kjörum og almenn námslán. Þá segir í 2. mgr. ákvæðisins að stjórn sjóðsins sé heimilt að veita lán með sömu kjörum og almenn námslán vegna annarra áfalla og greinir í 1. mgr., svo sem ef námsmanni stendur ekki tímabundið til boða fullt nám samkvæmt skipulagi skóla eða veikindi valda því að námsmanni tekst ekki að standast prófkröfur.

Með hliðsjón af 12. gr. laga nr. 21/1992 er óskað eftir afstöðu málskotsnefndar til þess hvernig ákvæðið horfir við í aðstæðum [A], þ.e. að veikindi hennar hafa orðið þess valdandi að hún náði ekki að klára nám sitt á þeim tíma sem til stóð sem virðist hafa [haft] þær afleiðingar fyrir hana að henni stendur ekki frekara lán til boða þar sem hún hefur fengið lánað í sex aðstoðarár. Hefðu veikindin ekki komið til þá hefði [A] getað lokið náminu 2011 og þannig staðið til boða námslán allan námstímann að öðru forfallalausu. Ég tek fram að þar sem ég hef ekki gögn málsins undir höndum hef ég ekki upplýsingar um hvaða þýðingu veikindi [A] höfðu á veitingu námsláns til hennar skólaárið 2010-2011, t.a.m. með hliðsjón af svigrúmsreglum í úthlutunarreglum LÍN skólaárið 2010-2011.“

Í svarbréfi málskotsnefndar LÍN 19. júní 2012 kom eftirfarandi fram:

„1. Hvers vegna umfjöllun málskotsnefndar í úrskurði var takmörkuð við úthlutunarreglur 2010-2011.

Málskotsnefnd kannaði ekki hvort kærandi uppfyllti skilyrði úthlutunarreglna 2011-2012 þar sem málskotsnefnd taldi að kærandi hefði þegar tæmt rétt sinn til láns vegna þess BA náms er hún stundaði veturinn 2010-2011. Eins og fram kemur í úrskurðinum fékk kærandi fullt lán á haustönn 2010 og á vorönn 2011 og miðaði lánið við að kærandi hefði lokið öllum þeim 180 einingum sem umrætt nám felur í sér. Kom því eigi til álita að mati málskotsnefndar að veita kæranda aftur lán vegna þessara sömu eininga á haustönn 2011.

2. Hvers vegna málskotsnefnd fjallaði ekki um hvort kærandi hefði rétt á láni vegna veikinda að fullnýttri lánsheimild.

Málskotsnefnd fjallaði ekki um rétt kæranda til viðbótarláns skv. 1. mgr. 12. gr. laga nr. 21/1992. Eins og fram kemur í 1. mgr. 12. gr. laganna má veita námsmanni aukalán úr sjóðnum þegar honum er „vegna örorku sinnar, framfærslu barna sinna eða maka eða af öðrum ástæðum illmögulegt að dómi sjóðstjórnar að stunda nám sitt að fullnýttri lánsheimild, enda verði höfð hliðsjón af þeim bótum sem hann fær samkvæmt gildandi tryggingalöggjöf. Lán þessi eru veitt með sömu kjörum og almenn námslán.“ Kærandi hafði fullnýtt lánsheimild sína skv. svonefndri fimm ára reglu. Kom ekki til athugunar að veita kæranda frekara lán þar sem hún hafði þegar þegið lán vegna þeirra eininga sem hún átti þó eftir að ljúka. Leit nefndin til þess að Lánasjóðurinn hafði veitt kæranda fullt lán veturinn 2010-2011 og hafði kærandi því svigrúm til að ljúka prófum og skila einkunnum síðar og uppfylla skilyrði um veitingu þess námsláns sem hún hafði þegar þegið.”

Með bréfi 21. júní 2012 var A gefinn kostur á að senda athugasemdir í tilefni af framangreindu svarbréfi málskotsnefndar LÍN og bárust þær 10. júlí 2012.

IV. Álit umboðsmanns Alþingis

1. Lagagrundvöllur málsins

Um Lánasjóð íslenskra námsmanna gilda lög nr. 21/1992 með síðari breytingum. Í 1. gr. kemur fram að hlutverk LÍN sé að tryggja þeim sem falla undir lögin tækifæri til náms án tillits til efnahags. Í 1. mgr. 3. gr. laganna er kveðið á um að miða skuli við að námslán samkvæmt lögunum nægi hverjum námsmanni til að standa straum af náms- og framfærslukostnaði meðan á námi stendur að teknu tilliti til fjölskyldustærðar. Í 2. mgr. 3. gr. kemur fram að stjórn LÍN sé heimilt að taka tillit til búsetu og annarra atriða er áhrif kunna að hafa á fjárhagsstöðu námsmanns. Þá segir í 3. mgr. 3. gr. laganna að stjórn sjóðsins setji nánari reglur um úthlutun námslána. Í 1. mgr. 6. gr. er mælt svo fyrir að námslán skuli aldrei veitt fyrr en námsmaður hefur skilað vottorði um tilskilda skólasókn og námsárangur. Námsmaður skuli að jafnaði hafa heimild til að taka lán á hverju misseri meðan hann er við nám, þó ekki lengur en hæfilegur námstími er talinn í þeirri grein og í þeim skóla þar sem nám er stundað, sbr. 3. mgr. sömu greinar. Í 4. mgr. 6. gr. kemur fram að námslán skuli ekki veitt nema námsframvinda sé með eðlilegum hætti. Í 6. mgr. sömu greinar laganna segir síðan að stjórn LÍN sé heimilt að veita námslán allt að hámarksfjárhæð samkvæmt úthlutunarreglum eða fyrir þeirri fjárhæð sem ábyrgð hefur verið veitt fyrir samkvæmt 5. mgr. 6. gr. laganna.

Í 1. mgr. 12. gr. laga nr. 21/1992 er mælt svo fyrir að sé námsmanni vegna örorku sinnar, framfærslu barna sinna eða maka eða af öðrum ástæðum illmögulegt að dómi sjóðstjórnar að stunda nám sitt að fullnýttri lánsheimild megi veita honum aukalán úr sjóðnum enda verði höfð hliðsjón af þeim bótum sem hann fær samkvæmt gildandi tryggingalöggjöf og séu lán þessi veitt með sömu kjörum og almenn námslán. Samkvæmt 2. mgr. 12. gr. laganna er stjórn sjóðsins jafnframt veitt heimild til að veita lán með sömu kjörum og almenn námslán vegna annarra áfalla, en greinir í 1. mgr., svo sem ef námsmanni stendur ekki tímabundið til boða fullt nám samkvæmt skipulagi skóla eða veikindi valda því að námsmanni tekst ekki að standast prófkröfur.

Heimild LÍN til veitingar aukaláns samkvæmt 2. mgr. 12. gr. laga nr. 21/1992 var lögfest með 8. gr. laga nr. 67/1997 og var nýmæli á þeim tíma. Í almennum athugasemdum með frumvarpi því sem varð að lögum nr. 67/1997 kemur meðal annars fram að með frumvarpinu væri lagt til að „sett [yrði] sérstök heimild í lög fyrir stjórn [LÍN] til að geta komið til móts við námsmenn sem verða fyrir skakkaföllum vegna veikinda eða skipulags skóla.“ (Alþt. 1996-1997, A-deild, bls. 4647). Sömu skýringar koma fram í athugasemdum vegna 7. gr. frumvarpsins sem varð að 8. gr. umræddra laga (Alþt. 1996-1997, A-deild, bls. 4648). Að öðru leyti verður ráðið af lögskýringargögnum, einkum af umræðum á Alþingi, að lagabreytingin hafi verið af félagslegum toga og verið ætluð til að styrkja stöðu námsmanna og hún verið tilkomin vegna ábendinga frá samtökum námsmanna. Með breytingunni hafi átt að auka heimildir stjórnar LÍN til lánveitinga svo unnt væri að bregðast við ýmsum óvæntum uppákomum sem hent gætu námsmenn og ættu ekki að verða þess valdandi að tefja þá eða koma þeim úr námi vegna skorts á heimildum LÍN til að bregðast við slíkum aðstæðum. Þá yrði að meta aðstæður hvers og eins námsmanns (Alþt. 1996-1997, B-deild, bls. 5260-5261, 5264-5267, 6735-6736 og 6740).

Samkvæmt 1. mgr. 16. gr. laga nr. 21/1992 er ráðherra veitt heimild til að setja með reglugerð frekari ákvæði um framkvæmd laganna. Þá kemur fram í 2. mgr. 16. gr., sbr. 11. gr. laga nr. 67/1997, að „[sjóðstjórn setji] reglur um önnur atriði er greinir í lögum þessum og reglugerð skv. 1. mgr. Reglurnar skulu samþykktar af ráðherra og birtar í Stjórnartíðindum.“

Í 3. málsl. 1. mgr. 6. gr. reglugerðar nr. 478/2011 um Lánasjóð íslenskra námsmanna er kveðið á um heimild stjórnar LÍN til að setja reglur um hámark einingafjölda í lánshæfu námi. Þá er í 2. mgr. 6. gr. sömu reglugerðar kveðið á um heimild stjórnar LÍN til að setja reglur um hámark lána, til dæmis vegna skólagjalda og að miða upphæð lána við námsárangur lánþega á hverri önn, misseri eða skólaári. Í reglugerðinni er ekki fjallað um veitingu námslána vegna veikinda eða sérstakra áfalla hjá námsmönnum í skilningi 1. eða 2. mgr. 12. gr. laga nr. 21/1992.

Grein 2.3.2 í úthlutunarreglum LÍN 2010-2011 var svohljóðandi:

„Að uppfylltum skilyrðum um námsframvindu getur námsmaður að hámarki fengið lán í allt að fimm aðstoðarár samanlagt. Þó er heimilt að veita námsmanni undanþágu frá ofangreindu hámarki og veita honum lán í allt að eitt námsár til viðbótar ef eitt eftirfarandi skilyrði er uppfyllt:

a) Samanlögð fyrri lán hans hjá sjóðnum nema lægri fjárhæð en 3,0 m.kr.

b) Hann hefur áður staðist lokapróf í lánshæfu námi og á ólokið 60 ECTS-einingum eða færri til lokaprófs í öðru lánshæfu námi. Með lokaprófi er átt við próf til staðfestingar starfs- eða háskólagráðu, en ekki undirbúnings-, fornáms- eða frumgreinapróf.

c) Hann hefur áður a.m.k. í þrjú aðstoðarár á námstíma fengið undanþágu frá almennum skilyrðum um námsframvindu skv. gr. 2.4.5. vegna örorku eða lesblindu. Heildarsvigrúm til þess að ljúka tiltekinni námsbraut getur þó aldrei verið meira en reglur sjóðsins um framvindu náms gera ráð fyrir sbr. grein 2.1. og 2.2.“

Í grein 2.4.3 í úthlutunarreglum LÍN 2010–2011 var kveðið á um sérstaka heimild til þess að veita námsmanni námslán vegna veikinda. Ákvæði af sama tagi var að finna í grein 2.4.3 í úthlutunarreglum fyrir skólaárið 2011-2012, þótt það hafi ekki verið samhljóða, og er einnig að finna í reglunum fyrir skólaárið 2012–2013. Þá var í grein 4.9 í úthlutunarreglum LÍN 2010-2011 og 2011-2012 kveðið á um heimild til þess að veita námsmanni lán vegna röskunar á stöðu og högum. Samhljóða ákvæði er að finna í 1. mgr. greinar 4.9 í úthlutunarreglum 2012–2013 og er það svohljóðandi:

„Heimilt er að veita námsmanni aukalán sem samsvarar framfærslu fyrir allt að 7 ECTS-einingum að teknu tilliti til fjölskyldustærðar verði ófyrirsjáanleg röskun á stöðu og högum námsmanns og reglur þessar ná ekki til hennar að öðru leyti. Á þetta t.d. við þegar námsmanni verður, vegna alvarlegra veikinda, örorku sinnar, framfærslu barna sinna eða maka eða af öðrum ástæðum illmögulegt að stunda nám sitt að fullnýttri lánsheimild. Hafa skal hliðsjón af þeim bótum sem námsmaður fær samkvæmt gildandi tryggingalöggjöf.“

Framangreind úthlutunarregla felur í sér útfærslu á heimild þeirri sem stjórn LÍN er fengin með 12. gr. laga nr. 21/1992. Þótt námsmaður hafi fullnýtt lánsheimildir sínar samkvæmt þeim reglum, sem gilda um úthlutun námslána á hverjum tíma, kemur þannig til greina að veita honum aukalán sem samsvari framfærslu allt að 7 einingum að teknu tilliti til fjölskyldustæðrar verði slík ófyrirsjáanleg röskun á stöðu og högum námsmannsins að honum sé illmögulegt að stunda nám sitt.

Með framangreind lagasjónarmið að leiðarljósi vík ég nú að atvikum málsins.

2. Úrskurður málskotsnefndar og atvik málsins

A leitaði til stjórnar LÍN með beiðni um endurskoðun á þeirri afstöðu sjóðsins að synja henni um frekara lán vegna skólaársins 2011-2012. Af gögnum málsins verður ráðið að A hafi ekki í beiðni sinni um námslán vísað sérstaklega til 2. mgr. 12. gr. laga nr. 21/1992 eða að henni hafi verið leiðbeint um heimild til láns samkvæmt þeirri lagagrein eða 1. mgr. greinar 4.9 í úthlutunarreglum sjóðsins sem í gildi var bæði fyrir skólaárið 2010-2011 og 2011-2012, en það var það skólaár sem beiðni hennar um lán tók til. Stjórn LÍN og málskotsnefndin lögðu aðeins mat á það hvort hún ætti rétt á frekara láni með hliðsjón af grein 2.3.2 í úthlutunarreglum LÍN 2010-2011. Af málsgögnum er hins vegar ljóst að A hélt því greinilega fram að staða hennar í námi og áform um próftöku hefði raskast verulega vegna veikinda sem hún átti við að stríða og því hefði hún ekki getað lokið námi sumarið 2011 eins og áætlað var. Í svörum málskotsnefndar LÍN segir að nefndin hafi ekki fjallað um rétt A til aukaláns samkvæmt 1. mgr. 12. gr. laga nr. 21/1992 þar sem hún hafði fullnýtt lánsheimild samkvæmt úthlutunarreglunum. Verður ekki annað ráðið en að afstaða nefndarinnar sé sú sama varðandi heimild 2. mgr. 12. gr. laganna.

Samkvæmt 2. mgr. 12. gr. laga nr. 21/1992, sbr. 8. gr. laga nr. 67/1997, er sjóðnum heimilt að veita lán með sömu kjörum og námslán „vegna annarra áfalla en greinir í 1. mgr., svo sem ef [...] veikindi valda því að námsmanni tekst ekki að standast prófkröfur.“ Í 2. mgr. 12. gr. er vísað til 1. mgr. sömu lagagreinar. Orðalag 1. mgr. 12. gr. er með þeim hætti að þar er tekið fram að sjóðstjórn sé heimilt að veita aukalán vegna veikinda þegar þannig háttar til að námsmaður hefur „fullnýtt lánsheimild“. Bendir þetta orðalag og tilvísun 2. mgr. til 1. mgr. sömu greinar til þess að túlka eigi ákvæði 2. mgr. þannig að þar sé einnig um að ræða heimild til að veita aukalán þótt lánsheimild sé „fullnýtt? samkvæmt almennum reglum. Er sú túlkun einnig í samræmi við þau markmið sem búa að baki ákvæðinu samkvæmt lögskýringargögnum. Ákvæði 1. mgr. greinar 4.9. í úthlutunarreglum LÍN fól að þessu leyti í sér nánari útfærslu á heimild 12. gr. laga nr. 21/1992, eins og áður er rakið. Í samræmi við 12. gr. laga nr. 21/1992 var sérstaklega fjallað um heimildir til að veita námsmanni aukalán vegna ófyrirsjáanlegrar röskunar á stöðu og högum, meðal annars vegna alvarlegra veikinda hans, í úthlutunarreglum LÍN bæði fyrir skólaárið 2010-2011 og 2011-2012.

Með erindi A til stjórnar LÍN 5. ágúst 2011 óskaði hún eftir því að endurskoðuð yrði afstaða LÍN frá því í júlí sama ár um að synja henni um námslán fyrir skólaárið 2011–2012, en vegna veikinda sinna hafði hún ekki getað lokið námi sínu í Englandi sumarið 2011 eins og áætlað var. Fyrir lá sú afstaða stjórnar LÍN að A hefði þegar fullnýtt lánsheimild sína með því að hafa fengið námslán í sex aðstoðarár, þar á meðal fyrir þær einingar sem hún átti að hafa lokið vorið 2011. Þar sem hún hafði ekki getað staðist prófkröfur þá um vorið vegna veikinda, og að hún hafði þá fullnýtt lánsheimild sína, bar stjórn LÍN að mínu áliti að fjalla um erindi hennar á grundvelli 2. mgr. 12. gr. laga nr. 21/1992 og 1. mgr. greinar 4.9 í úthlutunarreglunum sem giltu fyrir skólaárið 2011-2012 sem erindi hennar miðaði við. Þar sem það var ekki gert er það niðurstaða mín að úrskurður málskotsnefndar Lánasjóðs íslenskra námsmanna í máli hennar nr. L-30/2011 frá 23. desember 2011 hafi ekki verið í samræmi við lög. LÍN gat ekki látið við það sitja að hafna erindi hennar einungis á þeim forsendum að hún hafi á grundvelli úthlutunarreglnanna fullnýtt lánsheimild sína með því að hafa fengið lán í sex aðstoðarár.

V. Niðurstaða

Með vísan til þess sem að framan er rakið er það niðurstaða mín að úrskurður málskotsnefndar Lánasjóðs íslenskra námsmanna í máli A nr. L-30/2011 frá 23. desember 2011 hafi ekki verið í samræmi við lög. Ég mælist til þess að úrskurðarnefndin taki mál hennar til meðferðar að nýju, komi fram ósk um það frá A, og hagi meðferð þess í samræmi við þau sjónarmið sem ég hef gert grein fyrir í þessu áliti.

Undirritaður hefur fjallað um mál þetta sem settur umboðsmaður Alþingis á grundvelli 3. mgr. 14. gr. laga nr. 85/1997 um umboðsmann Alþingis.

Róbert R. Spanó.

VI. Viðbrögð stjórnvalda.

Málskotsnefnd LÍN sendi svarbréf, dags. 27. febrúar 2014, í tilefni af fyrirspurn minni um málið. Þar kemur fram að hinn 15. maí 2013 hafi A farið þess á leit við nefndina að mál hennar yrði endurupptekið á grundvelli álits setts umboðsmanns. Að lokinni athugun málsins hafi nefndin úrskurðað um að fella bæri úr gildi hinn kærða úrskurð stjórnar LÍN í málinu. Úrskurður nefndarinnar fylgdi bréfinu.