Fjármála- og tryggingastarfsemi. Fjármálaeftirlit.

(Mál nr. 6578/2011)

A hf. kvartaði yfir ákvörðun Fjármálaeftirlitsins um að leggja dagsektir á félagið vegna vanrækslu þess á skilum ársskýrslu og árshlutareikninga fyrir árið 2010. A hf. bar því við að félaginu hefði verið veittur frestur til að skila skýrslunum og að ákvörðun um að leggja á dagsektir áður en sá frestur rann út teldist því ólögmæt.

Settur umboðsmaður Alþingis lauk athugun sinni á málinu með bréfi 20. mars 2013.

Af gögnum málsins lá ljóst fyrir að 1. apríl 2011 var A hf. send tilkynning um mögulegar dagsektir vegna vanrækslu á skilum reglubundinna skýrslna fyrir árið 2010 og veittur frestur til 8. apríl 2011 til andmæla. Fjármálaeftirlitið hafnaði beiðni félagsins um frest til skila skýrslunum með bréfi 7. apríl 2011 og félagið andmælti fyrirhugaðri dagsektarákvörðun ekki frekar. Settur umboðsmaður taldi að síðari samskipti stjórnarformanns A hf. og starfsmanns Fjármálaeftirlitsins yrðu ekki með óyggjandi hætti skilin á þann veg að þar hefði stofnunin afturkallað ákvörðun sína um að hafna frestbeiðninni. Tölvupóstur starfsmanns Fjármálaeftirlitsins til stjórnarformannsins hefði því ekki þau réttaráhrif að skapa félaginu réttmætar væntingar um að því hefði verið veittur frestur til 23. maí 2011 til að skila þeim skýrslum. Settur umboðsmaður taldi þar af leiðandi ekki forsendur til að telja að vegna þessara samskipta hefði stofnunina skort heimild að lögum til að ákvarða dagsektir vegna vanrækslu á skýrsluskilum fyrir árið 2010. Settur umboðsmaður horfði einnig til þess að Fjármálaeftirlitið hefði að nokkru marki tekið tillit til sjónarmiða félagsins. Ákvörðunin hefði þannig verið afturkölluð að hluta og dagsektirnar lækkaðar. Af gögnum málsins og skýringum stofnunarinnar varð auk þess ekki ályktað að ákvörðun um að leggja dagsektir á félagið hefði brotið í bága við jafnræðisreglu. Settur umboðsmaður lauk því umfjöllun sinni um málið.

1997, nr. 85. Lög um umboðsmann Alþingis - 1. mgr. 10. gr.

1998, nr. 87. Lög um opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi - 7. mgr. 11. gr.

2002, nr. 161. Lög um fjármálafyrirtæki - 95. gr., 96. gr.

2003, nr. 834. Reglur um reikningsskil lánastofnana - 1. mgr. 89. gr., 2. mgr. 89. gr.

2010, nr. 397. Reglugerð um beitingu dagsekta og févítis í opinberu eftirliti með fjármálastarfsemi - 6. gr., 8. gr.