Fjármála- og tryggingastarfsemi.

(Mál nr. 6584/2011)

A hf. kvartaði yfir því að jafnræðis hefði ekki verið gætt við ákvörðun fjármálaráðuneytisins um að hafna umsóknum félagsins á árunum 2009 og 2010 um víkjandi lán á meðan öðrum bönkum og fjármálafyrirtækjum hafi verið veitt slík lán í kjölfar efnahagshrunsins haustið 2008.

Settur umboðsmaður Alþingis lauk athugun sinni á málinu með bréfi 26. mars 2013.

Þær ráðstafanir og lánafyrirgreiðslur stjórnvalda sem vísað var til í kvörtun A hf. voru víkjandi lán sem B hf., C hf. og D hf. var veitt af hálfu ríkisins. Þá vísaði A hf. til þess að hinum ýmsu sparisjóðum hefðu verið veittar fyrirgreiðslur af hálfu stjórnvalda. Settur umboðsmaður benti á að lánveitingar til B, C og D hafi byggst á svokölluðum „neyðarlögum“, þ.e. lögum um heimild til fjárveitingar úr ríkissjóði vegna sérstakra aðstæðna á fjármálamarkaði, og heimildum í fjárlögum og fjáraukalögum. Þær heimildir hafi verið bundnar við ný fjármálafyrirtæki, annars vegar nýju bankana þrjá og hins vegar banka og sparisjóði sem voru að hluta eða öllu leyti í eigu ríkisins. Að sama skapi hefði heimild fjármálaráðherra í tengslum við aðgerðir vegna sparisjóða verið bundin við endurskipulagningu sparisjóðakerfisins. Þær ráðstafanir sem kveðið var um í umræddum lagaheimildum fjármálaráðherra hafi samkvæmt orðalagi þeirra ekki getað tekið til A hf. Settur umboðsmaður taldi því að fjármálaráðherra hefði haft takmarkað svigrúm við mat á því hvernig ætti að ráðstafa umræddum fjármunum. Þannig hefði honum ekki aðeins verið heimilt að ráðstafa þeim til nýrra fjármálafyrirtækja annars vegar og hins vegar til banka og sparisjóða, að hluta eða fullu í eigu ríkisins, heldur hefði honum verið það skylt. Ákvarðanir fjármálaráðherra sem kvörtun A hf. beindist að lutu því að mati umboðsmanns ekki að ákvörðunum sem fjármálaráðherra hafi tekið umfram það sem leiddi beint af því sem á hefði verið byggt við samþykkt Alþingis í lögum og fjárlögum. Ákvarðanir fjármálaráðherra hafi því að þessu leyti verið í samræmi við lög. Þar sem starfssvið umboðsmanns nær ekki til starfa Alþingis eða stofnana þess taldi settur umboðsmaður ekki forsendur til að taka afstöðu til sjónarmiða um skort á stjórnskipulegu gildi þeirra viðkomandi lagaheimilda og fjallaði því ekki frekar um þennan þátt málsins.

Í kvörtun A hf. var einnig byggt á því að fjármálaráðuneytið hefði ekki gætt jafnræðis þegar það hafnaði að veita félaginu víkjandi lán væri tekið mið af lánafyrirgreiðslum til þriggja fjárfestingarbanka. Þar hafði fjármálaráðuneytið skuldbreytt tilteknum skammtímaveðlánum og verðbréfalánum frá Seðlabanka Íslands, er fallin voru í vanskil í kjölfar efnahagshrunsins, í lán til lengri tíma á grundvelli heimildar í fjáraukalögum 2008. Fjármálaráðuneytið taldi ráðstafanirnar fallnar til að treysta og hámarka innheimtur veðskulda og tryggja þannig hagsmuni ríkissjóðs. Settur umboðsmaður benti á að umrædd heimild í fjáraukalögum hefði samkvæmt orðalagi sínu veitt fjármálaráðherra heimild til að kaupa af Seðlabanka Íslands þau viðskiptabréf sem bankanum höfðu verið afhent til tryggingar veðlánum bankans og annast uppgjör þeirra krafna. Aðgerðir fjármálaráðuneytisins á grundvelli þessarar heimildar hefðu beinst að lánastofnunum sem hefðu fengið lánuð ríkisskuldabréf til skilgreinds tíma gegn því að leggja fram tryggingabréf sem þær gátu ekki skilað í kjölfar bankahrunsins. Settur umboðsmaður benti á að sú heimild sem þar hefði verið byggt á hefði verið bundin við tilvik þar sem nauðsynlegt hefði verið, vegna hagsmuna ríkissjóðs, að leita leiða til að annast uppgjör krafna sem Seðlabanki Íslands hafði eignast eftir að hafa gengið að tryggingum að baki veðlánum bankans. Settur umboðsmaður taldi að umrædd lagaheimild hefði veitt fjármálaráðuneytinu tiltekið mat um það í hvaða tilvikum aðstaða fjármálafyrirtækis væri með þeim hætti að til greina kæmi að ganga til samninga við það um uppgjör krafnanna. Hann taldi sig aftur á móti ekki geta fullyrt að Seðlabankinn hefði átt kröfur vegna viðskipta A hf. sem gátu talist sambærilegar þeim sem lágu til grundvallar umræddum lánasamningum ráðuneytisins við fjárfestingarbankana þrjá. Hann taldi sig því ekki hafa forsendur til að álykta að brotið hefði verið gegn jafnræðisreglum í máli A hf. að þessu leyti. Með vísan til þess taldi hann jafnframt ekki forsendur til að gera athugasemdir við að fjármálaráðuneytið hefði synjað A hf. um víkjandi lán og þá með hliðsjón af þeim lagaheimildum sem fjármálaráðuneytið gat byggt slíkar fjárveitingar á og ráðstöfunum sem gripið var til á þeim grundvelli.

Settur umboðmaður lauk umfjöllun sinni um kvörtun A hf. Hann ákvað þó að rita fjármála- og efnahagsráðuneytinu bréf þar sem hann gerði athugasemdir við að ráðuneytið hefði ekki svarað tilteknum erindum A hf. skriflega fyrr en í kjölfar fyrirspurna umboðsmanns um málið. Þar sem fyrir lá að efni munnlegra samskipti við A hf., þar sem fram kom að ráðuneytið sæi tormerki á því að verða við beiðnum félagsins um fjárhagsaðstoð, hefði ekki verið skráð í málaskrá ráðuneytisins áréttaði settur umboðsmaður jafnframt mikilvægi þess að gætt væri að formfestu og skráningu og úrvinnslu upplýsinga hjá ráðuneytinu.

1944, nr. 33. Stjórnarskrá lýðveldisins Íslands- 40. gr., 41. gr.

1993, nr. 37. Stjórnsýslulög - 1. mgr. 11. gr.

1996, nr. 50. Upplýsingalög - 23. gr.

1997, nr. 85. Lög um umboðsmann Alþingis - a-liður 3. mgr. 3. gr., a-liður 2. mgr. 10. gr.

2008, nr. 125. Lög um heimild til fjárveitingar úr ríkissjóði vegna sérstakra aðstæðna á fjármálamarkaði o.fl. - 1. mgr. 1. gr., 2. gr.

2012, nr. 140. Upplýsingalög - 1. mgr. 27. gr.