Fjármála- og tryggingastarfsemi. Fjármálaeftirlit.

(Mál nr. 6585/2011)

A hf. kvartaði yfir innleiðingu Fjármálaeftirlitsins á svokölluðu ICAAP/SREP-ferli hjá félaginu. Ferlið er byggt á Basel II-reglum um eigið fé fjármálafyrirtækja og snýr annars vegar að innra mati fjármálafyrirtækis á eiginfjárþörf og hins vegar að könnunar- og matsferli Fjármálaeftirlitsins þar sem lagt er mat á innra matsferli fjármálafyrirtækis og komist að niðurstöðu um hvort fyrirtækið standist kröfur um mat á eiginfjárþörf.

Settur umboðsmaður Alþingis lauk athugun sinni á málinu með bréfi 7. maí 2013.

Kvörtun A hf. beindist meðal annars að því að fyrirtækið hefði verið fyrsta íslenska fjármálafyrirtækið til að fara í gegnum og ljúka ICAAP/SREP eftirlits- og skoðunarferli Fjármálaeftirlitsins en önnur sambærileg fyrirtæki hefðu ekki farið samtímis í gegnum ferlið. Félagið taldi það meðal annars hafa haft áhrif á samkeppnisstöðu sína þar sem það hefði fyrr en aðrir þurft að gangast undir strangari kröfur. Settur umboðsmaður féllst á þær skýringar Fjármálaeftirlitsins að umfangsins vegna hefði vart verið fært að innleiða ferlið samtímis hjá öllum fjármálastofnunum. Í skýringum Fjármálaeftirlitsins kom jafnframt fram að á þessum tíma hefðu legið fyrir umfangsmiklar upplýsingar um eignir og áhættuþætti annarra sambærilegra fyrirtækja og að niðurstaða þeirra athugana hefði verið sú að þau hefðu nægilega mikið eigið fé til að mæta þeirri áhættu sem þau stóðu frammi fyrir. Á sama tíma hefðu einnig verið vísbendingar uppi um að eignir og starfsemi A hf. væri áhættusöm, meðal annars í ljósi upplýsinga sem lágu fyrir eftir vettvangsathugun og hafi forgangsröðun eftirlitsins meðal annars tekið mið af þeim upplýsingum Þá benti Fjármálaráðuneytið á að önnur sambærileg fjármálafyrirtæki hefðu gengist í gegnum sama ferli á svipuðum tíma þrátt fyrir að A hf. hafi verið fyrst til að ljúka því. Það hafi meðal annars helgast af því að ferlið tæki mið af umfangi og starfsemi hvers fyrirtækis og tæki því mislangan tíma. Meðal annars í ljósi þessara skýringa taldi settur umboðsmaður sig ekki geta dregið þá ályktun að forgangsröðun Fjármálaeftirlitsins hefði brotið í bága við jafnræðisreglu stjórnsýsluréttar, verið ómálefnaleg eða að stofnunin hefði byggt ákvarðanir sínar á ófullnægjandi upplýsingum.

Kvörtun A hf. beindist einnig að því að fyrirtækinu hefði ekki verið boðið að fara í gegnum einfaldara könnunar- og matsferli, svokallað staðlað mat, sem hefði verið minna íþyngjandi fyrir fyrirtækið. Settur umboðsmaður taldi sig ekki hafa forsendur til að fullyrða annað en að Fjármálaeftirlitið hefði litið til þeirra upplýsinga og gagna sem lágu fyrir hjá eftirlitinu um stöðu sambærilegra fjármálafyrirtækja hér á landi, sem og sjónarmiða A hf., þegar tekin var ákvörðun um með hvaða hætti ætti að haga eftirliti gagnvart fyrirtækinu. Meðal annars hefði verið talin til ástæða að beita fullri endurskoðun gagnvart fjármálafyrirtækjum sem höfðu tilteknar heimildir sem A hf. hafði auk þess sem fyrirtækið hefði farið í gegnum mun einfaldara eftirlitsferli en stærri fjármálafyrirtæki af sama toga. Með hliðsjón af þessu taldi settur umboðsmaður ekki ástæðu til að gera athugasemdir við þá ákvörðun Fjármálaeftirlitsins að bjóða A hf. ekki upp á staðlað mat í eftirlitsferlinu.

Kvörtun A hf. beindist enn fremur að niðurstöðum Fjármálaeftirlitsins í SREP-ferlinu, einkum forsendum fyrir kröfum um aukið eigið fé A hf. til að mæta áhættu af erlendum eignum og veðum. Af því tilefni tók settur umboðsmaður fram að ákvörðun Fjármálaeftirlitsins um hvernig meta skyldi áhættu vegna tiltekinna erlendra eigna fjármálafyrirtækja fæli í sér matskennda ákvörðun sem telja mæti hluta af umfangsmeira mati eftirlits í ICAAP/SREP-ferlinu. Niðurstaða Fjármálaeftirlitsins um mat á eiginfjárþörf A hf. hefði verið margþætt. Þá taldi hann að kvörtun A hf. væri nokkuð óljós að þessu leyti og hvorki skýrt á hvaða grundvelli kröfur félagsins byggðust né nánar tiltekið við hvaða áhættuþætti væri átt. Í ljósi þess að Fjármálaeftirlitinu væri falið eftirlit með fjármálafyrirtækjum með lögum, meðal annars með því að meta áhættuþætti í starfsemi þeirra í tengslum við mat á eiginfjárþörf þeirra, sem og nokkurt svigrúm til að meta hvaða kröfur ætti að gera til fjármálastofnanna í því sambandi taldi hann sig ekki hafa forsendur til að gera athugasemdir við mat Fjármálaeftirlitsins á þeim áhættuþáttum er kvörtunin laut að.

Að lokum laut kvörtun A hf. að því að fyrirtækinu hefði verið veittur of skammur frestur til að bregðast við ábendingum Fjármálaeftirlitsins í kjölfar lokaniðurstöðu þess í SREP-ferlinu. Settur umboðsmaður tók fram að það hefði verið fyrirsjáanlegt að innleiðing nýrra reglna um eiginfjárkröfur og áhættugrunn fyrirtækja gæti mögulega haft þau áhrif að lágmarks eiginfjárkrafa ákveðinna fjármálafyrirtækja myndi hækka frá því sem fyrri reglur gerðu ráð fyrir. Þrátt fyrir að auknar kröfur Fjármálaeftirlitsins til A hf. tengdust með beinum hætti stöðu og rekstri fyrirtækisins hefði engu síður mátt leiða þær af breytingum sem urðu á lagaumhverfi fjármálafyrirtækja. Í ljósi gagna málsins og skýringa Fjármálaeftirlitsins taldi settur umboðsmaður ekki ástæðu til að leggja annað til grundvallar en að niðurstaða eftirlitsins um eiginfjárþörf A hf. í október 2010 og krafa þess um að stjórn fyrirtækisins setti fram aðgerðaráætlun hefði byggst á athugunum sem höfðu átt sér stað með einum eða öðrum hætti allt frá árinu 2009. Auk þess hafi bráðabirgðaniðurstaða eftirlitsins legið fyrir í júní 2010. Að virtum skýringum Fjármálaeftirlitsins taldi hann sig auk þess ekki hafa forsendur til að leggja annað til grundvallar en að eftirlitið hefði að nokkru leyti tekið tillit sjónarmiða A hf. um að fresturinn sem upphaflega var veittur hefði verið of skammur og benti á að félaginu hefði verið veittur fimmtán daga viðbótarfrestur. Settur umboðsmaður taldi því ekki forsendur hálfu til athugasemda við málsmeðferð Fjármálaeftirlitsins að þessu leyti. Með vísan til þessa lauk settur umboðsmaður umfjöllun sinni um málið.

1993, nr. 37. Stjórnsýslulög - 12. gr.

1997, nr. 85. Lög um um umboðsmann Alþingis - a-liður 2. mgr. 10. gr.

2002, nr. 161. Lög um fjármálafyrirtæki - 17. gr., 84. gr.

2007, nr. 1. Leiðbeinandi tilmæli Fjármálaeftirlitsins um viðmiðunarreglur til að efla samræmi í aðferðum í eftirliti með fjármálafyrirtækjum.

2007, nr. 215. Reglur um eigin fjárkröfur og áhættugrunn fyrirtækja - 51. gr., 52. gr.