I.
A óskaði eftir áliti mínu á réttmæti 7. gr. reglugerðar nr. 268/1988 um flutning verkefna og önnur skil frá sýslunefndum til sveitarfélaga og héraðsnefnda. Ákvæði 7. gr. eru svohljóðandi:
"Óski sveitarfélag/sveitarfélög, sem aðild átti/áttu að sýslufélagi, að yfirtaka eignir og skuldir sýslufélags, skal þeim skipt upp á hlutaðeigandi sveitarfélög með þeim hætti, að nettóhluti hvers sveitarfélags verði jafn hlutfallslegri þátttöku þessi í greiðslu sýslusjóðsgjalda miðað við meðaltal áranna 1985-1988.
Mat og uppgjör á þessum eignum og skuldum skal falin þriggja manna matsnefnd, einum tilnefndum af hlutaðeigandi sýslunefnd/sýslunefndum, öðrum tilnefndum af hlutaðeigandi sveitarfélögum og þriðja tilnefndum af aðilum sameiginlega eða dómkvöddum, ef samkomulag næst ekki.
Óski sveitarfélög og sýslufélög að haga uppgjöri þessu með öðrum hætti en 1. og 2. mgr. kveða á um, er þeim það heimilt, enda sé fullt samkomulag um málið."
Tilefni fyrirspurnar var, að Mýrasýsla, Borgarfjarðarsýsla og Akraneskaupstaður stofnuðu á sínum tíma félag um að reisa raforkuver við Andakílsá og átti hver þessara aðila 1/3 hluta í félaginu. Væri hluta Borgarfjarðarsýslu skipt upp milli sveitarfélaga sýslunnar í samræmi við 1. mgr. 7. gr. reglugerðar nr. 268/1988, taldi A það hafa óeðlilega eignatilfærslu í för með sér. Stafaði það af því, að sérstakar og skyndilegar hækkanir á sýslusjóðsgjöldum tiltekinna sveitarfélaga fyrir viðmiðunarárin 1985-1988 öfluðu þeim miklum mun stærri eignarhlutar heldur en svaraði til framlaga þeirra, þegar eignirnar urðu til.
II.
Með bréfi 30. mars 1990 óskaði ég eftir því við félagsmálaráðuneytið, að það skýrði, hvað hefði ráðið því, að valin var sú regla um skipti eigna sýslufélaga, sem 1. mgr. 7. gr. reglugerðar nr. 268/1988 geymdi. Í svari ráðuneytisins 30. maí 1990 kom fram, að sérstök nefnd á vegum ráðuneytisins hefði undirbúið reglugerð nr. 268/1988. Síðan sagði í bréfi ráðuneytisins:
"Við samningu ákvæðis 1. mgr. 7. gr. reglugerðarinnar hafði nefndin það fyrst og fremst í huga og var sammála um að reyna að finna nothæfa, hagkvæma og sanngjarna reglu til að miða eignaskiptinguna við og í því sambandi var álitamál hvort miða ætti alfarið við þátttöku sveitarfélaga í greiðslu sýslusjóðsgjalda síðasta árið, þ.e. árið 1988 eða hvort miða ætti við lengra tímabil. Talið var sanngjarnast að miða við meðaltal áranna 1985-1988. Í gögnum nefndarinnar kemur hvergi fram að rætt hafi verið um að miða eignaskiptinguna við upphafleg framlög sveitarfélaga til sýslusjóða á þeim tíma, er eignirnar urðu til, enda naumast eðlilegt né framkvæmanlegt. Á sínum tíma tilheyrðu eignir sýslusjóða sýslufélögunum sjálfum án nokkurrar hlutdeildar viðkomandi sveitarfélaga. Eignir sýslufélaganna hafa myndast á mörgum árum, jafnvel áratugum, en á sama tíma hafa framlög sveitarfélaga til sýslusjóða verið breytileg. Í ársreikningum sýslusjóða voru sýslusjóðsgjöld færð í einu lagi, en skiptingu þeirra á sveitarfélög var aðeins að finna í fylgiskjölum. Ársreikningarnir voru birtir og gefnir út á prenti með fundargerðum sýslunefndanna og samkvæmt þágildandi sveitarstjórnarlögum skyldi eintak þeirra m.a. sent til félagsmálaráðuneytisins. Búast má við að víða hefði reynst erfitt að grafa upp gömul fylgiskjöl, þar sem framlög hvers sveitarfélags eru tilgreind. Þá er rétt að benda á 3. mgr. 7. gr. reglugerðarinnar, sem veitir sveitar- og sýslufélögum heimild til að haga uppgjöri með öðrum hætti en 1. mgr. sömu greinar mælir fyrir um, enda sé samkomulag um málið."
III.
Í bréfi mínu til A, dags. 30. september 1991, benti ég á, að samkvæmt I. bráðabirgðaákvæði sveitarstjórnarlaga nr. 8/1986 ættu oddvitar sýslunefnda að hafa forgöngu um flutning verkefna og önnur skil af hálfu sýslufélaga til sveitarfélaga og héraðsnefnda. Þar segði ennfremur, að ráðuneytið skyldi setja nánari reglur um þessi efni.
Félagsmálaráðuneytinu væri þannig í lögum fengið víðtækt vald til að setja reglur um það, hvernig eignum og skuldum sýslufélaga skyldi skipt með sveitarfélögum. Rétt væri að leggja áherslu á, að slíkar reglur yrðu að taka bæði til eigna og skulda. Taldi ég með hliðsjón af því, að félagsmálaráðuneytið gæti ekki talist hafa farið út fyrir nefnda lagaheimild sína með því að ákveða þá tilhögun, sem 7. gr. reglugerðar nr. 268/1988 mælti fyrir um. Yrði þar að hafa í huga, að löggjafinn hefði áreiðanlega mjög víðtæka heimild til afskipta af ráðstöfun eigna sveitarfélaga, sem lögð væru niður. Að því er varðaði sérstaklega félagið um Andakílsárvirkjun, skipti og máli, að í félagssamningnum væri ekki samið um ákveðna eignarhlutdeild einstakra hreppa. Ég tjáði því A, að það væri niðurstaða mín, að umrædd ákvæði 7. gr. reglugerðar nr. 268/1988 gæfu ekki tilefni til athugasemda af minni hálfu.