Opinberir starfsmenn. Ráðning skólastjóra. Sveitarfélög. Aðstoð utanaðkomandi aðila. Valdframsal.

(Mál nr. 7100/2012)

A leitaði til umboðsmanns Alþingis og kvartaði yfir ákvörðun bæjarstjórnar sveitarfélagsins X um ráðningu í starf skólastjóra í grunnskóla en A var á meðal umsækjenda um starfið. Við undirbúning ráðningarinnar hafði sveitarfélagið leitað til utanaðkomandi ráðningarhóps sem hafði skilað skólanefnd sveitarfélagsins tillögum sínum um ráðningu skólastjóra, þar sem búið var að raða umsækjendum í hæfnisröð. A var sjöundi í röðinni en sex efstu umsækjendurnir voru boðaðir í annað viðtal til ráðningarhópsins. Þeir sem voru neðar á lista komu ekki til greina í starfið eftir það.

Settur umboðsmaður tók fram að í máli þessu hefði bæjarstjórnin falið ráðningarhópi, sem skipaður var utanaðkomandi aðilum, að leggja mat á umsóknir og annast aðra þætti í ráðningarferlinu. Það hefði ekki verið í samræmi við lögbundið hlutverk bæjarstjórnarinnar og almennar reglur stjórnsýsluréttarins að ákvörðunarvald um hvaða umsækjendur yrðu boðaðir í viðtal væri alfarið í höndum ráðningarhópsins. Málsmeðferð sveitarfélagsins hefði verið haldin verulegum annmarka að þessu leyti.

Settur umboðsmaður beindi þeim tilmælum til bæjarstjórnar sveitarfélagsins X að leita leiða til að rétta hlut A og gæta þess framvegis að hafa þau sjónarmið sem rakin væru í álitinu til hliðsjónar í störfum sínum.

I. Kvörtun

Hinn 31. júlí 2012 leitaði A til umboðsmanns Alþingis og kvartaði yfir þeirri ákvörðun bæjarstjórnar sveitarfélagsins X frá 6. júní 2012 að ráða H í starf skólastjóra Y-skóla, en A var á meðal umsækjenda um starfið. Ráða má af kvörtuninni að A telji að hann hafi ekki komið til greina í starfið vegna tengsla við stjórnmálastarf í sveitarfélaginu en A er varabæjarfulltrúi ...-listans í X. Ellefu umsækjendur hafi verið um skólastjórastöðuna en A hafi ekki verið meðal sex einstaklinga úr þeim hópi sem hafi verið boðið í viðtal. Hann telji sig hafa uppfyllt þær hæfniskröfur sem voru settar fram í auglýsingu um starfið og jafnvel haft meiri menntun og hæfni en þeir sem taldir voru hæfastir.

Hinn 1. mars 2013 var undirritaður settur í embætti umboðsmanns Alþingis á grundvelli 3. mgr. 14. gr. laga nr. 85/1997 um umboðsmann Alþingis og hefur farið með mál þetta frá þeim tíma.

Ég lauk máli þessu með áliti, dags. 25. september 2013.

II. Málavextir

Starf skólastjóra Y-skóla var auglýst laust til umsóknar 4. apríl 2012. Í auglýsingu um starfið var gerð krafa um kennaramenntun og réttindi til kennslu í grunnskóla auk þess sem tekið var fram að framhaldsmenntun á sviði stjórnunar eða uppeldis- og menntunarfræða væri æskileg. Þá komu fram eftirfarandi hæfniskröfur:

„- Frumkvæði og samstarfsvilji

- Góðir skipulagshæfileikar

- Hæfni í mannlegum samskiptum

- Að vera reiðubúinn til að leita nýrra leiða í skólastarfi

- Áhugi og reynsla til að leiða þróunarstarf

- Sveigjanleiki og víðsýni í starfi og samskiptum

- Reynsla af störfum á sviði stjórnunar og reksturs æskileg

- Fjölbreytt reynsla af kennslu og vinnu með börnum og unglingum

- Leiðtogahæfni.“

Þá var óskað var eftir greinargerð um hugmyndir umsækjanda um starfið og hvernig þeir sæju fyrir sér að starfsemi Y-skóla myndi þróast undir þeirra stjórn.

Við undirbúning ráðningarinnar leitaði sveitarfélagið X til fræðsluskrifstofu Z. Fræðslustjóri Z og yfirmaður fræðsluskrifstofunnar mynduðu svokallaðan ráðningarhóp, með sérfræðingi í mannauðsmálum frá Þ og háskólaprófessor sem var ætlað að „leggja mat á faglega hæfni umsækjenda“. Ráðningarhópurinn skilaði svo skólanefnd sveitarfélagsins X tillögum sínum að því loknu. Í tillögum ráðningarhópsins sagði meðal annars:

„Við mat á umsóknum var m.a. litið til menntunar umsækjenda, framhaldsmenntunar á sviði stjórnunar, annars framhaldsnáms, annars náms á háskólastigi, námsárangurs, námskeiða og endurmenntunar, starfsreynslu innan og utan skólakerfisins, kennslu- og stjórnunarreynslu og reynslu af skólaþróun. Aflað var upplýsinga um ritfærni og íslenskukunnáttu, þekkingu og færni í tölvu- og upplýsingatækni og kunnáttu í erlendum málum. Þá var leitast við að leggja mat á eftirfarandi færniþætti (einkum út frá viðtölum við umsagnaraðila): Hæfni í að starfa með öðrum, skipulags- og verkstjórnarhæfileika, framkomu og framgöngu, vinnusemi, frumkvæði og leiðtogahæfileika.

Við mat á umsóknum voru einnig hafðar til hliðsjónar niðurstöður skýrslu sem fyrirtækið [...] hefur gert fyrir mennta- og menningarmálaráðuneytið [...] Í skýrslunni er m.a. lögð áhersla á að nýr skólastjóri ...tengist ekki pólitískum fylkingum innan sveitarfélagsins. Þá er afar brýnt að aðili sem ráðinn verður hafi mikla leiðtoga- og samskiptahæfni ... Að mati úttektaraðila þarf nýr skólastjóri að ná að vinna traust starfsmanna, ná samvinnu við starfsmannahópinn og festu í stjórnun [...]

[...] Gengið var úr skugga um vilja sveitarfélagsins til að fara að þessum ábendingum. Með hliðsjón af þessu og eftir mat á umsóknum og frekari upplýsingaöflun varð að niðurstöðu að boða sex umsækjendur í viðtöl [...]“

Í framhaldinu var í tillögum ráðningarhópsins rakin framkvæmd viðtalanna, að rætt hafi verið við umsagnaraðila og þeim boðið að gangast undir persónuleikamat. Síðan var því lýst að það hafi verið sameiginleg niðurstaða hópsins að enginn af umsækjendum stæði öðrum framar með óyggjandi hætti. Tveir í hópnum töldu ekki ástæðu til að taka faglega afstöðu til eins umsækjanda sem hafði hafnað því að undirgangast persónuleikamat en einn taldi að skýringar umsækjandans væru fullnægjandi og skilaði séráliti um hæfni hans. Þá var tekið fram að enginn af þeim umsækjendum sem gerð var grein fyrir í tillögunum tengdist „pólitískum fylkingum innan sveitarfélagsins“. Í tillögunum og séráliti er síðan lýst mati á fjórum umsækjendum.

III. Samskipti umboðsmanns Alþingis við stjórnvöld

Gögn málsins bárust embætti umboðsmanns Alþingis 4. október 2012. Með bréfi 25. febrúar 2013 óskaði umboðsmaður eftir afstöðu sveitarfélagsins til kvörtunar A og svörum við nánar tilgreindum spurningum. Var óskað meðal annars eftir upplýsingum um hver hefði tekið ákvörðun um að boða sex umsækjendur til viðtals vegna ráðningarinnar og hver hefði farið með vald til að ljúka meðferð ráðningarmálsins gagnvart A. Í svari sveitarfélagsins X 27. mars 2013 sagði meðal annars svo:

„Á fundi skólanefndar í [X] 26. mars 2012 er bókað undir lið 3 að skólanefnd mæli með því að auglýsa stöðu skólastjóra til umsóknar fyrir páska og fá [J] og [I] til að meta umsóknir og skila áliti til skólanefndar. Einnig að kjörnir fulltrúar í skólanefnd verði viðstaddir viðtöl þeirra umsækjenda sem mælt verði með. Á bæjarráðsfundi 28. mars 2012 var fundargerðin samþykkt samhljóða. Auk þeirra [I] og [J] fékk [I] til liðs við hópinn [K], sérfræðing hjá [Þ] sem fyrr segir. Þau önnuðust gerð auglýsingar, fóru yfir umsagnir, lögðu faglegt mat á hæfni umsækjenda og sendu skólanefnd lista með nöfnum þeirra sex einstaklinga sem þóttu fremstir af umsækjendum. Á óformlegum fundi skólanefndar var hópnum falið að vinna málið áfram og velja og gera tillögu um einhvern einn einstakling. Hópurinn treysti sér ekki til þess heldur kynnti bæjarstjórn þá fjóra umsækjendur sem þóttu skara fram úr.

[...]

Þeir aðilar sem falið var að vinna að þessu máli fyrir hönd bæjarráðsins gerðu ítarlega skýrslu til skólanefndar, sem þegar hefur verið send Umboðsmanni. [...]

Óskað er eftir umfjöllun um það hvort [A] hafi uppfyllt kröfur sem komu fram í auglýsingu um starfið og eftir atvikum hvort sveitarfélagið hafi talið hann uppfylla almenn hæfisskilyrði fyrir ráðningu í starfið.

Eins og að framan er lýst fól skólanefnd með fulltingi bæjarráðs nokkrum sérfræðingum að fara yfir umsóknir og leggja mat á faglega hæfni umsækjenda um stöðu skólastjóra. Eins og fram kemur í samanburðartöflu hópsins yfir þá 11 einstaklinga sem sóttu um starfið uppfyllti [A] ekki eitt það skilyrði sem krafist var, þ.e. áhugi og reynsla af að leiða þróunarstarf. Hann hafði enga reynslu af þróunarstarfi.

[...]

Í bréfi umboðsmanns er spurt um frá hverjum skjal sem ber yfirskriftina „Grunnmat á umsækjendum“ stafar og hvort þau sjónarmið sem þar koma fram hafi legið til grundvallar þegar ákveðið var hvaða umsækjendur yrðu kallaðir til viðtals.

Umrætt skjal stafar frá þeim hópi sérfræðinga sem falið var að leggja faglegt mat á hæfni umsækjenda. Þau sjónarmið sem þar koma fram eru upplýsingar sem koma frá umsækjendum sjálfum í umsóknum um hvernig umsækjendur mæta þeim kröfum sem fram komu í auglýsingu um starfið. Sérfræðingarnir unnu skjalið upp úr þeim upplýsingum sem fyrir lágu. Bæjarstjórn kallaði ekki eftir grunngögnum, þ.e. umsóknunum sjálfum, persónuleikaprófum eða öðrum gögnum, en sveitarfélagið telur þá aðferð sem notuð var í fullu samræmi við 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

[...]

Umboðsmaður spyr að því hvort litið hafi verið til þátttöku [A] í pólitísku starfi sveitarfélagsins við töku ákvörðunar um að kalla hann ekki til viðtals vegna starfsins. Enn fremur er spurt um upplýsingar og gögn sem varpa ljósi á það sem fram fór á skólanefndarfundi sveitarfélagsins hinn 12. júní 2012.

Enn er vísað til þess hóps sérfræðinga sem vann að mati fyrir sveitarfélagið. Sveitarfélagið kom þannig ekki sjálft að því að raða þeim einstaklingum í hæfnisröð og því hafði skólanefnd eða bæjarstjórn engin áhrif á það hvar [A] raðaðist. Þar sem [A] var raðað í 7. sæti í því mati og þar sem hann uppfyllti ekki þær hæfniskröfur sem til umsækjenda voru gerðar virðist þetta ekki hafa skipt neinu máli, jafnvel þótt skýrsla [...] hafi sérstaklega dregið fram mikilvægi þess að losa skólann undan pólitískum áhrifum.“

Athugasemdir A við svarbréf sveitarfélagsins bárust mér 21. apríl 2013.

IV. Álit setts umboðsmanns Alþingis

1. Afmörkun athugunar og lagagrundvöllur málsins

A var ekki í hópi sex umsækjenda sem var boðið í viðtal vegna umsóknar um starf skólastjóra Y-skóla, en sú ákvörðun var tekin af og byggðist á mati svokallaðs ráðningarhóps. Af gögnum málsins verður ráðið að hann hafi ekki komið til frekari skoðunar af hálfu bæjarstjórnar sveitarfélagsins X þegar hún tók ákvörðun sína um ráðningu í starfið. Athugun mín hefur beinst að því hvort bæjarstjórnin hafi í reynd falið öðrum að taka ákvarðanir sem höfðu afgerandi efnislega þýðingu í ráðningarferlinu með ólögmætum hætti. Áður en ég vík að því álitaefni tel ég rétt að gera grein fyrir því hverjum bar lögum samkvæmt að taka ákvörðun um ráðningu í starfið.

Í 1. mgr. 11. gr. laga nr. 91/2008 um grunnskóla segir að um ráðningu skólastjóra og starfsfólks grunnskóla fari eftir ákvæðum sveitarstjórnarlaga og nánari fyrirmælum í samþykkt um stjórn sveitarfélags eftir því sem við á. Samkvæmt 56. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 138/2011 ræður sveitarstjórn starfsmenn í æðstu stjórnunarstöður hjá sveitarfélagi og veitir þeim lausn frá starfi. Um ráðningu annarra starfsmanna annast framkvæmdastjóri enda hafi sveitarstjórn ekki ákveðið annað í samþykkt um stjórn sveitarfélagsins eða með almennum fyrirmælum.

Fjallað er um framsal sveitarstjórnar á valdi til fullnaðarafgreiðslu mála í 42. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 138/2011. Í 1. mgr. þeirrar greinar segir að í því skyni að stuðla að hagræðingu, skilvirkni og hraðari málsmeðferð geti sveitarstjórn ákveðið í samþykkt um stjórn sveitarfélagsins að fela fastanefnd fullnaðarafgreiðslu einstakra mála sem ekki varða verulega fjárhag sveitarfélagsins nema lög eða eðli máls mæli sérstaklega gegn því. Sé fastanefnd falið vald samkvæmt þessari málsgrein skuli fjöldi nefndarmanna standa á oddatölu. Þá segir í 2. mgr. 42. gr. laganna að á sama hátt og með sömu skilyrðum sé sveitarstjórn heimilt að fela einstökum starfsmönnum sveitarfélags fullnaðarafgreiðslu mála. Sveitarstjórn, byggðarráð eða hlutaðeigandi fastanefnd skuli hafa eftirlit með afgreiðslu mála samkvæmt þessari málsgrein og kalla eftir reglulegum skýrslum um ákvarðanir sem séu teknar á grundvelli hennar. Málsgreinin hafi þó ekki áhrif á almennar heimildir starfsmanna sveitarfélags til töku ákvarðana sem varða daglegan rekstur og þjónustu sveitarfélags og teljast leiða af stöðuumboði þeirra. Ennfremur segir í 4. mgr. 42. gr. sömu laga að þegar sveitarstjórn nýti heimildir samkvæmt 1. eða 2. mgr. skuli jafnframt kveða á um það í samþykkt sveitarfélagsins hver skuli taka fullnaðarákvörðun í máli samkvæmt 3. mgr. og hvernig skuli fara með endurupptöku mála sem hljóta afgreiðslu samkvæmt þessum ákvæðum.

Í 61. gr. samþykktar um stjórn og fundarsköp sveitarfélagsins X segir:

„Bæjarstjórn ræður yfirmenn deilda og stofnana sveitarfélagsins og veitir þeim lausn frá störfum nema vald til slíks sé með lögum fengið öðrum aðilum eða á annan veg mælt fyrir í reglugerðum um sérmál tiltekinna stofnana.“

Vald til að ráða skólastjóra grunnskóla Y-skóla var samkvæmt framanröktum lagareglum og samþykkt sveitarfélagsins í höndum bæjarstjórnar sveitarfélagsins X, enda verður ekki séð að vald til fullnaðarafgreiðslu hafi verið falið öðrum.

2. Heimildir sveitarfélaga til að fela utanaðkomandi aðilum að binda enda á ráðningarferli gagnvart umsækjendum

Ráðning í opinbert starf er stjórnvaldsákvörðun eins og ráða má af athugasemdum við 2. mgr. 1. gr. frumvarps þess er varð að stjórnsýslulögum nr. 37/1993. (Alþt. 1992-1993, A-deild, bls. 3283.) Um ráðninguna gilda því málsmeðferðarreglur stjórnsýslulaga og óskráðar meginreglur stjórnsýsluréttarins. Samkvæmt því sem rakið var í kafla IV.1 er það lögmælt hlutverk bæjarstjórnar að ráða í stöðu skólastjóra Y-skóla enda hafi vald til fullnaðarafgreiðslu ekki verið falið öðrum. Ekki er dregið í efa að endanleg ákvörðun um að ráða H hafi verið tekin af þar til bærum aðila. Hins vegar verður að líta til þess að í því hlutverki felst ekki aðeins að bæjarstjórninni beri að taka umrædda ákvörðun. Hún þarf einnig að sjá til þess að ákvörðunin byggi á nægjanlega traustum grundvelli og tryggja réttindi allra umsækjenda um starfið við málsmeðferðina. Á bæjarstjórninni hvíldi ennfremur sú skylda að sjá til þess að ráðningin væri undirbúin á forsvaranlegan hátt svo taka mætti löglega ákvörðun í málinu og að málsmeðferðin væri í samræmi við lög og þá einkum ákvæði stjórnsýslulaga.

Í máli þessu fól bæjarstjórnin ráðningarhópi, sem skipaður var utanaðkomandi aðilum, að leggja mat á umsóknir og annast aðra þætti í ráðningarferlinu. Eins og áður hefur verið vikið að í álitum umboðsmanns Alþingis er stjórnvöldum heimilt að leita til utanaðkomandi aðila um sérfræðiaðstoð við ráðningar opinberra starfsmanna. Slíkt leysir þó handhafa veitingarvalds ekki undan þeim skyldum sem á honum hvíla við meðferð málsins á grundvelli laga og óskráðra meginreglna stjórnsýsluréttarins, sjá í þessu sambandi álit umboðsmanns Alþingis frá 20. nóvember 2000 í máli nr. 2793/1999, frá 26. maí 2003 í máli nr. 3616/2002, frá 18. júní 2004 í máli nr. 4020/2004 og frá 11. júlí 2005 í máli nr. 4217/2004. Í síðastnefnda álitinu taldi umboðsmaður að heimilt væri að leita eftir slíkri aðstoð án lagaheimildar. Með hliðsjón af lögmæltu hlutverki stjórnvaldsins sem færi með ákvörðunarvald í málinu hlytu þó að vera takmarkanir á því hversu langt væri hægt að ganga í því efni. Taldi hann að þar skiptu þrjú atriði mestu máli. Í fyrsta lagi bæri að huga að því að allar upplýsingar sem ætla yrði að hefðu verulega þýðingu við úrlausn málsins væru lagðar fyrir viðkomandi stjórnvald svo því væri unnt að ganga úr skugga um að tiltekin ákvörðun væri rétt. Þá bæri í öðru lagi að tryggja að meðferð málsins hjá hinum utanaðkomandi aðila væri hagað þannig að réttarstaða málsaðila yrði ekki lakari en stjórnsýslulög og önnur lagafyrirmæli á þessu sviði kvæðu á um. Í þriðja lagi yrði að gæta að því að ýmsar ákvarðanir, sem teknar væru við vinnslu málsins, gætu haft grundvallarþýðingu fyrir stöðu einstakra umsækjenda í ferlinu. Ætti það við um allar ákvarðanir sem miðuðu að því að þrengja hóp umsækjenda sem til álita kæmi að ráða í starfið enda leiddu þær til þess að umsóknir annarra kæmu ekki til frekara mats. Í ljósi lögmælts hlutverks stjórnvaldsins við meðferð mála af þessu tagi teldi hann að slík ákvörðun yrði ekki tekin nema af stjórnvaldinu sjálfu. Umboðsmaður tók einnig fram í álitinu að tryggja yrði að viðhlítandi upplýsingar lægju fyrir um þau atriði sem stjórnvaldið teldi að ættu að hafa þýðingu við samanburð milli hæfra umsækjenda.

Það leiðir af lögbundnu hlutverki veitingarvaldshafa, og meginreglu stjórnsýsluréttar um að honum beri að velja þann umsækjanda í opinbert starf sem hæfastur verður talinn, að veitingarvaldshafi verður almennt sjálfur að leggja mat á innkomnar umsóknir, og eftir atvikum önnur gögn sem aflað hefur verið um umsækjendur til dæmis með atbeina utanaðkomandi aðila, og taka ákvarðanir um framgang einstakra umsækjenda í ráðningarferlinu. Þótt ákvörðun um að boða einstakan umsækjanda ekki í viðtal feli ekki í sér efnislegar lyktir ráðningarferlisins hefur hún hins vegar að jafnaði í reynd þá þýðingu fyrir þann umsækjanda að ákvörðun um umsókn hans kemur ekki til frekara mats. Í ljósi þess verður veitingarvaldshafi almennt sjálfur, nema mælt sé fyrir um annað í lögum, að leggja mat á það hvaða umsækjendur skuli kallaðir í viðtal og hverjir ekki, enda sé um að ræða meiriháttar ákvörðun um réttarstöðu umsækjenda.

Í skýringum sveitarfélagsins X kemur fram að ákvörðun um hvaða umsækjendum var boðið í viðtöl hafi verið byggð á hæfnisröð sem sérstakur ráðningarhópur á vegum sveitarfélagsins hafi útbúið. Það hafi verið ráðningarhópurinn sem haft lagt faglegt mat á hæfni umsækjenda, raðaði þeim í hæfnisröð og ákvað að sex umsækjendum yrði boðið í viðtal. Hvorki skólanefnd né bæjarstjórn hafi haft áhrif á það hvar A raðaðist í hæfnisröðina. Meðal gagna málsins er umrædd hæfnisröð, en þar er A raðað í sjöunda sæti en eins og áður sagði var sex efstu umsækjendunum boðið í viðtal. Jafnframt kemur fram í skýringunum að bæjarstjórnin hafi ekki kallað eftir „grunngögnum“, þ.e. umsóknum sjálfum, persónuleikaprófum eða öðrum gögnum. Í skýrslu ráðningarhópsins til bæjarstjórnarinnar er, sem fyrr greinir, lýst framkvæmd viðtala, en þar var meðal annars lagt mat á huglæg sjónarmið um umsækjendur, að aflað hafi verið umsagna og lagt persónuleikamat fyrir umsækjendur.

Samkvæmt framangreindu er það álit mitt að það hafi ekki verið í samræmi við lögbundið hlutverk bæjarstjórnarinnar og almennar reglur stjórnsýsluréttarins að ákvörðun um það hvaða umsækjendur yrðu boðaðir í viðtal væri alfarið í höndum ráðningarhópsins og þá án nokkurrar aðkomu bæjarstjórnarinnar. Málsmeðferð sveitarfélagsins X var að þessu leyti haldin verulegum annmarka. Í þessu sambandi tek ég fram að óformlegt samráð ráðningarhópsins við skólanefnd sveitarfélagsins er ekki nægjanlegt til að hafa áhrif á þessa niðurstöðu mína.

V. Niðurstaða

Með vísan til þess sem að framan er rakið er það niðurstaða mín að það hafi ekki verið í samræmi við lögbundið hlutverk bæjarstjórnar sveitarfélagsins X og almennar reglur stjórnsýsluréttar að ákvörðunarvald um hvaða umsækjendur yrðu boðaðir í viðtal væri alfarið í höndum ráðningarhóps, sem skipaður var utanaðkomandi aðilum, án nokkurrar aðkomu bæjarstjórnarinnar. Málsmeðferð sveitarfélagsins X var að þessu leyti haldin verulegum annmarka.

Að virtri dómaframkvæmd á þessu sviði er ólíklegt að annmarki þessi á málsmeðferð sveitarfélagsins geti leitt til ógildingar á ákvörðun hennar um að ráða H í starfið. Ég læt því við það sitja að beina þeim tilmælum til sveitarfélagsins að leitað verði leiða til að rétta hlut A. Þá mælist ég til þess að sveitarfélagið gæti þess framvegis að hafa þau sjónarmið sem rakin eru í þessu áliti til hliðsjónar í störfum sínum.

Róbert R. Spanó.

VI. Viðbrögð stjórnvalda.

Í tilefni af fyrirspurn minni um málið barst mér svarbréf bæjarstjóra X f.h. sveitarfélagsins, dags. 17. mars 2014, þar sem segir m.a. eftirfarandi:

„Undirritaður hefur átt fundi með [A] til þess að fara yfir málið. Við höfum sérstaklega rætt það hvernig rétta má hlut hans og í hverju það geti falist. Óljóst er í áliti umboðsmanns hvað átt er við og með hvaða hætti rétta mætti hlut hans.

Undirritaður og [A] sjálfur hafa leitað eftir leiðsögn um það með hvaða hætti rétt mætti hlut hans, en ekki hefur orðið sérstök niðurstaða um það. Í síðasta samtali undirritaðs við [A] óskaði hann eftir því að málið verði látið liggja og hafði hann m.a. samráð um það við lögmann sinn hjá Kennarasambandi Íslands.

Það sem upp úr stendur af hálfu [A] og komið hefur fram á okkar fundum, er niðurstaða í úttektarskýrslu [X] þar sem áhersla er lögð á að stjórnendur grunnskólans komi ekki að stjórnmálum í sveitarfélaginu. [A] hefur sjálfur tekið þátt í sveitarstjórnarmálum í sveitarfélaginu og telur hann óeðlilegt að í niðurstöðum úttektar sem unnin er á vegum Menntamálaráðuneytisins skuli þetta koma fram. Ekki verður séð hvernig sveitarfélagið getur rétt hlut [A] hvað þetta varðar, en hann telur þetta grundvallaratriði í málinu. Þess má geta að [A] hefur gefið kost á sér í prófkjör fyrir komandi sveitarstjórnarkosningar í lok maí og má gera ráð fyrir að hann verði í framboði fyrir þær kosningar.

Eftir að ráðningarferli skólastjóra lauk og skólastjóri ráðinn voru stöður deildarstjóra við grunnskólann auglýstar lausar til umsókna. [A] sótti um stöðu deildarstjóra og var ráðinn í hana, þrátt fyrir niðurstöðu úttektar [X] um að stjórnendur í skólanum ættu ekki að tengjast stjórnmálum í sveitarfélaginu. [A] starfar nú sem deildarstjóri við skólann og má velta því upp hvort hlutur hans hafi verið réttur, a.m.k. að einhverju leyti?

Undirritaður hefur átt góð samskipti við [A] vegna þessa máls og er fullur vilji beggja aðila til þess að málið fái farsæla niðurstöðu.“

Í bréfinu kemur síðan fram að farið hafi verið yfir álitið og þess verði gætt í framtíðinni að taka mið af því og fara að lögum og reglum. Þá er þess getið að eftir að álitið kom fram hafi bæjarstjórn fjallað um og samþykkt ýmsar reglur og verklag, s.s. samþykkt um stjórn sveitarfélagsins, siðareglur o.fl.