Opinberir starfsmenn. Ráðning í starf forstöðumanns í búsetuþjónustu við fatlað fólk. Sveitarfélag. Framsetning auglýsingar.

(Mál nr. 7144/2012)

A leitaði til umboðsmanns Alþingis og kvartaði yfir ákvörðun um ráðningu í starf forstöðumanns í búsetuþjónustu við fatlað fólk hjá X-kaupstað. A taldi m.a. að sú sem hefði verið ráðin í starfið hefði ekki uppfyllt almennar kröfur um hæfni þar sem í auglýsingu um starfið hefði verið gerð krafa um háskólamenntun en sú sem fékk starfið hefði ekki slíka menntun. Athugun umboðsmanns laut að því hvort ráðning starfsmanns með aðra menntun en „óskað var eftir“ í auglýsingu um starfið hefði samrýmst lögum.

Umboðsmaður fjallaði sérstaklega og með almennum hætti um efni auglýsinga um opinber störf og þá með tilliti til þýðingu þeirra upplýsinga sem koma fram í auglýsingu og lúta að hæfis- og hæfniskröfum og framsetningu þeirra. Hann tók m.a. fram að auglýsing um laust opinbert starf, fæli í sér formlega og opinbera tilkynningu um að stjórnvaldið hefði hafið tiltekið stjórnsýslumál sem miði að því að ráða í tiltekið starf eða tiltekin störf úr hópi umsækjenda. Borgararnir ættu m.a. af lestri þess sem stjórnvöld birta að geta gert sér grein fyrir hvaða skilyrði þeir þurfa að uppfylla til þess að geta komið til greina til að njóta tiltekinna réttinda eða gæða sem stjórnvöld taka ákvörðun um. Forsenda fyrir því að einstaklingar gætu gert sér grein fyrir hvort þeir hefðu áhuga á því að sækja um auglýst starf væri að þeir gætu af lestri auglýsingarinnar gert sér grein fyrir því hvers eðlis starf væri, hvaða lágmarks hæfis- og hæfniskröfur umsækjendur þyrftu að uppfylla og hvaða meginsjónarmiðum væri fylgt við val úr hópi umsækjenda. Upplýsingar um þessi atriði væru jafnframt forsenda þess að umsækjendur gætu lagt fram með umsókn sinni þær upplýsingar og gögn sem þeir teldu að gætu skipt máli við mat á umsókn þeirra hjá stjórnvaldinu.

Umboðsmaður tók fram að í auglýsingu um umrætt starf hefði sagt að „óskað [væri] eftir starfsmanni sem [hefði] lokið þroskaþjálfanámi eða öðru sambærilegu háskólanámi.“ Í starfið hefði síðan verið ráðinn einstaklingur sem hefði ekki lokið háskólanámi heldur var sjúkraliði að mennt. X-kaupstaður hefði bent á að í málinu ekki hefði staðið til að gera kröfu um tiltekna menntun. Umboðsmaður taldi að hvað sem því liði yrði af framsetningu og orðalagi auglýsingarinnar dregin sú ályktun að krafa hefði verið gerð um tiltekna menntun í starfið. Hann taldi að það hefði ekki verið málefnalegt og forsvaranlegt að víkja frá þeirri kröfu um menntun sem sett var fram í auglýsingu um starfið og ráða á grundvelli auglýsingarinnar starfsmann sem hefði annars konar menntun. Ákvörðun X-kaupstaðar hefði að þessu leyti ekki verið í samræmi við lög.

Umboðsmaður beindi þeim tilmælum til X-kaupstaðar að leitað yrði leiða til að rétta hlut A og taka framvegis mið af þeim sjónarmiðum sem komu fram í álitinu.

I. Kvörtun

Hinn 3. september 2012 leitaði A til umboðsmanns Alþingis og kvartaði yfir ákvörðun um ráðningu B í starf forstöðumanns í búsetuþjónustu við fatlað fólk hjá X-kaupstað. Í kvörtuninni kemur fram sú afstaða A að sá umsækjandi sem var ráðinn hafi ekki uppfyllt almennar kröfur um hæfni þar sem í auglýsingu um starfið hafi verið gerð krafa um háskólamenntun. A sé leikskólakennari að mennt og hafi, um það leyti sem ráðið var í starfið, einnig lokið B.A. gráðu í þroskaþjálfafræðum en B hafi ekki lokið háskólaprófi.

Ég lauk máli þessu með áliti, dags. 5. nóvember 2013.

II. Málavextir

Starf forstöðumanns í búsetuþjónustu við fatlað fólk var auglýst laust til umsóknar í apríl 2012. Í auglýsingunni segir m.a. svo:

„Menntun/reynsla:

Óskað er eftir starfsmanni sem hefur lokið þroskaþjálfanámi eða öðru sambærilegu háskólanámi.

Æskilegt er að viðkomandi hafi reynslu á sviði stjórnunar og rekstrar.

[...]

Laun og starfskjör eru samkvæmt kjarasamningum sveitarfélaga við viðkomandi stéttarfélag.“

Með bréfi, dags. 31. maí 2012, var A tilkynnt um að B hefði verið ráðin í starfið. Í kjölfar tilkynningarinnar óskaði hún eftir rökstuðningi frá X-kaupstað.

Í rökstuðningi vegna ákvörðunarinnar, dags. 14. júní 2012, kemur fram að B sé sjúkraliði að mennt og með leiðbeinandaréttindi í sálrænum stuðningi og skyndihjálp. Þá er starfsferill hennar rakinn og fjallað um margvísleg störf hennar fyrir sveitarfélagið Y. Þá segir m.a.:

„Í auglýsingu um starf forstöðumanns í búsetuþjónustu við fatlað fólk er ekki sett fram krafa um ákveðna menntun en óskað er eftir starfsmanni sem lokið hefur þroskaþjálfanámi eða öðru sambærilegu háskólanámi og tekið fram að æskilegt sé að viðkomandi hafi reynslu á sviði stjórnunar og rekstrar.

Sú mikla og víðtæka starfsreynsla sem [B] hefur á sviðum sem tengjast mikið og með margvíslegum hætti verkefnum og starfsskyldum sem fylgja því starfi sem hér um ræðir vógu þungt þegar ákveðið var að ráða [B] í starfið. Þá skiptir þekking hennar og reynsla af starfsemi sveitarfélaga hvað varðar félagsþjónustu máli í því sambandi.“

III. Samskipti umboðsmanns Alþingis og stjórnvalda

Gögn málsins bárust umboðsmanni Alþingis með bréfi, dags. 12. október 2012. Með bréfi, dags. 25. febrúar 2013, var óskað eftir afstöðu sveitarfélagsins til kvörtunar A og nánari skýringum á þeim ástæðum sem lágu að baki ákvörðun um ráðningu í starfið. Þá var m.a. sérstaklega óskað eftir því að X-kaupstaður gerði grein fyrir afstöðu sinni til þess hvort litið hafi verið svo á að með því að tilgreina í auglýsingu að „óskað [væri] eftir starfsmanni sem [hefði] lokið þroskaþjálfanámi eða öðru sambærilegu háskólanámi“ hafi háskólanám verið gert að almennu hæfisskilyrði fyrir ráðningu í starfið. Ef svo væri ekki var óskað eftir að gerð yrði grein fyrir því hvernig það samrýmdist framsetningu auglýsingarinnar.

Í svari X-kaupstaðar, dags. 22. apríl 2013, sagði m.a.:

„Í auglýsingunni er starfinu lýst og þar kemur fram að um sé að ræða „aðstoð við almennt heimilishald, persónulega ráð-gjöf, samstarf við aðstandendur, starfsmannamál og ráðningar, samstarf við þjónustustofnanir ásamt öðrum verkefnum er tengjast starfinu.“

Það er ekki mælt fyrir því í neinum lögum að til að gegna forstöðumannsstarfi í búsetuþjónustu sé krafist þroskaþjálfa-menntunar né gerð krafa um háskólamenntun.

Ósk ráðningaraðila var að fá til starfans einstakling með viðeigandi stjórnunarreynslu, háskólamenntun og hæfni sem nýttist vel til að byggja upp þá sérhæfðu þjónustu sem búsetu-þjónusta er.

Enginn umsækjandi uppfyllti alla þætti sem óskað var eftir.

Umsækjandi [A] var langt kominn með þroskaþjálfanám en starfsreynsla að mestu takmörkuð við leikskólastarf.

Umsækjandi [B] uppfyllti ekki æskileg menntunarskilyrði en hafði reynslu af þátttöku í stjórnun sveitarfélags sem sveitarstjórnarmaður og einnig verið með eigin rekstur ásamt breiðri starfsreynslu úr velferðarþjónustu.

Næsti yfirmaður forstöðumanns búsetuþjónustunnar er þroskaþjálfi og því séð fyrir því að faglegar áherslur þeirrar starfsstéttar væru fyrir hendi.

Heildarmat var því lagt til grundvallar samanber töflu hér að framan.“

Þroskaþjálfafélags Íslands gerði athugasemdir við skýringar X-kaupstaðar fyrir hönd A með bréfi, dags. 7. maí 2013.

IV. Álit umboðsmanns Alþingis

1. Lagagrundvöllur málsins

Í 57. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 138/2011 segir að um starfskjör, réttindi og skyldur starfsmanna sveitarfélaga fari eftir ákvæðum kjarasamninga hverju sinni og ákvæðum ráðningarsamninga. Í athugasemdum við greinina í frumvarpi til laganna segir m.a. að í gildandi sveitarstjórnarlögum eða öðrum almennum lögum um sveitarstjórnarstigið sé ekki mælt fyrir um almenn réttindi og skyldur starfsmanna sveitarfélaga. Meginatriðin í starfssambandi sveitarfélaganna og starfsmanna þeirra ráðist af ákvæðum í kjarasamningum og svo einstökum ráðningarsamningum. Af athugasemdunum má jafnframt ráða að ákveðið hafi verið að lögfesta ekki í sveitarstjórnarlögum aðrar reglur um réttindi og skyldur starfsmanna sveitarfélaganna en almenna þagnarskyldureglu. (Alþt. 2010-2011, 139. löggj.þ., þskj. 1250.

Í auglýsingu um það starf sem hér er til skoðunar kemur fram að um laun og starfskjör fari samkvæmt kjarasamningum sveitarfélaga við viðkomandi stéttarfélag. Í kjarasamningi Sambands íslenskra sveitarfélaga og Þroskaþjálfafélags Íslands segir í grein 11.1.2.1 að að jafnaði skuli störf auglýst laus til umsóknar á opinberum vettvangi. Þá er bent á að í samþykktum sveitarfélaga kunni að vera ítarlegri ákvæði um auglýsingar á lausum störfum. Í máli þessu háttar svo til að ráðinn var starfsmaður með sjúkraliðamenntun. Vegna þess tek ég fram að ég fæ ekki annað séð en að sambærileg ákvæði um auglýsingar séu í öðrum kjarasamningum BHM félaga við Samband íslenskra sveitarfélaga.

X-kaupstaður hefur sett sér verklagsreglur um ráðningar hjá sveitarfélaginu. Reglurnar voru samþykktar í bæjarstjórn X 13. mars 2012. Þar segir m.a.:

„Auglýsa skal öll laus störf. Eftirfarandi atriði þurfa að lágmarki að koma fram í auglýsingunni:

[...]

• Lýsing á starfi og starfsheiti

• Kröfur um menntun og reynslu

• Hæfniskröfur eða upplýsingar um persónulega eiginleika sem leitað er eftir

[...]“

2. Ráðning í bága við kröfur settar fram í auglýsingu

Eins og mál þetta liggur fyrir hef ég ákveðið að afmarka athugun mína við það hvort ráðning starfsmanns með aðra menntun en „óskað“ var eftir í auglýsingu um starfið hafi samrýmst lögum.

Ráðning opinberra starfsmanna, þ. á m. starfsmanna sveitarfélaga, telst ákvörðun um rétt eða skyldu manna í merkingu 2. mgr. 1. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 og gilda því skráðar og óskráðar reglur stjórnsýsluréttarins um hana.

Ég hef áður fjallað um þýðingu efnis auglýsingar um opinbert starf, sjá kafla IV.2 í áliti mínu frá 18. júní 2012 í máli nr. 5864/2009. Eins og ég vék að þar eru ekki í lögum bein ákvæði um skyldu sveitarfélaga til að auglýsa laus störf eins og fyrir ríkið, sbr. 7. gr. laga nr. 70/1996, um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins. Gengið er þó út frá því í kjarasamningi Sambands íslenskra sveitarfélaga og Þroskaþjálfafélags Íslands og verklagsreglum X-kaupstaðar að laus störf skuli auglýst, eins og rakið er hér að framan. Í þeim tilvikum þegar sveitarfélög auglýsa laus störf gilda þau almennu sjónarmið sem lýst verður hér á eftir um efni auglýsinga og þýðingu þess sem þar kemur fram við ráðningar í opinber störf.

Líkt og ég vék að í álitinu frá 18. júní 2012 er tilgangurinn með auglýsingaskyldu fyrir störf hjá ríkinu tvíþættur. Auglýsingu á lausu starfi er bæði ætlað að gefa þeim sem hug hafa á „tilteknu opinberu starfi“ kost á að sækja um það og að vera meiri trygging fyrir því að „hæfir“ einstaklingar veljist í þjónustu ríkisins. Af þessu leiðir að efni auglýsingar um opinbert starf þarf að taka mið af því að þessum markmiðum auglýsingaskyldunnar verði náð hverju sinni. Þessu til viðbótar þarf einnig að gæta þess, eins og áður sagði, að ákvarðanir um ráðningar í störf hjá ríki og sveitarfélögum falla undir stjórnsýslulög nr. 37/1993 og birting auglýsingar um tiltekið starf felur því í sér tilkynningu um að formleg meðferð stjórnsýslumáls, sem lýkur með ákvörðun um ráðningu, sé hafin.

Jafnframt hef ég margoft vikið að því í álitum mínum að í samræmi við óskráðar meginreglur stjórnsýsluréttar ber stjórnvaldi að miða málsmeðferðina og ákvörðun sína við að ráða þann hæfasta úr hópi umsækjenda í viðkomandi starf. Í íslenskum rétti hafa ekki verið lögfestar almennar reglur um það hvaða sjónarmið stjórnvöld eigi að leggja til grundvallar ákvörðun um veitingu á opinberu starfi þegar almennum hæfisskilyrðum sleppir, sbr. 5. gr. laga nr. 70/1996, í tilviki starfsmanna ríkisins. Er almennt talið að meginreglan sé því sú að viðkomandi stjórnvald ákveði á hvaða sjónarmiðum það byggir slíka ákvörðun ef ekki er sérstaklega mælt fyrir um það í lögum eða stjórnvaldsfyrirmælum. Í samræmi við réttmætisreglu stjórnsýsluréttar þurfa þau sjónarmið að vera málefnaleg, eins og sjónarmið um menntun, starfsreynslu, hæfni og eftir atvikum aðra persónulega eiginleika sem viðkomandi stjórnvald telur máli skipta. Þegar þau sjónarmið sem stjórnvaldið hefur ákveðið að byggja ákvörðun sína á leiða ekki öll til sömu niðurstöðu þarf að meta þau innbyrðis. Við slíkt mat á innbyrðis vægi sjónarmiða gildir sú meginregla að stjórnvaldið ákveði á hvaða sjónarmið það leggur áherslu ef ekki er mælt fyrir um það í lögum eða stjórnvaldsfyrirmælum.

Af þessu réttarumhverfi leiðir að sé það ekki lögbundið eða ákveðið í stjórnvaldsfyrirmælum hvaða hæfis- og hæfnisskilyrði starfsmaður þarf að uppfylla til að gegna því starfi sem ætlunin er að auglýsa laust til umsóknar þarf af hálfu þess stjórnvalds sem fer með ráðninguna að taka afstöðu til þess á hvaða kröfum það ætlar að byggja mat sitt á umsækjendum. Þannig þarf að taka afstöðu til þess hvort og þá hvaða skilyrði eigi að setja sem almenn hæfisskilyrði, þ.e. tiltekin lágmarksskilyrði sem starfsmaður þarf að uppfylla bæði við ráðninguna og meðan hann gegnir starfinu. Dæmi um slíkt er ef ætlunin er að áskilja tiltekna menntun til að gegna starfinu. Á þessu stigi málsins þarf stjórnvaldið jafnframt að móta á hvaða sjónarmiðum, þegar sleppir beinum hæfis- og hæfnisskilyrðum, það ætlar að byggja við mat sitt og val á milli umsækjenda. Afmörkun á þessum atriðum miðar að því að stjórnvaldið hafi fyrirfram tekið afstöðu til þess að hvers konar starfsmanni verið er að leita. Slíkt er einnig liður í því að leggja fullnægjandi grundvöll að endanlegri ákvörðun í málinu í samræmi við rannsóknarreglu 10. gr. stjórnsýslulaga. Hér verður þó að taka fram að með tilliti til þess hversu matskennd hin endanlega ákvörðun um hver skuli ráðinn í opinbert starf er, og þess að þar til umsóknarfrestur er liðinn liggur ekki fyrir hver hæfni umsækjenda er, kann úrvinnsla á umsóknum að leiða til þess að vægi einstakra sjónarmiða tekur breytingum. Þá kann niðurstaðan einnig að verða sú að stjórnvaldið telji sig ekki hafa með auglýsingunni fengið umsækjendur sem falli nægjanlega að hæfniskröfum og þeim sjónarmiðum sem ætlunin er að byggja á við val á starfsmanni, en í þeim tilvikum kann stjórnvaldinu að vera fær sú leið að auglýsa starfið að nýju og afmarka þá slík atriði betur í nýrri auglýsingu.

Auglýsing um laust opinbert starf felur, eins og áður sagði, í sér formlega og opinbera tilkynningu um að stjórnvaldið hafi hafið sérstakt stjórnsýslumál sem miði að því að ráða í tiltekið starf eða tiltekin störf úr hópi umsækjenda. Meðal þeirra óskráðu grundvallarreglna stjórnsýsluréttarins sem stjórnvöldum ber að fylgja er svonefnd skýrleikaregla. Af henni leiðir að ákvarðanir stjórnvalda og tilkynningar þeirra sem beint er til borgaranna verða jafnan að vera eins skýrar og glöggar að efni til og kostur er. Borgararnir eiga því m.a. af lestri þess sem stjórnvöld birta að geta gert sér grein fyrir hvaða skilyrði þeir þurfa að uppfylla til þess að geta komið til greina til að njóta tiltekinna réttinda eða gæða sem stjórnvöld taka ákvörðun um.

Á það var jafnframt bent hér að framan að skyldan til að auglýsa opinber störf byggist bæði á þeim hagsmunum borgaranna að eiga kost á því að koma til greina við val í störf sem þeir kunna að hafa áhuga á og uppfylla nauðsynleg skilyrði til að gegna og jafnframt á þeim hagsmunum hins opinbera, og þar með almennings, að fá til starfa vel hæfa einstaklinga. Um fyrra atriðið er einnig horft til þess að jafnræði ríki gagnvart þeim sem kunna að vilja koma til greina við val í starfið. Forsenda fyrir því að einstaklingar geti gert sér grein fyrir því hvort þeir hafi áhuga á því að sækja um auglýst starf er að þeir geti af lestri auglýsingarinnar gert sér grein fyrir því hvers eðlis starfið er, hvaða lágmarks hæfis- og hæfniskröfur umsækjendur þurfa að uppfylla og hvaða meginsjónarmiðum verði fylgt við val úr hópi umsækjenda. Upplýsingar um þessi atriði eru jafnframt forsenda þess að umsækjendur geti lagt fram með umsókn sinni þær upplýsingar og gögn sem þeir telja að geti skipt máli við mat á umsókn þeirra hjá stjórnvaldinu. Því gleggri sem þessar upplýsingar eru í auglýsingunni ættu að vera meiri líkur á vönduðum undirbúningi ákvörðunar.

Eins og ég nefndi einnig í áliti mínu frá 18. júní 2012 hafa sjónarmið um réttmætar væntingar borgaranna fengið aukið vægi í stjórnsýslurétti á síðari árum. Efni auglýsingar um opinbert starf og þær kröfur sem þar koma fram, m.a. um menntun og starfsreynslu umsækjenda, kunna að vekja hjá þeim sem ákveða að sækja um starfið ákveðnar væntingar um að þeir uppfylli umræddar kröfur og að umsókn þeirra verði metin í því ljósi. Á sama hátt leiða þessi sjónarmið til þess að miklu skiptir að efni auglýsingar sé það skýrt að einstaklingar sem eru með aðra, og þá eftir atvikum meiri menntun og starfsreynslu, heldur en verið er að leita eftir til að manna starfið, geti gert sér grein fyrir hvaða þýðingu þessi atriði hafi við mat á umsóknum þeirra. Hér verður ekki fjallað um í hvaða mæli slíkt getur samrýmst reglunni um að hæfasti umsækjandinn skuli valinn hverju sinni. Hvað sem því líður skiptir miklu máli að efni og orðalag auglýsingar um opinbert starf sé ekki til þess fallið að vekja væntingar um að eðli starfsins eða mat á umsækjendum verði annað en leiðir af eðlilegum skilningi á orðalagi auglýsingar um starfið.

Mikilvægi og þýðing þess að efni auglýsinga um opinber störf sé eins skýrt og kostur er hvað varðar hæfis- og hæfnisskilyrði og þau sjónarmið sem ætlunin er að leggja til grundvallar við ákvörðun um ráðningu í starfið og þar með við mat á umsóknum segir m.a. til sín þegar reynir á ákvörðun um ráðninguna fyrir dómstólum og eftirlitsaðilum. Efni auglýsingar getur einnig veitt eftirlitsaðilum, eins og t.d. kærunefnd jafnréttismála og umboðsmanni Alþingis, ákveðna forsögn um það hvaða kröfur hafa verið gerðar til umsækjenda og hvernig ætlunin hefur verið að meta þær. Ónákvæmni í orðalagi auglýsingar eða síðari frávik frá því sem þar kemur fram við mat og ákvarðanatöku um ráðninguna kann einmitt að leiða til þess að umsækjandi sem ekki hefur verið ráðinn ákveður að leita með málið til dómstóla eða sérstakra eftirlitsaðila. Reynslan sýnir að dómstólar og eftirlitsaðilar með þessum ákvörðunum innan stjórnsýslunnar byggja að jafnaði niðurstöðu sína á því að gæta hafi þurft samræmis milli efnis auglýsingar um starfið og mats á umsóknum.

Eins og áður var rakið kemur fram í verklagsreglum um ráðningar, sem samþykktar voru í bæjarstjórn X 13. mars 2012, að taka þurfi fram „kröfur um menntun og reynslu“ í auglýsingu um laust starf. Í auglýsingu um starf forstöðumanns í búsetuþjónustu við fatlað fólk var í framhaldi af orðunum: „Menntun/reynsla“ tekið fram að „óskað [væri] eftir starfsmanni sem [hefði] lokið þroskaþjálfanámi eða öðru sambærilegu háskólanámi“. Í starfið var síðan ráðinn einstaklingur sem ekki hafði lokið háskólanámi heldur var sjúkraliði að mennt. Með hliðsjón af þeim sjónarmiðum sem gerð er grein fyrir hér að ofan reynir því á hvort það var málefnalegt og forsvaranlegt af hálfu X-kaupstaðar við ráðningu í starfið að víkja frá því viðmiði um menntun sem það hafði sérstaklega „óskað“ eftir að tilvonandi starfsmaður fullnægði.

Í rökstuðningi X-kaupstaðar til A og í skýringum sveitarfélagsins til mín hefur því verið haldið fram að ekki hafi staðið til að gera kröfu um tiltekna menntun. Hvað sem þessu líður breytir það ekki því að af framsetningu og orðalagi auglýsingarinnar verður dregin sú ályktun að krafa hafi þar verið gerð um tiltekna menntun í starfið. Þrátt fyrir að notað hafi verið orðið „óskað“ í auglýsingunni, eins og sveitarfélagið hefur bent á, tek ég í fyrsta lagi fram að stuðst er við orðið í orðasambandinu „óskað er eftir“. Í öðru lagi tek ég fram að í auglýsingunni segir í beinu framhaldi að tiltekin reynsla sé „æskileg“. Jafnframt minni ég á að í verklagsreglum sveitarfélagsins er tekið fram að í auglýsingu um laust starf skuli koma fram „kröfur um menntun og reynslu“ en umrædd tilgreining á þroskaþjálfanámi eða öðru sambærilegu háskólanámi kom fram undir þeim lið auglýsingarinnar sem bar heitið „Menntun/reynsla“. Þótt þær verklagsreglur sveitarfélagsins sem þarna er vísað til hafi verið settar umfram þær lágmarkskröfur sem kveðið er á um í lögum breytir það ekki því að yfirstjórn sveitarfélagsins hefur ákveðið hvernig auglýsingar um störf á vegum þess skuli settar fram og borgararnir eiga að geta treyst því að þeim sé fylgt. Hafi ætlunin verið sú að setja aðeins fram tiltekið sjónarmið við mat á hæfni án þess að fylgt væri því ákvæði verklagsreglnanna að tilgreina „Kröfur um menntun? þá uppfyllti auglýsingin ekki umræddar reglur og var heldur ekki orðuð með nægjanlega skýrum og glöggum hætti þannig að þeir sem mögulega hefðu áhuga á starfinu gætu áttað sig nægjanlega á því að hvers konar starfsmanni verið væri að leita að.

Jafnframt kemur fram í skýringum sveitarfélagins til mín að í raun hafi enginn umsækjandi uppfyllt skilyrði auglýsingarinnar. Af því tilefni ítreka ég þá afstöðu sem ég hef áður lýst, sjá álit mitt frá 29. apríl 2011 í málum nr. 5949/2010 og 5959/2010, að verði það niðurstaðan eftir að ráðningarferli er hafið með auglýsingu starfs að skilyrði í auglýsingunni hafi þar verið orðuð með of fortakslausum hætti á stjórnvaldið þann kost að hafna öllum framkomnum umsóknum og auglýsa starfið að nýju kjósi það að hverfa frá eða breyta þeim skilyrðum sem það hefur sett í fyrri auglýsingu um starfið. Slíkt er einnig í samræmi við þau sjónarmið sem búa að baki því að þeir sem í reynd uppfylla þau skilyrði sem koma fram í auglýsingu eigi kost á því að sækja um starfið og að í auglýsingu komi fram þau grundvallaratriði um kröfur til umsækjenda sem mat á umsóknum þeirra verði byggt. Þetta á einkum við með hliðsjón af því jafnræði og samræmi sem stjórnvöldum ber að fylgja í störfum sínum og gagnvart öðrum sem annars kynnu að hafa sótt um starfið ef umrætt skilyrði hefði ekki verið tilgreint í auglýsingunni.

Ég get því ekki fallist á að það hafi verið málefnalegt og forsvaranlegt að víkja frá þeirri kröfu um menntun sem sett var fram í auglýsingu um starfið og ráða á grundvelli auglýsingarinnar starfsmann sem hafði annars konar menntun. Ákvörðun X-kaupstaðar var að þessu leyti ekki í samræmi við lög.

V. Niðurstaða

Með vísan til þess sem að framan er rakið er það niðurstaða mín að ekki hafi verið málefnalegt og forsvaranlegt að víkja frá þeirri kröfu um menntun sem var sett fram í auglýsingu um starfið. Ákvörðun X-kaupstaðar var að þessu leyti ekki í samræmi við lög.

Með vísan til dómaframkvæmdar og að teknu tilliti til hagsmuna þess sem hlaut starfið tel ég þó ólíklegt að framangreindur annmarki leiði til ógildingar á ráðningunni. Ég bendi á, að eins og jafnan þegar verulegir annmarkar hafa orðið á meðferð stjórnvalds á stjórnsýslumáli, leiðir það af almennum starfsskyldum stjórnvalda að rétt er að þau taki afstöðu til þess hvort og þá hvernig bætt verði úr þeim annmörkum og afleiðingum þeirra gagnvart hlutaðeigandi. Þegar atvik í þessu máli eru virt eru það tilmæli mín til X-kaupstaðar að leitað verði leiða til að rétta hlut A. Að öðru leyti verður það að vera verkefni dómstóla að fjalla um frekari réttaráhrif þessara annmarka, þar með talið um hugsanlega skaðabótaábyrgð ríkisins gagnvart A.

Ég beini jafnframt þeim tilmælum til sveitarfélagsins að það taki framvegis mið af þeim sjónarmiðum sem koma fram í áliti þessu.

VI. Viðbrögð stjórnvalda.

Svarbréf bæjarstjóra viðkomandi sveitarfélags, dags. 21. maí 2014, barst mér í kjölfar fyrirspurnar minnar um málið. Þar kemur fram að álitið hafi verið kynnt á bæjarráðsfundi og tilteknum starfsmönnum sveitarfélagsins falin úrvinnsla málsins. Í framhaldi af því hafi verið fundað með A með það að leiðarljósi að rétta hlut hennar og ýmissa gagna aflað. Samkomulag við A hafi verið samþykkt í bæjarráði og bæjarstjóra falið að ganga frá því með undirritun sinni fyrir hönd sveitarfélagsins. Fundargerð bæjarráðs verði lögð fram á fundi sveitarstjórnarinnar til staðfestingar og að því loknu gengið formlega frá samkomulaginu. Tekið er fram að fullur skilningur sé á málsmeðferðinni af hálfu A og samstarf um lyktir málsins hafi gengið með ágætum. Að öðru leyti er tekið fram að skipaður hafi verið starfshópur til að endurskoða starfsmannastefnu sveitarfélagsins og hann muni m.a. fara yfir gildandi verklagsreglur um ráðningar og eftir atvikum gera tillögur að breytingum. Þá hafi verið brýnt fyrir forstöðumönnum að vanda allt ráðningarferli og taka mið af auglýstum hæfniskröfum þegar ráðið er í störf hjá sveitarfélaginu.