Heilbrigðismál. Álit landlæknis. Endurupptaka máls.

(Mál nr. 7323/2012)

B leitaði til umboðsmanns Alþingis fyrir hönd dóttur sinnar A og kvartaði yfir úrskurði velferðarráðuneytisins þar sem staðfest var ákvörðun embættis landlæknis um að synja A um endurupptöku máls hennar. Var synjunin byggð á því að Landspítali-Háskólasjúkrahús, sem aðili máls, hafi ekki samþykkt endurupptökuna í samræmi við skilyrði 2. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

Settur umboðsmaður tók fram að álit landlæknis um hvort vanræksla eða mistök hafi átt sér stað við veitingu heilbrigðisþjónustu, sbr. 2. mgr. 12. gr. laga nr. 41/2007, um landlækni og lýðheilsu, væru ekki stjórnvaldsákvarðanir. Í 5. mgr. 12. gr. væri aftur á móti kveðið á um að stjórnsýslulög giltu um meðferð kvartana að öðru leyti en tilgreint væri í ákvæðinu „eftir því sem við [gæti] átt“. Þrátt fyrir að ganga yrði út frá því að lögin giltu við meðferð kvartana væri ekki sjálfgefið að það ætti við um öll ákvæði þeirra. Sum ákvæði í VI. og VII. kafla stjórnsýslulaga væru því marki brennd að þar væri kveðið á um tiltekin úrræði sem lytu beinlínis að því að taka upp og breyta ákvörðunum þar sem kveðið hefði verið með bindandi hætti á um rétt og skyldur manna, sbr. 2. mgr. 1. gr. og 1. mgr. 20. gr. stjórnsýslulaga. Þegar mál væri tekið til nýrrar meðferðar kæmi þannig til greina að taka nýja ákvörðun, sem felldi eldri ákvörðun úr gildi, eða breyta henni. Við það kynnu réttaráhrif fyrri ákvörðunar að rakna við eða breytast til frambúðar og þar með réttarstaða allra aðila málsins. Að baki skilyrði 2. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga byggju þeir hagsmunir að ákvarðanir sem kveða með bindandi hætti á um rétt og skyldur standi og að aðilar geti lagt traust sitt á það. Þeir sem væru „aðilar“ að kvörtunarmálum til landlæknis hefðu ekki sömu hagsmuni af því að gætt væri að skilyrði 2. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga fyrir endurupptöku máls. Því féllst settur umboðsmaður ekki á þá afstöðu velferðarráðuneytisins að ákvæði 24. gr. stjórnsýslulaga gilti í málum þessum heldur óskráðar meginreglur stjórnsýsluréttar.

Þar sem úrskurður velferðarráðuneytisins byggðist á röngum lagagrundvelli beindi settur umboðsmaður þeim tilmælum til ráðuneytisins að taka upp mál A að nýju, kæmi fram beiðni frá henni þess efnis, og leysa úr málinu í samræmi við þau sjónarmið sem gerð væri grein fyrir í álitinu.

I. Kvörtun.

Hinn 28. desember 2012 leitaði til umboðsmanns Alþingis B, fyrir hönd dóttur sinnar A, og kvartaði yfir úrskurði velferðarráðuneytisins, dags. 3. apríl 2012, þar sem staðfest var ákvörðun embættis landlæknis, dags. 18. júlí 2011, um að synja A um endurupptöku máls hennar. Var synjunin byggð á þeim grundvelli að Landspítali-Háskólasjúkrahús sem aðili máls hafi ekki samþykkt endurupptökuna í samræmi við skilyrði 2. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

Af kvörtuninni og gögnum málsins verður m.a. ráðið að A og aðstandendur hennar telji að meðferð sem hún fékk vegna [áverka] á Landspítalanum í lok ársins 2005 hafi valdið henni varanlegum skaða. Málinu hafi á sínum tíma verið beint til landlæknis sem gaf út álit sitt 21. nóvember 2006. Á árinu 2010 hafi sá sérfræðingur sem veitti embætti landlæknis umsögn sem lögð var til grundvallar í álitsgerð embættisins dregið hana til baka. Af þeim sökum telur A að hún eigi rétt á endurupptöku málsins.

Hinn 15. febrúar 2014 var undirritaður settur í embætti umboðsmanns Alþingis á grundvelli 3. mgr. 14. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, og hefur farið með mál þetta frá þeim tíma.

Ég lauk máli þessu með áliti, dags. 28. febrúar 2014.

II. Málavextir.

Samkvæmt gögnum málsins hlaut A alvarleg[a] [áverka], [...], vegna slyss sem hún varð fyrir [í lok árs] 2005. Telur hún að varanlegan skaða [...] megi rekja til mistaka við meðferð vegna [...] á Y-deild Landspítalans í [lok árs] 2005. Í kjölfarið leitaði hún til embættis landlæknis og bar þar fram kvörtun, dags. 14. febrúar 2006. Lauk embættið umfjöllun sinni um kvörtunina með álitsgerð, dags. 21. nóvember 2006, þar sem fram kemur að meðferð [...] A hafi verið í samræmi við viðurkennda læknisfræði. Álitsgerðin var byggð á ýmsum gögnum, s.s. bréfum og greinargerðum meðferðarlækna en einnig leitaði embættið ráðgjafar óháðs sérfræðings, X, læknis, sem skilaði umsögn 10. júlí 2006. Í niðurstöðu álitsgerðar landlæknis segir eftirfarandi:

„Landlæknisembættið tekur undir álitsgerð ráðgefandi sérfræðings að faglega viðurkenndri meðferð hafi verið beitt við [...] [A], sem leiddu til [varanlegs skaða].

Þó vikið hafi verið frá leiðbeiningum framleiðanda við notkun [...] hvað varðar tíðni [...], er ekki talið að vissa sé fyrir því að betri árangur hefði náðst þótt [...] hefðu verið sjaldnar. Meðferð [áverka] [A] frá slysi til útskriftar var í samræmi við viðurkennda læknisfræði. Árangur meðferðar er í samræmi við alvarleika slyssins og meðferðarúrræði.

[...] Að mati landlæknisembættisins er ekki ástæða til frekari aðgerða.“

Með bréfi, dags. 15. júlí 2010, vakti ráðgjafi embættis landlæknis, X, athygli embættisins á því að honum hefðu nýlega verið sýndar upplýsingar um sjúkdómsgreiningu, skráningu og meðferð máls A, sem vöktu spurningar og gætu breytt niðurstöðu hans, sem fram kom í framangreindri umsögn til embættisins. Óskaði hann því eftir að upprunaleg beiðni og öll gögn yrðu send sér. Með bréfi, dags. 2. september 2010, tilkynnti X embætti landlæknis að þar sem ekki hefði verið orðið við beiðni hans um að fá send gögn, drægi hann til baka „greinargerð“ sína frá 10. júlí 2006. Þann 2. mars 2011 ritaði landlæknir bréf til X þar sem vísað var til bréfs hans frá 15. júlí 2010 um endursendingu upprunalegra gagna málsins. Þar kemur fram að gögnin hafi verið send í ábyrgðarpósti en þau hafi ekki verið sótt á pósthúsið og því verið endursend. Með vísan til þessa taldi embætti landlæknis að það hefði gert það sem í valdi þess stóð til að verða við erindi X.

Í kjölfar þess að X dró umsögn sína til baka óskaði lögmaður A eftir því við embætti landlæknis með bréfi, dags. 1. apríl 2011, að mál hennar yrði endurupptekið hjá embættinu. Jafnframt var þess krafist að X fengi að skila annarri umsögn með hliðsjón af öllum gögnum málsins. Með bréfi, dags. 2. maí 2011, óskaði landlæknir eftir sjónarmiði Landspítalans um hvort forsvarsmenn hans teldu spítalann og/eða starfsmenn hans vera aðila máls í skilningi stjórnsýslulaga nr. 37/1993 í kvörtunarmáli samkvæmt 12. gr. laga nr. 41/2007, um landlækni og lýðheilsu. Ef svo væri, óskaði landlæknir eftir upplýsingum um hvort Landspítalinn samþykkti endurupptöku máls A. Í bréfinu rakti landlæknir jafnframt 24. gr. stjórnsýslulaga og þau skilyrði endurupptöku sem þar koma fram. Í svarbréfi forstjóra Landspítalans, dags. 27. maí 2011, segir m.a. eftirfarandi:

„Landspítali telur sig aðila máls þar sem ákvörðun yrði beint til hans. Spítalinn á lögmætra hagsmuna að gæta enda stjórnvaldsákvörðun til þess fallin að baka Landspítala skaðabótaskyldu og/eða orðsporshnekki ef svo ólíklega vildi til að niðurstaðan yrði spítalanum í óhag. Með hliðsjón af framangreindu verður að ætla að skilyrðum stjórnsýslulaga sé fullnægt og að Landspítali eigi einstaklegra hagsmuna að gæta umfram aðra enda hagsmunir hans verulegir.“

Í bréfinu kemur jafnframt fram að Landspítalinn teldi ekki fullnægjandi ástæður fram komnar fyrir endurupptöku málsins. Byggði Landspítalinn m.a. á því að þótt X kynni að breyta umsögn sinni í málinu myndi það breyta litlu enda stæðu eftir sérfræðiálit sem ekki hefðu verið hrakin. Lagðist Landspítalinn því gegn endurupptöku.

Í ákvörðun landlæknis, dags. 18. júlí 2011, er vísað til þess að í 12. gr. laga nr. 41/2007 sé fjallað um kvörtun til landlæknis en þar sé ekki vikið að endurupptöku mála. Hins vegar gildi ákvæði stjórnsýslulaga eftir því sem við á. Að því búnu er rakið ákvæði 24. gr. stjórnsýslulaga um endurupptöku máls og fjallað um rök að baki takmörkun á endurupptöku þegar hagsmunir annarra aðila máls eru gagnstæðir. Í ákvörðuninni segir jafnframt eftirfarandi:

„Það er mat Landlæknisembættisins að sú sjúkrastofnun eða sá heilbrigðisstarfsmaður sem kvörtun skv. 12. gr. laga um landlækni beinist að, sé aðili málsins þar sem hún/hann hafi beinna, verulegra og sérstakra hagsmuna að gæta í kvörtunarmálinu. Í þessu tilviki beindist kvörtun að Landspítalanum og er hann því aðili málsins, að mati Landlæknisembættisins.“

Þar sem samþykki Landspítalans, sem aðila máls, lá ekki fyrir var endurupptöku málsins hafnað með vísan til 24. gr. stjórnsýslulaga.

Með kæru, dags. 15. ágúst 2011, skaut lögmaður A ákvörðun landlæknis til velferðarráðuneytisins með vísan til 6. mgr. 12. gr. laga nr. 41/2007. Ráðuneytið úrskurðaði í málinu 3. apríl 2012 en í niðurstöðukafla úrskurðarins segir m.a. eftirfarandi: „Samþykki Landspítala sem er aðili máls liggur ekki fyrir.“ Með vísan til þessa taldi velferðarráðuneytið ekki unnt að fallast á kröfur A um endurupptöku málsins hjá embætti landlæknis. Var synjun þess því staðfest.

III. Samskipti umboðsmanns Alþingis og velferðarráðuneytisins.

Gögn málsins bárust umboðsmanni 22. febrúar 2013 samkvæmt beiðni þar um. Í framhaldinu ritaði umboðsmaður velferðarráðherra bréf, dags. 26. mars 2013, og óskaði þess með vísan til 7. og 9. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, að ráðuneyti hans lýsti afstöðu sinni til þess, sem kemur fram í úrskurði ráðuneytisins, að Landspítalinn teljist aðili málsins og því sé ekki fullnægt skilyrðum fyrir endurupptöku þar sem samþykki spítalans liggi ekki fyrir.

Í svarbréfi velferðarráðuneytisins, dags. 7. maí 2013, er vikið að því að stjórnvald geti talist aðili stjórnsýslumáls. Síðan segir m.a. eftirfarandi í bréfinu:

„Álit Embættis landlæknis skv. 2. mgr. 12. gr. laga, um landlækni og lýðheilsu, kveður ekki á bindandi hátt um réttindi og skyldur aðila og er álit landlæknis því ekki stjórnsýsluákvörðun í skilningi stjórnsýslulaga. Í 12. gr. laganna er sett fram krafa um sérstaka málsmeðferð, en að öðru leyti skuli ákvæði stjórnsýslulaga gilda eftir því sem við á um meðferð kvartana.

Ráðuneytið telur því með vísan til framanritaðs að Landspítalinn hafi verulegra hagsmuna að gæta í málinu og teljist aðili að því.“

Engar efnislegar athugasemdir voru gerðar við ofangreint bréf af hálfu A.

IV. Álit setts umboðsmanns Alþingis.

1. Afmörkun athugunar og lagagrundvöllur málsins.

Samkvæmt framanröktu staðfesti velferðarráðuneytið synjun landlæknis á að endurupptaka mál A á þeim grundvelli að samþykki annars aðila málsins, Landspítala-Háskólasjúkrahúss, væri ekki til staðar eins og gert sé að skilyrði samkvæmt 2. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Í samræmi við þetta og kvörtun A hefur athugun mín á máli þessu lotið að því hvort framangreind afstaða velferðarráðuneytisins hafi verið í samræmi við lög. Áður en ég vík að því tel ég ástæðu til að rekja lagagrundvöll málsins.

Með lögum nr. 41/2007, um landlækni og lýðheilsu, hefur löggjafinn mælt fyrir um eftirlit landlæknis með heilbrigðisþjónustu, þ. á m. að sinna kvörtunum almennings vegna heilbrigðisþjónustu, sbr. i-lið 4. gr. laganna. Í 12. gr. laganna er nánar fjallað um kvörtun til landlæknis en ákvæði 2., 5. og 6. mgr. eru svohljóðandi:

„[...]

Heimilt er að beina formlegri kvörtun til landlæknis vegna meintrar vanrækslu og mistaka við veitingu heilbrigðisþjónustu. Þá er notendum heilbrigðisþjónustunnar jafnframt heimilt að bera fram formlega kvörtun til landlæknis telji þeir að framkoma heilbrigðisstarfsmanna við veitingu heilbrigðisþjónustu hafi verið ótilhlýðileg.

[...]

Landlæknir skal að jafnaði afla umsagnar frá óháðum sérfræðingi eða sérfræðingum þegar kvörtun lýtur að meintri vanrækslu eða mistökum við sjúkdómsgreiningu eða meðferð. Er viðkomandi sérfræðingum, svo og landlækni sjálfum, rétt að kalla sjúkling til skoðunar ef sérstök ástæða þykir til. Um meðferð kvartana gilda að öðru leyti ákvæði stjórnsýslulaga eftir því sem við getur átt. Að lokinni málsmeðferð gefur landlæknir skriflegt álit. Landlæknir skal í áliti sínu tilgreina efni kvörtunarinnar, málsatvik og rök fyrir niðurstöðu sinni. Aðalniðurstöðu skal draga saman í lok álits.

Heimilt er að kæra málsmeðferð landlæknis samkvæmt ákvæði þessu til ráðherra.“

Í III. kafla laga nr. 41/2007 eru síðan sérstök ákvæði um eftirlit landlæknis með heilbrigðisstarfsmönnum og úrræði af því tilefni.

Í almennum athugasemdum greinargerðar við frumvarp það er varð að lögum nr. 41/2007 segir að frumvarpið miði fyrst og fremst að því að skerpa á „hlutverki landlæknisembættisins sem eftirlits- og stjórnsýslustofnunar á sviði heilbrigðismála undir yfirstjórn heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra“. Þá séu heimildir almennings til að beina kvörtunum til landlæknis vegna heilbrigðisþjónustu útfærðar og styrktar. (Alþt. 2006-2007, A-deild, bls. 1377.) Í athugasemdum við 12. gr. frumvarpsins kemur fram að í 5. mgr. 3. gr. laga nr. 97/1990, um heilbrigðisþjónustu, sé mælt fyrir um að heimilt sé að vísa ágreiningsmálum til sérstakrar nefndar. Hafi ákvæðið verið túlkað svo að ágreiningsnefndin sé hliðsett stjórnvald við landlækni með þeim hætti að einstaklingar hafi val um það hvort þeir beini kvörtunum til nefndarinnar eða landlæknis. Við framkvæmd laganna hafi raunin orðið sú að landlæknir fái langflestar kvartanir til úrlausnar og því sé lagt til að ákvæði um nefndina verði felld niður. (Alþt. 2006-2007, A-deild, bls. 1389.) Í áliti setts umboðsmanns, nú kjörins umboðmanns, frá 15. júlí 1998 í máli nr. 1999/1997 komst hann að þeirri niðurstöðu að álit ágreiningsefndarinnar væru ekki stjórnvaldsákvarðanir. Aftur á móti gæti niðurstaða nefndarinnar um ábyrgð aðila og bótaskyldu haft þýðingu um framhald og niðurstöðu í ágreiningsmáli þeirra einstaklinga og heilbrigðisstofnana sem í hlut ættu.

Í ofantilvitnuðu ákvæði 5. mgr. 12. gr. laga nr. 41/2007 kemur fram að um meðferð kvartana til landlæknis gildi að öðru leyti ákvæði stjórnsýslulaga eftir því sem við geti átt. Ákvæði 24. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 kveður á um rétt aðila til endurupptöku máls en það er svohljóðandi:

„Eftir að stjórnvald hefur tekið ákvörðun og hún verið tilkynnt á aðili máls rétt á því að mál sé tekið til meðferðar á ný ef:

1. ákvörðun hefur byggst á ófullnægjandi eða röngum upplýsingum um málsatvik, eða

2. íþyngjandi ákvörðun um boð eða bann hefur byggst á atvikum sem breyst hafa verulega frá því að ákvörðun var tekin.

Eftir að þrír mánuðir eru liðnir frá því að aðila var tilkynnt um ákvörðun skv. 1. tölul. 1. mgr., eða aðila var eða mátti vera kunnugt um breytingu á atvikum þeim sem ákvörðun skv. 2. tölul. 1. mgr. var byggð á, verður beiðni um endurupptöku máls þó ekki tekin til greina, nema að fengnu samþykki frá öðrum aðilum málsins. Mál verður þó ekki tekið upp að nýju ef ár er liðið frá fyrrgreindum tímamörkum nema veigamiklar ástæður mæli með því.“

2. Umfjöllun landlæknis um kvörtun sem lokið hefur verið með áliti.

Líkt og vikið er að hér að framan er heimilt að beina formlegri kvörtun til landlæknis vegna m.a. meintrar vanrækslu eða mistaka við veitingu heilbrigðisþjónustu, sbr. 2. mgr. 12. gr. laga nr. 41/2007, um landlækni og lýðheilsu. Að lokinni málsmeðferð gefur landlæknir skriflegt álit, sbr. 5. mgr. 12. gr. laganna. Embætti landlæknis er ótvírætt stjórnvald sem heyrir undir yfirstjórn velferðarráðuneytisins og ræksla eftirlitshlutverks þess samkvæmt lögum nr. 41/2007 telst til stjórnsýslu ríkisins, m.a. í skilningi 1. mgr. 2. gr. stjórnsýslulaga og 1. mgr. 3. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis. Þótt álit landlæknis sé úrlausn stjórnvalds í ákveðnu og fyrirliggjandi máli sem kann að hafa verulega þýðingu fyrir þann sem eftir því leitar, og eftir atvikum þann heilbrigðisstarfsmann sem viðhafði þá athöfn eða sýndi það athafnaleysi sem álitið lýtur að, tel ég að ekki sé um að ræða stjórnvaldsákvörðun í merkingu 2. mgr. 1. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Hef ég þá einkum í huga að niðurstaða landlæknis kveður ekki með bindandi hætti á um rétt og skyldur manna. Samkvæmt fyrrnefndri 5. mgr. 12. gr. laga nr. 41/2007 fer þó um meðferð kvartana að öðru leyti en tilgreint er í þeirri grein eftir ákvæðum stjórnsýslulaga „eftir því sem við getur átt“. Þess utan gilda óskráðar meginreglur stjórnsýsluréttar við meðferð kvartana samkvæmt 12. gr. laga nr. 41/2007.

Með tilvísun til stjórnsýslulaga í 5. mgr. 12. gr. laga nr. 41/2007 verður ráðið að löggjafinn hafi gert ráð fyrir því að ákvæði þeirra laga skyldu gilda um málsmeðferð kvörtunarmála til landlæknis þar sem sérstökum ákvæðum 12. gr. laganna sleppir. Í samræmi við það verður almennt að ganga út frá því að málsmeðferðar- og efnisreglur laganna gildi að jafnaði um þessi mál, t.d. ákvæði II. til IV. kafla stjórnsýslulaga, sem bera fyrirsagnirnar sérstakt hæfi, almennar reglur og andmælaréttur. Af texta 5. mgr. 12. gr. laganna verður á hinn bóginn ráðið að ekki er sjálfgefið að þetta eigi við um öll ákvæði stjórnsýslulaga. Verður hér enda að hafa hugfast að álit landlæknis hefur ekki bindandi réttaráhrif fyrir aðila máls um rétt þeirra og skyldur. Í þessu sambandi má benda á að sum ákvæði í VI. og VII. kafla stjórnsýslulaga eru því marki brennd að þar er kveðið á um tiltekin úrræði sem lúta beinlínis að því að taka upp og breyta ákvörðunum þar sem kveðið hefur verið með bindandi hætti á um rétt og skyldur manna, sbr. 2. mgr. 1. gr. og 1. mgr. 20. gr. stjórnsýslulaga. Þegar mál er tekið til nýrrar meðferðar kemur þannig til greina að taka nýja ákvörðun, sem fellir eldri ákvörðun úr gildi, eða breyta henni. Við það kunna réttaráhrif fyrri ákvörðunar að rakna við eða breytast til frambúðar og þar með réttarstaða allra aðila málsins. Í samræmi við þetta er gert að skilyrði samkvæmt 2. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga að ef meira en þrír mánuðir eru liðnir frá því að ákvörðun var birt aðilum máls þurfi samþykki frá öðrum aðilum þess, þ.e. öðrum en þeim sem leitar endurupptöku, til að það verði endurupptekið. Búa hér að baki þeir hagsmunir að ákvarðanir sem kveða með bindandi hætti á um rétt og skyldur standi og að aðilar máls geti lagt traust sitt á það. Þeir sem eru „aðilar“ að kvörtunarmálum til landlæknis hafa ekki sömu hagsmuni af því að gætt sé þeirra skilyrða fyrir endurupptöku máls sem stjórnsýslulög mæla fyrir um. Með hliðsjón af því sem að framan er rakið get ég ekki fallist á þá afstöðu velferðarráðuneytisins að ákvæði 24. gr. stjórnsýslulaga gildi í málum þessum. Þegar landlæknir hefur gefið álit samkvæmt 12. gr. laga nr. 41/2007 og vafi er um að það hafi byggst á réttum og fullnægjandi upplýsingum stendur hann því ekki frammi fyrir því að taka ákvörðun um hvort aðili máls eigi rétt á því að mál sé tekið upp samkvæmt 24. gr. stjórnsýslulaga heldur hvort honum beri að gefa nýtt álit. Um þá ákvörðun gilda lög nr. 41/2007 og óskráðar meginreglur stjórnsýsluréttarins. Við mat á því verður landlæknir að horfa til þess hvers eðlis umræddur annmarki er og hver séu efnisleg áhrif hans. Jafnframt verður að hafa hugfast að markmið kvörtunarheimildar 12. gr. laga nr. 41/2007 er að tryggja réttaröryggi sjúklinga og að auka traust þeirra á heilbrigðiskerfinu. Ég bendi á í þessu sambandi að þegar heilbrigðisráðherra mælti fyrir frumvarpi til laga sem síðar varð að lögum nr. 40/1983, um heilbrigðisþjónustu, en með þeim var komið á fót ágreiningsnefnd til að fjalla um kvartanir vegna heilbrigðisþjónustu, tók hann eftirfarandi fram: „Ég tel að hér sé um að ræða mjög mikilsvert ákvæði sem hefði iðulega geta afstýrt misskilningi, togstreitu og erfiðleikum, bæði fyrir viðskiptamenn heilbrigðisþjónustunnar og starfsmenn heilbrigðisþjónustunnar.“ (Alþt. 1982-1983, B-deild, dálkur 78.) Löggjafinn hefur með 12. gr. laga nr. 41/2007 tryggt borgurunum tiltekið úrræði til að fá faglegt álit landlæknis m.a. á því hvort gætt hafi verið réttra aðferða við veitingu heilbrigðisþjónustu, en það getur síðan haft þýðingu í ágreiningsmáli þess einstaklings sem borið hefur fram kvörtun og þeirrar heilbrigðisstofnunar eða heilbrigðisstarfsmanns sem á í hlut. Ef málsmeðferð eða álit landlæknis er haldið slíkum annmarka að líkur eru á því að það hafi haft áhrif á efnislega niðurstöðu hans þjónar þetta úrræði vart tilgangi sínum og er til lítils halds fyrir borgarana nema landlæknir fjalli um málið á ný og gefi álit þar sem bætt hefur verið úr annmarkanum. Í þessu sambandi minni ég einnig á að úrlausnir stjórnvalda verða almennt að vera réttar að efni til og lögum samkvæmt.

Að því sögðu sem rakið er hér að framan tel ég rétt að geta þess að ekki er útilokað að fyrir hendi sé aðstaða sem geti mælt gegn því að landlæknir fjalli um mál á ný. Ég nefni í því sambandi sjónarmið á borð við hagsmuni annarra af málinu, það að langt er liðið frá því að umræddur gerningur átti sér stað, ólíklegt er að mál upplýsist nægjanlega eða að hagsmunir þess sem kvartar eru liðnir undir lok. Hafa verður þó í huga að ekki verður gerð krafa um samþykki þess sem kvörtun beinist að til þess að landlæknir fjalli um mál á nýjan leik eins og gert er að skilyrði samkvæmt 2. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga. Leggja verður mat á hagsmuni þess heilbrigðisstarfsmanns eða heilbrigðisstofnunar sem á í hlut. Við það mat getur skipt máli hvort um sé að ræða stjórnvald eða einkaaðila.

Fyrir liggur samkvæmt úrskurði velferðarráðuneytisins frá 3. apríl 2012 að ekki var tekin afstaða til þess hvernig þeir hagsmunir sem ég hef lýst hér að framan horfðu við í máli A. Í því ljósi og þar sem úrskurður ráðuneytisins byggðist á röngum lagagrundvelli, þ.e. 24. gr. stjórnsýslulaga, tel ég ekki ástæðu til að taka afstöðu til þess hvort landlækni hafi verið rétt að fjalla um málið á nýjan leik á grundvelli 12. gr. laga nr. 41/2007.

V. Niðurstaða.

Með vísan til framangreinds er það niðurstaða mín að úrskurður velferðarráðuneytisins um að staðfesta synjun landlæknis á endurupptöku máls með vísan til 24. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 hafi byggst á röngum lagagrundvelli.

Það eru tilmæli mín til velferðarráðuneytisins að taka mál A til nýrrar meðferðar, komi fram beiðni frá henni þess efnis, og að ráðuneytið leysi þá úr málinu í samræmi við þau sjónarmið sem gerð er grein fyrir í áliti þessu. Ég beini jafnframt þeim almennu tilmælum til ráðuneytisins að hafa ofanrakin sjónarmið framvegis í huga við úrlausn sambærilegra mála.

Þorgeir Ingi Njálsson.

VI. Viðbrögð stjórnvalda

Í tilefni af fyrirspurn minni um málið barst mér svarbréf velferðar-ráðuneytisins, dags. 27. febrúar 2015. Þar kemur fram að ráðuneytið hafi óskað eftir því að embætti landlæknis upplýsti um stöðu málsins, hafi og svar embættisins borist með bréfi, dags. 24. febrúar s.á., og var það hjálagt. Í bréfi embættis landlæknis kemur fram að með vísan til bréfs velferðarráðuneytisins, dags. 26. mars 2014, hafi embætti landlæknis tekið mál vegna kvörtunar A til meðferðar að nýju. Með bréfum, dags. 12. maí 2014, hafi aðilum málsins, þ.e. A og Landspítala, verið tilkynnt um nýja meðferð og gefinn kostur á að koma að nýjum gögnum og sjónarmiðum vegna málsins. Greinargerðir hafi borist frá báðum aðilum auk þess sem frekari upplýsingaöflun embættisins hafi farið fram. Með vísan til 5. mgr. 12. gr. laga, um landlækni og lýðheilsu, hafi landlæknir ákveðið að óska eftir umsögn óháðs sérfræðings og sé sú umsögn enn í vinnslu en líklega væntanleg bráðlega. Í bréfi velferðarráðuneytisins var að lokum tekið fram að ráðuneytið myndi hafa þau sjónarmið sem fram koma í álitinu í huga í störfum sínum.