Meðferð ákæruvalds. Niðurfelling saksóknar. Forsvaranlegt mat.

(Mál nr. 7395/2013)

A leitaði til umboðsmanns Alþingis og kvartaði yfir ákvörðun ríkissaksóknara um að falla frá saksókn gegn X með vísan til d-liðar 3. mgr. 146. gr. laga nr. 88/2008, um meðferð sakamála. Ákvörðun ríkissaksóknara var tilkomin vegna kæru A á meðferð, vinnslu og opinberri birtingu á viðkvæmum persónuupplýsingum úr sjúkraskrá hans.
Athugun setts umboðsmanns beindist í fyrsta lagi að því hvort ályktanir ríkissaksóknara af fyrirliggjandi gögnum og upplýsingum í málinu hafi verið forsvaranlegar. Af gögnum málsins varð ráðið að ákvörðun um að fella niður saksókn gegn X hafi lotið að þeirri háttsemi hans að upplýsa siðanefnd Læknafélags Íslands um hluta af sjúkrasögu A. Þá hafi ríkissaksóknari talið að B yrði ekki kennt um að upplýsingar um A hafi verið birtar. Aftur á móti taldi ríkissaksóknari að fullyrðingar A í kæru um að X hefði með ólögmætum hætti skoðað sjúkraskrá hans yrðu ekki taldar eiga við rök að styðjast.
Settur umboðsmaður benti á að ekki yrði séð að framangreind niðurstaða ríkissaksóknara væri byggð á forsendum sem ættu sér að öllu leyti stoð í gögnum málsins. Meðfylgjandi kæru A hefðu verið tiltekin gögn um uppflettingar X í sjúkraskrá A. Í skýringum ríkissaksóknara hefði í engu verið vikið að umræddum gögnum sem bentu til þess að X hefði skoðað sjúkraskrá A og þá hvort og hvaða þýðingu þau hefðu haft fyrir mat ríkissaksóknara á að falla frá saksókn. Taldi settur umboðsmaður ljóst að það hefði getað haft grundvallarþýðingu fyrir niðurstöðu málsins að þessu leyti að ríkissaksóknari hefði lagt mat á umrædd gögn og andstæð sjónarmið. Með vísan til þess var það niðurstaða hans að tilteknar ályktanir ríkissaksóknara, um að ekki væri ástæða til að véfengja skýringar X er lutu að skoðun hans á sjúkraskrá A og að kæra A um þetta atriði ætti ekki við rök að styðjast, hefðu ekki verið forsvaranlegar.
Athugun setts umboðsmanns laut í öðru lagi að skýringum ríkissaksóknara á niðurfellingu saksóknar. Eins og þær hafi verið fram settar taldi hann annars vegar ekki hægt að fullyrða að mat ríkissaksóknara á því hvort og þá með hvaða hætti ákvæði d-liðar 3. mgr. 146. gr. laga nr. 88/2008 hefði átt við í málinu hefði verið forsvaranlegt. Hinn vegar yrði ekki séð að skýringar ríkissaksóknara til umboðsmanns á niðurfellingu saksóknar hefðu verið fullnægjandi. Loks taldi settur umboðsmaður að tilkynning ríkissaksóknara til A um niðurfellingu málsins hefði ekki verið nægjanlega skýr um afstöðu hans til einstakra þátta málsins.
Settur umboðsmaður taldi ljóst að úr því sem komið yrði vart bætt úr þeim annmörkum sem hefðu verið á meðferð málsins hjá embætti ríkissaksóknara m.a. í ljósi fyrri málsl. 3. mgr. 57. gr. laga nr. 88/2008. Af gögnum málsins og skýringum ríkissaksóknara til umboðsmanns yrði auk þess ekki annað ráðið en að í ákvörðun hans um að falla frá saksókn gegn B hafi falist afstaða hans til allra þátta kæru A. Mæltist hans til þess að embættið hagaði málum framvegis með þeim hætti að gætt væri að þeim sjónarmiðum sem fram kæmu í álitinu.

I. Kvörtun.

Hinn 4. mars 2013 leitaði A til umboðsmanns Alþingis og kvartaði yfir ákvörðun ríkissaksóknara frá 20. febrúar 2013 um að falla frá saksókn gegn X lækni með vísan til d-liðar 3. mgr. 146. gr. laga nr. 88/2008, um meðferð sakamála. Ákvörðun ríkissaksóknara var tilkomin vegna kæru A á meðferð, vinnslu og opinberri birtingu á viðkvæmum persónuupplýsingum úr sjúkraskrá hans. A telur að ekki hafi verið hægt að byggja á umræddu lagaákvæði í málinu. Í því sé vísað til þess að falla megi frá saksókn ef brot hefur valdið sakborningi sjálfum óvenjulega miklum þjáningum eða aðrar sérstakar ástæður mæli með því að fallið sé frá saksókn, enda verði að telja að almannahagsmunir krefjist ekki málshöfðunar. Ekki verði séð hvernig þetta ákvæði eigi við í máli hans, öryggi sjúkraskráa varði almannahagsmuni og meint brot umrædds læknis hafi ekki haft neinar afleiðingar fyrir hann. Þá verður ráðið af kvörtun A að hann telji að niðurstaða málsins geti haft fordæmisgildi og því sé mikilvægt að fá úr því leyst fyrir dómstólum.

Hinn 15. febrúar sl. var undirritaður settur í embætti umboðsmanns Alþingis á grundvelli 3. mgr. 14. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, og hefur farið með mál þetta frá þeim tíma.

Ég lauk máli þessu með áliti, dags. 5. maí 2014.

II. Málavextir.

Forsaga málsins er sú að Z læknir beindi erindi til siðanefndar Læknafélags Íslands (LÍ) vegna ummæla X læknis um hann. Siðanefnd LÍ kvað upp úrskurð í málinu ... og birti hann í ... tölublaði Læknablaðsins sama ár. Í úrskurðinum voru birtar upplýsingar úr sjúkraskrá A. Sjúkraskrárupplýsingunum hafði verið miðlað til nefndarinnar af hálfu X sem þáttur í málsvörn hans fyrir nefndinni en A var ekki aðili að því máli. A leitaði með kvartanir til nokkurra stjórnvalda vegna málsins, m.a. Persónuverndar og embættis landlæknis, og í framhaldinu til velferðarráðuneytisins sem ráðuneytis heilbrigðismála. Að lokum leitaði hann til umboðsmanns Alþingis með kvartanir sem lutu m.a. að viðbrögðum og málsmeðferð þessara stjórnvalda vegna málsins. Ég lauk athugunum mínum á þeim málum A með áliti, dags. í dag, í málum nr. 7092/2012, 7126/2012 og 7127/2012. Auk þess leitaði A til umboðsmanns með kvörtun vegna synjunar innanríkisráðuneytisins á umsókn hans um gjafsókn vegna málshöfðunar á hendur X. Var athugun á þeim þætti málsins lokið í dag með áliti í máli nr. 7166/2012.

A lagði fram kæru hjá lögreglu, dags. 12. júní 2012, er beindist að meðferð, vinnslu og opinberri birtingu á viðkvæmum persónuupplýsingum úr sjúkraskrá hans í tengslum við sama mál. Var þar gerð krafa um að málið yrði rannsakað gagnvart þeim aðilum sem kynnu að hafa bakað sér refsiábyrgð við meðferð, vinnslu og opinbera birtingu viðkvæmra persónuupplýsinga úr sjúkraskrá hans. Að lokinni rannsókn málsins hjá lögreglu voru rannsóknargögn þess send ríkissaksóknara með bréfi, dags. 12. febrúar 2013, til fyrirsagnar og/eða meðferðar.

Ríkissaksóknari tilkynnti A með bréfi, dags. 20. febrúar 2013, að tekin hefði verið ákvörðun um að falla frá saksókn gegn X með eftirfarandi rökum:

„Ríkissaksóknara hafa borist rannsóknargögn í ofangreindu máli vegna kæru yðar á hendur [X] lækni vegna gruns um að hann hafi miðlað trúnaðarupplýsingum um sjúkrasögu yðar án heimildar og í andstöðu við lög um þagnarskyldu slíkra upplýsinga.

Rannsókn málsins er nú lokið og hafa rannsóknargögn málsins verið yfirfarin með hliðsjón af 145. gr. laga nr. 88/2008, um meðferð sakamála.

Yður tilkynnist hér með að tekin hefur verið ákvörðun um að falla frá saksókn gegn kærða með heimild í d. lið 3. mgr. 146. gr. laga nr. 88/2008.“

III. Samskipti umboðsmanns og embættis ríkissaksóknara.

Afrit af gögnum málsins bárust umboðsmanni Alþingis 5. apríl 2013 samkvæmt beiðni þar um. Í framhaldinu voru ríkissaksóknara rituð bréf, dags. 6. maí og 16. ágúst 2013. Þar var í fyrsta lagi óskað eftir því að ríkissaksóknari veitti upplýsingar um og skýringar á ákvörðun um að falla frá saksókn. Í því sambandi var sérstaklega óskað eftir að veittar yrðu nánari skýringar á vísun til d-liðar 3. mgr. 146. gr. laga nr. 88/2008, þar með talið hvort og þá að hvaða leyti brotið hafi valdið X miklum þjáningum eða hvaða sérstöku aðstæður hafi mælt með því að fallið yrði frá saksókn. Jafnframt var óskað skýringa á því mati ríkissaksóknara að almannahagsmunir krefðust ekki málshöfðunar. Í öðru lagi var óskað eftir því að veittar yrðu upplýsingar um hvort í ákvörðun ríkissaksóknara fælist afstaða til þeirra sjónarmiða sem A færði fram í kæru sinni um að X hafi framið brot með því að fara í sjúkraskrá hans í þeim tilgangi að ná þar í upplýsingar fyrir málsvörn sína fyrir siðanefnd LÍ, og þá óháð þeim meintu brotum sem hann taldi jafnframt að hafi falist í miðlun upplýsinganna til siðanefndarinnar og síðari birtingu þeirra. Ef svo væri var þess óskað að ríkissaksóknari veitti ítarlegri skýringar á því hvernig þessi sjónarmið væru metin og vegin gagnvart þeim sjónarmiðum sem komu fram í skýringum hans, og leiddu til niðurstöðu um að falla frá saksókn með vísan til d-liðar 3. mgr. 146. gr. laga nr. 88/2008. Ef svo væri ekki var óskað eftir ítarlegum skýringum á þeirri afstöðu.

Í svari ríkissaksóknara, dags. 16. maí 2013, er vikið að fyrri spurningu umboðsmanns. Þar segir að upphaf málsins megi rekja til þeirrar „sérkennilegu háttsemi [A] að bera á milli læknanna ummæli sem óvíst [sé] hvort rétt séu eftir höfð“. Sú háttsemi X að greina frá upplýsingum úr sjúkraskrá í vörn sinni fyrir siðanefndinni hafi verið refsilagabrot. Siðanefndin hafi tekið upplýsingarnar úr sjúkraskrá A upp í úrskurði sínum sem hafi verið birtur í Læknablaðinu og á heimasíðu LÍ. Þar hafi A ekki verið nafngreindur. X hafi ekki komið að þeirri birtingu. Í framhaldinu hafi kunningi A greint að þar væri fjallað um A en fram kemur að ríkisaksóknari fái „ekki séð af gögnum málsins að fram að þessu hafi nokkur annar áttað sig á þarna væri að finna upplýsingar um [A]“. A hafi aftur á móti sjálfur dregið athyglina að úrskurðinum og efni hans með því að lýsa óánægju sinni á birtingu upplýsinganna í fjölmiðlum. Síðan segir eftirfarandi:

„Með vísan til framangreinds er það niðurstaða ríkissaksóknara að brot [X] væru ekki þess eðlis að almannahagsmunir krefðust saksóknar, enda verði [X] ekki um kennt að upplýsingarnar voru teknar upp í úrskurðinum, að úrskurðurinn var birtur né að alþjóð var kunngjört að upplýsingarnar væru um [A]. Þeir ríku almannahagsmunir sem [A] telur felast í að ákæra vegna brota sem þessara gætu átt mjög vel við ef [X] hefði staðið að því að birta upplýsingarnar um [A] fyrir alþjóð en sú er ekki raunin eða rofið trúnað um þær í því skyni að þær yrðu birtar. Trúnaðarbrot [X] var bundið við að upplýsa siðanefndina, sem skipuð var tveimur læknum og héraðsdómara, um nokkuð afmarkaðan hluta af sjúkrasögu [A].“

Í svari ríkissaksóknara, dags. 27. ágúst 2013, er vikið að seinni fyrirspurn umboðsmanns með eftirfarandi hætti:

„Í skýrslu kærða [X] hjá lögreglu 22. nóvember 2012, kemur fram að þær upplýsingar sem hann miðlaði til siðanefndar lækna hafi hann fengið úr læknabréfi sem hann opnaði í starfi sínu sem læknir við heilsugæslustöðina [Þ]. Kemur fram hjá kærða [X] að upplýsingar um persónulega þætti komi ekki fram í sjúkraskránni, en hann hafi skoðað hana í tengslum við meðferð hans á kæranda [A]. Ríkissaksóknari telur ekki ástæðu til að véfengja þessar skýringar og lítur svo á að fullyrðing í kæru um að kærði [X] hafi „framið brot með því að fara í sjúkraskrá“ kæranda ekki eiga við rök að styðjast. Var það niðurstaða ríkissaksóknara að kærði hafi brotið ákvæði laga um þagnarskyldu vegna upplýsinga sem hann fékk í starfi sínu og hafi hann brotið gegn 136. og 230. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 og 1. mgr. 17. gr., sbr. 28. gr. læknalaga nr. 34/2012, eins og tilgreint er í ákvörðun ríkissaksóknara um að falla frá saksókn, sbr. d-lið 3. mgr. 146. gr. laga nr. 88/2008.

Svo spurningu umboðsmanns sé svarað beint þá var ákvörðun ríkissaksóknara um að falla frá saksókn á hendur [X] 20. febrúar 2013, ekki byggð á þeirri niðurstöðu að kærði hafi framið brot með því að fara í sjúkraskrá kæranda, heldur vegna þess að kærði hafi „greint frá trúnaðarupplýsingum um sjúkrasögu [A] [...] án heimildar og í andstöðu við lög um þagnarskyldu slíkra upplýsinga“ eins og tilgreint er í ákvörðuninni. Þá er rétt að benda á að engin tilvísun er í henni til laga um sjúkraskrár.“

A kom athugasemdum sínum á framfæri við embættið vegna svarbréfa ríkissaksóknara vegna málsins.

IV. Álit setts umboðsmanns Alþingis.

1. Afmörkun athugunar og lagagrundvöllur málsins.

Athugun mín í tilefni af kvörtun A hefur beinst að því hvort ályktanir ríkissaksóknara af fyrirliggjandi gögnum og upplýsingum í málinu hafi verið forsvaranlegar. Auk þess vík ég að skýringum ríkissaksóknara til mín um lagagrundvöll ákvörðunar hans að fella niður saksókn á hendur X. Áður en ég fjalla um framangreind atriði rek ég stuttlega lagagrundvöll málsins.

Samkvæmt meginreglu 142. gr. laga nr. 88/2008, um meðferð sakamála, skal sérhver refsiverð háttsemi sæta ákæru nema annað sé sérstaklega ákveðið í lögum. Í 145. gr. segir að þegar ákærandi hafi fengið gögn málsins í hendur og gengið úr skugga um að rannsókn sé lokið athugi hann hvort sækja skuli sakborning til sakar eða ekki. Ef hann telji það sem fram sé komið ekki nægilegt eða líklegt til sakfellis lætur hann við svo búið standa en ella höfðar hann mál á hendur sakborningi samkvæmt 152. gr., sbr. þó 146. gr.

Áður er rakið að ákvörðun ríkissaksóknara um að fella niður saksókn á hendur X var reist á d-lið 3. mgr. 146. gr. laganna. Ákvæðið er svohljóðandi:

„Enn fremur má falla frá saksókn þegar svo stendur á sem hér segir: [...]

d. ef brot hefur valdið sakborningi sjálfum óvenjulega miklum þjáningum eða aðrar sérstakar ástæður mæla með því að fallið sé frá saksókn, enda verði að telja að almannahagsmunir krefjist ekki málshöfðunar.“

Í athugasemdum við ákvæðið í frumvarpi því er varð að lögum nr. 88/2008 kemur fram að í 146. gr. sé mælt fyrir um niðurfellingu saksóknar þ.e. þegar fallið sé frá höfðun sakamáls í öðrum tilvikum en þeim sem 145. gr. tekur til. Þótt greinin taki vissulega mið af 113. gr. þágildandi laga sé lagt til að gerðar verði nokkrar breytingar á ákvæðum hennar sem lúta að heimild ákæranda til að falla frá saksókn. Þá er vikið að d-lið 3. mgr. 146. gr. með eftirfarandi hætti:

„Samkvæmt c-lið 2. mgr. 113. gr. gildandi laga er heimilt að falla frá saksókn ef brot hefur valdið sakborningi sjálfum óvenjulegum þjáningum og málsókn þykir ekki brýn af almennum refsivörsluástæðum. Í d-lið 3. mgr. er gerð tillaga um breytt orðalag frá umræddu ákvæði í þá veru að hert verði á skilyrðinu um að brot hafi valdið sakborningi þjáningum með því að þær verði að hafa verið „óvenjulega miklar“. Jafnframt er lagt til að litið verði til „almannahagsmuna“ þegar tekin er ákvörðun um það hvort fallið skuli frá saksókn eða höfðað mál í tilvikum sem þessum. Þessu til viðbótar er gert ráð fyrir því að aðrar sérstakar ástæður en óvenjulega miklar þjáningar sakbornings geti réttlætt það að fallið verði frá saksókn í undantekningartilvikum. Sem dæmi um slíkt tilvik mætti nefna þá háttsemi sem lýst er í e-lið 2. mgr. 113. gr. gildandi laga. Samkvæmt því ákvæði er heimilt að falla frá saksókn gagnvart sakborningi ef hann hefur beitt annan mann nauðung eða fjárkúgun með því að hóta ella að kæra hann fyrir refsivert athæfi, þó að því tilskildu að þetta brot sakborningsins sé ekki því stórfelldara. Í staðinn fyrir að taka háttsemi sem þessa eina út úr, eins og gert er í gildandi lögum, er lagt til að vísað verði almennt í d-lið 3. mgr. til sérstakra ástæðna, sem eftir atvikum gætu réttlætt niðurfellingu saksóknar, á borð við þær að hafa gripið í örvæntingu til annars konar ólögmæts atferlis en nauðungar eða fjárkúgunar við svipaðar aðstæður og lýst er í e-lið 2. mgr. 113. gr.“ (Alþt. 2007-2008, A-deild, bls. 1479-1480.)

Með framangreind lagasjónarmið að leiðarljósi vík ég þessu næst að atvikum í máli A.

2. Ályktanir ríkissaksóknara af gögnum málsins.

Af niðurstöðu ríkissaksóknara, dags. 20. febrúar 2013, og skýringum hans til mín verður ráðið að ákvörðun um að fella niður saksókn gegn X lækni með vísan til d-liðar 3. mgr. 146. gr. laga nr. 88/2008, um meðferð sakamála, hafi lotið að þeirri háttsemi X að „upplýsa siðanefndina, sem skipuð var tveimur læknum og héraðsdómara, um nokkuð afmarkaðan hluta af sjúkrasögu [A]“. Þá var það niðurstaða ríkissaksóknara að X yrði „ekki um kennt að upplýsingarnar voru teknar upp í úrskurðinum, að úrskurðurinn var birtur né að alþjóð var kunngjört að upplýsingarnar væru um [A]“. Aftur á móti taldi ríkissaksóknari að fullyrðingar A í kæru um að X hefði með ólögmætum hætti skoðað sjúkraskrá hans yrðu ekki taldar „eiga við rök að styðjast“. Ekki verður annað ráðið en að sú afstaða ríkisaksóknara hafi byggst á skýrslu X hjá lögreglu í nóvember 2012. Þar kom fram að hann hefði ekki skoðað sjúkraskrá A í tilefni af því máli sem var rekið fyrir siðanefndinni heldur hefði hann fengið umræddar upplýsingar úr læknabréfi sem hann hefði opnað í starfi sínu sem læknir við heilsugæslustöðina Þ og síðar skoðað sjúkraskrá hans í tengslum við meðferð hans á sjúkrahúsinu. Í skýringum ríkissaksóknara til mín, dags. 27. ágúst 2013, kemur fram að hann hafi „ekki ástæðu til að véfengja þessar skýringar“.

Með hliðsjón af gögnum málsins bendi ég aftur á móti á að ekki verður séð að framangreind niðurstaða ríkissaksóknara sé byggð á forsendum sem eigi sér að öllu leyti stoð í þeim. Meðfylgjandi kæru A til lögreglu var bréf Fjórðungssjúkrahússins Æ til Persónuverndar, dags. 4. október 2011, sbr. fylgiskjal nr. 11. Þar kemur fram að X hafi upphaflega skoðað sjúkragögn A vegna meðferðar á beinbroti. Síðan segir í bréfinu: „Við teljum heldur ekki óeðlilegt að [X] hafi endurskoðað gögnin þegar kvörtun barst siðanefnd lækna frá [A].“ Af tilvitnuðum orðum verður dregin sú ályktun að X hafi fyrst skoðað gögn um A þegar hann sinnti honum er hann leitaði til hans vegna beinbrots en síðan aftur í tilefni af umræddu máli sem var rekið fyrir siðanefnd LÍ. Ég árétta að A var ekki aðili að því máli. Þær fullyrðingar eru síðan studdar frekari gögnum í síðara bréfi sjúkrahússins til Persónuverndar, dags. 7. maí 2012, sbr. fylgiskjal nr. 60. Meðfylgjandi þeim bréfum voru yfirlit yfir uppflettingar X í sjúkraskrá A, sbr. fylgiskjöl 61 og 62. Í síðarnefnda bréfi sjúkrahússins eru uppflettingar X í sjúkraskrá A raktar þar sem m.a. segir að X hafi tvívegis flett upp í sjúkraskrá A „án frekari skráningar“, þ.e. 9. maí 2011 og 22. september 2011 og „skv. [X] [hafi] þær uppflettingar [verið] vegna málarekstursins fyrir siðanefnd LÍ“. Kæru A til lögreglu fylgdi jafnframt ákvörðun Persónuverndar, dags. ..., sbr. fylgiskjal 66. Í ákvörðuninni kemur m.a. fram að af hálfu Heilbrigðisstofnunar Y hafi verið lögð fram gögn er staðfesta að umræddur heilbrigðisstarfsmaður skoðaði sjúkraskrá A í öðrum tilgangi en að beiðni A og vegna læknismeðferðar sem hann veitti honum í febrúar 2011. Hafi heilbrigðisstofnunin staðfest að það hafi hann gert vegna ágreiningsmáls sem hann átti sjálfur í persónulega og var rekið fyrir siðanefnd LÍ. Þá segir svo í ákvörðun Persónuverndar:

„Að mati Persónuverndar telst þar með vera sönnuð sú staðhæfing að umrædd sjúkraskrá á [Y] hafi verið skoðuð af annarri ástæðu en vegna læknismeðferðar eða að beiðni hins skráða.“

Af skýringum ríkissaksóknara til umboðsmanns Alþingis fæ ég ekki annað ráðið en að fullyrðingar X um það hvort hann hafi skoðað sjúkraskrá A, í tilefni af því máli sem var rekið fyrir siðanefnd LÍ, hafi verið lagðar til grundvallar þeirri niðurstöðu ríkissaksóknara að kæra A um þetta atriði „[ætti] ekki [...] við rök að styðjast“, þ.e. byggt er á því að hann hafi fengið vitneskju um sjúkrasögu A úr læknabréfi sem og í tengslum við meðferð hans þegar hann leitaði á heilsugæslustöðina vegna beinbrots. Í skýringum ríkissaksóknara er aftur á móti í engu vikið að tilvitnuðum gögnum sem benda til þess að X hafi skoðað sjúkraskrá A í þessum tilgangi og þá hvort og hvaða þýðingu þau höfðu fyrir mat ríkissaksóknara andspænis fullyrðingum X í ljósi sönnunarreglu 108. gr. laga nr. 88/2008.

Með hliðsjón af framangreindu tel ég ljóst að það hefði getað haft grundvallarþýðingu fyrir niðurstöðu málsins að þessu leyti að ríkissaksóknari hefði lagt mat á umrædd gögn og andstæð sjónarmið þegar kom til þess að hann tæki afstöðu til þessa þáttar málsins, þ.e. hvort X hefði gerst sekur um refsiverða háttsemi með því að fara í sjúkraskrá A og hvort það sem fram væri komið væri nægilegt eða líklegt til sakfellis, sbr. 145. gr. laga nr. 88/2008. Ég tek fram að ekki er útilokað að sú háttsemi X að skoða sjúkraskrá A, óháð þeim upplýsingum sem hann bjó þá þegar yfir, hefði getað haft þýðingu við mat á því hvort sú skoðun hafi verið í samræmi við lög og reglur sem gilda um slíkar upplýsingar. Í þessu sambandi bendi ég á að samkvæmt 12. gr. laga nr. 55/2009, um sjúkraskrár, er það meginregla að aðgangur að sjúkraskrám er óheimill nema til hans standi lagaheimild samkvæmt ákvæðum laganna eða öðrum lögum. Þá er í 13. gr. sömu laga fjallað um aðgang heilbrigðisstarfsmanna að sjúkraskrám. Í 23. gr. er að finna viðurlagaákvæði þar sem fram kemur að brot gegn ákvæðum laganna og reglum settum á grundvelli þeirra varði sektum og fangelsi allt að þremur árum.

Með vísan til þess sem að framan er rakið, og að virtum skýringum ríkissaksóknara til umboðsmanns, er það niðurstaða mín að ályktanir ríkissaksóknara um að ekki væri „[ástæða] til að véfengja þessar skýringar“ X, er lutu að skoðun hans á sjúkraskrá A, og að kæra A um þetta atriði „[ætti] ekki [...] við rök að styðjast“ hafi ekki verið forsvaranlegar. Var um að ræða verulegan annmarka á meðferð málsins að þessu leyti.

3. Skýringar ríkissaksóknara á niðurfellingu saksóknar.

Í kvörtun A er gerð athugasemd við að ákvæði d-liðar 3. mgr. 146. gr. laga nr. 88/2008, um meðferð sakamála, hafi verið beitt við niðurfellingu saksóknar á hendur X. Við athugun mína á þessum þætti málsins vakti það athygli mína að ekki verður skýrlega ráðið af fyrirliggjandi gögnum hvernig eða hvaða tilteknu þættir málsins hafi verið ráðandi við mat ríkissaksóknara að fella niður saksókn á þessum grundvelli. Samkvæmt ákvæðinu er það skilyrði fyrir því að fallið verði frá saksókn að annaðhvort hafi brotið valdið sakborningi sjálfum „óvenjulega miklum þjáningum“ eða „aðrar sérstakar ástæður“ mæla með því. Sé öðru hvoru þessa skilyrða fullnægt verður að lokum að taka afstöðu til þess hvort almannahagsmunir krefjist málshöfðunar.

Af þessu tilefni tek ég í fyrsta lagi fram að ekki verður ráðið af skýringum ríkissaksóknara til umboðsmanns Alþingis hvort skilyrði tilvitnaðs ákvæðis um „óvenjulega miklar þjáningar“ eða „aðrar sérstakar ástæður“ hafi átt við í málinu. Af skýringum hans verður helst ráðið að atvik máls hafi verið með þeim hætti að annað þessara skilyrða hafi verið uppfyllt og lögð áhersla á að ekki hafi verið hægt að kenna X um birtingu upplýsinganna. Þá er vísað til „[sérkennilegrar] háttsemi [A]“ sem hafi borið ummæli á milli umræddra lækna og að það hafi verið A sjálfur sem hafi komið fram í fréttum og staðfest að upplýsingarnar væru um hann. Jafnframt segir í skýringum ríkissaksóknara að þeir „ríku almannahagsmunir sem [A] telur felast í að ákæra vegna brota sem þessara gætu átt mjög vel við ef [X] hefði staðið að því að birta upplýsingarnar um [A] fyrir alþjóð en sú [sé] ekki raunin eða rofið trúnað um þær í því skyni að þær yrðu birtar.“

Í skýringum ríkissaksóknara til umboðsmanns Alþingis er, eins og að framan er rakið, aðeins vikið að því að almannahagsmunir hafi ekki krafist málshöfðunar en ekki verður að mínu áliti með skýrum hætti ráðið hvort þeirra fyrstnefndu tveggja skilyrða hafi átt við og þá með hvaða hætti. Í þessu sambandi minni ég á að með setningu laga nr. 88/2008 var hert á því skilyrði sem þar kemur fram um að brot hafi valdið sakborningi þjáningum. Þá var í lögskýringargögnum við ákvæðið um „aðrar sérstakar ástæður“ vísað til eldra ákvæðis e-liðar 2. mgr. 113. gr. laga nr. 19/1991, um meðferð opinberra mála, um að heimilt hafi verið að falla frá saksókn gagnvart sakborningi ef hann hafi beitt annan mann nauðung eða fjárkúgun með því að hóta ella að kæra hann fyrir refsivert athæfi, þó að því tilskildu að þetta brot sakborningsins væri ekki því stórfelldara. Þar kemur fram að ástæða breytinganna hafi verið sú að í stað þess að taka þessa háttsemi eina út úr væri talið rétt að vísa með almennum hætti til sérstakra aðstæðna „á borð við þær að hafa gripið í örvæntingu til annars konar ólögmæts atferlis en nauðungar eða fjárkúgunar við svipaðar aðstæður og lýst [væri] í e-lið 2. mgr. 113. gr.“

Í öðru lagi fæ ég ekki séð að skýringar ríkissaksóknara á því að almannahagsmunir krefjist ekki málshöfðunar, enda hafi X hvorki birt upplýsingarnar sjálfur né miðlað þeim í því skyni að þær yrðu birtar, séu fullnægjandi með hliðsjón af atvikum málsins. Ég ítreka að með lögum nr. 55/2009, um sjúkraskrár, hefur löggjafinn sett reglur sem gilda um meðferð sjúkraskráa. Samkvæmt 1. mgr. 1. gr. er tilgangur laganna m.a. að tryggja vernd sjúkraskrárupplýsinga. Í 2. gr. segir að við færslu og varðveislu sjúkraskráa og aðgang að þeim skuli mannhelgi og sjálfsákvörðunarréttur sjúklings virtur, þess gætt að sjúkraskrár hafi að geyma viðkvæmar persónuupplýsingar og að sjúkraskrárupplýsingar séu trúnaðarmál. Þá er í 23. gr. lögfest viðurlagaákvæði og í almennum athugasemdum sem fylgdu frumvarpi til laganna lögð áhersla á að „brot gegn ákvæðum laganna verði tekin föstum tökum og leidd til lykta með þeim úrræðum sem lög bjóða“. (Alþt. 2008-2009, A-deild, bls. 1022.)

Að virtu því sem að að framan er rakið, og eins og skýringar ríkissaksóknara til umboðsmanns Alþingis eru settar fram, tel ég mig annars vegar ekki geta fullyrt að mat ríkissaksóknara á því hvort, og þá með hvaða hætti, ákvæði d-liðar 3. mgr. 146. gr. laga nr. 88/2008 ætti við í málinu hafi verið forsvaranlegt. Hins vegar fæ ég ekki séð að skýringar ríkissaksóknara til umboðsmanns á niðurfellingu saksóknar hafi verið fullnægjandi.

Að lokum tel ég rétt að taka fram að tilkynning ríkissaksóknara til A, dags. 20. febrúar 2013, var að mínu áliti ekki nægjanlega skýr um hver afstaða ríkissaksóknara væri til málsins. Í tilkynningunni, sem er tekin upp orðrétt í kafla II hér að framan, kemur fram að tekin hafi verið ákvörðun um að „falla frá saksókn gegn kærða með heimild í d. lið 3. mgr. 146. gr. laga nr. 88/2008“. Er þetta í samræmi við 1. mgr. 147. gr. laga nr. 88/2008 sem kveður á um að rökstyðja beri ákvörðunina með því að vísa til viðeigandi ákvæðis í 146. gr. en ekki sé skylt að færa frekari rök fyrir henni. Aftur á móti verður af skýringum ríkissaksóknara til umboðsmanns ráðið að þessi ákvörðun hafi aðeins átt við um þann hluta kæru A er laut að miðlun X á persónuupplýsingum úr sjúkraskrá hans. Sá hluti kærunnar sem snerist um að X hefði farið með ólögmætum hætti í sjúkraskrá A hefði ekki átt við rök að styðjast. Verður því ekki annað séð en að sá hluti málsins, sem gat orðið sjálfstætt refsimál að lögum, hafi verið fellt niður með vísan til 145. gr. laga nr. 88/2008. Í tilkynningunni er aðeins vísað til þess að rannsóknargögn málsins hafi verið „yfirfarin með hliðsjón af 145. gr. laga nr. 88/2008“. Ég tel því að tilkynning ríkissaksóknara hafi ekki verið nægjanlega skýr um þetta atriði.

4. Afleiðingar annmarka á ákvörðun ríkissaksóknara.

Að framan hef ég komist að þeirri niðurstöðu að tilteknar ályktanir ríkissaksóknara er lutu að skoðun læknis á sjúkraskrá A hafi ekki verið forsvaranlegar og að skýringar hans til umboðsmanns á niðurfellingu saksóknar hafi ekki verið fullnægjandi. Ég tel að þeir annmarkar sem voru á meðferð þessa máls af hálfu ríkissaksóknara hafi verið verulegir.

Í fyrri málsl. 3. mgr. 57. gr. laga nr. 88/2008 kemur fram að hafi rannsókn á hendur sakborningi verið hætt vegna þess að sakargögn hafa ekki þótt nægileg til ákæru eigi ekki að taka rannsókn upp á ný gegn honum nema ný sakargögn séu fram komin eða líklegt sé að þau komi fram. Í ljósi þess sem og niðurstöðu minnar hér að framan er ljóst að úr því sem komið er verði vart bætt úr þeim annmörkum sem voru á meðferð þess máls hjá embætti ríkissaksóknara. Hef ég þar einnig í huga að af gögnum málsins og skýringum ríkissaksóknara til umboðsmanns verður ekki annað ráðið en að í ákvörðun hans um að falla frá saksókn gegn X hafi falist afstaða hans til allra þátta kæru A. Ég tel hins vegar mikilvægt að framvegis verði betur gætt að afgreiðslu sambærilegra mála hjá embætti ríkissaksóknara.

V. Niðurstaða.

Samkvæmt því sem að framan er rakið er það niðurstaða mín að ályktanir ríkissaksóknara af gögnum málsins, um það hvort X hafi skoðað sjúkraskrá A í tilefni af því máli sem var rekið fyrir siðanefnd LÍ, hafi ekki verið forsvaranlegar. Eins og skýringar ríkissaksóknara til umboðsmanns Alþingis eru settar fram tel ég einnig að hann hafi ekki sýnt mér fram á að d-liður 3. mgr. 146. gr. laga nr. 88/2008 hafi átt við í málinu. Loks tel ég að tilkynning ríkissaksóknara til A, dags. 20. febrúar 2013, hafi ekki verið nægjanlega skýr.

Ég tel að þeir annmarkar sem voru á meðferð þessa máls af hálfu ríkissaksóknara hafi verið verulegir. Í þessu máli er aðstaðan þó sú að lög setja því skorður að bætt verði úr þessum annmörkum með því að ríkissaksóknari taki á ný ákvörðun í málinu. Ég mælist því til þess embætti ríkissaksóknara hagi málum framvegis með þeim hætti að gætt sé að þeim sjónarmiðum sem fram koma í áliti þessu.

Þorgeir Ingi Njálsson.

VI. Viðbrögð stjórnvalda

Í svarbréfi ríkissaksóknara, dags. 13. mars 2015, í tilefni af fyrirspurn minni um málið er vísað til umsagnar ríkissaksóknara í tilefni af bótakröfu A á hendur íslenska ríkinu. Fram kemur að málið hafi gefið ríkissaksóknara tilefni til að fara yfir löggjöf og lögskýringargögn varðandi ákvæði um niðurfellingu saksóknar, sbr. einkum áðurgildandi ákvæði c-, e- og f-liðar 2. mgr. 113. gr. laga nr. 19/1991, um meðferð opinberra mála, og núgildandi ákvæði d-liðar 3. mgr. 146. gr. laga nr. 88/2008, um meðferð sakamála.

Í umsögn ríkissaksóknara til innanríkisráðuneytisins vegna málsins, dags. 31. október 2014, er fjallað um bótakröfur A á hendur íslenska ríkinu þar sem fram kemur sú afstaða að hann telji einsýnt að hafna beri bótaskyldu íslenska ríkisins vegna ætlaðs brots A. Þá er vikið að áliti setts umboðsmanns þar sem segir:

„Niðurstaða umboðsmanns var sú í fyrsta lagi að hann taldi að ályktanir ríkissaksóknara um það hvort kærði hafi skoðað sjúkraskrá [A] hafi ekki verið forsvaranlegar, í öðru lagi að ekki hafi verið sýnt fram á að d-liður 3. mgr. 146. gr. sml hafi átt við í málinu og þriðja lagi að tilkynning ríkissaksóknara til [A] um lok málsins 20. febrúar 2013 hafi ekki verið nægjanlega skýr.

Þegar ríkissaksóknari tók afstöðu til þess hvort sannað teldist að kærði hefði skoðað sjúkraskrá [A], en ekki fengið umræddar upplýsingar úr læknabréfi eins og kærði hélt fram, miðaði ríkissaksóknari við sönnunarreglur XVI. kafla sml. Mat á sönnun í sakamáli er í höndum ákærenda, í þessu tilviki ríkissaksóknara, sem og mat á því hvort lög beri svo skýra refsiheimild að þeim verði beitt í refsimáli. Ríkissaksóknari telur að með umfjöllun sinni um mat á sönnunarstöðu og beitingu ákæruvalds í sakamálinu sem um ræðir hafi umboðsmaður Alþingis farið út fyrir verksvið sitt skv. lögum um umboðsmann Alþingis nr. 85/1997, sbr. einkum 1. mgr. 2. gr. og 1. mgr. 3. gr. laganna, og ekki hugað að ákvæði 2. málslið 2. mgr. 18. gr. sml, sem fjallar um sjálfstæði ákæruvaldsins þegar kemur að eiginlegri meðferð ákæruvalds.

Einnig gerir ríkissaksóknari athugasemd við lagatúlkun umboðsmanns hvað varðar ákvæði d-liðar 3. mgr. 146. gr. sml. Er í því efni bent á að ákvæðið leysti af hólmi þrjá töluliði 2. mgr. 113. gr. laga um meðferð opinberra mála nr. 19/1991, þ.e. c-, e- og f-lið, en í áliti umboðsmanns er ekki vikið að f-lið sem heimilaði ákæranda að falla frá saksókn „ef sérstaklega stendur á og telja verður að almannahagsmunir krefjist ekki málshöfðunar.“ Í handbók dómsmálaráðuneytisins um meðferð opinberra mála, frá 1992, segir um þetta ákvæði „Sem dæmi um þetta má nefna ef langt er liðið síðan brot var framið, án þess þó að refsikrafa sé fyrnd, og sakborningur hefur síðan hegðað sér óaðfinnanlega, ef telja má að álit manna á verki hafi breyst sökunaut í hag síðan refsiákvæðið var sett eða óvenju miklar málsbætur eru.“

Ríkissaksóknari telur ljóst að ákærendur hafa all nokkuð svigrúm til mats um þau atriði sem tilgreind eru í d-lið 3. mgr. 146. gr. sml þegar tekin er ákvörðun um hvort falla beri frá saksókn.

Hvað varðar það álit umboðsmanns að tilkynning ríkissaksóknara til [A] um lok máls ekki hafa verið nægjanlega skýr, þá er á það bent, sem raunar er reifað í álitinu, að ríkissaksóknara er ekki skylt að rökstyðja ákvarðanir um niðurfellingu saksóknar, að öðru leyti en að vísa til viðeigandi ákvæða 146. gr. sml, sbr. 3. málslið 1. mgr. 147. gr. sml. Þá má til samanburðar nefna þá venjuhelguðu framkvæmd við meðferð ákæruvalds að þegar einungis er ákært fyrir hluta af því sakarefni/kæruefni sem sakborningur hefur verið sakaður um, þá er kæranda ekki tilkynnt um að sá hluti málsins/kæruefnisins sem ekki var ákært fyrir hafi verið felldur niður. Það felst hins vegar í útgáfu ákærunnar.“